Sparisjóður Strandamanna

 Sparisjóðaskýrslan dregur fram að þeir sparisjóðir sem störfuðu samkvæmt hugsjónum sínum  voru einu fjármálastofnanirnar í landinu sem stóðu af sér sukkið, svallið og græðgisvæðinguna. Skýrslan gefur jafnframt dökka mynd af því sem gerðist hjá þeim sparisjóðum sem sviku hugsjónir sínar,  lög, siðferði og starfslreglur og urðu græðginni að bráð. Undir þá var malað af stjórnvöldum og opnuð hliðin fyrir úlfunum oft nánum skjólstæðingum þeirra sem sátu á Alþingi og ríkisstjórn eða öðrum valdastöðum  á hverjum tíma. 

Ég minni á heimild sem Alþingi veitti illu heilli  til hlutafjárvæðingar sparisjóðanna. Ég lagðist mjög gegn þeirri ákvörðun en talsmenn fjármagnsins og takmarkalaus einkagróða höfðu sitt fram á þingi og því fór sem fór. Sparisjóður skal vera sparisjóður

Flest af því sem skýrslan greinir frá var viðbúið eða fyrirsjánlegt að myndi gerast á þeim árum þótt stærðargráðan og svikamyllurnar séu stærri og óhuggulegri en nokkurn óraði fyrir.  Aðkoma ríkisins og einstakra ráðherra er þar ekki undanskilin. 

Það er hinsvegar ekki sanngjarnt að draga þar alla sparisjóði og aðstandendur þeirra í sama dilk. Þeir sparisjóðir sem störfuðu samkvæmt hugsjónum og tilverugrunni  eins og þeim var ætlað að, stóðu betur af sér freistingar og spillingu en nokkrar aðrar fjármálastofnanir í landinu. Ég nefni Sparisjóð Strandamanna, ég nefni Sparisjóð Suður - Þingeyinga.

Sparisjóðahugsjónin enn dýrmætari nú en áður 

Það er nú ekki svo að við þessu hafi ekki verið varað. Ég flutti ítrekað á Alþingi frumvörp til laga til stuðnings sparisjóðunum og varaði við þeirri hættu sem vofði yfir,  ef sjóðirnir kæmust í hendur óprúttinna aðila. Ég sakna þess í hinni annars viðamiklu sparisjóðaskýrslu að þess skuli ekki getið þar. Um þetta var  grundvallar pólitískur ágreiningur á Alþingi á þessum árum og er enn.

Það er því ekki hægt að kenna sparisjóðahugsjóninni um hvernig fór heldur græðgisvæddum fjármálaheimi og erindrekum þeirra á Alþingi og ríkisstjórnum sém þá sátu.

Varðhundar fjármagnsins hafa verið svo harðir, að Það hefur ekki einu sinni verið hægt að ná fram lagafrumvarpi um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka þótt allir virtust sammála um nauðsyn þess og það áður en nýtt bankakerfi væri endurreist eftir hrun.

Það er mikil einföldun og hrein rangtúlkun að halda því  fram að Sparisjóðakerfið hafi gengið sér til húðar. Þá mætti alveg eins  og enn frekar segja það um bankakerfið í heild.  Ekki fæst einu sinni gefið upp hverjir eru hinir raunverulegu eigendur núverandi banka. Og þeir komast upp með að halda því leyndu.

Hins vegar koma engin lög í stað heiðarleika

Skýrslan undirstrikar að mínu viti nauðsyn þess að endurreisa og festa í sessi  sparisjóðakerfið á þeim hugsjónagrunni sem það var byggt  á og slá um það lagalegri skjaldborg. Hver vill sjá einkavædda bankaþjónustu í höndum þeirra sem engin veit hver er vera hér með algjöra fákeppniseinokun á þessari mikilvægu en viðkvæmu þjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu. 

Viðverðum að koma í veg fyrir að þeir sparisjóðir sem eftir eru verði gleyptir af stóru bönkunum og frekar að stofna nýja sparisjóði með staðbundnar þjónustuskyldur. Stóru bönkunum verður að setja ákveðnar  stærðarskorður, og skýrari  samfélags- og þjónustuskyldur. Það á að skipta núverandi bönkum upp og reka aðskilið viðskiptabankaþjónustu og þjónustu fjárfestingabanka. 

 

 

Aðskilnað viðskiftabanka og fjárfestingabanka - Hvers vegna gerist ekkert?


Bloggfærslur 11. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband