Ísland með sterka stöðu utan ESB

Úrslit kosninganna til Evrópuþingsins er kallaður pólitískur jarðskjálfti  fyrir  Evrópusambandið.

Íslendingar þekkja vel ógnir jarðskjálftanna og vita að þeir eru ekki eftirsóknarverðir. Oft  tekur mörg ár að vinna úr afleiðingum skjálftanna. Jarðskjálftarnir  innan Evrópusambandsins eru hinsvegar af mannavöldum og þar hefjast nú hjaðningavíg  og leitin að sökudólgunum.

Andstæðingar Brüsselvaldsins vinna stórsigur

Andstæðingar hinna miklu valdþjöppunar ESB unnu stórsigur í flestum löndum Evrópusambandsins. Þeim sigri verður væntanlega  fylgt eftir þegar þingið kemur saman. Vald og áhrif Evrópuþingsins sjálfs eru þó mjög lítil, en þar ræður framkvæmdastjórnin  og skriffinnskuapparatið ferð.

Hinsvegar munu þessa kosningar og mikla andstaða við stefnu ESB hafa áhrif innan einstakra aðildarlanda.  Það er mikill misskilningur og einföldun hjá þeim sem halda því fram að andstaðan við valdasamþjöppunina í ESB og aukið áhrifaleysi einstakra aðildarlanda hafi með kynþáttafordóma að gera. Ríkjandi valdhafar og áhangendur  Stórríkisins Evrópu grípa skjótt til slíkra upphrópanna  til þess að koma sér hjá efnislegri umræðu.

Pólitiskt áhrifaleysi einstakra aðildarlanda

Margar þjóðir heldu að lausn á einstökum tímabundnum vandamálum  hjá þeim sjálfum fælist í aðild að Evrópusambandinu . Nú vaknar fólk upp við þann vonda draum að það er hið miðstýrða apparat Evrópusambandsins sjálfs sem er vandinn.  Fyrst var það efnahagskreppan í Evrópu þar sem byrðunum, skuldunum  var fyrst og fremst  varpað á almenning í jaðarlöndunum.

Nú er það pólitísk áhrifaleysi og vanmáttur gagnvart miðstýringunni sem kallar á hörð viðbrögð almennings - jarðskjálfta.

Meira að segja Frakkar, annað öxulveldi Evrópusambandsins  gerir uppreisn gagnvart  vegferð ESB, hvað þá með minni ríki sem fjarlægari eru höfuðstöðvunum.

Við okkur blasir vandamál samþjöppunarinnar  á litla Íslandi : á Þingeyri, á Djúpavogi og víðar.

Niðurskurður á heilbrigðistofnunum á landsbyggðinni  og skerðing margvíslegar opinberrar þjónustu sem safnast síðan upp í Reykjavík er kerfislægur pólitískur vandi okkar  því miður.

En yrðum við betur sett að allt Ísland yrði allt eins og "Djúpivogur" undir  Evrópusambandinu og miðstýringu frá Brüssel? 

 Sumarþing og afturköllum umsóknina að ESB

 Kosningarnar til Evrópusambandsþingsins undirstrika að við höfum ekkert  inn í þennan lokaða klúbb að gera. Við Íslendingar viljum vera sjálfstæð þjóð meðal annarra þjóða og ráða málum okkar sjálf innanlands  sem og samningum við aðrar þjóðir á eigin forsendum.

Ísland er því miður áfram umsóknaríki að ESB. Ég hvet ennþá aftur til sumarþings þar sem umsóknin að Evrópusambandinum verði refjalaust afturkölluð eins og stjórnarflokkarnir hafa lofað og þingmenn þeirra voru kosnir til.


Bloggfærslur 26. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband