Með baráttukveðjum á Páskum

Margir halda að hér gildi sömu sóttkvíar reglur um erlenda ferðamenn sem koma til landsins og Íslendinga. Og að það væri raunverulega markmiðið að slá veiruna alveg niður hér á landi .

 Landið virðist samt enn gal opið hvað varðar ferðamenn  frá Schengensvæðinu og engra heilbrigðisvottorða eða kórónutesta er krafist af þeim útlendingum sem koma inn í landið.  Enn virðist það mat íslenskra stjórnvalda að erlendir ferðamennn smiti ekki. Það er þó ekki mat margra annarra þjóða sem berjast við þenna vágest. Á því kann þó að verða breyting hér. Þetta hafa Færeyingar á hreinu en þeim er að takast að gera landið hreint af veirunni

Ferðamenn vita lítið um fjarlægðamörk eða takmörkun hópa.  Ég heyrði einmitt sögu af slílku í lítilli búð úti á landi þar sem hópast var við kassann og inn á klósettin.

"Farðu frá mér"   "Komdu til mín"

Það verður óþægileg tilfinning næstu 1- 2 árin að gera stöðugt ráð fyrir að næsti maður sé haldinn smiti af  banvænum sjúkdómi. Eða að við gamla fólkið getum ekki ótta lítið hitt fjölskyldu okkar.  Eða að hlaupa úr vegi ef erlendur ferðmaður nálgast. Þetta var ein þeirra sviðsmynda  sem sóttvarnarlæknir dró upp á fundinum í gær:

"Meg­um bú­ast við áfram­hald­andi smiti í sam­fé­lag­inu"

Þá mun þurfa að setja tak­mark­an­ir á komu ferðamanna til lands­ins og verið er að hugsa hvernig best sé að út­færa það
Það verður að aflétta aðgerðum hægt í skref­um og hvert skref mun taka þrjár til fjór­ar vik­ur þannig að aflétt­ing mun lík­lega ná yfir sum­ar­tím­ann. Ef það kem­ur hins veg­ar í ljós að aflétt­ing aðgerða mun hafa í för með sér aukn­ingu á sjúk­dómn­um kem­ur vel til greina að herða á aðgerðum aft­ur þannig að það borg­ar sig að fara frek­ar hægt. Þórólf­ur biður lands­menn að vera und­ir það búna að tak­mark­an­ir verði sett­ar á stór­ar sam­kom­ur í sum­ar."
Slysin verða oftar á leið niður fjallið en upp .
 
Mér komu ferðamennirnir í hug er mér heyrðist lúxuseinkaþota lenda á Reykjavíkurflugvelli og velti fyrir mér hvaða reglur gilti um þá.  Áttu þeir ekki bara að "hlýða Víði" og vera HEIMA HJÁ SÉR.
 
Það vefst ekki fyrir Frökkum:
 
"Fólki á leið í lúxusfrí vísað frá Frakklandi"
Andri Eysteinsson skrifar á Visir.is 11. apríl 2020 

"Franska lögreglan þurfti á dögunum að stöðva för tíu ferðamanna sem flogið höfðu á einkaþotu frá Lundúnum til Marseille. Hópurinn, sem samanstóð af sjö karlmönnum á fimmtugs- og sextugsaldri og þremur konum á þrítugsaldri, voru á leið til borgarinnar Cannes í suður-Frakklandi.

Frönsku landamæralögreglunni var gert viðvart um tilraunir fólksins til að fljúga til landsins en útgöngubann er í gildi í Frakklandi vegna kórónuveirunnar. Hafa verið settar reglur sem banna óþarfa komur ferðamanna til landsins, eingöngu er þeim hleypt til landsins sem þangað eru komnir til þess að aðstoða í heilbrigðiskerfinu.

Fólkinu var gert viðvart um að þeim yrði neituð innganga en flugvél þeirra lenti engu að síður í Marseille, þar beið þeirra þyrlufloti. CNN greinir frá því að einn mannana, króatískur viðskiptajöfur, hafi greint yfirvöldum frá því að hann hafi leigt þyrlurnar, einkaþotuna og glæsihýsi í Cannes.

Hann ætti nóg af peningum og væri tilbúinn til að borga bara sekt og halda svo til Cannes.

Djúpir vasar mannsins veittu honum enga sérmeðferð og var honum snúið rakleitt aftur til Lundúna. Fram kemur í frétt CNN að ekki hafi verið hægt að sekta fólkið þar sem það hafði í raun ekki verið komin inn í franska lögsögu. Aðra sögu er að segja af þyrluflugmönnunum sem höfðu ekki fengið ferðaleyfi en óþarfa ferðir eru bannaðar vegna kórónuveirunnar".

Framhaldið skýrist eftir páska- Útrýmum veirunni

Sóttvarnarlæknir sagðist ætla að liggja undir feldi yfir páskana og kynna svo tillögur sínar um frammhaldið.  Það eru   hagsmunir allra að veiran verði sem fyrst kveðin alveg niður í landinu og aðgerðirnar miði markvisst að því. 

 En baráttan hefur gengið vel hingað til með öflugu fólki og góðum búnaði og samstilltri þjóð. Við hljótum að binda vonir við að  veirunni verði útrýmt úr samfélagi okkar hið fyrsta og um það snýst samstaðan og baráttan.

Með baráttukveðjum á Páskum 

 


Óveðrið í Dymbilviku 9.-12. apríl 1963

Mér verður hugsað til 9.april 1963

Það kann að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp erfiða daga en það hafa svo sannarlega skiptst á skin og skúrir í lífi og sögu þjóðarinnar
Páskaveðrið mikla 1963 kom upp í hugann þennan þriðjudag nú í dymbilivikunni. Ég var í Menntaskólanum í Reykjavík og hlakkaði til páskafrísins. Allur marsmánuður hafði verið mjög hlýr, einmuna blíða og tún orðin græn, blóm útsprungin og tré laufguð. Sérstaklega þessi innfluttu lauftré. Íslenska birkið mun þó hafa haft varan á sér og beðið reglubundins vortíma.
Stykkishólmsrútan fór klukkan 9 um morguninn 9. apríl og Guðmundur minn Gunnarsson kenndur við Fögruhlíð í Stykkishólmi keyrði eins ag vanalega. Það var hlýtt og við hlökkuðum til páskafrísins í Bjarnarhöfn með stórfjölskyldunni.

Mannskaðaveður skellur á 
En skjótt skipaðist veður i lofti. Hitastigið féll mjög hratt úr um 5-10 stiga hita í um 10- 15 stiga frost og um 6 leytið var kominn norðan ofsastormur með hörkufrosti og stórhríð.
Við bjuggum þá í gamla bænum í Bjarnarhöfn sem var járnklætt þriggja hæða timburhús og ég man enn hvað var óskaplega kalt í bænum. Við gátum varla sofið fyrir kulda og vindurinn eins og blés í gegnum húsið. 

Kannski var það líka óhugurinn sem fyllti okkur kulda þvi fregnir bárust að fjöldi sjómanna á minni bátum hringinn í kringum landið berðust fyrir lífi sínu og að ná landi 

Veðrið skall á með miklu offorsi fyrivaralaust. Og það tók sinn stóra toll. 18 manns fórust, fjölskyldur, fólk, mæður og börn, heilu byggðarlögin og þjóðin öll í mikilli sorg. Feður 22 barna drukknuðu.

"Hákonarhret"

Tré og skógar, sem teknir voru að blómstra kólu og báru hvorki sitt barr eða lauf í mörg ár eftir. Skógræktarmenn kölluðu þetta "Hákonarhret" í höfuðið á Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra

Minnismerkið á Dalvík

Ég kom í sumar að minnismerkinu á Dalvík sem reist hafði verið til minningar um þá 5 sjómenn sem fórust frá þessari litlu sjávarbyggð. Fallegt og áhrifamikið. Á meðal þeirra sem fórust frá Dalvík var Jóhann Helgason faðir góðs vinar og samþingmanns Árna Steinars Jóhannssonar.

Feður 22ja barna fórust
Í þessu mannskæða óveðri fórust fimm bátar norðanlands og eitt stærra fiskiskip við Reykjanes. Með þessum skipum fórust alls 16 sjómenn, og misstu 19 ung börn þar feður sína, en alls áttu þessir sjómenn 22 börn. Tveir sjómenn fórust af þýskum togara. Allmörgum mönnum og bátum var bjargað af félögunum við mannskæðar og fádæma erfiðar aðstæður 

Gleðilegt er að þrjú síðustu ár hefur enginn látist á sjó, enda tímarnir breyttir með stærri bátum, fjölbreyttari tæknibúnaði og björgunarþyrlum.

Á vef Veðurstofunnar segir þetta um Páskaveðrið 1963:

1963:
"Páskadagur 14. apríl. Frægasta páskahretið. Veðrið skall skyndilega á eftir miðjan dag á
þriðjudegi, 9. apríl, með hörkufrosti og stormi eftir óvenjumilda tíð. Miklir mannskaðar urðu í
hretinu, 18 menn fórust á sjó og fádæma skemmdir urðu á gróðri. Fimm menn fórust af
tveimur bátum frá Dalvík, 2 menn af báti frá Þórshöfn, 2 af báti frá Siglufirði. Allir þessir
bátar voru norðan við land, skip fórst einnig við Reykjanes, þar fórust fimm, en sex björguðust
naumlega. Tvo menn tók út af þýskum togara. Fjárskaðar urðu vestan- og norðanlands. Bátur
sökk í Vopnafjarðarhöfn, mikið brim var á þeim slóðum. Rúður brotnuðu í húsum á
Hvallátrum, þak tók af fjárhúsum í Breiðuvík og hús í Hænuvík löskuðust nokkuð. Miklir
skaðar urðu á sunnanverðu Snæfellsnesi, þök tók af útihúsum á Bláfeldi, Lýsuhóli,
Kálfárvöllum, Hraunsmúla, Hofgörðum og Hólakoti og af íbúðarhúsi á Hóli. Bíll fauk út af
veginum við Bláfeld. Steinsteypt sæluhús fauk í Hafursey á Mýrdalssandi. Á páskadaginn tók
þak af hálfum fjárhúsum á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi. "

En skammt var stórra högga á milli

" Íslenska þjóðin var í sárum vegna þessara atburða þegar sú harmafregn barst frá Noregi að Hrímfaxi, Viscount-flugvél Flugfélags Íslands, hefði farist í aðflugi við Fornebuflugvöll hjá Ósló á páskadagsmorgun og fórust allir, sem í vélinni voru, alls 12 manns. Þetta hörmulega flugslys tengdist að vísu ekki duttlungum veðurguðanna eins og sjóslysin í norðurhöfum þessa páskahelgi, en blóðtakan var mikil fyrir fámenna þjóð. Og vísast hefur sú fallega kveðja Íslendinga, að óska hverjir öðrum gleðilegrar hátíðar, verið trega blandin um páskana 1963" segir í morgunblaðinu 9 apríl 1969, "Í helgreipum Kára og Ægis"

Greypt í hugann.

 Hafandi verið aðeins áhorfandi og heyrandi af þessum atburðum á sínum tíma  eru þeir greyptir í hugann og nú þegar atburðirnir bera upp á sömu dagana 1963 og  í ár 2020. 

Blessuð sé minning þeirra sem létu líf sitt í þessum veðurhamförum.

  • "Líknargjafinn þjáðra þjóða,
  • þú, sem kyrrir vind og sjó,
  • ættjörð vor í ystu höfum
  • undir þinni miskunn bjó.
  • Vertu með oss, vaktu hjá oss,
  • veittu styrk og hugarró.
  • Þegar boðinn heljar hækkar,
  • Herra, lægðu vind og sjó.
  • Föðurland vort hálft er hafið,
  • helgað þúsund feðra dáð.
  • Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
  • þar mun verða stríðið háð.
  • Yfir logn og banabylgju
  • bjarmi skín af Drottins náð.
  • Föðurland vort hálft er hafið,
  • hetjulífi og dauða skráð."
  • ...
  •  Jón Magnúson

 


Að vinna sigur á veirunni

Stjórnvöld hafa tekið þá afdráttarlausu stefnu að bæla kórónuveiruna niður og útrýma henni hér landi með öllum tiltækum aðgerðum sem fyrst.
Hugmyndir um að skapa grunnhjarðónæmi í öllum landshlutum eru ekki lengur í umræðunni. Nokkuð hefur vafist fyrir stjórnvöldum  að skýr stefna væri tekin í þessum efnum. Enda margt óljóst um framvindu veirusjúkdómsins og aðgerðir ólíkar eftir löndum. 

Stór slembiúrtök á vegum Íslenskrar Erfðgreiningar og sýnatökur hjá Veirudeild Landspítalans benda til þess að mjög lítið almennt smit sé í gangi í samfélaginu. Heilu byggðarlögin víða um land hafa enn sem komið er sloppið við smit þótt önnur hafi lent í alvarlegum hópsýkingum. Grænlendingum og Færeyingum hefur tekist að stöðva útbreiðsluna á veirunni  hjá sér.

 Áhættuhópar bíða og vona

Fyrir okkur sem fyllum hinn stóra hóp eldri borgara og annarra  þeirra sem eru í áhættuhópum er visst öryggi í því að stefnan sé tekin um að útrýma veirunni í landinu. Enda getum við trauðla labbað út á götu aftur fyrr en það er staðfest.

Aðgerðir sóttvarnarlæknis, almannavarna og landlæknis hafa líka miðað að því með öflugum greiningum. einangrun smitaðra og sóttkví á þeim sem gætu borið smit. Smitrakning og veirumælingar hafa gengið ótrúlega vel og öll þessi vinna ævintýri líkust þó enn séu erfiðar vikur framundan.

 Hér á fylgja nokkrar tilvitnanir í umræðu síðustu daga.

"Kórónuveirufaraldurinn er búinn að ná hámarki sínu á Íslandi og er á niðurleið", að mati Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis. Fleiri ná sér nú af smiti en greinast með veiruna á hverjum degi". ( 8. apr.) Vonandi að svo sé.

Þórólfur greindi frá því að þrjátíu ný smit hefðu greinst á milli daga á upplýsingafundi almannavarna vegna faraldursins í dag. Mörg sýni hefðu verið tekinn síðasta sólarhringinn en hlutfallslega færri greindust smitaðir nú en verið hefur. Aðeins 4,3% sýna sem voru greind á Landspítalanum voru jákvæð en hlutfallið hefur verið á bilinu 10-15%. Af sýnum sem Íslensk erfðagreining greindi var aðeins eitt jákvætt eða 0,07%." Varaði Þórólfur þó við því að lítið þyrfti út af bregða til að nýsmitum fjölgaði aftur ef fólk hætti að gæta að sér. Áfram yrði fylgst grannt með þróun faraldursins, sérstaklega með tilliti til staðbundinna hópsýkninga og gripið yrði til ráðstafana ef þær kæmu upp.

Mikið álag á heilbrigðisstofnanir næstu daga

Alma Möller, landlæknir, tók fram að þrátt fyrir að hápunkti faraldursins hefði verið náð í smitum væri toppinum í heilbrigðisþjónustunni ekki náð fyrr en eftir viku til tíu daga. Á gjörgæsludeildum væri viðvarandi álag þar sem sjúklingar þurfa að liggja inn í vissan tíma vegna veikindanna.

Samkomubann áfram í gildi

Samkomubann og aðrar aðgerðir til að hefta útbreiðslu faraldursins eru í gildi til 4. maí. Þórólfur sagði stöðuna nú ekki gefa tilefni til að draga úr aðgerðunum. Hann telji að þeim þurfi að viðhalda áfram. Varlega þyrfti að fara í að létta á aðgerðunum vegna hættu á að faraldurinn gæti blossað aftur upp síðar. ( Ruv. 8.4.)

Ef litið er til hvað til greina kemur til að vernda landið í framhaldi sagði Þórólfur í viðtali við Kjarnan í gær

 "Sótt­kví mögu­lega beitt á alla sem koma til lands­ins"

Því kemur að sögn Þór­ólfs til greina að beita sótt­kví áfram á þá sem koma til lands­ins, ekki aðeins á fólk sem er búsett hér heldur einnig ferða­menn. „Það gæti líka komið til greina að krefj­ast þess að ein­stak­lingar sem koma hingað sýni fram á það með ein­hvers konar vott­orði að þeir séu með mótefni gegn veirunn­i,“ bendir hann á.

„Það er líka mögu­leiki að Íslend­ingar sem ekki hafi mótefni verði hvattir til að ferð­ast ekki til útlanda fyrr en að veiran verður útdauð úr heim­inum eða að bólu­efni verður fáan­leg­t.

Aðgerðir sem þessar geta valdið áfram­hald­andi raski á efna­hags- og atvinnu­lífi sem og dag­legum venjum fólks. „Það verður áskorun fyrir okkur öll að takast á við það.“ Þórólfur Guðnason við Kjarnann 7. apríl 20120

Lilja Alfreðsdóttir vill bólusetningar áður en landið er opnað

"afar ósenni­legt er að opn­ast muni fyr­ir flæði fólks til og frá land­inu fyrr en hægt verður að bólu­setja fólk gegn kór­ónu­veirunni" .segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra( mbl) sem hún vonar að verði innan árs

Bjarni Benediktsson vill ekki fórna mannnslífum fyrir skammtímalausnir

"Mín skoðun er sú að við höf­um ekki efni á því að fórna lífi eða heil­brigði fólks fyr­ir skamm­tíma­ efna­hags­ávinn­ing", segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra .

Þótt ég sé ekki sammála þessu efnahagslega mati Bjarna á lifi  einstaklinga  þá er forgangsröðunin skýr: 
"Væg­ari aðgerðir ekki lík­legri til að skila okk­ur fyrr í mark að hefta útbreiðslu veirunnar ". sagði Bjarni Bendiktsson á fundi ídag. MBl
  „Ég hef ekki trú á því að væg­ari aðgerðir séu lík­legri til að skila okk­ur fyrr í mark í því efni,“ sagði hann að lok­um.


Alþjóða heilbrigðisstofnunin vill að veiran sé kveðin niður
„Nú er ekki rétti tím­inn til að slaka á aðgerðum. Nú er tím­inn til að tvö­falda og jafn­vel þre­falda sam­eig­in­leg­ar aðgerðir til að bæla niður út­breiðslu veirunn­ar,“ sagði Hans Klu­ge, svæðis­stjóri WHO í Evr­ópu, á sta­f­ræn­um blaðamanna­fundi skrif­stof­unn­ar í morg­un.

Veiruna verður að stöðva
Allt starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar, alamnnavarna, sjálfboðaliðar, hafa lyft grettistaki á síðustu vikum og raunar landsmenn allir með samstilltu átaki í að ná þessu markmiði. "Heilbrigðisþjónustan hefur sýnt hversu hún er megnug " sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í gær.
Það mun reyna á næstu vikur en veirunni verður að útrýma til að hægt sé að opna samfélagið á ný.Það hafa bæði Grænlendingar og Færeyingar gert og það er klár stefna íslenskra stjórnvalda. Með okkar öfluga fagfólki og samstilltu átaki þjóðarinnar mun það takast  fyrr en seinna 


Innflutningur á hráu ófrosnu kjöti og smitvarnir

Banna á innflutning á hráu ófrosnu kjöti og herða á smitvörnum og hindra  sýklaónæmi í matvælum. Góð grein eftir Vilhjálm Ara Arason lækni

Mánudagur 06.04.2020 - 19:05 - FB ummæli (3)

Smitvarnir okkar og frjáls innflutningur á ófrosnu kjöti til Íslands!

Ísland líka á heimskortinu

Vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda mannsins skýrist í allt að 60% á fráflæði ákveðinna sýklalyfjaónæmra dýraflórusýkla í menn, svokallaðra súnu-baktería og sem eru í grunninn sameiginlegar stofnar flórubaktería dýra og manna og smitast geta á báða vegu. Sýklalyfjaónæmi í heiminum er skilgreind nú sem mesta heilbrigðisógn framtíðar af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, WHO.

Sýklalyfjaónæmar flórubakteríur geta þannig auðveldlega blandast í okkar flóru með smiti frá dýrum og hráum dýraafurðum. Í byrjun án þess að valda endilega sýkingum, eins og t.d. E.coli bakteríur (ESBL) og Klasakokkar (MÓSAR, MRSA), en sem síðan geta valdið hluta af okkar algengustu og alvarlegustu tilfallandi sýkingum og sem á þá uppsprettu úr okkar eigin flóru. Þvagfærasýkingar, iðrasýkingar hverskonar eða sárasýkingar t.d. og sýklalyfin duga þá illa á eða jafnvel ekkert á.

Við Íslendingar höfum búið við ótrúlegt heilbrigðisöryggi sl. áratugi hvað þetta smit varðar og sýklalyfjaónæmi súna í landbúnaði með því minnsta sem þekkist í heiminum en sem er algengt víða erlendis, jafnvel hjá nágranaþjóðum. Þrátt fyrir þá staðreynd að hér þrifust betur en víða annars staðar fjölónæmir pneumókokkar og sem ekki voru súnur í tímabundnum faraldri um og upp úr sl. aldarmótum og sem átti upptök erlendis frá í upphafi, en þrifust óvenju vel hér í nefkoki íslenskra barna, mest vegna ofnotkunar sýklalyfja, oft af litlu tilefni, ekki síst meðal barna. Smit sem náði til allt að 20% barna og olli hundruðum innlögnum á barnadeild Hringsins til sýklalyfjagjafar á sterkustu sýklalyfjum sem völ var á, í æð eða vöðva.

Sýklalyfjaónæmi helstu sameiginlegu sýkingarvalda manna og dýra er þannig orðin nú orðin ein mest heilbrigðisógn framtíðar. Skynsamleg sýklalyfjanotkun meðal manna og sem minnst í landbúnaði eru helstu markmið WHO og eins að hefta smitleiðir með öllum skynsamlegum ráðum, ekkert síður á milli landa til að sporna gegn þróuninni.

Ísland hefur staðið afar vel að vígi varðandi þessa sýklalyfjaónæmu flórustofna vegna lítillar sýklalyfjanotkunar í landbúnaði, en sem skýrir allt að 70% heildarsýklalyfjanotkunar annars staðar. Sýklalyfjaónæmar súnur hafa mælst í mjög litlu magni eldisdýra hér á landi eins og t.d. í lömbum. Ákveðnar og takmarkaðar rannsóknir hafa sýnt minna en 3% smits sýklalyfjaónæmra súna, á móts við oft yfir 30-50% smits í erlendu sláturkjöti eins og t.d. kjúklingi og svínakjöti. Full ástæða er því til að halda þessari góðu stöðu og sem er öfundsverð um allan heim. Að beinlínis stofna til aðgerða eins og gert var með nýjum lögum um áramótin og auka stórlega smithættu sýklalyfjaónæmra súna, er því glórulaus ákvörðun, lýðheilsunnar vegna. Eins til að forða íslenska heilbrigðiskerfinu frá stórfeldum kostnaði og tjóni og sem gert hefur verið vel grein fyrir í fyrri pistlum og ályktun stjórnar LÍ frá því sl. haust.

Líklegt er að sýklalyfjaónæmar flórubakteríur erlendis frá dreifist í vaxandi mæli nærflóru landsmanna og bíði þar tækifæris. Vakni til lífsins og blómstri jafnvel enn frekar tengt tilfallandi sýklalyfjagjöfum sem við þurfum á að halda vegna tilfallandi algengra sýkinga, eins og t.d. öndunarfærasýkingum eða þvagfærasýkinga. Með öðrum orðum ef gamla góða garnaflóran okkar heldur ekki þeim ónæmu þeim mun meira í skefjum. Ein af hverjum 5 sýkingum í Bandaríkjunum og víða í Evrópu í dag á þannig rætur að rekja til sýklalyfjaónæmra baktería sem koma beint frá landbúnaðarvörum. – Vandamálið hefur verið nær óþekkt hér á landi, þótt tíðni sérstaklega ESBL og Mósa bera hefur farið heldur vaxandi sl. áratug á Íslandi (<5%) og valdið heilbrigðiskerfinu íslenska þegar vaxandi þunga og sjúklingum jafnvel skertri þjónustu og bið eftir aðgerðum vegna smithættu á sjúkrahúsunum og skurðstofum. Miklu betra ástand samt en víða erlendis þar sem sýklalyfja-ónæmishlutfall meðal íbúa getur talist í tugprósentum og í allt að helmingi t.d. þvagfærasýkinga Góðri stöðu má fyrst og fremst þakka lítilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér á landi, einangrunar landsins og frystiákvæðanna sem giltu á erlendu innfluttu kjöti fram til síðustu áramóta.

Allir ættu að geta séð að ófrosið lekt og blautt kjöt smitar auðveldlega frá sér hugsanlegum bakteríum sem berast geta með kjötinu. Við slátrun, vinnslu og í flutningi. Óhjákvæmilegt smit þannig á sýklalyfjaónæmum bakteríurum úr görn og yfirborði dýranna og sem berst síðan með kjötinu og þá allt nærliggjandi í kring. Í kjötborðið að lokum og á aðrar nærliggjandi vörur, á hendur okkar viðskiptamannanna og barnanna. Eða bara smá saman í margnota innkaupapokann okkar góða. Sem frosið kjöt gerir þúsundfalt minna eðli málsins samkvæmt. Álíka viturleg ákvörðun að leyfa slíkan innflutning og að leggja til að handþvottur sé óþarfur gagnvart smiti og sem allir landsmenn ættu nú að vita hvað Covid19 faraldurinn hefur kennt okkur hingað til. Skýrt brot á almennum smitvörnum, nú líka gegn sýklalyfjaónæmu en samt „næmu“ sjúkdómunum okkar og sem nú verða væntanlega miklu sýklalyfjaónæmari en áður á Íslandi.

Já, og til hvers sprittum við heilbrigðisstarfsfólk hendur okkar milli sjúklinga á spítölunum nema vegna Covid19, ESBL og spítalamósa, ef við fáum svo síðan bara slæmu bakteríurnar í kjötborðinu hjá kaupmanninum, svona auðveldlega og síðan inn á heimilin okkar?

“ONE HEALTH” – er mál sem flestir fjölmiðlar Íslands eiga erfitt með að skilja m.a. RÚV ohf. Eða vilja sennilega ekki vegna hagsmunatengsla við Samtök verslunarinnar, tengt auglýsingatekjum sem hart er barist um þeirra á milli. Manna og dýraheilbrigði eru hins vegar nátengt hvoru öðru hvað allar almennar sýkingarvarnir varðar að mati WHO og sem telur vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda mannsins meðal mestu heilbrigðisógna mannsins eins og áður sagði (sjá meðfylgjandi skýringarmyndir).

Áhyggjur eru þegar í dag að stór hluti sjúklinga sem fara verst út úr Covid19-lungnabólgunni, deyi vegna fylgisýkinga sem sýklalyfjaónæmar bakteríur valda. Gríðarleg notkun nú í dag á sýklalyfjum meðal manna, auðveldar síðan ekki frekari þróun/dreifingu sýklalyfjaónæmis og spáð er í dag að að verði helsti orsakavaldur ótímabærra dauðsfalla eftir u.þ.b þrjá áratugi, eða allt 10 milljón manns á ári í raunhæfum spálíkönum. Miklu algengari orsök en spáð er t.d. vegna krabbameina og ekki útlit að ný góð sýklalyf komi á markað í bráð sem virki til lengri tíma, frekar en með sýklalyfjaþróunina hingað til.

Gott eftirlit með matareitrunar-sýkingarvöldum eins og Kamphýlóbakter og Salmonellu (jafnvel sýklalyfjaónæmra) sem mesta athygli fær í ráðgerðu eftirliti stjórnvalda nú með innfluttu kjöti og vottun erlendis frá að sé ekki smitað, er alls ekki nóg. Málið snýr ekkert síður að þætti sameiginlegu “eðlilegu” nærflóru dýra og manna (í görn, loftvegum og á húð) eða hinum svokölluðum súnu-bakteríum sem smitast miklu auðveldar frá ófrosnu kjöti en frystu, eðli málsins samkvæmt. Og vissulega ber ekkert síður að hafa áhyggjur og nánara eftirliti með innfluttu grænmeti og sem er annað stórmál. LÍ sendi alþingi ályktun sína um málið sl. haust. Auðvitað ráðum við síðan ekki við alla þætti eins og smit vegna ferðamanna, en fyrr má nú rota en dauðrota.

Landbúnaðarmálin í dag snúa a.m.k. að mikilvægustu heilbrigðis- og lýðheilsumálum þjóðarinnar og sem ekki er hægt að spila með af hentisemi markaðshyggjunnar. Við þurfum ný lög sem banna innflutning á ófrosnu kjöti í þeim tilgangi að minka hættu á smiti sýklalyfjaónæmra súnuflórubaktería í landsmenn. Á sama tíma og heimsfaraldur Covid19 hefur lagt heiminn á hliðina, hafa flestar ríkisstjórnir heims beitt fyrir sig neyðarlögum í smitvarnarskyni, lýðheilsusjónarmiða vegna. Sérákvæði í ESB, EFTA og EES samningum skipta þá engu máli.

 

 

https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5611.pdf

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2019/03/17/mikilvaegi-frystingar-til-ad-takmarka-sem-mest-smithaettu-syklalyfjaonaemra-bakteria-med-erlendu-kjoti-til-landsins/

https://www.bbl.is/frettir/frettir/fjolonaemar-bakteriur-i-innfluttu-graenmeti/20504/

https://www.cdc.gov/drugresistance/pdf/threats-report/2019-ar-threats-report-508.pdfr

http://www.euro.who.int/en/health-topics/disease-prevention/antimicrobial-resistance/news/news/2018/11/of-all-human-diseases,-60-originate-in-animals-one-health-is-the-only-way-to-keep-antibiotics-working?fbclid=IwAR00d8OJnxwL97E34pEt8A15kA1x06AI10VSglkyE5wOpERkjFSxDO_G51Q

https://www.bbl.is/frettir/frettir/erum-ad-taka-rosalega-ahaettu/15246/

https://www.laeknabladid.is/tolublod/2016/02/nr/5746

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag


Höfuðborgarsvæðið í ferðabann um páskana ?

Ef að líkum lætur mun fjöldi fólks af höfuðborgarsvæðinu flykkjast út á land í dymbilvikunni. Öll sumarhúsin í litlum þorpunum munu fyllast af fólki. Sumarhúsabyggðir í Borgarfirði um Snæfellsnes  og Dali um  Suðurland, Vestfirði, Norður og Austurland já út um allt land  munu fyllast af fólki ef ekki verður að gert.

Heimafólk hefur áhyggjur   

Vinafólk mitt í litlu þéttbýli úti á landi greindi frá að um síðustu helgi hefði þar troðfyllst af fólki.  Það væri eins og aðkomufólkið haldi að reglur um fjarlægðamörk milli fólks og hópamyndun gildi bara í Reykjavík og nágrenni.

Heimafólk á svæðunum hefur  af þessu miklar áhyggjur. 

Búðirnar sem eru fyrst og fremst ætlað að þjónusta heimafólk  hefðu troðfyllst og biðraðir við litlu matvörubúðina. 

Hvorki heilbrigðisþjónustan, litlu matvörubúðirnar, olíusjoppan, snyrtingarnar eða ættingjaheimilin bera þessar heimsóknir nú. 

Það væri því mikið ábyrgðarleysi að sleppa þessu lausu nú þessa örlagaríku viku með bara vinsamlegum tilmælum um að halda sig heima. Það á bara við um hina. Varla er nóg að hafa bara áhyggjur af þessu.   Norðmenn hafa lokað á ferðir fólks í "hytturnar" sínar.

"Hafa verulegar áhyggjur af miklum ferðalögum um páskana

Sumarhúsalönd í Grímsnesinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl)

Almannavarnir á Suðurlandi hvetja fólk til þess að vera sem mest heimavið í páskavikunni.

Sumarbústaðalönd eru mörg á kafi í snjó og erfitt að komast að þeim og sjúkraflutningar eða önnur sjúkraþjónusta gæti verið tafsöm við slíkar aðstæður. Veðurspá fyrir næstu helgi er ekki að lofa sól og sumaryl í bili.

Almannavarnir hafa verulegar áhyggjur af miklum ferðalögum yfir páskana sem gætu aukið verulega á álag á heilbrigðiskerfið. Almannavarnir á Suðurlandi biðja fólk um að virða þær takmarkanir og viðmiðanir sem settar eru til að forðast smit.

„Við þurfum að gæta að því að virða fjarlægðarmörk þegar við förum út að skoða landslagið eða í búðirnar. Við skulum ekki hópast inn í sjoppurnar heldur senda einn úr bílnum til að ná í fyrir hópinn,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum á Suðurlandi."

Ég held að sé ekki nóg að hafa bara áhyggjur af þessu. Það verði að grípa til aðgerða. Þetta er dauðans alvara.


mbl.is Hafa verulegar áhyggjur af miklum ferðalögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Grímulaust "

"Vandamálið er að allt of margir treysta því einfaldlega að fólkið í kringum viðkomandi sé ekki með vírus!"
 Athyglisverður pistill frá Snorra Sigurðssyni í Peking. 
"Það á að snúa þessu við og gera einfaldlega ráð fyrir því að allir geti verið virkir smitberar þangað til annað kemur í ljós."
 
Allir beri grímur 
"Enginn á að ganga út frá því að hvorki viðkomandi sjálf(ur) sé ekki með vírus né að sá/sú sem maður hittir sé ekki með vírus. Óttinn við að smitast er enn til staðar í Kína og t.d.
 
ef fólk notar ekki grímu, þá er litið á það sem mikla óvirðingu við náungann." 
 
Staðan þveröfug á Íslandi því miður 
"Ég held að staðan sé í raun þveröfug á Íslandi! Kolla og Tinna Rós fóru um daginn í Kringluna með grímur á sér og hanska og það var hreinlega horft á þær eins og viðundur – ekki af virðingu og þakklæti fyrir að þarna væru þær mögulega að koma í veg fyrir smit – ef önnur þeirra eða báðar hefðu nú fyrir slysni fengið vírus!
 
"Við eigum langt í land"
Ef þú sérð einstakling með grímu, vertu þá þakklát(ur) fyrir þá virðingu sem viðkomandi einstaklingur er að sýna þér og þínu umhverfi með því að mögulega leggja sitt af mörkum til að draga úr líkum á dreifingu á vírus. Við eigum langt í land..."
 
Lífið er smámsaman að færast í eðlilegt horf innan Kína en íbúar mjög á varðbergi.
Kona Snorra og dóttir eru á Íslandi og  fá ekki að koma til Kína að svo stöddu.
 
Pistilinn má lesa í heild sinni á fésbókarsíðu Snorra Sigurðssonar.

Loksins

"Frá og með morg­un­deg­in­um er Íslend­ing­um og öðrum með bú­setu á Íslandi sem koma til lands­ins skylt að fara í tveggja vikna sótt­kví án til­lits til hvaðan þeir eru að koma.".

Almannavarnir og sóttvarnayfirvöld hafa staðið sig frábærlega vel.  Kraftaverkafólk þar á ferð.

Að vinna "stríðið"

 Nú er að stöðva veiruna, skera á smitleiðir erlendis frá og innanlands og vinna "stríðið"


mbl.is Allir landsmenn í sóttkví við heimkomu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað dvelur ?.

Hversvegna eru óþarfa ferðir út og inn í landið ekki stöðvaðar eins og margar aðrar þjóðir nú gera. Innanlandssmitin eru að koma upp í tengslum við þessar óþarfa ferðir. Eftir hverju er beðið

Loka landinu

Þetta hefði mátt gera strax í upphafi veikinnar þegar séð var hvert stefndi. Öll þau sem fá að koma inn í landið  verði sett í tveggja vikna sóttkví eins og margar þjóðir gera nú..

Reiknikúnstir um hve mörg % munu sýkjast eða deyja eru út í bláinn. Að reyna að verðmeta þannig líf fólks eru engin rök í aðgerðum í svona alvarlegu máli

Landlæknir sagði við værum stríði

Ef vantar lagaheildir til að stöðva  þessar ferðir  þarf að útvega hana strax. Heilbrigðisráðherra er herstjórinn


Algjört ósamræmi

Flugvél er að koma frá Munchen með farþega sem voru á skíðum í Austurríki og Ítalíu og verður ekkert eftirlit með þeim við komuna til landsins

"Eng­inn sér­stak­ur viðbúnaður er hjá al­manna­vörn­um vegna farþega sem koma til lands­ins frá München í Þýskalandi. Þetta seg­ir Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­vörn­um, aðspurður. Reglu­legt flug er á milli Kefla­vík­ur og München og er von á að hóp­ur fólks sem var á skíðum á Ítal­íu og Aust­ur­ríki komi til lands­ins á mánu­dag með vél þaðan. Mik­ill viðbúnaður var á Kefla­vík­ur­flug­velli í eft­ir­miðdag­inn er 80 manns komu til lands­ins frá Veróna á Ítal­íu" Mbl

Er nema von að fólki finnist ósamræmi í aðgerðum.


mbl.is Enginn viðbúnaður vegna flugs frá München
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott fordæmi hjá KS

Starfsmenn KS dvelji heima við í tvær vikur eftir heimkomu frá útlöndum

Mjólkursamlag KS. Mynd:ks.is
Mjólkursamlag KS. Mynd:ks.is

"Kaupfélag Skagfirðinga hefur beint þeim tilmælum til starfsmanna sinna sem koma frá útlöndum næstu tvær vikur að dvelja heima í hálfan mánuð eftir heimkomuna. Er þessi ákvörðun tekin í ljósi þess að Kaupfélagið er mjög stór aðili í matvælaframleiðslu á Íslandi. 

Í tilkynningu sem send var út í morgun eru allir þeir starfsmenn sem koma heim frá útlöndum dagana 6.-20. mars beðnir að halda sig heima og hvattir til að fylgja fyrirmælum landlæknis varðandi sóttkví. Í tilkynningunni segir að allir starfsmenn í sóttkví muni halda launum og ekki verði dregið frá veikindarétti þessar vikur.

„Kaupfélag Skagfirðinga er mjög stór matvælaframleiðandi á Íslandi. Verstu afleiðingarnar geta verið þær að það þurfi að koma til lokunar á einhverri starfstöð félagsins að ég tali nú ekki þeim öllum með því að þær séu settar í sóttkví. Það væri dýrt fyrir fyrirtækið og neytendur,“ sagði Magnús F. Jónsson, forstöðumaður Mjólkursamlags KS, í samtali við Feyki. „Það er ljóst að þessi vágestur mun ganga yfir á einhverjum tíma og því lengur sem við getum hindrað að það þurfi að loka framleiðslueiningu, því styttri er tíminn fram að því að þetta er gengið yfir.“

Magnús segir ákvörðunina, sem tekin var af æðstu stjórnendum félagsins, hafa fengið jákvæð viðbrögð. „Auðvitað koma ýmsar spurningar upp sem þarf að svara, taka tillit til og finna svör við jafn óðum og þær eru bornar upp. Í þessari ákvörðun felst ekki síst þau skilaboð til starfsfólks fyrirtækisins að það sé ekki að ferðast til útlanda nema nauðsyn beri til,“ segir Magnús. 

Starfsmenn eru hvattir til að hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 eða síma Heilsugæslu fái þeir hita eða sýni einkenni frá öndunarfærum en mæta ekki óboðaðir á sjúkramóttökur. 

Þrátt fyrir að ákvörðun þessi snúi ekki síst að matvælafyrirtækjum kaupfélagssamstæðunnar ná tilmælin til allra starfsstöðva og samstarfsfyrirtækja Kaupfélagsins í Skagafirði, að því er segir í tilkynningunni."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband