Strandveiðar hafnar

Ég er stoltur af lögfestingu strandveiðanna, en þær veiðar eru eitt af því ánægjulegasta sem gerðist í tíð minni sem sjávarútvegsráðherra. Þótt umfang þeirra sé takmarkað þá hleyptu þær tvímælalaust nýju og auknu lífi í margar minni sjávarbyggðir. Strandveiðarnar veita tiltekinn rétt til veiða fyrir ströndum landsins og fénýtingu aflans án þess að eiga eða kaupa til þess sérstakar aflaheimildir. Jafnframt opna þær á möguleika fyrir kraftmikla einstaklinga til að koma í áföngum fótum undir sig í trilluútgerð. Í þessu sem öðru verður hver og einn að sjá fótum sínum forráð í fjárfestingum og sókn. Eftirlitskerfi Landhelgisgæslu og Fiskistofu er mjög öflugt og gefur sjómönnum á strandveiðum mikið öryggi.

Samkvæmt nýútgefinni reglugerð er:  

"Í maí, júní, júlí og ágúst 2014 er, að fengnu leyfi Fiskistofu, heimilt að veiða á handfæri allt að 8.600 lestir samtals af óslægðum botnfiski, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda handfæraveiðar samkvæmt reglugerð þessari".

 Nú þegar hefur verið úthlutað um 400 strandveiðileyfum.

Strandveiðarnar leysa ekki ágalla hins framseljanlega kvótakerfis. En mikilvægt er hinsvegar að standa vörð um strandveiðarnar og  koma í veg fyrir alla tilburði til að gera þessar veiðheimildir kvótasettar eða  framseljanlegar í sjálfu sér. Strandveiðarnar hafa einnig tvímælalaust mikið menningar- og samfélagslegt gildi fyrir einstaklinga sem þær stunda og sjávarbyggðir landsins.

Ég óska strandveiðisjómönnum farsæls veiðisumars. 

   


Bloggfærslur 7. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband