Þingmenn VG líma sig við Samfylkinguna í ESB-málum

Margur vinstrimaður batt vonir við að nýr formaður VG rifi sig frá hinni gömlu, ESB-sinnuðu forystu flokksins og gripi aftur til grunngildanna, sem Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð um. Í samræmi við stefnu flokksins ættu þingmennirnir að styðja afturköllun umsóknarinnar að ESB.   Í stað þess líma þeir sig  við Samfylkinguna í ESB-málum og taka þátt í málþófinu á Alþingi.

Framsókn losaði sig við ESB-gengi Halldórs Ásgrímssonar

Hollt væri fyrir þingmenn Vg að lesa af og til yfir grunnstefnu flokksins en sjálfstæð utanríkisstefna og andstaða við umsókn að Evrópusambandinu eru þar hornsteinar: 

„Áróður um að Ísland geti gengið í ESB en fengið undanþágur frá grundvallarsáttmálum þess er varasamur. Undanþágur eru jafnan hugsaðar til skamms tíma á meðan aðlögun á sér stað.“

Svo segir í stefnuskrá Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Og áfram segir:

„Samskipti við Evrópusambandið (ESB) ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.“

Kröfur ESB skýrar

Evrópusambandið sjálft segir í stækkunarhandbókinni:

Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“

Forræði sjávarútvegsmál færðist til Brüssel

Og fyrir þá sem enn efast er hægt að fletta upp í skýrslu Hagfræðistofnunar um ESB-umsóknina en þar er undirstrikað að formlegt forræði yfir auðlindum sjávar, takmarkanir við fjárfestingar og forsvar á alþjóðavettvangi færðist til Brussel. Og áfram segir í skýrslunni:

 „Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja löggjöf í sjávarútvegsmálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu þess. Varðveisla auðlinda nær ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða.“

Lúðvík Jósepsson - hetja landhelgisbráttunnar

Lúðvík Jósepsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem skrifaði undir reglugerðina um 50 mílna landhelgi 1972 og stóð í stafni þorskastríðanna hefði orðið 100 ára í júní á þessu ári.  Myndi honum ekki blöskra nú hnjáliðamýkt og undirgefni sumra sem þá töldu sig fylla flokkinn sem hann var formaður fyrir?

„Við unnum sigur,“ sagði Lúðvík Jósepsson sem var m.a. hótað brottrekstri úr ríkisstjórn vegna framgöngu sinnar. Þeim sigri megum við ekki glata til Evrópusambandsins.


Bloggfærslur 8. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband