Með hlekki ESB-umsóknar um hálsinn

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks lætur afturköllun umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu enn þvælast fyrir sér. Hún gerði þá meginskyssu að afgreiða málið ekki strax eftir kosningar fyrir ári í samræmi við stefnu flokkanna og kosningaloforðin. Nú verður hún að ljúka málinu sem fyrst. Dragi hún hins vegar afgreiðslu á afturköllun ESB-umsóknarinnar fram á næsta haust má öllum vera ljóst í hvað haustþingið fer.

ESB er eina mál Samfylkingarinnar

Samfylkingin sem ræður ferð í stjórnarandstöðunni hefur umsókn að ESB sem sitt eina mál. Þess vegna er eðlilegt að hún hangi á því eins og hundur á roði. Stuðningur við þennan hreina ESB-flokk var einungis 12,9 % við síðustu alþingiskosningar en þá var í raun kosið um þessa umsókn.

ESB-umsóknin hafði verið eitt aðalmál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og flest önnur mál sem hún reyndi að koma í gegn tengdust henni. Jóhönnustjórnin missti meirihluta sinn í árslok 2011 og kom nánast engum málum áfram eftir það. ESB-umsóknin var í raun stöðvuð í nóvember 2011 með skilyrðum ESB í landbúnaðarmálum og neitun við því að ræða sjávarútvegsmál á forsendum Íslendinga.

Það hlé sem síðar var gert á viðræðunum í janúar 2013 var í raun að kröfu ESB sem vildi ekki fara með málið í þeirri stöðu í kosningabaráttuna á Íslandi þá um vorið. Eitt ár til eða frá í aðlögunarviðræðunum skipti ESB ekki miklu máli.

Dettur einhverjum í hug að Samfylkingin hefði fallist á viðræðuhlé að eigin frumkvæði og að fara þar með málefnalaus inn í kosningabaráttuna vorið 2013? Og dettur einhverjum í hug að VG hafi gert kröfu um hlé á viðræðunum við ESB, en samþykkt svo á landsfundi sínum á sama tíma að halda skyldi aðlögunarsamningum áfram?

Tafarlaus afturköllun umsóknarinnar - eini kostur ríkisstjórnarinnar

Í ESB-málinu eru aðeins tveir kostir: að sækja um aðild til þess að komast inn eða engin umsókn. Ríkisstjórnarflokkarnir voru með afdráttarlausa stefnu og loforð fyrir kosningar. Þeir ætla ekki inn í Evrópusambandið.

Tafir ríkisstjórnarinnar á því að standa við loforð sín um afturköllun ESB-umsóknarinnar hafa nú þegar orðið henni dýrkeyptar. ESB-flokkarnir á Alþingi munu taka öll önnur mál í gíslingu meðan það er óafgreitt í þinginu.

ESB-umsóknin fór ekki á sínum tíma í gang með neinni sátt. Forystumenn Vinstri grænna sviku kosningaloforð og grunnstefnu flokksins og samþykktu aðildarumsókn að ESB án þess að hafa í raun nokkuð kynnt sér í hverju umsóknin fólst, sbr. atkvæðaskýringar frá þeim tíma. Allir vita hver örlög þess flokks urðu á síðasta kjörtímabili. Hótanir um ríkisstjórnarslit og brottrekstur ráðherra og þingmanna voru nánast daglegt brauð.

VG taki aftur upp grunnstefnu flokksins í ESB-málum

Margur sannur vinstrimaður hefði viljað sjá VG í forystu þess að afturkalla umsóknina og fylgja þar með grunnstefnu sinni frekar en að líma sig við Samfylkinguna í ESB-málinu.

Það sem vekur hinsvegar furðu er að flest þau sem enn eru á þingi fyrir VG virðast föst í sama feninu og styðja áframhaldandi aðildarviðræður þvert á grunnstefnu flokksins.

Nýr formaður VG ætti að hafa myndugleika til að breyta um stefnu, slíta sig frá ESB- sinnunum í forystu flokksins og fylgja í stað þess  grunngildum Vinstri grænna  og styðja afdráttarlausa afturköllun umsóknarinnar.

Frjálst Ísland - utan ESB

Þeir sem vildu „kíkja í pakkann“ hafa fengið sitt. Evrópusambandið hefur svarað. Ísland verður að undirgangast öll lög og reglur Sambandsins og lúta vilja stofnana þess. Sjávarútvegsmálin eru þar ekki undanskilin. Samningum verður hins vegar ekki haldið áfram nema Alþingi felli niður fyrirvara sína sem nú stöðva viðræðurnar. Meðan umsóknin hefur ekki verið afturkölluð stendur Ísland áfram sem umsóknarland og lýtur þeim kröfum ESB sem það krefst. ESB sinnuð ríkisstjórn getur hvenær sem er haldið innlimunarferlinu áfram.

Umsókn um aðild að Evrópusambandinu fór af stað á sínum tíma gegn vilja þjóðarinnar og án raunverulegs meirihlutastuðnings Alþingis. ESB-flokkarnir í síðustu ríkisstjórn biðu fullkominn ósigur í alþingiskosningum fyrir ári. Ríkisstjórn sem ekki vill ganga í Evrópusambandið hefur hvorki umboð til né getur haldið þessu máli áfram. Meirihlutinn ætti því að vera skýr og Alþingi ber að afturkalla umsóknina refjalaust.

Birtist sem grein í MBL 12.mai, 2014) 

 


Bloggfærslur 14. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband