Stóra-fiskveiðifrumvarpið og SLYS Samfylkingarinnar

Ég gerði athugasemd strax við stjórnarmyndun vorið 2009 við þá kröfu Samfylkingarinnar að forræði starfshóps sem átti að fjalla um grundvallar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu yrði hjá Samfylkingunni en ekki Vinstri Grænum, flokki sjávarútvegsráðherra. Að kröfu Samfylkingarinnar var  Guðbjartur Hannesson, nú velferðarráðherra  tilnefndur  formaður starfshópsins.

Hópnum var fyrst gert að skila 1. sept. sama ár , síðan 1. nóv en starf hans dróst og dróst. til 1. sept 2010 „Ég var ítrekað kominn á fremsta hlunn með að leysa upp starfshópinn þannig að  ég gæti farið að vinna að málinu, en þá var alltaf rekið upp mikið ramakvein hjá forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna.“ segir Jón.

Þegar Guðbjartshópurinn hafði skilað af sér ári síðar en ráðgert var  tók við vinna í ráðuneytinu. Jafnframt var þá um haustið skipuð  6 manna nefnd þingmanna stjórnarflokkanna sem reyndi að ná samkomulagi um megináherslur frumvarpsins. Gekk þar á ýmsu.  Í lok febrúar á síðasta ári komu  auk þingmannanna ,ráðherrarnir Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, og síðar Guðbjartur Hannesson  einnig að málinu.

„Þá hófst aftur  verulegt skæklatog, sem endaði með því að gengið var frá frumvarpi til nýrra heildarlaga um miðjan maí sl.,“ segir Jón, sem ríkisstjórnin stóð öll að.  Þetta frumvarp fór fyrir alþingi og eftir ítarlegar umræður til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sem sendi það út til umsagnar.

Vissulega var  Stóra  frumvarpið í mörgu mjög róttækt og hlaut að mæta harðri gangrýni þeirra sem töldu sig eiga sjávarauðlindina. En  ýmsu var bætt inn í frumvarpið  á síðustu metrum í ríkisstjórn að kröfu fulltrúa Samfylkingar  sem mér var ekki allt að skapi. Þeir hinir sömu voru fljótir að hlaupast frá frumvarpinu þegar gagnrýnin kom fram og aðrir Samfylkingarráðherrar sem að því stóðu töluðu um „ slys“.

Málið var nú komið til þingsins  í hendur sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar  sem hafði forsjá á því frá því í byrjun júní og til loka september- 4 mánuði  án þess að nokkur vinna væri unnin af hálfu nefndarinnar.

Frumvarpið kom  loks aftur til ráðuneytisins í byrjun  október sl. haust  og á rúmum fjórum vikum var farið yfir umsagnir og athugasemdir við upphaflega frumvarpið og á grundvelli þessara gagna  vann hópur á vegum ráðuneytisins tillögur að  heildstæðu frumvarpi, sem lagt var fram í ríkisstjórn sem vinnuskjal ásamt öðrum gögnum um miðjan nóvember.

„Ég fór með þessar vinnutillögur inn í ríkisstjórn í nóvember og óskaði eftir að fá að taka þær til umræðu  ásamt athugasemdum við upphaflega frumvarpið og síðan ræða  málið í  þingflokkum, meðal almennings og hagsmunaaðila áður en gengið yrði í að semja endanlegt frumvarp.

Mér var  hins vegar meinað að kynna málið efnislega í ríkisstjórn og því var hafnað að ég fengi að fara með það fyrir þingflokkana og ræða málið þar. En af hálfu ráðuneytisins  var það  sett til almennrar kynningar á vef þess  í lok nóvember. Í framhaldinu ákvað forsætisráðherra að setja á sérstaka ráðherranefnd Guðbjarts Hannessonar og Katrínar Jakobsdóttur til að fara yfir þessar vinnutillögur. Ég mótmælti og sagði þetta óeðlileg og í raun fáránleg vinnubrögð og aðeins gert til að tefja málið.

 Varð  ég auk þess  fyrir vonbrigðum með að samflokksráðherra  minn Katrín Jakobsdóttir  skyldi þá taka þátt í þessari aðför. Ekki vissi ég af sértækri  þekkingu hennar á stjórn fiskveiða. En ég  gerði mér jafnframt  ljóst að inngrip forystumanna ríkisstjórnarflokkanna lutu að  afstöðu minni í öðrum málum  en ekki af  umhyggju fyrir breytingum á fiskveiðistjórninni.

Forsætisráðherra gaf  ráðherranefndinni upphaflega  ein  vika til þessarar vinnu, en þau eru enn að.“

Þegar á heildina er litið hefur Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið  haft  „ Stóra fiskveiði frumvarpið“ í sínum höndum um  fjóra  til fimm mánuði  af þessum liðlega 30 sem ríkisstjórnin hefur setið.

 ( Byggt á viðtali, Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. janúar 2012) 


Að verja hagsmuni og samningsstöðu Íslands í ESB - viðræðum

 

„Það hefur verið þrýstingur frá  Evrópusambandinu, utanríkisráðuneytinu og þeim í forystu ríkisstjórnarinnar  sem fara með þessi mál að  ganga stöðugt lengra í aðildarferlinu að ESB ,“ segir Jón Bjarnason.

 Hann nefnir að fyrir um tveimur árum samþykkti Alþingi að innleiða matvælalöggjöf EES og ESB, en alþingi  samþykkti jafnframt að viðhalda banni á  innflutningi á hráu ófrosnu kjöti og lifandi dýrum. Enda var það  eitt  af kosningaloforðum VG.  

Nú krefst Evrópusambandið þess að landið verði opnað fyrir innflutningi á hráu ófrosnu kjöti og lifandi dýrum frá ESB og  þess vegna er kengur  í ESB- viðræðunum  um landbúnaðarmál.

Slíkur innflutningur myndi eins og kunnugt er ógna heilsu og lífi viðkvæmra íslenskra búfjártegunda

„Slagurinn stendur um það hvort við ætlum að gefa þennan innflutning eftir fyrirfram eða alls ekki. Ég sagði nei, við gefum þetta ekki eftir fyrirfram.

“Við verðum að gæta okkur á því að gera ekkert í þessu ferli sem getur skaðað hagsmuni eða  samningsstöðu Íslands.

 Við förum ekki að skrifa lög og reglur um innleiðingu á hinu evrópska landbúnaðarkerfi inn í íslenska löggjöf  fyrr en búið er þá að semja um hvað við ætlum okkur  að yfirtaka og hvað ekki“.

„ Að kröfu forystu ríkisstjórnarinnar  átti ég  að samþykkja að einhverjum  dönskum dýralækni yrði falið að leggja  mat á áhættuna fyrir Ísland  að heimila óheftan  innflutning á hráu, ófrosnu kjöti og lifandi dýrum frá ESB.  

Ég heyrði hvað klukkan sló og harðneitaði að framselja þennan rétt Íslands  til dansks dýralæknis þó svo að Danir verði í forsvari í Evrópuviðræðunum á næstunni.

 Við myndum leita til okkar innlendu sérfræðinga sem þekktu í raun þá hagsmuni sem í húfi eru.  

 Ég  skipaði sem ráðherra  innlendan starfshóp sérfræðinga  sem hefur það hlutverk að verja hagsmuni okkar í þessum efnum en ekki til að gefa þá eftir.

 

(Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. jan 2012)

(Hópinn skipa:

 

Vilhjálmur Svansson dýralæknir  sérfræðingur í veirusjúkdómum  Keldum

Auður Lilja  Arnþórsdóttir dýralæknir og  sérfræðingur Matvælastofnun

Konráð Konráðsson dýralæknir og sérfræðingur  Matvælastofnun

Ólafur Dýrmundsson búfjárfræðingur  B. Í

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur  B.Í

Guðmundur Sigþórsson sérfræðingur í ESB málum

Ingimar Jóhannsson skrifstofustjóri SLR,  formaður

Hópurinn hefur kvatt til Stefán Má Stefánsson  prófessor og  hrl. til lögfræðivinnu.)


VG getur enn rétt af kúrsinn


Ef okkar flokkur færist aftur á réttan veg og stendur vörð um þau gildi sem hann er stofnaður um, félagsleg, umhverfisleg, samfélagsleg og jafnréttisleg og síðam fullveldi Íslands þá þarf ekki að stofna aðra flokka á þessum væng stjórnmálanna. Það eru verkin sem tala í þessu. Það dugar ekki að flokkar gangi langt frá stefnu sinni í framkvæmd og hafa hana bara til spari í orðum.

Ef við ekki réttum okkar kúrs í pólitík VG þá koma aðrir sem vilja taka þann fána. Þess vegna er svo brýnt að rétta af kúrsinn og hvetja það fólk sem stóð að því að byggja upp hugsjónir þessa flokks að láta ekki deigan síga, láta ekki mæðast, heldur taka slaginn og rétta flokkinn við. Hann hefur villst af braut, um það er ekki vafi, og á skoðanakönnunum sjáum við að fylgið hefur minnkað mikið frá síðustu kosningum. Flokkurinn verður að fara inn á þá braut sem hann var stofnaður til.“

... Það lenda allir flokkar í þeim vandræðum að forystumenn þeirra villast af leið, en þá er bara að skifta þeim út eða kippa þeim inn á sporið aftur. Ég hef ekkert breyst, hugsjónirnar eru þær sömu, viljinn og löngunin til að hafa áhrif. Ég er sáttur við þau tækifæri sem ég hef fengið sem ráðherra og þingmaður og er tilbúinn að verja  áfram kröftum, þreki og hugsjónum í þágu þess málstaðar sem ég hef barist fyrir með fjölmörgu góðu fólki.“

 (Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. janúar 2012)


Norrænt velferðarkerfi?

Við þær aðstæður sem voru uppi var gripið til niðurskurðar á mörgum sviðum og skattahækkana. Er þessi ríkisstjórn að hverfa frá hugsjónum um norrænt verlferðarsamfélag?

Ég tel að það hafi verið gengið alltof langt í niðurskurði og að við höfum farið frá grunnggildum VG, t.d. félagslegum, velferðarlegum og byggðalegum. Svo ekki sé nú talað um heilbrigðisþjónustuna almennt og heilbrigðisstofnanir úti um allt land. Ég tel að við höfum gefið of mikið eftir og hef gagnrýnt það í ríkisstjórn. Með forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hefur verið sveigt frá hugsjónum VG, sem ég hef reynt að standa vörð um.

... Samfylkingin er upprunnin í gamla Alþýðuflokknum, sem hafði litlar mætur á íslenskum landbúnaði og málefnum landsbyggðarinnar. Andstaðan ýmissa á þeim bæ  gegn mér  kom mér því ekkert sérstaklega á óvart. Þar er þó gott fólk innanborðs en í Samfylkingunni eru líka margir sem skilja ekki í hverju fæðuöryggi þjóðar er og leggja meiri áherslu á takmarkalausan og hömlulausan innflutning heldur en að standa vörð um íslenska landbúnaðarframleiðslu.

(Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. janúar 2012)


Hné farin að bogna á ýmsum í okkar liði

Þegar leið á kosningabaráttuna 2009 fannst mér vera farin að bogna hnén á ýmsum forystumönnum  í okkar liði í þessum efnum. Þegar síðan kom að stjórnarmyndun var alveg ljóst frá byrjun að ESB-aðild var grunnatriði í málflutningi Samfylkingarinnar. Þeir forystumenn okkar  sem stýrðu þessum viðræðum gáfu þarna eftir eitt aðal baráttumál flokksins.

Sjálfstæði okkar er fólgið í því að eiga rétt á að semja á okkar forsendum, en um það það virðast skiptar skoðanir. Ég hef sagt að við göngum til þessara viðræðna á sjálfstæðum forsendum, en ekki undir einhverju mútufé eins og þessir IPA-styrkir eru. Þarna er fullkominn ágreiningur á milli mín og forystu ríkisstjórnarinnar. ESB er vant því að ríki sæki um aðild til þess að komast inn. Hjá okkur samþykkti Alþingi með naumum meirihluta að senda inn umsókn og ég var meðal þeirra sem greiddi atkvæði gegn því. En Alþingi samþykkti aldrei að hér yrði tekið við milljörðum króna til þess að undirbúa íslenska stjórnsýslu

Ég hef lagt grunngildi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til grundvallar í afstöðu minni og hef sagt að ef fara ætti í þessa vegferð ætti fyrst að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

... Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur stutt mig afdráttarlasut í þessari baráttu og  Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefur líka lýst afdráttarlausum skoðunum sínum um að ganga ekki í Evrópusambandið og af honum hefur verið mikill stuðningur í ríkisstjórn . Ég vona að aðrir ráðherrar VG í ríkisstjórn séu einnig andvígir aðild, en ég hefði viljað sjá þá beita sér af alvöru í málinu.

(Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. janúar 2012)


Vildu tengja viðræður um ESB-aðild og makríldeilu

Á síðasta starfsdegi sínum í embætti sjávarútvegsráðherra, 30. desember, tilkynnti Jón um makrílkvóta Íslendinga á þessu ári, en síðar í þessum mánuði er ráðgerður viðræðufundur strandríkja um skiptingu aflaheimilda. Aðspurður hvort hann hafi óttast að makríllinn yrði skiptimynt í viðræðum Íslands og ESB segir Jón að Evrópusambandið hafi  ítrekað  tengt saman deiluna um skiptingu makrílkvótas og ESB-viðræðurnar. Hann hafi ávallt hafnað því og sagt að makríllinn væri sjálfstætt samningsmál eins og samið hafi verið um kolmunna, loðnu og fleiri tegundir.

...Hótanir hafa komið beint frá æðstu yfirmönnum Evrópusambandsins um að makríllinn og ESB. Ég gerði grein fyrir stöðu málsins í ríkisstjórn í byrjun desember að loknum árangurslausum fundi  strandríkjanna  á Írlandi. Um leið tilkynnti ég  að við myndum taka okkur sömu hlutdeild 2012 og við höfum haft tvö undanfarin ár. Sumir ráðherrar voru mjög taugaóstyrkir yfir því að ákvörðun mín um  makrílveiðarnar myndu hafa áhrif á ESB-viðræðurnar.. Ég lagði mikla áherslu á að við stæðum á okkar rétti. Í beinu framhaldi af því að hafa gert ríkisstjórninni grein fyrir málinu gaf ég út makrílvóta Íslendinga  2012. Það þarf að fara að undirbúa veiðarnar og ástæðulaust að láta þetta vera eitthvað vafamál... Titringur og afskipti ESB komu strax í ljós og það var örugglega betra að ég væri búinn að ganga frá þessu.

(Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. janúar 2012)


Er ríkisstjórninni treystandi í ESB

...Það eru stór orð að segja það en ég treysti ekki þeim sem þarna véla um. Málið er í forsjá utanríkisráðuneytisins, síðan kemur að málinu sérstök ráðherranefnd Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar og Katrínar Jakobsdóttur og loks er það samninganefnd Íslands. Undir það síðasta fann ég að Evrópusambandsmálin voru að fara í þann farveg að nú yrði farið að gefa alvarlega eftir og að mínu mati miklu meira heldur en samþykkt Alþingis heimilar.

Nú þegar er að koma að vendipunktum í þessu ferli var ég látinn heyra það af forystu ríkisstjórnarflokkannna að ef ég léti ekki undan yrði það ekki vel séð. Eins og við sjáum á umfjöllun síðustu daga þá var það sameiginleg krafa bæði forystu Samfylkingar og ýmissa í forystu VG að ég hætti í ríkisstjórn. Mér skilst að hafi nú verið skálað í kampavíni  bæði í Brussel og ESB hæðum utanríkisráðuneytisins og ýmsir þar brosað á milli eyrna.

(Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. janúar 2012)


Landbúnaðurinn í ESB viðræðunum

Í landbúnaðinum hafa aðilar í stjórnkerfinu lagt hart að mér að gefa t.d. strax  eftir, verndartolla landbúnaðar og bann við innflutningi á hráu ófrystu kjöti sem var nýlega staðfest í matvælalögum. Það og innflutningur lifandi dýra sem ESB gerir kröfu um getur haft mjög alvarleg áhrif á viðkvæmar búfjártegundir okkar og ógnað forsendum íslensks landbúnaðar og fæðuöryggi þjóðarinnar . Við sem þekkjum til í landbúnaði vitum hvaða áhrif karakúlféð hafði á sínum tíma og seinna hrossapestin árið 2010. Í reynd getur óvarlegur innflutningur rústað hér íslenskum landbúnaði sem er vegna landfræðilegrar stöðu afar viðkvæmur.

Þegar íslenskir samningamenn tala um þessi mál við viðræðuborð Evrópusambandsins þá hefur það áhrif á stöðu okkar til dæmis innan WTO og skaðar þannig okkar rétt að þar verður erfitt að bæta úr. Landbúnaðurinn er grundvöllur hinnar dreifðu byggðar í landinu og fæðuöryggis og ef við fyrirgerum honum og möguleikum dreifbýlisins þá erum við að skila landinu umtalsvert fátækara til afkomenda okkar. Og við höfum líka í þessu efni mjög ríkar alþjóðlegar skyldur til að standa hér vörð um þá búfjárstofna sem hafa fylgt þjóðinni og eru ekki til annarsstaðar. Þær skyldur verða ekki uppfylltar án þess að hér sé rekinn lifandi og öflugur landbúnaður.   

(Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. janúar 2012)


Hættuleg staða í ESB viðræðum

Ég held að staðan í viðræðunum við Evrópusambandið hvað varðar bæði sjávarútveg og landbúnað sé á miklu hættulegra stigi heldur en menn gera sér grein fyrir. Það er eins og fólk hafi farið upp á einhvern ESB-vagn sem er í raun hringekja, sem snýst hraðar og hraðar. Menn þora ekki að hoppa af þó þeir sjái að það stefni í ógöngur. Öll rökhugsun tapast og allt í einu ertu farinn að velta því fyrir þér hvernig þú getir þóknast þeim sem stýrir hringekjunni. Það er hættulegast og auðvitað á að slíta þessum viðræðum.

Stærsta blekkingin í öllu aðildarferlinu er að við höldum að við getum leikið okkur að alþjóðasamningum bara til að sjá hvað sé í boði. Það gildir í þessum samningum eins og allri samningatækni að það skapar mjög hættuleg fordæmi að gefa hagsmuni þjóðarinnar eftir við samningaborð og segja svo, þjóðin getur bara valið. Þannig getur þetta ekki gengið fyrir sig. Ef við til dæmis gefum eftir rétt okkar til samninga um deilistofna í sjávarútvegi eins og formaður samningahóps um sjávarútveg hefur ýjað að í viðræðu hér heima þá hefur það gríðarleg áhrif á framtíðarstöðu okkar við samningaborð þó svo að ekki yrði úr aðild. Við erum hér að tala um 40% af heildartekjum sjávarútvegsins sem eru í húfi bara í þessu máli. Óvarleg umgengni um þessa hagsmuni getur haft gríðarleg bein áhrif á lífskjör okkar á Íslandi. Þetta er eitt dæmi þar sem samningaviðræðurnar eru á hættulegu stigi út frá þjóðarhagsmunum.

(Ágúst Ingi Jónsson, Mbl. ræðir við Jón Bjarnason 7. janúar 2012)


Erla Kristinsdóttir nýr stjórnarformaður Hafrannsóknastofnunarinnar

Skessuhorn segir myndarlega frá ákvörðun minni um að skipa Erlu Kristinsdóttur á Rifi á Snæfellsnesi sem stjórnarformann Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég vil hér nota tækifærið til að óska Erlu farsældar í starfi. Frétt Skessuhorns er svohljóðandi:

"Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði nýjan stjórnarformann Hafrannsóknastofnunar daginn áður en hann hætti sem ráðherra. Nýr formaður stjórnar er Erla Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávariðjunnar í Rifi, en hún hefur einnig setið í stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva. Erla er bæði með Cand. Ocon próf og meistarapróf í viðskiptafræði og hefur rekið Sjávariðjuna í Rifi í 18 ár. Fráfarandi formaður stjórnar Hafró er Friðrik Már Baldursson.

Í samtali við blaðamann Skessuhorns segist Erla þakklát fyrir það traust sem henni hefur verið sýnt en telur ekki tímabært að tjá sig frekar um ráðninguna sökum þeirrar óvissu sem hefur skapast við ráðherraskiptin í lok árs. "


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband