Laugardagur, 14. apríl 2012
Komið að leiðarlokum í ESB umsókninni
Þolinmæði Vinstri grænna einkum á landsbyggðinni er gjörsamlega þrotin gagnvart ESB vegferð flokksforystunnar í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni. Þetta kemur skýrt fram í viðtölum við Morgunblaðið í dag. VG vann sinn stóra sigur í síðustu kosningum ekki hvað síst á landsbyggðinni með 3 þingmenn í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og hársbreidd frá því að ná tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn hafði staðið veikastur áður.
Loforð um að ekki yrði sótt um aðild að ESB vógu sterkt í sigri flokksins. Fyrir kjósendur VG voru það hrein svik að fallast á umsókn að ESB sem hluta af skilyrðum við ríkisstjórnarmyndun með Samfylkingunni. Samfylkingin var ný komin helsærð úr ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í hrunstjórninni og hafði enga stöðu til að setja slík skilyrði. Allmargir þingmenn VG greiddu atkvæði gegn þeirri ákvörðun á sínum tíma og eftir því sem ákveðnir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna sukku dýpra í aðildarferlinu að ESB varð ágreiningurinn innan VG meiri.
Sá ágreiningur leiddi síðan því miður til þess að sterkir þingmenn flokksins sáu sig knúna til að yfirgefa hann vegna ESB og ofríkis sem þeir voru beittir af forystu flokksins. Um síðustu áramót var ráðherrum hrókerað út úr ríksisstjórn af sömu ástæðum, við mikinn fögnuð ESB sinna og skálað var í Brussel. Nú sýnir ESB áfram grímulaust klærnar gangvart Íslandi, stuðningur við VG kominn niður fyrir 10%, vinsældir forystumanna sem áður náðu langt út fyrir raðir flokksins mælast nú í algjöru lágmarki.
Er að furða þóttt margir stofnendur og forystufólk í flokknum frá byrjun segi nú stopp. Nú er nóg komið. Viðtal er við nokkra í MBL í dag: Gísli Árnason formaður VG í Skagafirði segir komið að leiðarlokum: "Krafan hlýtur að vera sú að viðræðum verði slitið nú þegar"..
Andrés Rúnarsson form. Vg í Árborg tekur í sama streng. Þormóður Sigtryggsson formaður VG í Fjarðarbyggð er á sömu nótum: "Ég hef alltaf verið andvígur ESB og Evrópusambandsaðild......Mér finnst að þurfi að ljúka þessu máli fyrir kosningar. Ég sé ekki að farið verði með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu."
Ölver Guðmundsson stjórnarmaður VG á Austfjörðum segir Evrópumálin " hafa hroðalega slæm áhrif " á flokkinn. Það er því fangaðarefni að formaður flokksins Steingrímur J. Sigfússuon sem hefur verið gangrýndur harðlega fyrir að hafa leitt flokkinn út í þessa ESB vegferð hans, slær nú mikla varnagla fyrir framhaldinu í Morgunblaðinu í dag: " Það er orðin staðreynd að við mætum framkvæmdastjórn ESB sem andstæðingi í þessu máli( málsókninni vegna Icesave) og það er auðvitað pólitískur veruleiki sem þá liggur fyrir og er engin leið að útiloka að hafi sín áhrif."
Og þegar litið er til ummmæla forystumanna VG víða um land geta þau pólitísku viðbrögð verið þau ein að slíta þessum vonlausu viðræðum um aðild Íslands að ESB.
Miðvikudagur, 11. apríl 2012
Rangfærslum forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur svarað
Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir fór með rangt mál í ræðustól Alþingis 29. mars sl. er hún sakaði Jón Bjarnason fyrrum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að eiga alla sök á og hafa tafið frumvarpssmíði vegna breytinga á fiskveiðistjórnuninni. Þar sannaðist hið gamalkunna að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Hægt er að sjá ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur frá 29. mars sl. á vef Alþingis. Hinsvegar vekur það furðu að forsætisráðherra skuli leyfa sér að koma fram með þvílíkum dónaskap og rangfærslum og það í lokuðum fyrirspurnartíma á Alþingi. Rétt þykir því að rekja ferill sjávarútvegsfrumvarpanna í ráðherratíð Jóns Bjarnasonar .
Lengst af þeim tíma sem Jón Bjarnason sat í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var fiskveiðistjórnunarmálinu stýrt af forsætisráðherra og samflokksmönnum hennar. Sú saga hófst með skilyrðum Samfylkingarinnar fyrir því að VG fengi ráðuneyti sjávarútvegsmála í sinn hlut.
Krafa Jóhönnu sem formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, ákvað að beygja sig undir var að áður en ráðuneytið hæfi vinnu við málið færi það í hendur samráðshóps undir forystu Samfylkingarinnar. Til formennsku valdist Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartsnefndin fékk 16 mánuði
Guðbjartsnefndin sem var fjölskipuð fékk úthlutað verktíma til haustsins 2009 en skilaði þó ekki af sér fyrr en í september 2010. Þá strax kom fram krafa Samfylkingarinnar um að málið færi beint til þingmannahóps stjórnarflokkanna. Til þess að mæta því sjónarmiði var skipuð samráðsnefnd sex þingmanna sem skyldu starfa með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að málinu. Síðla árs 2010 hófu starfsmenn ráðuneytisins vinnu við að semja drög að nýjum fiskveiðistjórnunarlögum. Þau voru unnin í samráði við þingmannahópinn. Drög að frumvarpi lágu fyrir um mánaðamótin febrúar mars 2011. Þá bregður svo við að forsætisráðherra skipar sérstaka ráðherranefnd undir eigin forsæti til að vinna að málinu. Í nefndinni áttu auk hennar sæti ráðherrarnir Jón Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon og Guðbjartur Hannesson. Þar með bar forsætisráðherra ábyrgð á framgangi málsins. Við tóku tveggja mánaða stanslaus fundahöld ráðherra og stjórnarþingmanna þar sem drögum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis var breytt verulega og þannig var málið lagt fyrir Alþingi í maí 2011. Þetta frumvarp forsætisráðherra hlaut falleinkunn allra umsagnaraðila.
Einstakir ráðherrar sýndu þá af sér þann einstaka drengskap að hlaupa frá málinu jafnskjótt og þeir höfðu afgreitt það úr ríkisstjórn og fella um frumvarpið miður smekklega palladóma. Eftir að hafa verið vísað til nefndar vorið 2011 bárust umsagnir um málið en stjórnarþingmenn sem höfðu málið með hendi það sumar hvorki unnu í málinu né né luku yfirferð yfir umsagnir sem sjávarútvegsnefnd bárust vegna frumvarpsins.
Aftur á byrjunarreit
Málið var svo aftur komið á byrjunarreit með því að formaður og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar skiluðu því til ráðherra í lok september. Þá loks gafst ráðuneytinu tóm til þess að vinna að málinu og voru þá látnar standa hendur fram úr ermum. Hinn 21. nóv ember eða sjö vikum síðar hafði starfshópur á vegum ráðherra lokið yfirferð málsins og lagði fram vinnugögn í formi tillögu að nýju frumvarpi. Þetta var eini tíminn þar sem Jón Bjarnason hafði málið einn á sínu forræði.
Þessi nýju drög kynnti Jón Bjarnason fyrir ríkisstjórninni og á netinu. Þar með var kallað eftir athugasemdum og ábendingum hagsmunaðila.
Þá eins og nú viðhafði forsætisráðherra gífuryrði um málið og skipaði síðan nýja ráðherranefnd til að yfirfara það en um starf þeirrar nefndar eru litlar heimildir. Steingrímur J. Sigfússon hefur nú eftir 12 vikna veru í embætti lagt fram nýtt frumvarp sem er til meðferðar í þinginu.
Sjávarbyggðirnar blæða í nýju frumvarpi
Um leið og rangfærslur forsætisráðherra í þessu efni eru leiðréttar viljum við nota tækifærið til að óska henni og flokki hennar til hamingju með þann árangur sem Samfylkingin hefur náð í samstarfi við Steingrím J. Sigfússon. Ágreiningur ríkisstjórnarflokkanna um sjávarútvegsmálin hefur snúist um átök milli félagshyggju og markaðshyggju. VG lagði áherslu á samfélagslega ábyrgð og réttlætissjónarmið sem aðeins yrði mætt með ríkum byggðatengingum í sjávarútvegi. Innan Samfylkingarinnar hefur sú skoðun aftur á móti verið ríkjandi að lausn málsins felist fyrst og fremst í skattlagningu útgerðarinnar í ríkisstjórn og að réttlætismál verði leyst með markaðshyggju. Þá skiptir miklu á þeim bæ að allar breytingar falli að hinum óraunhæfu Evrópudraumum ríkisstjórnarforystunnar.
Enginn vafi er að þessi sjónarmið hafa orðið algerlega ofan á í þeirri vinnu sem Steingrímur J. Sigfússon leggur nú fram. Raunar er það ekki eina dæmið um að stefna Samfylkingarinnar virðist nær einráð í starfi sitjandi ríkisstjórnar.
Mikilvægar breytingar hafa náðst fram
Þrátt fyrir það ofríki sem forsætisráðherra og forysta ríkisstjórnarinnar beitti frá fyrsta degi í þessu máli hefur náðst mikilvægur árangur í stjórn fiskveiða á kjörtímabilinu. Þeir sigrar hafa verið unnir með öðrum frumvörpum sem varða greinina og of langt mál er að rekja í stuttri blaðagrein. Þar munar mestu um innleiðingu strandveiða, eflingu byggðatengdra aðgerða með svokölluðu litla frumvarpi sem var lagt fram vorið 2011 og útboð aflaheimilda m.a. í skötusel, sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon reyndu að stöðva á lokasprettinum.
Forsætisráðherra og flokk hennar hefur náð að beygja VG og keyra fram markaðslausnir í stað félagshyggju og byggðasjónarmiða.
Höfundar eru: Atli Gíslason alþingismaður og fyrrverandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og Jón Bjarnason alþingismaður og fyrrverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Birtist sem grein í Mbl. 30. mars sl.
--
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. apríl 2012
Verður Makríllinn til að hrinda ESB umsókninni endanlega út af borðinu eða bogna íslensk stjórnvöld fyrir kröfum ESB.
- Færður til annarra mikilvægari starfa sagði utanríkisráðherra! Að ósk hvers ? Hvað er mikilvægara en góðir samningar fyrir Íslendinga í makríl?
ESB sýnir klærnar
Staðreyndin er réttilega sú að Evrópusambandið hefur hert á samþykktum og yfirlýsingum í makríldeilunni við Íslendinga og Færeyinga.
Í ályktun ESB- þingsins frá 14. mars sl. um stöðu aðildarviðræðanna við Íslendinga er áréttuð enn frekar en áður þau skilyrði sem ESB hefur sett fyrir framhaldi aðildarviðræðna og lausn makríldeilunnar. Þar eru þessi mál tengd mjög náið saman.
Og ESB slær tóninn: lausn makríldeilunnar verður að byggja á raunhæfum tillögum um hlutfallslega skiptingu veiðanna, byggða á sögulegum rétti strandríkjanna til veiða. ( based on realistic proposals consistent with historical rights and the advise of ICES) .
Að sjálfsögðu getum við ekki fallist á þessa einhliða túlkun ESB á rétti okkar til veiðanna.
Þótt makríllinn komi nú og í gríðarlegu magni inn í íslenska fiskveiðilögsögu og éti býsn á það að þeirra mati ekki að skapa neinn sérstakan rétt.
Mat ESB á hver hinn sögulegi réttur Íslendinga sé hefur komið fram í samningaviðræðum: 7% gangi til Íslendinga um 8% til Færeyinga og 5% til Rússa. Það þýddi um 50 60 þús. tonn af makríl til Íslendinga. Við erum nú að veiða um 145 þús. tonn í fullum rétti sem strandríki. Ef ESB væru sjálfum sér samkvæmt hefðu þeir skammtað sér 80% af veiðinni.
Raunin er hinsvegar sú að ESB og Noregur hafa tekið sér einhliða um 90% af ráðlagðri veiði í makríl og ætla 10 % til skipta fyrir Íslendinga Færeyinga og Rússa.
Makrílkvóti Íslendinga fyrir árið í ár var blessunarlega ákveðinn fyrir síðustu áramót.
Alþingi grípi í taumana
Ljóst er af óbilgjörnum kröfum ESB að ekki verður samið á þessu ári um framtíðarskiptingu makrílveiðanna nema að Íslendingar gefi mjög verulega eftir. Er þá ESB umsóknin stopp?
Þótt hörðustu ESB sinnarnir í ríkisstjórn og á Alþingi séu jafnvel reiðubúnir að gefa eftir og ganga langt á hagsmuni Íslendinga til að þóknast kröfum ESB í makrílnum er óvíst hvort þeir hafi til þess meirihluta á Alþingi.
Þjóðinni var lofað því að ESB umsóknin yrði útkljáð innan þessa kjörtímabils.
Nú þegar er ljóst að ófrávíkjanlegar kröfur ESB á mörgum sviðum, ekki aðeins í makríl ganga mun lengra en samninganefndin hefur umboð til að semja um. Það er ESB sem ræður för en ekki Íslendingar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. apríl 2012
Byggðasjónarmið látin víkja
Byggðakvóti og línuívilnun eru skorin niður í nýju frumvarpi um stjórn fiskveiða. Samtímis er skattheimta aukin á sjávarbyggðirnar með stórhækkuðu veiðigjaldi.
Í stað þess að treysta ákveðinn grunnrétt sjávarbyggðanna í sessi er höggvið á þær stoðir sem þó hafa verið byggðar upp á síðustu árum. Þóroddur Bjarnason stjórnarformaður Byggðastofnunar dregur mjög í efa að byggðamarkmið frumvarpsins náist og stefnan í þeim efnum væri afar óljós.
Að mínu viti er þar um beina afturför að ræða frá því sem nú er og mega sjávarbyggðirnar síst við slíku. Hlýtur sú stefnubreyting að valda miklum vonbrigðum.
Stærstu ágallar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis eru einmitt þeir að sjávarbyggðirnar, íbúarnir, vinnustaðirnir hafa staðið berskjaldaðir gagnvart lögmáli frumskógarins sem ríkt hefur um kaup og sölu aflaheimilda á undanförnum árum.
Aðgerðum til að sporna gegn aukinni samþjöppun í sjávarútvegi er slegið á frest og málið sett í sérstaka nefnd!.
Sama á við um stjórnun veiða úr nýjum fiskistofnum sem ekki hafa verið settir í kvóta. Engin framtíðarsýn er mörkuð varðandi þá heldur er málið sett í nefnd.
Skötusels ákvæðið fræga er fellt út úr lögunum.
Veiðigjaldið er landsbyggðarskattur sem allur á að renna beint í ríkissjóð samkvæmt frumvarpinu. Gengur það í berhögg við tillögur mínar sem gerður ráð fyrir mun hóflegra gjaldi og að hluti þess rynni beint til sjávarbyggðanna aftur.
Þetta og fleira ræddum við Sigurjón M. Egilsson í þættinum á Sprengisandi í morgun.
Jón Bjarnason (1.4.12)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. mars 2012
Danska ríkisstjórnin milli steins og sleggju í makríldeilunni
Nánast engar líkur eru taldar á því að Danir ráði við að opna á aðildarviðræður ESB við Íslendinga um sjávarútvegsmál. Til stóð að opna á viðræður sl. haust en því hefur ítrekað verið frestað og nú síðast vegna deilna um rétt Íslendinga til makrílveiða. Danir fara með formennsku í ESB þar til í júnílok á þessu ári og höfðu lýst áhuga sínum að opna á viðræður. Sú tímaáætlun sem gefn var út í upphafi umsóknarinnar um viðræður er löngu runnin út í sandinn.
Ríkisstjórn Dana hefur mjög tæpan meirihluta á þingi og fellur ef Færeyingar og Grænlendingar hætta stuðningi við hana.
Færeyski þingmaðurinn Sjurður Skaale hefur sagt opinberlega við fjölmiðla að verði Færeyingar knúðir til samninga um makrílveiðar með þvingunum af hálfu ESB muni Færeyingar hætta stuðningi við stjórnina sem þar með fellur. Það eru því ekki aðeins Íslendingar sem hafa mætt óbilgirni og hótunum frá ESB vegna makrílveiðanna heldur hefur Færeyingum jafnframt verið hótað víðtækum viðskiftabönnum vegna makrílveiða þeirra.http://www.fiskerforum.dk/erhvervsnyt/erhvervsnyhed.asp?nyId=3230
ESB hótar sem fyrr
ESB hefur sett skilyrði fyrir samningum við Íslendinga um makrílveiðar sem eru með öllu óaðgengilegar og myndu kosta þjóðarbúiið milljarða í töpuðum tekjum. ESB fylgir óbilgirni sinni eftir með hótunum um víðtækar viðskiftaþvinganir. Sjávarútvegsráðherra Íra segir það sína skoðun að ekki eigi að opna á aðildarviðræður við Íslendinga um sjávarútvegsmál fyrr en íslendingar hafa beygt sig fyrir kröfum ESB í makríldeilunni. Fleiri forystumenn í ESB löndum hafa lýst sömu skoðun og krafist eftirgjafar Íslendinga.
Danska ríkisstjórnin stendur mjög veikt í þessum málum því meirihluti hennar styðst við þingmenn Grænlendinga og Færeyinga á danska þjóðþinginu. Þingmenn þeirra, geta velt ríkisstjórninni hvenær sem er, gangi ESB á hagsmuni landanna og þeir munu vafalaust ekki hika við að gera það ef á reynir.
Samkvæmt FiskerForum.com hefur færeyski þingmaðurinn Sjúrður Skaale bent ráðherrum i ríkisstjórn Danmerkur á þessa stöðu, ef hún lætur undan kröfum ESB um að beita Færeyinga ofríki og viðskiftaþvingunum til hlýðni í markríldeilunni.
Þá má nefna enn frekar að Grænlendingar standa í stríði við ESB vegna banns á verslun með selskinn innan ESB og hafa kært bannið til WTO, Alþjóðaviðskiftastofnunarinnar. Íslendingar hafa stutt kæru Grænlendinga formlega á alþjóðavettvangi, reyndar við lítinn fögnuð ESB.
Aðildarviðræðum við ESB sjálfhætt
Góðu heilli var tekin ákvörðun fyrir síðustu áramót að halda óbreyttum hlut Íslendinga í makríl og beygja sig ekki fyrir ofríki ESB.
Danir eru milli steins og sleggju í makríldeilunni heimafyrir og því nokkuð ljóst að ekki verður opnað á raunverulega samninga við Íslendinga í sjávarútvegsmálum undir ESB- formennsku Dana eins og lofað hefur verið.
http://www.fiskerforum.dk/erhvervsnyt/erhvervsnyhed.asp?nyId=3230
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. mars 2012
Herleiðing hugans
Undir stjörnumprýddum fána ESB ganga þingmenn VG til vinnuaðstöðu sinnar sem þeim er sköpuð á vegum Alþingis í gömlu Moggahöllinni. ESB-fáninn blaktir á húsinu. Á hnappaborði lyftunnar sem flytur fólk milli hæða má sjá annarsvegar merkingar VG og hinsvegar merki ESB. 5. tbl. - fimmtudagur 15. mars
Þannig lýsir leiðarahöfundur nýjasta Bændablaðs anddyrum að höfuðstöðvum þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs en búnaðarþingsfulltrúum var boðið til kvöldspjalls þar nýverið.
Hér er formaður Bændasamtakanna að vísa til þess að höfuðstöðvar ESB á Íslandi eru á næstu hæð fyrir neðan vinnuaðstöðu þingmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í gömlu Moggahöllinni.
En glöggt er gestsaugað og þessi lýsing íslenska bændahöfðingjans á höfuðstöðvum þingflokks VG segir meira en mörg orð um þá aðlögun sem er í gangi að ESB: þ.e. herleiðing hugans.
Formaður Bændasamtaka Íslands, Haraldur Benediktsson rekur í stuttu máli þversagnirnar í aðildaferlinu að ESB. Kröfur ESB liggi fyrir og aðlögun er hafin. Skilyrðin sem sett voru í þingsályktun Alþingis eru teygð og toguð til að ekki steyti á skeri í aðlögunarferlinu.
Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, flokksins sem var stofnaður m.a. til að berjast gegn aðild að ESB þurfa nú að ganga undir stjörnum ESB til vinnu sinnar.
Og þessa dagana fara sendifulltrúar ESB með friðhelgisstjörnu alþjóðlegra diplómata í fundarherferð um landið til mæra sambandið og dreifa hlutlausum upplýsingum um ástandið í ESB, framtíðina og ekki síst að gagnrýna samtök bænda fyrir staðfestu þeirra í hagsmunum landbúnaðarins í ESB viðræðunum.
En örvæntingarfull áróðursferð sendiráðsstarfsmanna ESB, sem fara jafnvel á svig við Vínarsáttmálann um réttindi og skyldur diplómata í gestalandinu mun skila þeim litlu enda málstaðurinn vonlaus.
Varðstaða Bændasamtakanna er hinsvegar aldrei mikilvægari en nú.
Leiðara Bændablaðsins lýkur á spurningunni ; hvernig á að láta stjórnendur Íslands hlusta og skilja að þjóðin vill ekki í ESB.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. mars 2012
Hver er diplómatisk staða sendiherra ESB hér á landi
Sendiherra ESB á Íslandi er nú í áróðursferð um landið, heimsækir vinnustaði og heldur kynningarfundi.
Frásagnir af fundarherferð sendiherrans m.a. á Akureyri nýverið lýsa gagnrýnislausu lofi hans á ágæti ESB og á það sem þar er að gerast innan veggja.
Hinsvegar er talað niður til sjónarmiða Íslendinga sem hafa haft uppi varúðarraddir. Gert m.a. lítið úr ítarlegri vinnu samtaka eins og Bændasamtaka Íslands sem hafa dregið skilgreindar og vel rökstuddar varnarlínur í aðlögunarviðæðunum að ESB.
Ferðir sendiherra ESB um landið sýna örvæntingu ESB-sinna um framgang aðlögunarviðræðnanna. Hinsvegar munu slíkar áróðursferðirog yfirgangur ESB færa landsmönnum enn frekar heim sanninn um það að við eigum ekkert erindi þarna inn.
Brýtur sendiherra ESB Vínarsáttmálann
Hitt er svo umhugsunaratriði hvort það samrýmist íslenskum og lögum og alþjóðasamþykktum að sendiherrar erlendra ríkja eða ríkjasambands beiti sér með gildishlöðnum hætti í umræðum um íslensk innanríkismál.
Samkvæmt 41. grein Vínarsáttmálans um diplómata er skýrt kveðið á um að þeir megi engin afskipti hafa af innanríkismálum og öll samskipti við gistiríki eiga að fara í gegnum ráðuneyti utanríkismála.
Heimilt er að vísa erindrekum sem brjóta gegn þessum reglum fyrirvaralaust úr landi
Þessar reglur Vínarsáttmálans hafði Utanríkisráðuneyti Kanada á hreinu þegar það í dag bannaði sendiherra sínum á Íslandi að tala um gjaldeyrismál og mögulega upptöku Kanadadollars á fundi Framsóknarmanna, en sýndist mörgum það meinlaust.
Úr Vínarsáttmálanum:
41. gr. 1. Það er skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda
og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó
þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Á þeim
hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innanlandsmálum
þess ríkis.
2. Öll opinber erindi, sem móttökuríkið varða og falin
eru sendiráðinu af sendiríkinu, skulu rekin hjá utanríkisráðuneyti móttökuríkisins eða hjá öðru ráðuneyti, sem samkomulag verður um, eða fyrir milligöngu þeirra.
Mikilvægt er að fá strax svar við því hver er diplómatisk staða sendiherra ESB hér á landi og heimildir hans til að fara í áróðursferðir um gistiríkið.
Hver er munur á sendiherra ESB og Kanada?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. febrúar 2012
Heimiliskettir ESB í ríkisstjórn mala
Utanríkisráðherra fer mikinn í ESB-umræðunni (eða ESB-vanræðaganginum) og skýlir sér nú á bak við villikettina í VG. Allt tal um að einstakir ráðherrar hafi tafið þá vinnu sýnir best veruleikafirringu þeirra sem slíku halda fram. Staðreyndin er nefnilega sú að Evrópusambandið ræður alfarið ferð, bæði hvað varðar hraða og verklag í ESB viðræðunum. Íslendingar hafa lagt fram sinn hluta í svokallaðri rýnivinnu, þ.e. samanburði á lögum og reglum Íslands og ESB og nú metur ESB á hvaða hraða Ísland getur aðlagast regluverki ESB.
Ekkert liggur fyrir um hvenær erfiðu kaflarnir í samningaviðræðunum um aðild Íslands að ESB verða opnaðir, þ. á m. sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og umhverfismál. Formaður aðlasamninganefndar Íslands segir að ESB hefur sitt verklag, í Mbl. 21. febr. sl.
(Erfiðu kaflarnir óopnaðir) http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1411777/
Erna Bjarnadóttir hagfræðingur Bændasamtakanna fjallar einnig um aðlögunarvinnu Evrópusambandsins í grein sinni: Er sannleikurinn um ESB-aðildarviðræðurnar að koma í ljós?: Forystumenn viðræðnanna af Íslands hálfu viðurkenna að ESB viðhafi sitt verklag og viðræðuferlið lúti lögmálum þess , ekki Íslands. http://mbl.is/greinasafn/grein/1412180/
Hinsvegar er það rétt að ég sem ráðherra neitaði að gefa eftir fyrirfram ýmsa grundvallarhagsmuni Íslendinga og hafnaði fyrirfram aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að ESB.
Utanríkisráðherra belgir sig nú út í fjölmiðlum á Íslandi og ræðir um ESB-umsóknina í brandarastíl eða eins og skemmtiefni á þorrablóti. En slíkur leikaraskapur er aðeins til að breiða yfir hversu lítill kall hann og aðrir íslenskir ESB-sinnaðir ráðherrar eru höndunum á ESB-risanum.
Össur og aðrir íslenskir ESB-ráðherrar mala þýðlega, sleikja útum og milli eyrna, eins og þægum húsköttum ber, og nuddar mjúkum feldinum um bera fætur ESB-stjúpunnar. Og hann, eins og aðrir góðir húskettir, uppsker strokur og klapp á kollinn og smá mjólkurdreitil á IPA-styrkja skálina sína.
En alvarleikinn er hins vegar sá, að í nýju áliti utanríkismálanefndar ESB-þingsins frá 7. febrúar sl. er húsköttunum hælt fyrir hvað þeir hafa gert vel eins og t.d. við uppstokkunina á íslensku ríkisstjórninni um síðustu áramót og hinsvegar minntir á hverju þeir þurfa að hraða eins og að aðlaga stjórnsýslu íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs að kröfum ESB.
Samkvæmt áðurnefndu áliti Utanríkismálanefndar ESB er hin breytta ríkisstjórn nú, eins og góðum húsköttum sæmir, mun leiðitamari ESB en sú sem áður sat:
The European Parliament [ ] expresses confidence that the new Goverment will continue negotiations with an even stronger and more persistent commitment towards the accession process.
Og heimiliskettir ESB í ríkisstjórn sleikja feld sinn og mala.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. febrúar 2012
Þolinmæði VG gagnvart ESB umsókn á þrotum
Vinstrivaktin gegn ESB
Flokksráðsfundur VG var haldinn um helgina. Ég held að öllum flokksmönnum VG sé ljóst að ESB málinu verður að ljúka fyrir næstu alþingiskosningar.
VG fer ekki aftur í kosningabaráttu undir kjörorðinu: Sækjum aldrei um aðild að ESB eins og fyrir síðustu kosningar. Né heldur með slagorði: "Stöndum utan ESB", með umsókn um aðild og aðlögun að ESB á fullu
Ég hef lagt til að kosið verði um ESB í sumar. Ögmundur Jónasson lýsti þeirri skoðun sinni að Alþingi ætti núfyrir vorið að ákveða dagsetningu fyrir lok viðræðnanna sem yrðu að ljúka vel fyrir næstu alþingiskosningar.
Fleiri fundarmenn tóku undir þessar skoðanir okkar Ögmundar en enginn andmælti þeim.
Ragnar Arnalds fjallar um síðasta flokksráðsfund VG á vinstrivaktinni:
Þolinmæði VG gagnvart ESB viðræðum er á þrotum
25.2.2012 | 14:05
Það var þung undiralda á flokksráðsfundi VG og mikil pressa á forystu flokksins að gera hreint fyrir sínum dyrum sem fyrst hvað ESB-viðræður varðar og sjá til þess að þeim ljúki með góðum fyrirvara áður en undirbúningur hefst fyrir þingkosningar á komandi næsta ári.
Við þurfum að koma þessu óþurftarmáli út úr heiminum," sagði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, í harðorðri ræðu. Hann vék m.a. að ályktun utanríkismálanefndar ESB um aðildarferli Íslands.
Við fengum ágæta áminningu um daginn. Hún var frá utanríkismálanefnd Evrópusambandsins. Hún var með skilaboð til Íslands. Og hver voru þessi skilaboð - fyrir utan það að gefa okkur einkunn fyrir það hvernig við stæðum okkur í því almennt að markaðsvæða okkar samfélag og hvetja okkur til þess að ganga enn harðar fram í þeim efnum, meðal annars með því að opna á markaðsvæðingu orkugeirans, raforkugeirans?" spurði Ögmundur. Hann svaraði svo spurningunni og sagði að í skilaboðunum fælist hvatning frá Brussel um að fara að drífa í þessu, að opna fyrir erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi [og] hvatning til þess að fá okkur inn sem allra fyrst vegna þess að hagsmunum Evrópusambandsins væri þá betur gætt á norðurskautinu og á norðurslóðum".
Það væri mikilvægt fyrir Evrópusambandið að fá Ísland undir sína regnhlíf svo hægt væri að gæta betur að hagsmunum, ekki okkar, heldur hagsmunum Evrópusambandsins, ekki náttúrunnar, nei, hagsmunum Evrópusambandsins á norðurslóðum."
Ógeðfelldust fundust mér samt skilaboðin, sem send voru til Jóns Bjarnasonar, þar sem fagnað var að hann væri horfinn úr ríkisstjórn. Utanríkismálanefnd Evrópusambandsins nóterar að það hafi orðið ráðherraskipti 31. desember. En segir jafnframt að nú sé þess að vænta að ásetningur ríkisstjórnarinnar verði nú enn harðari að laga sig að óskum Evrópusambandsins en áður var. Þetta er ógeðfellt. En ekkert að þessu kemur mér á óvart."
En ég segi, hvert er langlundargerð okkar í þessum efnum? Hversu lengi ætlum við að láta niðurlægja okkur með yfirlýsingum af því tagi sem ég var að vitna í hér? Og með því að láta okkur setja mikla fjármuni í þetta ferli allt saman."
Nú legg ég til sem ég hef áður gert, margoft, að Vinstrihreyfingin - grænt framboð segi við Evrópusambandið: Við viljum fá lyktir í þessar viðræður áður en gengið verður til næstu alþingiskosninga og í síðasta lagi á þeim tímapunkti verði málið gert upp í þjóðaratkvæðagreiðslu."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. febrúar 2012
Þjóðaratkvæði um ESB fyrir næstu alþingiskosningar
Aðlögunarferlið að ESB heldur íslensku samfélagi í gíslingu. Við ráðum í raun sáralitlu í þessari vegferð. Evrópusambandið hefur sitt verklag, eins og aðalsamningamaður Íslands segir í mbl. 21. febr. Allsendis er óvíst hvenær ESB telur sig og okkur tilbúin til að opna á viðræður um stóra og viðkvæma málaflokka eins og sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og umhverfismál.
Er það ekki síst vegna þess að framtíðarstefna ESB sjálfs í fiskveiðistjórnun og landbúnaði er í endurskoðun. En jafnframt er okkur gert rækilega ljóst að Íslendingar verði að fara að kröfum ESB í þessum málaflokkum.
Þessum viðræðum er ekkert að ljúka hinsvegar er komið fram að okkur bjóðast engir aðrir kostir en aðlögun að kröfum og skipulagi ESB.
Í vor eru þrjú ár frá því umsóknin var send til ESB. Á þeim tíma var lofað að samningum yrði lokið eða tekin a.m.k. afstaða til þeirra fyrir lok kjörtímabilsins. Framundan er bein aðlögun að ESB, aðeins spurning um tíma á einstaka þáttum.
Bæði Alþingi og íslensku þjóðinni er því ekkert að vanbúnaði að taka afstöðu til málsins:
viljum við halda áfram vegferðinni inn í ESB eða ekki ?
Það þing sem nú situr verður að ákveða fyrir þinglok í vor um framhaldið.
Ég hef lagt til að ESB málið fari í þjóðaratkvæði í sumar, til dæmis samhliða forsetakosningum, en örugglega vel fyrir næstu alþingiskosningar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)