Strandveiðar hafnar

Ég er stoltur af lögfestingu strandveiðanna, en þær veiðar eru eitt af því ánægjulegasta sem gerðist í tíð minni sem sjávarútvegsráðherra. Þótt umfang þeirra sé takmarkað þá hleyptu þær tvímælalaust nýju og auknu lífi í margar minni sjávarbyggðir. Strandveiðarnar veita tiltekinn rétt til veiða fyrir ströndum landsins og fénýtingu aflans án þess að eiga eða kaupa til þess sérstakar aflaheimildir. Jafnframt opna þær á möguleika fyrir kraftmikla einstaklinga til að koma í áföngum fótum undir sig í trilluútgerð. Í þessu sem öðru verður hver og einn að sjá fótum sínum forráð í fjárfestingum og sókn. Eftirlitskerfi Landhelgisgæslu og Fiskistofu er mjög öflugt og gefur sjómönnum á strandveiðum mikið öryggi.

Samkvæmt nýútgefinni reglugerð er:  

"Í maí, júní, júlí og ágúst 2014 er, að fengnu leyfi Fiskistofu, heimilt að veiða á handfæri allt að 8.600 lestir samtals af óslægðum botnfiski, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda handfæraveiðar samkvæmt reglugerð þessari".

 Nú þegar hefur verið úthlutað um 400 strandveiðileyfum.

Strandveiðarnar leysa ekki ágalla hins framseljanlega kvótakerfis. En mikilvægt er hinsvegar að standa vörð um strandveiðarnar og  koma í veg fyrir alla tilburði til að gera þessar veiðheimildir kvótasettar eða  framseljanlegar í sjálfu sér. Strandveiðarnar hafa einnig tvímælalaust mikið menningar- og samfélagslegt gildi fyrir einstaklinga sem þær stunda og sjávarbyggðir landsins.

Ég óska strandveiðisjómönnum farsæls veiðisumars. 

   


Smábátasjómenn tala skýrt í ESB málum

Sjómenn hafa ekki mörg orð um hlutina en tala skýrt.  Andstaða þeirra við ESB umsóknina er afdráttarlaus enda vita þeir vel hvað er í húfi. Þeir vilja ekki missa landhelgina og stjórnun fiskveiða undir Evrópusambandið og hið miðstýrða apparat í Brüssel. Umsögn Landssambands smábátaeigenda um tillöguna sem nú er til meðferðar á Alþingi um afturköllun umsóknarinnar að ESB er einföld, skýr og skorinorð:

„Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda samþykkir að hafna

alfarið inngöngu Íslands í Evrópusambandið og mótmælir aðildarumsókninni

harðlega".

Útfærsla landhelginnar í 200 mílur var fyrir sjómönnum hluti af sjálfstæðis- og fullveldisbaráttunni en ekki bara hagsmunastríð einstakra stétta og atvinnugreina eins og  ýmsir ESB- sinnar halda nú fram. ESB krefst yfirráða yfir fiskimiðum Íslendinga ef til aðildar kemur.

Á það hefur ekki verið' fallist og þess vegna eru viðræðurnar stopp. Ef halda á áfram viðræðum við ESB um inngöngu þá verður að framselja forræði fiskimiðanna til Brüssel.. Þetta vita íslenskir smábátasjómenn mæta vel  og þurfa ekki mörg orð um afstöðu sína.

 


Að naga þröskuldana í Brüssel

Það virðist of stórt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn að standa við kosningaloforð og landsfundarsamþykkt um afturköllun umsóknarinnar að ESB. Ummæli Bjarna Benediktssonar formanns flokksins  í Mbl. um að of hratt hafi verið farið í því máli, hljóta að vekja furðu. Bjarni: Evrópumálið of fyrirferðamikið

Flestir bjuggust við að ríkisstjórnarflokkarnir Framsókn og Sjálfstæðisflokkur myndu efna loforð sín og afturkalla umsóknina strax eftir kosningar í fyrra.

Að fara í bakið á utanríkisráðherra  

Þegar svo loksins kom fram ríkisstjórnartillaga utanríkisráðherra í febrúar sl. um að Alþingi samþykkti afturköllunina hafa ýmsir  ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hlaupið fram á völlinn og reynt að slá fæturna undan ríkisstjórninni í þessu máli. Þessir sömu ráðherrar og sömu þingmenn hlutu kosningu m.a. á grundvelli einarðar stefnu og loforða  þessara flokka í ESB málinu. Umsóknin skyldi afturkölluð þegar í stað.  Nú síðast fer sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins í bakið á utanríkisráðherra, leggst á þröskuldinn og segir: 

  Ég held að það sé öll­um ljóst að það hafi verið farið full­bratt á eft­ir skýrsl­unni fram með til­lög­una“

Og þó formaður Sjálfstæðisflokksins  ljúki vandræðalegu viðtali sínu  með því að segja:

„Hvað sem öllu öðru líður þá er þessi rík­is­stjórn ekki að fara í viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Það er auðvitað aðal­atriði máls­ins“ 

þá virðist hann vera á leiðinni á hnén með Halldóri Halldórssyni oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavík sem ætlar að halda áfram „að naga þröskuldana“ í dyragættum Brussel .

 Loforð skulu standa 

Svo lengi sem umsóknin verður ekki afturkölluð og gert hreint borð mun „þröskuldanagið í Brüssel   halda áfram þvert á stefnu og kosningaloforð núverandi ríkisstjórnarflokka.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband