Sementið frá Akranesi – dýrmæt íslensk framleiðsla

 Í áratugi hefur Sementsverksmiðjan á Akranesi framleitt sement fyrir landsmenn úr innlendum hráefnum með hug og hönd góðs starfsfólks. Í meira en hálfa öld hefur hún veitt hundruðum fólks störf á Akranesi og víðar. Sementsverksmiðjan er eitt af staðartáknum Akraness í hugum landsmanna eins og gullaldarlið þeirra í fótbolta, ÍA. Ég var þeirrar skoðunar að ríkið ætti áfram átt að eiga sinn hlut í verksmiðjunni og standa með því að því að tryggja rekstur hennar og framtíð. En í einkavæðingaræði fyrrverandi ríkisstjórna var hún því miður einkavædd og seld þrátt fyrir hörð mótmæli okkar í VG.

Veljum íslenskt

Hvað sem því líður er hún áfram mikilvægur vinnustaður og tryggir framleiðslu á innlendu sementi fyrir þjóðina. Í upphafi þenslutímabilsins sem nú er lokið var hafinn stórfelldur innflutningur á sementi frá Danmörku. Nú er það svo sem gott og blessað að það sé samkeppni á þessum markaði, sé henni við komið og hún til hagsbóta fyrir landsmenn. En þegar þrengir að á byggingamarkaði er það mögulegt fyrir innflytjandann að draga úr innflutningi og skerða reksturinn. Sementsverksmiðjan er hins vegar með sinn fastakostnað í mannvirkjum og auk þess stór og dýrmætur vinnustaður. Hún getur illa skorið niður framleiðsluna nema að það bitni á rekstri fyrirtækisins og fjölda starfsmanna. Þá er okkur afar brýnt nú að spara gjaldeyri sem kostur er og vera okkur sem mest sjálfum okkur nóg um sem flestar nauðsynjar. Ég get gert orð Jóns Steindórs Valdimarssonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, að mínum þegar hann segir: „Við erum að tala um það að við þurfum að spara gjaldeyri og velja íslenskt og þá er ekki heppilegt að kaupa danskt sement. ...Ef það eru tveir valkostir í boði, íslensk einokun eða dönsk, þá vil ég þessa íslensku.“ (Fréttir á Stöð 2, 30. jan. 2009)

 

Áskorun Starfsmannafélagsins

Starfsmannafélag Sementsverksmiðjunnar sendi okkur alþingismönnum kjördæmisins bréf 24. febrúar sl., þar sem bent er á góða framleiðslu og mikilvægi verksmiðjunnar fyrir atvinnulíf Akraness og landsins alls: „Sementsverksmiðjan á Akranesi hefur frá upphafi skilað þjóðinni miklum arði. Hún hefur framleitt rúmlega 5,5 milljónir tonna af sementi úr innlendu hráefni og sparað þjóðinni þann gjaldeyri sem annars hefði verið varið til innflutnings á sementi“. Verði stoðunum kippt undan starfsemi verksmiðjunnar mun það hafa alvarlegar afleiðingar: „ Vel á annað hundrað störf glatast, tækniþekking sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum verður að engu og sement, aðlagað þörfum íslensks markaðar, víkur fyrir innfluttu sementi“.

 

Stöndum vörð um innlenda framleiðslu

Ég tók málefni Sementsverksmiðjunnar upp á Alþingi í síðustu viku við iðnaðaráðherra og lagði þunga áherslu  á að nú bæri okkur að standa vörð um innlenda framleiðslu eins og sementið. Það mætti ekki eingöngu horfa til nýrra framleiðslufyrirtækja heldur þyrfti einnig að slá skjaldborg um þann góða innlenda iðnað sem við þegar eigum. Því hvatti ég iðnaðarráðherra og ríkið, sem einn stærsta byggingaraðila landsins, til þess að kaupa  íslenskt sement á meðan það alvarlega ástand varir sem nú er. Þar með væri með beinum hætti reynt að tryggja sem flestum störf og halda dýrmætri framleiðslugrein í landinu.

Kærar þakkir, ágæta starfsfólk Sementsverksmiðjunnar, fyrir gott hvatningarbréf til okkar þingmanna. Ég hef á undanförnum árum barist fyrir hagsmunum innlendrar sementsframleiðslu og mun gera það áfram hvar sem ég get lagt henni lið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband