Umboðslaus formaður BHM ?

 

Þótt formaður BHM geti verið persónulega þeirrar skoðunar að ganga eigi í Evrópusambandið er það býsna bíræfið, ef verið er að nota nöfn  25 sjálfstæðra félaga og  tíu þúsund félagsmenn samtakanna til þess að koma þeirri skoðun sinni á framfæri.  En  í lok umsagnar frá BHM til utanríkismálanefndar sem formaður samtakanna skrifar undir fyrir þeirra hönd segir orðrétt:

 

„BHM leggst því gegn tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn íslands um aðild að Evrópusambandinu“.  umsögn til alþingis

 

BHM er bandalag hagsmunatengdra félaga og/eða stéttarfélaga sem starfa að fag- og vinnumarkaðslegum málefnum félagsmanna sinna. BHM eru því  heildarsamtök  háskólamenntaðs fólks á vinnumarkaði.

Aðildarfélög eru 25 og heildarfélagafjöldi um 10.000.  Á heimasíðu samtakanna segir:

 

„Flest aðildarfélög BHM eru svokölluð fagstéttarfélög þar sem þau eru skipuð einstaklingum einnar fagstéttar. Háskólamenntun félagsmanna liggur til grundvallar störfum þeirra og veitir þeim tiltekin starfsréttindi. Sum félögin eru jafnframt fagfélög og starfa því bæði að hagsmunamálum sem varða kjör og réttindi félagsmanna jafnhliða faglegum málefnum stéttarinnar“.

Um markmið samtaka BHM segir:

„Grundvallarmarkmið bandalagsins er að efla fagstéttarfélög háskólamanna, standa vörð um samningsrétt þeirra og auka veg æðri menntunar á Íslandi.  Starfsemi bandalagsins byggir þannig á tveimur meginþáttum: að menntun háskólamanna sé virt sem forsenda þróunar og framfara í íslensku atvinnulífi og að hún sé metin að verðleikum til launa.“

 

Þegar litið er yfir ályktanir einstakra félaga og stjórnar BHM lúta þær fyrst fremst  að menntun, starfskilyrðum og kjaramálum félagsmanna einstakra fagstéttarfélaga.

Þess vegna kemur verulega á óvart að formaður BHM sendi inn umsögn  í nafni samtakanna um þingsályktunartillöguna um afturköllun umsóknarinnar að ESB sem nú liggur fyrir Alþingi. Ekki síður vekur það furðu að í umsögninni án rökstuðnings er hvatt til áframhaldandi aðlögunarferils að ESB og afturköllun umsóknarinnar mótmælt.  Umsóknin að ESB var komin á endastöð og verður ekki haldið áfram nema að gefnir verði eftir fyrirvarar sem Alþingi setti. Það þýðir í raun ný umsókn um aðild að ESB án skilyrða.

Á heimasíðum BHM eða einstakra aðildarfélaga þess  get ég hvergi séð að  minnst sé  á ályktun eða afstöðu til umsóknarinnar að Evrópusambandinu. Umsögn formanns BHM  í nafni samtakanna til stuðnings ESB umsókninni er því með hreinum ólíkindum.

 

Þótt formaður BHM geti verið persónulega þeirrar skoðunar að ganga eigi í Evrópusambandið er það býsna bíræfið, ef sú er raunin  að nota nöfn  25 sjálfstæðra félaga og  tíu þúsund félagsmanna til þess að koma þeirri skoðun sinni á framfæri.

 


Sparisjóður Strandamanna

 Sparisjóðaskýrslan dregur fram að þeir sparisjóðir sem störfuðu samkvæmt hugsjónum sínum  voru einu fjármálastofnanirnar í landinu sem stóðu af sér sukkið, svallið og græðgisvæðinguna. Skýrslan gefur jafnframt dökka mynd af því sem gerðist hjá þeim sparisjóðum sem sviku hugsjónir sínar,  lög, siðferði og starfslreglur og urðu græðginni að bráð. Undir þá var malað af stjórnvöldum og opnuð hliðin fyrir úlfunum oft nánum skjólstæðingum þeirra sem sátu á Alþingi og ríkisstjórn eða öðrum valdastöðum  á hverjum tíma. 

Ég minni á heimild sem Alþingi veitti illu heilli  til hlutafjárvæðingar sparisjóðanna. Ég lagðist mjög gegn þeirri ákvörðun en talsmenn fjármagnsins og takmarkalaus einkagróða höfðu sitt fram á þingi og því fór sem fór. Sparisjóður skal vera sparisjóður

Flest af því sem skýrslan greinir frá var viðbúið eða fyrirsjánlegt að myndi gerast á þeim árum þótt stærðargráðan og svikamyllurnar séu stærri og óhuggulegri en nokkurn óraði fyrir.  Aðkoma ríkisins og einstakra ráðherra er þar ekki undanskilin. 

Það er hinsvegar ekki sanngjarnt að draga þar alla sparisjóði og aðstandendur þeirra í sama dilk. Þeir sparisjóðir sem störfuðu samkvæmt hugsjónum og tilverugrunni  eins og þeim var ætlað að, stóðu betur af sér freistingar og spillingu en nokkrar aðrar fjármálastofnanir í landinu. Ég nefni Sparisjóð Strandamanna, ég nefni Sparisjóð Suður - Þingeyinga.

Sparisjóðahugsjónin enn dýrmætari nú en áður 

Það er nú ekki svo að við þessu hafi ekki verið varað. Ég flutti ítrekað á Alþingi frumvörp til laga til stuðnings sparisjóðunum og varaði við þeirri hættu sem vofði yfir,  ef sjóðirnir kæmust í hendur óprúttinna aðila. Ég sakna þess í hinni annars viðamiklu sparisjóðaskýrslu að þess skuli ekki getið þar. Um þetta var  grundvallar pólitískur ágreiningur á Alþingi á þessum árum og er enn.

Það er því ekki hægt að kenna sparisjóðahugsjóninni um hvernig fór heldur græðgisvæddum fjármálaheimi og erindrekum þeirra á Alþingi og ríkisstjórnum sém þá sátu.

Varðhundar fjármagnsins hafa verið svo harðir, að Það hefur ekki einu sinni verið hægt að ná fram lagafrumvarpi um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka þótt allir virtust sammála um nauðsyn þess og það áður en nýtt bankakerfi væri endurreist eftir hrun.

Það er mikil einföldun og hrein rangtúlkun að halda því  fram að Sparisjóðakerfið hafi gengið sér til húðar. Þá mætti alveg eins  og enn frekar segja það um bankakerfið í heild.  Ekki fæst einu sinni gefið upp hverjir eru hinir raunverulegu eigendur núverandi banka. Og þeir komast upp með að halda því leyndu.

Hins vegar koma engin lög í stað heiðarleika

Skýrslan undirstrikar að mínu viti nauðsyn þess að endurreisa og festa í sessi  sparisjóðakerfið á þeim hugsjónagrunni sem það var byggt  á og slá um það lagalegri skjaldborg. Hver vill sjá einkavædda bankaþjónustu í höndum þeirra sem engin veit hver er vera hér með algjöra fákeppniseinokun á þessari mikilvægu en viðkvæmu þjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu. 

Viðverðum að koma í veg fyrir að þeir sparisjóðir sem eftir eru verði gleyptir af stóru bönkunum og frekar að stofna nýja sparisjóði með staðbundnar þjónustuskyldur. Stóru bönkunum verður að setja ákveðnar  stærðarskorður, og skýrari  samfélags- og þjónustuskyldur. Það á að skipta núverandi bönkum upp og reka aðskilið viðskiptabankaþjónustu og þjónustu fjárfestingabanka. 

 

 

Aðskilnað viðskiftabanka og fjárfestingabanka - Hvers vegna gerist ekkert?


Samstaða þings og þjóðar í landhelgismálinu

Útfærsla fiskveiðilögusögunnar í 50 sjómílur var samþykkt samhljóða á Alþingi 15. febrúar 1972. Lúðvík Jósepsson þáverandi sjávarútvegsráðherra undirritaði síðan reglugerð um 50 mílurnar sem kom til framkvæmda 1. september 1972. Ekki skorti harkaleg viðbrögð Vestur-Þjóðverja og Breta sem hótuðu strax herskipum á Íslandsmiðin og allsherjarviðskiptabanni á íslenskar vörur. Þeir kærðu Ísland til Alþjóðadómstólsins í Haag sem úrskurðaði með fjórtán atkvæðum gegn einu Íslendingum í óhag.  Þessum úrskurði mótmælti íslenska ríkisstjórnin harðlega og kvaðst fylgja eftir ákvörðun sinni sem væri fyllilega lögmæt samkvæmt íslenskum lögum. Hverjir hefðu trúað því þá að til væru þeir  eftirmenn Lúðvíks Jósepssonar á stóli sjávarútvegsráðherra, sem  stæðu að og styddu umsókn um aðild að Evrópusambandinu, vitandi það að sú umsókn fæli í sér framsal sama réttar og þá var barist fyrir?

"Þá stækkar Ísland"

Hinn 31. ágúst 1972 flutti Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra útvarpsávarp til þjóðarinnar. Hann vísaði til einróma samþykktar Alþingis og „að baki hennar stendur þjóðin öll“.

 Útfærsla landhelginnar „byggist á þeirri sannfæringu, að réttur okkar til náttúruauðlinda landsgrunnsins sé í eðli sínu sá sami og til landsins sjálfs…“ og hann lauk ávarpi sínu: „ Það er stór dagur á morgun. Þá stækkar Ísland. Þess dags mun minnst meðan Íslandssaga er skráð.“

Við tók viðskiptabann og þorskastríð með erlendum herskipum og átökum innan lögsögu Íslendinga. „Við munum aldrei láta undan ofbeldi í þessu máli. Nú er það sem gildir að þrauka,“ sagði forsætisráðherrann.

 Þá var Snorri Jónsson en ekki Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ

Þetta var allt fyrir tíma Samfylkingarinnar, Viðskiptaþings, Evrópustofu og Gylfa Arnbjörnssonar hjá ASÍ. Hinsvegar var Snorri Jónsson þá forseti ASÍ sem beitti sér fyrir fjölmennasta útifundi til þess tíma í Reykjavík, hinn 22. maí 1973.  Yfir 30 þúsund manns mættu á Lækjartorg og lýstu yfir fullum stuðningi við útfærslu landhelginnar og mótmæltu „ innrás breska sjóhersins í íslenska fiskveiðilandhelgi“.

Hver hefði séð núverandi forystu ASÍ beita sér fyrir slíkum fundi? Þess í stað ganga menn þar fremst í flokki sem heimta inngöngu í Evrópusambandið með tilheyrandi framsali á yfirráðum fiskimiðanna til Brüssel. Ég man ekki einu sinni eftir að hryðjuverkalögum Breta á Ísland 2008 hafi verið mótmælt í þeim ranni.

 Íslendingar létu ekki deigan síga

Matthías Bjarnason varð sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Matthías var kjarkmaður mikill og fylginn sér. Hinn 15. júlí 1975 skrifaði hann undir reglugerð um að fiskveiðilögsaga Íslendinga skyldi færð út í 200 sjómílur. Algjör þjóðarsamstaða var um útfærsluna. Í ræðu sem Matthías hélt þá segir m.a.:

„Með gildistöku hinnar nýju reglugerðar er allt hafsvæðið út í 200 sjómílur frá grunnlínu allt í kringum landið lýst lögsögusvæði Íslands. Frá þeim tíma er því öll veiði erlendra skipa innan 200 mílna markanna óheimil samkvæmt íslenskum lögum nema til komi sérstök heimild veitt af íslenskum stjórnvöldum“.

Og 12. desember 1975 kærðu Íslendingar Breta fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna ásiglingar breskra skipa á íslensk varðskip innan íslenskrar landhelgi fyrir: „svívirðilega yfirtroðslu sjálfstæðis Íslendinga sem stefni friði og öryggi í voða“.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var baráttumál okkar að fiskimið strandríkis skyldu viðurkennd sem hluti auðlinda þess. Að lokum var það samþykkt í Hafréttarsáttmálanum. 200 mílna fiskveiðilögsaga strandríkis var síðan viðurkennd á alþjóðavettvangi.

Lífbelti þjóðarinnar

Varðveitum lífbeltin tvö“ sagði Kristján Eldjárn forseti í nýársávarpi 1972, gróðurinn til landsins og fiskimiðin fyrir ströndinni.

Það kostaði blóð, svita og tár að ná fullum yfirráðum yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu landsins. En þjóðin stóð sameinuð í baráttunni.

Þeir sem nú vilja halda áfram aðlögunarsamningum, innlimunarferlinu í ESB, „kíkja í pakkann“, vita að það verður ekki gert nema fyrst séu gefnir eftir fyrirvarar Alþingis frá 2009, m.a. vegna sjávarútvegsins.

Þeir sem stóðu í landhelgisbaráttunni og lögðu  líf sitt undir í stríði við stór og fullkomin erlend herskip hefðu aldrei trúað því þá að aðeins 40 árum seinna risi upp hávær hópur, jafnvel  heill stjórnmálaflokkur, forystumenn í atvinnulífi og verkalýðshreyfingu sem litu á fullveldisbaráttuna sem hagsmunastríð fyrir einstakar atvinnugreinar!

Sjálfstæðið er sívirk auðlind.

( birtist sem grein í mbl. 7.apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband