Forsætisráðherra vill ljúka aðildarferlinu að ESB

Jóhanna Sigurðardóttir  forsætisráðherra var ekki í neinum  vafa um  eðli umsóknarinnar  að ESB  í fyrirspurnartíma á Alþingi 16. febr sl.

……….„við þurfum að snúa okkur að því að klára það verkefni sem var lagt af stað með í þessari ríkisstjórn, að ljúka aðildarferli okkar að ESB og snúa okkur að því að breyta hér gjaldmiðlinum.“

Hér talar  forsætisráðherra  fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands.

Hún ætti best að vita hvað „lagt var af stað með“ í þessari ríkisstjórn.

Að hennar mati  er ekki um neinar „könnunarviðræður“ við ESB  að ræða eins og sumir reyna enn að  blekkja þjóðina með.

 Forsætisráðherra staðfestir að  umsóknarferlið snúist nú  grímulaust  um samfellda aðlögun íslensks samfélags að stjórnsýslu ESB, yfirtöku á lögum þess og  reglum. Enda hefur ESB alltaf haldið því fram. Það er ekkert sem heitir að "kíkja" í pakkann.

 Á þetta benti ég  í ríkisstjórn en fékk lítið lof fyrir.  

Með orðum sínum er forsætisráðherra vafalaust fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að bregðast við nýlegri hvatningu Utanríkismálanefndar ESB - þingsins sem fagnaði breytingum á ríkisstjórn Íslands um áramótin síðustu og. Eftir þá breytingu ætti aðlögunin að geta farið á fulla ferð:

B7‑0000/0000

European Parliament resolution on the 2011 progress report on Iceland

6.         “Notes the reshuffle of the Icelandic Government on 31 December 2011; expresses confidence that the new Government will continue negotiations with an even stronger and more persistent commitment towards the accession process;”

(Úr ályktun utanríkismálnefndar ESB þingsins um framgang aðildarumsóknar Íslands að ESB þar sem ríkisstjórnarbreytingum á Íslandi um síðustu áramót er fagnað. )

Grikkir vita hvaðan skipanir koma um þeirra ráðherra 


Að kaupa sér velvild í aðlögun að ESB

ESB er gjafmilt í aðlögunarferlinu. Þegar svokallaðri rýnivinnu er lokið er reynt að leggja mat á hvað það kosti að undirbúa umsóknarríkið fyrir aðild. IPA-styrkir (Instrument for pre-accession assistance) – milljarðar króna, ferðastyrkir og aðlögunarfé -- standa umsóknarríkinu til boða til að breytast í ESB-ríki.

Umræðan er nú um lífeyrissjóðina -- boðsferðir-- vinnuferðir-- í boði þess sem er að kaupa sér velvildina-- ESB kann líka hér til verka.

 Komið við kvikuna

Ummæli Ögmundar Jónassonar a dögunum um að stjórnsýslan og stofnanakerfið íslenska ánetjaðist ESB í gegnum þessa peninga vöktu hörð viðbrögð.  En hver væri annars tilgangurinn með þessum fjármunum? Sveltandi stjórnsýslustofnunum er nokkur vorkunn þót þær ánetjist  en auðvitað eru það stjórnmálamenn sem bera ábyrgðina en ekki embættismenn.
Böggull fylgir þó skammrifi því krafist er að veitt skuli umfangsmikil fríðindi gagnvart þessum aðlögunarstyrkjum. Þingsályktunartillaga og lagafrumvarp þessa efnis liggur nú fyrir Alþingi sem felur í sér að sendiboðum ESB, sem eiga að sannfæra þjóðina um ágæti ESB og undirbúa jarðveginn fyrir aðild, eru boðin ómæld skattfríðindi og persónuleg lögvernd. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur í landsfundarályktunum og flokksráðssamþykktum hafnað móttöku þessara aðlögunarstyrkja.

Verðum að uppfylla kröfur ESB frá fyrsta degi aðildar

Aðildarviðræðurnar við ESB  felast í því að bera saman lög og regluverk Íslands og ESB og skoða hverju Ísland þarf að breyta í sínu kerfi og stjórnsýslu til að falla að regluverki ESB. Fyrir hvern kafla er birt svo kölluð rýniskýrsla.
Að lokinni rýnivinnu ESB metur það hvernig Ísland er í stakk búið til að gangast undir regluverk og innra skipulag ESB á einstökum sviðum. Það er skilyrði af hálfu ESB að Ísland hafi aðlagað sig að öllu regluverki og kröfum ESB áður en hægt er að ljúka „samningum“. Ísland þarf að geta sýnt fram á að það geti starfað sem fullgildur aðili frá fyrsta degi aðildar. Þess vegna erum við í aðlögunarferli að ESB en ekki í samningaviðræðum.

Vissulega tekur aðildin ekki gildi fyrr en Ísland og ríki ESB hafa samþykkt aðildarsamning. Áður en að þeim lokadegi kemur þarf Ísland hins vegar að hafa aðlagað sig að ESB með fullnægjandi hætti að mati ESB
-ríkjanna.

 Umsókn í ESB á krossgötum- framhaldið er hrein aðlögun
Þegar framkvæmdastjórn ESB hefur lokið að rýna í hvern kafla sem hinu svokallaða samningaferli er skipt upp í, en þeir eru 35, gerir hún tillögu til ESB-landanna 27 annað hvort um að Íslendingar séu hæfir til að hefja samninga um kaflann eða þá að okkur er sagt að svo sé ekki og send heim og lesa skilyrði ESB betur
. Það gerðist varðandi kafla 22 um byggðastefnu og kafla 11 um landbúnað og dreifbýlisþróun. Geta má þess að (gagn)rýniskýrsla ESB um kafla 13 um sjávarútvegsmál hefur ekki enn litið dagsins ljós, sem væntanlega er vegna óleystar makríldeilu og  innbyrðis ágreinings ESB-landanna um regluverk til næstu framtíðar fyrir þessa lífæð okkar, sjávarútveginn.

Kröfur ESB liggja nú fyrir

Nú er rýnivinnu ESB að mestu lokið þ.e.a.s. samanburði á lagaverki ESB og Íslands, auk tillagna framkvæmdastjórnarinnar til ráðs ESB um hvernig skuli höndla Ísland í einstökum málum. Þrjú ár verða liðin í vor frá því umsóknin var send og orðið ljóst hvað í boði er. „Samningar“ sem sumir kalla svo geta þá hafist.

„Samningar“ er þó rangnefni því í raun snúast þeir fyrst og fremst um aðlögun okkar að regluverki ESB, hvernig skuli haga röðun og tímasetningu fyrir hvert þrep í aðlöguninni sem verður að hafa átt sér stað áður en viðkomandi kafla af þeim 33 sem um ræðir er lokað.

Hér má minna á að í reynd er það ESB sem tekur ákvörðun um opnun, efnismeðferð og lokun hvers kafla fyrir sig. Allt tal um samningagerð og jafnræði milli aðila við hana er afbjögun. Ekki síst þegar það er meginstefna Íslands að ljúka samningagerð hvað sem það kostar til þess eins að geta borið samninginn undir þjóðaratkvæði.

Eins og ítarlega er rakið hér að framan þá er umsókn Íslands að ESB þessa stundina á afdrifaríkum krossgötum. Enn er hægt að snúa við frá því foraði sem við sjáum að við höfum leiðst út í. Að minnsta kosti er hægt að spyrja þjóðina hvort hún vill fara í þá óafturkræfu aðlögun og miklu óvissu sem fram undan er.

(Úr grein í mbl. 4.febr,: Þjóðaratkvæði um ESB samhliða forsetakosningum )


Að vera sjálfum sér trúr og segja þjóðinni satt

 Ég virði skoðanir opinberra ESB-sinna sem viðurkenna af heilindum samningaviðræðurnar eins og þær eru: aðlögunarferli. Þeir vilja hraða för okkar eins og kostur er inn í sambandið. Þeir eru ekki í neinu „bjölluati“. För annarra er hins vegar heldur verri – þeirra sem tala í vestur en ganga samt í austur þegar ESB-aðild er til umfjöllunar. Slíkur blekkingaleikur sumra íslenskra forystumanna er ekki heiðarlegur og er ólíðandi gagnvart þjóðinni.

Umsókn Íslands að ESB klýfur þjóðina í tvennt. Hvarvetna eru menn tvístígandi – og þeirri spurningu heyrist oftar kastað upp: hvert er framhaldið? Harkan í umræðunni eykst.  Brennimerkingar, fórnir og flokkadrættir munu enn aukast ef framhald verður á, ekki síst þegar stofnanir og stjórnsýsla ánetjast fjárframlögum ESB í aðlögunarferlinu.  Umsóknin hefur komið bæði lagasetningu  Alþingis og vinnu  stjórnsýslunnar í uppnám.   Það er heldur ekki að undra. Margir þeir sem voru hlynntir því að sækja um aðild héldu að hér væri um samningaviðræður að ræða. Þeir héldu í sakleysi sínu að hér gengju tveir fullbærir aðilar til samninga á sjálfstæðum forsendum. Sumir halda enn í þessa óskhyggju og tala um samninga. Lagagerð og reglusmíð ísl. stjórnsýslu taka nú þegar mið af því sem okkur verður gert að uppfylla við inngöngu í ESB.

 Aðlögun en ekki samningar við ESB

Það er mikill misskilningur að hægt sé að leika sér í milliríkjasamningum, að „kíkja hvað sé í pakkanum“. Ríki sem sækir um aðild að Evrópusambandinu fer inn í aðlögunarferli þar sem umsóknarríki tekur jafnt og þétt upp lög og reglugerðir Evrópusambandsins. Ráðamenn í Brussel gera ráð fyrir að umsóknarríki hafi gert upp hug sinn og vilji inn í félagsskapinn. Evrópusambandið býður ekki upp á neinar óskuldbindandi viðræður. Á vefsíðu ESB sem fjallar um stækkun ESB segir orðrétt:

 „Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“

[1] “First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable.” (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf).

Sjá grein mína í mbl. 4. febr . Þjóðaratkvæði um ESB samhliða forsetakosningum


Flugvöllinn í Vatnsmýrinni eða Landspítalann á annan stað

"Ef ekki er hægt að tryggja gott aðgengi landsbyggðarfólks með sjúkraflugi að tilvonandi Landspítala, eins og ein af mikilvægum forsendum staðarvals spítalans við Hringbraut var í upphafi, er nauðsynlegt að hugsa dæmið upp á nýtt og finna honum og flugvellinum nýjan stað svo hann standi undir nafni sem Landspítali – spítali allra landsmanna og þungamiðja í íslensku heilbrigðiskerfi. Reykjavíkurborg gæti þannig fengið aftur Borgarspítalann í Fossvogi og rekið á eigin reikning".

Þetta segir Jakob Ólafsson flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni í grein sinni - Landsbyggðin og Landspítalinn- í Fréttablaðinu 2. febr. sl.

Jakob furðar sig á " landsbyggðarfálæti" Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa og varaformanns Samfylkingarinnar sem sagði á málþingi um flugmál 19. jan. sl. að engu skipti fjarlægð Landspítalans frá flugvellinum fyrir öryggi sjúkraflugs.

Því miður heyrist sami hrokinn og skilningsleysið gagnvart landsbyggðinni frá fleirum félögum Dags í stjórnmálum á höfuðborgarsvæðinu. Þessum hroka og veruleikafirringu einstakra höfuðborgarpólitíkusa þarf að linna og tryggja nú þegar framtíðar stöðu flugvallarins í Vatnsmýrinni.

Grein Jakobs er mjög góð og fylgir hér á eftir í heild sinni:

"Í skýrslu nefndar um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) við Hringbraut frá apríl 2004 er í 10. kafla fjallað um samgöngur við LSH og þar segir m.a.: „Mikilvæg forsenda fyrir staðarvali við Hringbraut var að sýnt þótti, að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs“ og síðan segir: „Hlutverk LSH er m.a. að vera þungamiðja í íslensku heilbrigðiskerfi, en þangað verður leitað ef fjölmenn slys verða jafnframt því sem einstaklingar með smærri vandamál fá þar þjónustu.“ Þá er í skýrslunni fjallað um samgöngumiðstöð sem þjóni flugi, langferðabílum og strætisvögnum og þar með hagsmunum Landspítalans til að uppfylla skyldur sínar við landsbyggðina.

Síðan verða blikur á lofti, ný stjórnvöld taka við og skipt er út nefnd um Landspítalaverkefnið. Áherslur þessara nýju stjórnarherra eru að að losa sig við Reykjavíkurflugvöll með öllum ráðum og láta sem öryggi og hagsmunir landsbyggðarinnar séu þeim óviðkomandi.

Nú eru áherslurnar á gangandi og hjólandi fólk að væntanlegum Landspítala og mismuna þannig þeim sem lengra þurfa að sækja þjónustu á spítalann, eða með sömu rökum og beitt var við staðsetningu og byggingu Háskólans í Reykjavík, en nú í vetrarfærðinni er skólastarfið stendur sem hæst, má telja á fingrum annarrar handar fólk sem gengur eða hjólar í skólann og umferðarþungi bíla á svæðinu hefur hundruðfaldast frá því sem áður var.

Á málþingi um flugmál sem haldinn var 19. janúar sl. kristallaðist þetta landsbyggðarfálæti í orðum nokkurra ræðumanna, m.a. skipulagsfræðings og Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa/læknis, þar sem m.a. kom fram í orðum borgarfulltrúans/læknisins að engu skipti um staðsetningu og vegalengd flugvallarins frá Landspítalanum því þegar fagfólk væri komið á slysstað úti á örkinni þá skipti engu máli tími eða flutningsvegalengd sjúklings af slysstað á spítala. Þetta voru ný sannindi fyrir okkur sem störfum að björgun og sjúkraflutningum, þar sem fyrsti klukkutíminn er talinn skipta sköpum um lífslíkur alvarlega veikra eða slasaðra sjúklinga (svo kallaður „Golden Hour“) og með hverri mínútu þar eftir minnka lífslíkurnar verulega þar sem sjúklingar, m.a. ofkældir, í hjartaáfalli, með heilablóðfall, eða með innvortis blæðingar, sem ekki er möguleiki að greina í þröngu umhverfi sjúkraflugvéla/þyrlna, þurfa að komast með hraði á sjúkrahús til meðhöndlunar ef ekki á illa að fara.

Ef þetta er skoðun borgarfulltrúans/læknisins þá væntanlega kemur hann þessum boðum til sjúkraflutningamanna á höfuðborgarsvæðinu um að ekki sé þörf á forgangsakstri sjúkrabíla af slysstað á spítala á höfuðborgarsvæðinu þar sem ekki liggi neitt á, þeir geti allt eins beðið við stöðvunarskyldumerki og á umferðarljósum eins og aðrir og séu ekki að stofna sér og öðrum í hættu með slíkum forgangsakstri.

Ekki hefur farið hátt um álit sem beðið var um og skilað af þyrluflugstjórum Landhelgisgæslunnar um öryggismál og ónæði af þyrlupalli á þaki tilvonandi Landspítala við Hringbraut eins og stefnt er að í nýju deiliskipulagi svæðisins.
Þyrlupallar á þaki sjúkrahúsbygginga, eins og núverandi nefnd um sjúkrahúsbygginguna leggur til, eru neyðarbrauð þar sem vanalega er um eldri sjúkrahúsbyggingar í þéttbyggðum svæðum að ræða sem taka eiga að sér nýtt hlutverk þar sem ekki er pláss fyrir þyrlupall á öruggu svæði í námunda við spítalann.
Ef þyrlupallar eru settir á nýjar spítalabyggingar er gert ráð fyrir rúmum öryggissvæðum til nauðlendinga við aðflug og brottflug þyrlna að pallinum því ef bilun verður í gírkössum eða stélskrúfu þyrlu við aðflug eða brottflug að þyrlupallinum hefur þyrluáhöfnin afar lítið svigrúm til að beina þyrlunni að heppilegum lendingarstað, aðeins það rými sem er nánast beint fyrir neðan þyrluna er í boði til nauðlendingar og því gæti skapast almannahætta við brotlendingu þyrlu á sjúkrahússvæðinu, í nálægri byggð eða á umferðargötu. Miðað við framtíðarskipulag Landspítalasvæðisins er gert ráð fyrir þéttri byggð og umferðaræðum í nágrenni spítalans og því slík öryggissvæði ekki í boði.
Þá hafa engar mælingar verið gerðar á áhrifum bygginga á vind með tilliti til ókyrrðar og vindsveipa á þyrlupalli sjúkrahússins eða hávaðamælingar á nálæga byggð svo sem í Þingholtum, Skólavörðuholti, Norðurmýri og víðar en sjúkra- og björgunarflug á þyrlum fer fram hvort sem er að nóttu sem degi og því má búast við umtalsverðri röskun á hljóðvist á þessu svæði til framtíðar ef af þessum áformum verður.

Því var það niðurstaða álits þyrluflugstjóranna að útbúið yrði sameiginlegt athafnasvæði þyrlna og sjúkraflugvéla innan flugvallarsvæðisins sem næst sjúkrahúsinu þar sem öryggi sjón- og blindaðflugs að flugbrautum Reykjavíkurflugvallar nyti við. Þá er rétt að hnykkja á því vegna þráhyggju hörðustu flugvallarandstæðinga að þyrlur geta ekki leyst sjúkraflugvélar af hólmi þar sem þær flugvélar sem notaðar eru í sjúkraflugi hér á landi fljúga meira en helmingi hraðar og allt að þrisvar sinnum hærra en þyrlurnar og því fyrsti kostur þegar kemur að sjúkra- og björgunarflugi hér á landi, fyrir utan að vera miklu ódýrari í rekstri en þyrlurnar. Kostir þyrlnanna eru að þær gagnast best til sjúkra- og björgunarflugs í óbyggðum og hinum dreifðari byggðum landsins og í þjónustu við sæfarendur í kringum landið.

Ef ekki er hægt að tryggja gott aðgengi landsbyggðarfólks með sjúkraflugi að tilvonandi Landspítala, eins og ein af mikilvægum forsendum staðarvals spítalans við Hringbraut var í upphafi, er nauðsynlegt að hugsa dæmið upp á nýtt og finna honum og flugvellinum nýjan stað svo hann standi undir nafni sem Landspítali – spítali allra landsmanna og þungamiðja í íslensku heilbrigðiskerfi. Reykjavíkurborg gæti þannig fengið aftur Borgarspítalann í Fossvogi og rekið á eigin reikning.

 

Asni klyfjaður gulli - aðlögun að ESB

ESB- sinnar sækja nú hart á  Alþingi að samþykkja heimildir til að taka á móti ca 5 milljarða sérstökum beinum fjárstuðning (IPA) við Ísland til þess að tryggja að íslensk stjórnsýsla og stofnanir verði tilbúin til að yfirtaka allt regluverk ESB við lok samningsgerðar. Ráðstöfun þessa fjár skal njóta víðtækra skattfríðinda hér á landi.

Málið var rætt á Alþingi í dag.

Fjárstuðningurinn dreifist á næstu þrjú ár, en á þeim tíma á að ljúka samningsferlinu og aðlögun Íslands að ESB.

Mér kemur ekki á óvart  brennandi áhuga Samfylkingarinnar í að þiggja þessar fjárgjafir.

En þeim mun mikilvægara er að þingmenn VG standi í lappirnar og komi í veg fyrir slíka mútuþægni.

Sagt er að engir borgarmúrar séu svo háir að asni klyfjaður gulli komist ekki þar inn fyrir.

Eitt er að hafa sótt um aðild að ESB þvert á vilja þjóðarinnar, en að þiggja beint mútufé til að liðka fyrir aðildarsamningum, það er nokkuð sem Alþingi getur ekki látið bjóða sér.

Þessar fjárgjafir standa aðeins þeim til boða sem sótt hafa um aðild og tilgangur þeirra er grímulaus ; aðlaga regluverk og innri samfélagsgerð umsóknarlandsins að stjórnsýslu ESB.

Ég lýsti andstöðu við þessa tillögur í ríkisstjórn.

Þegar styrkjamálið var rætt í þingflokki Vg lýsti ég ásamt fleiri þingmönnum fullum fyrirvara um stuðning við málið á Alþingi

Enda er sú afstaða okkar í fullu samræmi við grunnstefnu Vinstri grænna og ítrekaðar flokksráðs og landsfundarsamþykktir:

Úr grunnstefnuskrá VG

"Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála.

Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað.

Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of."

Eftir þessari stefnu hef ég farið.

Úr flokksráðssamþykkt VG okt 2010

"………..Til þess að umræðan verði í reynd sanngjörn og lýðræðisleg þarf að nást sátt um skýrar leikreglur sem tryggja jafna stöðu allra sjónarmiða og nái meðal annars utan um kostnað og fjármögnun áróðursstarfsemi. Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins. Ekki verði heldur tekið við styrkjum sem beinlínis eiga að undirbúa aðild.

Flokksráðið hvetur til þess að svo fljótt sem unnt er verði í viðræðuferlinu látið reyna á meginhagsmuni Íslands eins og þeim er lýst í samþykkt Alþingis..."

Hér kemur skýrt fram að ekki skulið tekið á móti aðlögunarstyrkjum

Úr Landsfundarsamþykkt VG okt 2011

"……….Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins.

Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur. .."

Framsögumaður ályktunarinnar á Akureyri tók frram að með aðlögun væri einnig átt við neitun á fjárstyrkjum eins og IPA

Úr Málefnahandbók VG

"Evrópsk samvinna
Samskipti við Evrópusambandið (ESB) ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að ESB réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi geta sjálf tekið ákvarðanir um lagabreytingar hliðstæðar þeim sem ákveðnar eru innan ESB, ef þau svo kjósa og þá út frá eigin forsendum. Aðild að ESB myndi skerða fullveldi Íslands enn frekar en orðið er með EES-samningnum og tefla í tvísýnu yfirráðum Íslendinga yfir auðlindum sínum.

Alþjóðleg viðskipti einkennast í síauknum mæli af því að þar eru þrjú stór markaðssvæði, Evrópusambandið, Ameríka og Suðaustur-Asía. Óráðlegt er fyrir smáríki eins og Ísland sem er bæði mjög háð innflutningi og útflutningi að taka sér stöðu innan tollmúra ESB. Íslendingar verða að geta samið um viðskipti við aðrar þjóðir á eigin forsendum.

Áróður um að Ísland geti gengið í ESB en fengið undanþágur frá grundvallarsáttmálum þess er varasamur. Undanþágur eru jafnan hugsaðar til skamms tíma á meðan aðlögun á sér stað. Íslendingar eiga ekki að sækjast eftir sérsamningum heldur axla sömu ábyrgð og önnur fullvalda ríki á alþjóðavettvangi.

Eðlilegt er að leggja aukna áherslu á lýðræðislega samvinnu á borð við þá sem fram fer í Evrópuráðinu. Þangað senda nær öll ríki álfunnar fulltrúa frá sínum þjóðþingum og skilyrði fyrir aðild lúta að mannréttindum en ekki efnahagsmálum. Evrópuráðið er vettvangur fyrir umræður um ýmis mikilvæg samfélagsleg málefni og samskipti aðildarríkjanna innbyrðis. Þá hefur ráðið haft forgöngu um mikilvæga samninga í umhverfismálum.

Aðild Íslands að Schengen-samkomulaginu um afnám vegabréfaskoðunar var óheillaskref. Í því felst að Íslendingar taka að sér vörslu ytri landamæra Evrópusambandsins og girðingar eru hækkaðar gagnvart öðrum ríkjum og heimshlutum. Schengensamstarfið er að auki kostnaðarsamt og felur í sér víðtæka og varhugaverða skráningu persónuupplýsinga".

Þarna er kveðið fast og vel að orði og ætti að vera öllum ljóst hver stefna VG er í þessum málum. Viðurkennd er sú staðreynd að engir möguleikar eru á varanlegum undanþágum frá grundvallarsáttmála ESB. Hægt væri því að kjósa strax um aðild eða ekki.


Skagafjörður áfram lokaður fyrir dragnót

 

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm yfir íslenska ríkinu en útgerðarfélag krafðist viðurkenningar á því að það væri óbundið af banni við veiðum með dragnót í Skagafirði sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði á með reglugerð.( mbl. 19.01 2012,)

Ég hef lagt mikla áherslu á að loka fjörðum og grunnsævi  í kringum landið fyrir afkastamiklum togveiðiskipum. Mikið hefur áunnist í þeim efnum. Guðjón Arnar Kristjánsson fyrrv. skipstjóri og alþingismaður vann sérstaklega að þessum málum með mér í Sjávarútvegsráðuneytinu. Hefur þetta verið áhersluefnu Vinstri Grænna og einnig er kveðið á um það í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Þessar friðunaraðgerðir mínar mættu  afar harðri og nánast ofstækisfullri gagnrýni af hálfu LÍÚ og hóps í félagi dragnótamanna.

 Ég hef hinsvegar notið mikils stuðnings heimaðila, og gott samstarf hefur verið við marga dragnótarmenn um framkvæmdina.

Lokun Skagafjarðar fyrir dragnót  var kærð til Héraðsdóms og síðan til Hæstaréttar.

 Það var mér sérstakt ánægjuefni að í sl. viku staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms heimild mína og ákvörðun um lokun Skagafjarðar fyrir dragnótaveiðum.

 Komið hefur verið á lokunum á innrihluta fjarða víða í kringum landið.

 Áform voru um frekari friðunaraðgerðir af þessum toga á grunnsævi. 

Innlent | mbl | 19.1.2012 | 16:34

Dragnótaveiðar áfram bannaðar

Dragnótadeilan fyrir dómstóla


Breiðu spjótin

Athygli vekur hversu  heiftug umræðan er um tillöguna að Alþingi afturkalli ákæru sína á hendur Geir H. Haarde.

 Hvað svo sem mönnum finnst um þessa tillögu hefur hún verið úrskurðuð þingtæk og að mínu mati eðlilegt að hún fái þingræðislega meðferð og málefnalega vinnu af hálfu Alþingis.

 Sumir þingmenn virðast hafa tekið sér einkarétt á orðbragði eins og „sótraftar“  um félaga sína sem gera málefnalega og áreitislaust grein fyrir skoðunum sínum.

Kallað er eftir afsögn ráðherra og þingmanna og talað er um svik.

Fyrir suma kann þessi málflutningur að  vera nauðsynlegur til að draga athyglina frá  eigin svikum  eins og t.d. í ESB málunum.

Aðrir kunna að vera  í vörn fyrir forystumenn Samfylkingarinnar sem sátu í hrunstjórninni og dönsuðu þar með Sjálfstæðisflokknum,  en horfa nú gleiðbrosandi á.

Fyrir mér er þetta því miður of kunnuglegt  orðbragð. 

 Þetta er hluti af aðför til losa sig við öfluga félaga  úr trúnaðarstörfum eða ýta þeim úr flokknum.

Þessari aðför er beint gegn þeim sem standa í stafni á skútu þeirra hugsjóna sem, Vinstrihreyfingin  grænt framboð var stofnuð um.

Með þessum hætti  var aðförin að þingmönnunum Atla Gíslasyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Lilju Mósesdóttur.

Og nú skal láta sverfa til stáls gagnvart Ögmundi Jónassyni og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur.

Er nema von að félögum í VG  um allt land blöskri.


Hvar er ráðherraábyrgð Hrunstjórnarinnar

Á þingflokksfundi Vinstri Grænna skömmu fyrir jólahlé var til umræðu boðuð tillaga um að Alþingi samþykkti að draga ákæru sína á hendur Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra til baka.

 Ég gerði þar  grein fyrir þeirri afstöðu minni að ég styddi það að tillaga þess efnis kæmi til umfjöllunar Alþingis.

Að mínu mati  er það lýðræðisleg afgreiðsla að slík tillaga fái efnislega umfjöllun Alþingis komi fram ósk um það. Þessi skoðun mín er óbreytt.

Ég studdi á Alþingi 28.sept 2010 þá tillögu þingmannanefndarinnar að höfða mál gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum, sem hún  tilgreindi fyrir landsdómi. Leit ég svo á að þarna væri um að ræða  ákæru á hendur ákveðnum  handhöfum framkvæmdavaldsins sem  hafi staðið næst því að bera  stjórnsýslulega ábyrgð á tiltekinni atburðarás efnahagshrunsins.

Pólitíska ábyrgðin lá að mínu mati  mun víðar.

-Og hvað með aðra þá ráðherra sem sátu í þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hrunstjórninni,  og sitja enn í ráðherraembættum? Hvar er þeirra ábyrgð?   Hvers vegna sluppu þeir, hef ég spurt mig?-

Jóhanna Sigurðardóttir, Geir H. Haarde, Árni Mathiesen og  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir  sátu öll sem ráðherrar saman í Ríkisfjármálanefnd „hrunstjórnarinnar“:

 ( „Ráðherranefnd um ríkisfjármál skipuleggur markviss vinnubrögð á sviði ríkisfjármála á vettvangi ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð gagnvart ráðuneytum og Alþingi þannig að markvisst verði unnið á sviði ríkisfjármála“.)

 Ég vísa  til harðrar og málefnalegrar gangrýni minnar á græðgis- og einkavæðinguna sem leidd var af forystu fyrrverandi ríkisstjórnarflokka fyrst Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og svo einnig  Samfylkingarinnar, sem dró síst af sér í hrunadansinum.

  Ég viðurkenni að mér brá mjög þegar niðurstöður atkvæðagreiðslunnar á Alþingi 28. sept 2010 leiddu í ljós að aðeins var naumur þingmeirihluti fyrir ákæru á hendur eins ráðherra,  Geirs H. Haarde, en á engan hinna þriggja ráðherranna sem nefndin hafði lagt til.

 Við þá atkvæðagreiðslu  brustu að mínu mati ákveðnar  forsendur sem lagðar voru upp heildstætt af þingmannanefndinni fyrir ákæru fjórmenninganna.

Mér finnst því eðlilegt að Alþingi verði við þeirri ósk að endurskoða málið í ljósi breyttra forsendna og  enn fremur þess sem hefur komið  fram og gerst síðan þingið afgreiddi  málið frá sér.

 


Heilsársvegur í Árneshrepp á undan Vaðlaheiðargöngum

 

Árneshreppsbúar, eitt nyrsta byggðarlag á Íslandi hafa minnt á sig rækilega á undanförnum dögum og bent á með rétti þá mismunun og óöryggi  sem þeir búa við hvað samgöngur varðar.

Það hefur verið yfirlýst stefna og forgangsmál í samgöngumálum þjóðarinnar  að heilsárs vegur nái til  allra byggðarlaga í landinu sé þess nokkur kostur..

Erfiðlega hefur þó gengið að vinna samkvæmt því.  Almennt hefur verið samkomulag um að bættar samgöngur og vegagerð á Vestfjörðum  ættu að vera númer eitt tvö og þrjú í framkvæmdaröð  vegagerðar í landinu enda ástandið þar verst.

Vestfirðingar hafa  þó mátt búa við  ítrekaða frestun og niðurskurð á framkvæmdum,  m.a vegna ofþenslu á öðrum  landsvæðum einkum á suðvesturhorninu og síðan vegna kreppu á sömu svæðum.

Núverandi samgönguráðherra Ögmundur Jónasson hefur lagt til að meginhluti þess framkvæmdafjár sem ætlað er til vegaframkvæmda samkvæmt fjárlögum  verið á næstunni  varið til vegagerðar á Vestfjörðum. Mér finnst það  hárrétt forgangsröðun.

Vegurinn norður  Strandir í Árneshrepp stendur þó  útaf í þeim tillögum sem nú liggja fyrir alþingi.

Brýnt er að Alþingi standi við fyrri yfirlýsingar og  taki á samgöngumálum Árneshreppsbúa af fullri einurð;  bæta þjónustuna á núverandi vegi  og tryggja framkvæmdafé til heilsársvegagerðar í áföngum  til byggðarlagsins á næstu fjórum árum.


Strandveiði og skötuselur brutu ísinn

Jón segir að strandveiðifrumvarpið og  skötuselsmálið fræga hafi tekið mikið á og forysta Samtaka atvinnulífsins og LÍÚ hafi brugðist hart við með hótunum,  auglýsingaherferð og uppsögn stöðuleikasáttmálans.

 Þeir hrópuðu „ svik „ og vitnuðu  til loforðs forystumanna ríkisstjórnarinnar  við gerð stöðugleikasáttmála um að ekki yrði hróflað við fiskveiðistjórnarkerfinu.

 Sjálfur segist Jón ekki hafa vitað af slíku loforði.

Tekist hafi að koma  strandveiðunum,  skötuselsmálinu , auknum byggðaheimildum og ýmsum öðrum mikilvægum breytingum  í gegnum þingið, þrátt fyrir ítrekaðar og harðar tilraunir til að koma í veg fyrir afgreiðslu þess máls.  Þakkar Jón  Atla Gíslasyni, þáverandi formanni sjávarútvegsnefndar, fyrir dyggan stuðning og mikla vinnu að málinu.

 „Eftir að ég kom fram með skötuselsmálið  fræga  í þinginu og það var talið svik á samkomulagi sem forystumenn ríkisstjórnarflokkanna höfðu gert við SA og LÍÚ  þá varð mér það alveg ljóst að þeim sömu  var alls ekki kappsmál að breyta á þeim tíma  miklu í fiskveiðistjórnuninni.“

( Byggt á viðtali , Ágúst Ingi Jónsson ræðir við Jón Bjarnason,  7. jan. 2012 )


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband