Sýslumenn skornir niður á landsbyggðinni

Sýslumannsembættum á landinu fækkar úr 24 í 9 samkvæmt tillögu innanríkisráðherra og samþykkt Alþingis á lokadegi þingsins. Á mannamáli þýðir þetta gríðarleg skerðing á þjónustu og fækkun stjórnsýslustarfa  á landsbyggðinni.

Samtímis álykta sveitarstjórnir um allt land um eflingu opinberrar þjónustu og mótmæla niðurskurði og stöðugum flutningi á stjónsýslustörfum af landsbyggð til Reykjavíkur. Þótt sýslumannaskipan í landinu  þurfi í sjálfu sér ekki standa óbreytt  þýðir þessi hastarlegi niðurskurður og fækkun embætta  aukna fjarlægð íbúanna  til að sækja sér þjónustuna. Jafnframt sem það er aukin kostnaður vegna fjarlægðar og ferðatíma.

Samfélagsábyrgð stjórnvalda

Með því að skera niður þjónustumiðstöðvar sínar eru stjórnvöld að víkja sér undan þeirra ábyrgð að efla og styrkja atvinnu, byggð og grunnstoðir nærsamfélagsins á landsbyggðinni.

Óljós  loforð um flutning á nýjum verkefnum samtímis til að bæta þessa samfélagsskerðingu upp  hefur hingað til  ávallt reynst blekkingin ein. Hver hugsar út frá sér. Sýslumaður skorinn hér, pósthús skorið, banakútibúi lokað, heilbrigðisstofnanir sneiddar niður og svo mætti lengi telja

 Á öllu  Vesturlandi verður 1 sýslumaður en 3 skornir. Á Vestfjörðum verður 1 sýslumaður og 3 skornir og Norðurlandi vestra verður einn sýslumaður en annar  skorinn.

Á Norðurlandi eystra verður 1 sýslumaður og 2 skornir. Á  Austurlandi verður  1 sýslumaður og 2 skornir.

Á Suðurlandi verður 1 sýslumaður og  2 skornir. Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum fær að halda sér.

Það er athyglisvert í umsögnum margra sveitarfélaga og landshlutasamtaka að þau  sýna „skilning“ á þörf og breytingum og hagræðingu, en stuðningur þeirra  er skilyrtur því að höfuðstöðvar nýrra sýslumanna verði á viðkomandi heimasvæðum  þeirra. Þannig er hægt að etja sveitarfélögum saman og ná fram niðurskurðinum

Sveitarstjórnarmenn spyrji landsbyggðarþingmenn ríkisstjórnarinnar

Það  þynnist stöðugt hryggurinn á landsbyggðar þingmönnum sem hafa til þessa reynt að standa vörð um m.a. sýslumannsembættin. Minnist ég hástemmdra yfirlýsinga þingmanna sem jafnvel sitja enn á þingi og styðja núverandi ríkisstjórn. Þeir mótmæltu sömu  áformum fyrrverandi ríkisstjórnar um  niðurskurð stjórnsýslustofnanna  á landsbyggðinni, en þegja nú þunnu hljóði og  loka eyrum fyrir varnaðar orðum kjósenda þeirra og forystumanna í héraði.

Ég lagðist gegn þessum mikla niðurskurði á stjórnsýslustörfum á landsbyggðinni bæði sem ráðherra og þingmaður og átti hlut að því að stöðva hann á sínum tíma. Ég hélt að með aukinni fjarskiptatækni væri hægt að flytja störf og verkefni frá Reykjavík  út á land, en ekki öfugt.

Hvar eru þingmenn Norðvesturkjördæmis ?

Harðast kemur niðurskurðurinn niður á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi Vestra og Austurlandi. Ég hef hlustað á forystumenn framboða um land leggja áherslu á eflingu opinberrar þjónustu og verndun starfa í heimahéraði.  Þeir  ættu að spyrja þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks  sem nú stýra niðurskurðinum í þeirra heimahéruðum. Mér verður ekki hvað síst hugsað til þingmanna Norðvesturkjördæmis með ráðherra og forseta Alþingis í broddi fylkingar.  Það heyrðist í þeim hér áður fyrr, en nú er þögnin ein nema ef fréttist af þeim í útlöndum.

 


Bloggfærslur 19. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband