Aðskilnað viðskiftabanka og fjárfestingabanka - Hvers vegna gerist ekkert?

Það hefur verið skýr og afdráttarlaus stefna Vinstri - Grænna að fullkominn aðskilnaður sé milli fjárfestingabanka annarsvegar og viðskiftabanka hinsvegar. Um þetta fluttum við Ögmundur Jónasson tillögur á Alþingi ítrekað og síðast á þinginu 2008-09 . Flokksráðfundur VG ályktaði í febrúar 2012:

„ Flokksráð fagnar því að ráðuneyti bankamamála skuli vera komið á ábyrgð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og felur nýskipuðum ráðherra bankamála að flytja frumvarp til laga um aðskilnað starfsemi fjárfestingabanka og viðskiftabanka sem þingmenn flokksins hafa flutt endurtekið á fyrri þingum".

Þrátt fyrir allar þessar áskoranir og yfirlýsingar hefur ekkert enn gerst í þessu máli. Ég tók þetta írekað upp í ríkisstjórn en hafði ekki erindi sem erfiði .

Það frumvarp sem nú hefur verið endurflutt á Alþingi um heimild til að selja eignarhluti ríkisins í bönkum og sparisjóðum gengur að mínu mati verulega á svig við stefnu VG varðandi eignarhald og umgjörð fjármálafyrirtækja.

Landsbankinn- þjóðbanki

VG hefur ávalt lagt áherslu á að ríkið ætti a.m.k. einn öflugan þjóðbanka. Ríkið á nú um 81% af Landsbankanum sem má ekki minna vera. Áform um að selja til viðbótar nú liðlega 10% af hlut ríkisins í Landsbankanum til að byrja með eins og lagt er til í frumvarpinu gengur gegn því sem talsmenn Vg hafa áður sagt um einn sterkan þjóðbanka. Við þekkjum aðferðafræðina frá sölu Landssímans og fyrri bankasölum. Fyrst bara pínulitið og áður en nokkur fær að gert er allt farið.

Frumvarp um sölu bankanna nýtur ekki stuðnings

Ég hafði áður lýst í ríkisstjórn andstöðu við þau áform að selja hlut ríkisins í Landsbankanum og gerði það ítrekað við umræðurnar á Alþingi sl. miðvikudag. Hægt er að færa enn frekari rök fyrir því að ekki eigi að selja hluti ríkisins í fjármálafyrirrækju á þessum tímapúnkti.

Treysta þarf sparisjóðina í sessi og varasamt er af mörgum ástæðum að rugga hlut ríkisins í bönkunum meðan enginn veit hverjir eru eigendur þeirra . En sömu kröfuhafar eiga 1000- 1300 milljarða í bönkum, lausafé, verðbréfum og öðrum eignum í íslenskum krónum sem eru lokuð hér inni með gjaldeyrishaftalögunum. Þetta er það sem sérfræðingar hafa kallað snjóhengjuna í íslensku fjármála- og efnahagslífi.

Sala á hlutum í ríkisins í fjármálastofnunum við þessar aðstæður er því að mínu mati mjög varhugaverðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband