Í minningu látins vinar og góðs mágs, Jónasar Þorsteinssonar frá Ytri- Kóngsbakka í Helgafellssveit

„Kvöldið er fagurt, sól er sest og sefur fugl á grein.

Við skulum koma vina mín og vera saman ein.“

Sólin er sest í jarðnesku lífi góðs mágs og vinar, Jónasar á Kóngbakka.

 Árið 1951 flutti fjölskylda mín frá Asparvík á Ströndum til Bjarnarhafnar á Snæfellsnesi. Ég var þá barn að aldri í hópi níu systkina, sem seinna urðu tíu.

Mér er enn í fersku minni þegar Skjaldbreið lagðist fyrir akkeri á Kumbaravogi, hinni fornu höfn Bjarnarhafnar með stórfjölskylduna frá Asparvík um borð. Við krakkarnir vorum ákaflega spennt að sjá víðáttur hins fyrirheitna lands og ekki hvað síst hina nýju nágranna. En þeir höfðu safnast þar saman við voginn til að rétta hjálparhönd við uppskipunina.

Hér voru ungu piltarnir úr Helgafellssveitinni og í þessum hópi var Jónas. Hann kom því inn í líf fjölskyldunnar frá fyrsta degi á nýjum stað og var alltaf hjá okkur síðan. Elsta systir okkar, Aðalheiður, var þá 18 ára, rösk og glæsileg stúlka og vön að taka til hendi á stóru heimili.

Sú góða saga er sögð að Heiða hafi rétt út yfir borðstokkinn eldavélina þeirra afa og ömmu og sagt: „Taki nú einhver við!“. Jónas var þá næstur og tók á móti. Það hefur ýmislegt verið sagt, bæði satt og logið, um ást við fyrstu sýn. Hafi ástin ekki kviknað á milli þeirra við Skjaldbreið er þau héldu á eldavélinni á milli sín, var þess alla vega ekki langt að bíða.

Jónas var okkur strax ómetanleg hjálparhella. Í samanburði við Asparvíkina norður þar voru lendur Bjarnarhafnar víðáttumiklar og gerðar fyrir hesta. Hestakostur var ekki mikill fyrstu árin í Bjarnarhöfn en Jónas var afburða knapi og átti góða reiðhesta.

Fyrir hann var það svo sjálfsagt að hlaupa undir bagga með okkur bæði með hesta og reiðtygi auk þess að kenna okkur hestamennsku til skemmtunar.

 En í þann tíma var það eitt helsta gaman ungs fólks að fara í útreiðartúra á sunnudögum. Og þar var Jónas í forystu hóps af ungu fólki sem naut samvistum við náttúruna við gleði og söng. Reiðtúrarnir með honum voru ógleymanlegir, upp í Botna, að Írafelli eða í kringum Bjarnarhafnarfjall. Ávallt var Jónas í broddi fylkingar á honum Jarp sínum sem bar af öðrum hestum.

Og þegar áð var tóku allir lagið eða hlupu í skarðið. Svo á heimleiðinni, þegar dró að kveldi, voru Jónas og Heiða orðin síðust í hópnum. Heiða var þá komin á Jarp sem ég minnist ekki að aðrir hafi fengið að fara á bak á en Jónas. Hópurinn hélt áfram.

 

Jónas og Heiða systir tóku saman og hún flutti að Kóngsbakka til Jónasar. Áfram var Jónas sami æringinn, hinn góði félagi, ávalt reiðubúinn að leggja hjálparhönd. Við minnumst varla hjálpfúsari eða glaðlyndari manns.

Við krakkarnir dáðum Jónas. Hann tók okkur öllum sem jafningjum, hvatti okkur og sagði okkur til í hestamennskunni, spilum eða hverju sem var.

Minningarnar eru margar og góðar : Þegar hann kom með dráttarhestana sína og sláttuvélina og sló túnið. Við áttum þá engan vélakost. Þegar hrossin, hálfvillt stóð, voru rekin saman niður í fjöru og út í flutningapramma og flutt til vetrarvistar út í eyjar. Biluð ljósavél sem þurfti að skrúfa í sundur þótt það tæki daginn og nóttina. Sækja hross í stóðið upp á fjall eða út á Botna, reka féð til slátrunar, smala til rúnings. Alltaf var Jónas tiltækur með glampa í augum og bros á vör.

Eftir að við Ingibjörg hófum búskap í Bjarnarhöfn nutum við góðrar sambúðar við Jónas, Heiðu og fjölskylduna,  Þorstein, Bjarna, Agnar og Guðbjörgu. Jónas bauð Bjarna elsta syni okkar að velja sér fyrstu kindina, hana Móru sem varð ættmóðir fjárstofnsins hans í Bjarnarhöfn.

Jónas lifði og hrærðist í hrossum og átti ávalt góða gæðinga. Átti hann glæsta sigra á þeim vettvangi. Og til síðasta dags hélt hann glampanum í augum og bauð upp á hestakaup.

Á níræðisafmælinu kom fjölskyldan og nánustu vinir Jónasar saman og glöddust. Og Jónas brást ekki sínum heldur gat glatt alla og söng eitt eftirlætis ljóða sinna "Undir bláhimni" með  tærri og hljómmikilli röddu.

Nú þegar við kveðjum góðan mág og vin er okkur efst í huga þakklæti fyrir samferðina. Jónas auðgaði lífið, hann var fastur fyrir en bar ávallt  með sér gleði, kærleika og reisn sem við samferðafólk hans nutum. Þar var það hann sem gaf.

„Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,

 er gleðin skín á vonar hýrri brá.“

Með söng  munu gamlir félagar hans og vinir taka á móti honum handan móðunnar.

Við sjáum í anda Jónas á Kóngsbakka, stoltan og glaðbeittan taka töltsprettinn á Jarp og þeysa út í hið eilífa, græna vor.

Blessuð sé minning Jónasar Þorsteinssonar frá Ytri- Kóngsbakka. 

Jónas var fæddur á Kóngsbakka 18. nóv. 1920 og lést 27. mars sl..

Útför hans fór fram frá Stykkishólmskirkju 14. apríl sl. að viðstöddu miklu fjölmenni.

( Birtist sem minningagrein í mbl. 14. apríl) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband