Gleðilegt sumar - Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar er góð kveðja sem hljómar nú um allt land. Sumardagurinn fyrsti var um aldir  og er enn einn mesti helgidagur þjóðarinnar einkum í sveitum næst á eftir jólum. Sumardagurinn fyrsti var í mínu ungdæmi helgaður börnum og svo er enn. Fyrsti opinberi barnadagurinn var haldinn á sumardaginn fyrsta  í Reykjavík 1921.

Á mínu heimili norður á Ströndum var Sumardagurinn fyrsti mikill hátíðisdagur og hann einkum tileinkaður ungum piltum eins og fyrsti dagur Einmánaðar var helgaður ungum stúlkum.

Fjölmennt var í heimili og ungu piltarnir fóru snemma á fætur og búið var til kakó og bakaðar lummur. En áður tíðkuðust sérstakar glóðarsteiktar flatkökur með smjöri eða öðru lúxus viðbiti og þóttu mikið lostæti og ómissandi hluti af sumarkomunni. Eitthvað hafði þetta nú verið undirbúið daginn áður.

Í minnist þess á heimili foreldra minna og einnig fyrstu árin í okkar eigin búskap að þá voru það það ungu mennirnir á bænum sem báru morgunhressinguna í rúmið til annarra heimilsmanna, rjúkandi heitt kakó og lummur eða pönnukökur. Var mikill spenningur, hátíðleiki og gleði í kringum þá athöfn.

Á eftir var farið í leiki. Gjarnan var farið í heimsóknir á næstu bæi eða unga fólkið af næstu bæjum kom til okkar. Allt fór þó eftir veðri. Ef gott veður var þá var gengið niður á fjörur einkum eftir að við komum í Bjarnarhöfn. En óvíða er vorkoman fegurri en einmitt í hinu víðáttumikla útfyri og eyjum Breiðafjarðar. Fuglinn var þá kominn á fjörurnar og í björgin.  Gjarnan var  svartbakurinn farinn að draga og hægt að krækja í einn og einn dreginn rauðmaga.

Sumardagurinn fyrsti var frá því  ég  man, fyrst og fremst helgaður börnum og hátíðamatur hafður á borðum og gefnar sumargjafir. Ég man þó eftir því að afi minn og amma sem voru hætt búskap fóru í opinbera heimsókn í  fjárhúsin til að skoða féð og fylgdi þá öll fjölskyldan með. Var þá litið á heyforðann, tekið á holdum kindanna , hvernig væri fóðrað, og þreifað undir ærnar hvort væri að koma júgur og þær farnar að búa sig til burðar. " Búast til" eins og kallað var.

Ég man enn vel eftir síðasta Sumardeginum fyrsta  okkar í Asparvík  1951. Eftir að hafa hlustað á sumarlög í útvarpinu og guðsþjónustu fórum við Sesselja systir að ganga á rekann sem var okkur hin besta skemmtun. Fundum við þá á svokölluðum Sandodda, sunnan við bæinn gríðarlega stórt  tré, rekið. Flýttum við okkur heim að segja tíðindin og að bjarga þyrfti viðnum undan sjó. Þóttum við nokkuð óðamála um tréð því afi spurði nákvæmlega um stærðina. Vitnaði hann til gamals atviks úr sínu ungdæmi þar sem ungur maður óðamála eins og við lýstu risastóru ný reknu tré. Stór, sívöl, rekin tré voru oft nefndar súlur.

Súlurýja rak í vog

rétt upp í hann Sigurð

Tíu álnir var hún og

eftir því á digurð.

Þessi stund er mér minnistæð.

Þetta tré okkar Sesselju var  svo nokkrum vikum síðar flutt ásamt  fjölskyldunni  með Skjaldbreið til Bjarnarhafnar og unnið þar í girðingarstaura.

Sumardagsins fyrsta er snemma getið. Í Gylfaginningu Snorra-Eddu segir frá því hvernig æsir rufu eiða þá sem þeir höfðu svarið borgarsmiðnum. Borgarsmiðurinn hafði boðist til að reisa á þremur misserum borg svo góða að hún héldi frá bergrisum og hrímþursum. Í staðinn átti hann að fá Freyju að konu og að auki sól og mána.

"Þá gengu æsir á tal ok réðu ráðum sínum, ok var þat kaup gert við smiðinn, at hann skyldi eignast þat, er hann mælti til, ef hann fengi gert borgina á einum vetri, en inn fyrsta sumarsdag, ef nökkurr hlutr væri ógerr at borginni, þá skyldi hann af kaupinu."

Ekki mælum við með slíkum brigslum heldur gleðjum hvert annað með  fallegum óskum og með sumarbrosi og góðum vinargjöfum

Gleðilegt sumar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband