Yfirlýsing Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

30.12.2011 

Krafa um úrsögn mína úr ríkisstjórn sem nú hefur náð fram að ganga er eins og ítrekað hefur komið fram, komin til vegna afstöðu minnar til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ég stend persónulega sáttur upp frá borði eftir árangursríkan ráðherraferil.

En um leið harma ég þessi málalok fyrir minn flokk, kjósendur VG og einnig þann málstað sem hefur verið hornsteinn í okkar stefnu. Það er mér mikið áhyggjuefni hvernig formaður VG heldur hér á málum gagnvart samstarfsflokki sínum án þess að hlusta á lýðræðislegar stofnanir og grasrót Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Ég tel að með þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir sé enn og aftur höggvið stórt skarð í þann trúverðugleika sem VG hefur haft sem stjórnmálahreyfing. Okkur sem stöndum vaktina fyrir hugsjónir VG bíður mikið og erfitt verkefni endurreisnar. Þar mun ég ekki liggja á liði mínu og ég heiti á mitt stuðningsfólk að vinna að málefnum okkar og þeirri vinstristefnu sem hreyfing okkar hefur staðið fyrir allt frá stofnun. Á því þarf Vinstrihreyfingin grænt framboð og sá málstaður sem hún var stofnuð um nú meira á að halda en nokkru sinni.

Einn af hornsteinum í stefnu VG er krafan um fullveldi Íslands og þar með afdráttarlaus andstaða við aðild að ESB. Við myndun meirihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2009 var um það samið milli flokkanna að virða skyldi ólíkar áherslur í þessu deilumáli. Atburðarásin sem síðan hefur átt sér stað sýnir okkur að þar fylgdi ekki hugur máli hjá þeim sem ötulast berjast fyrir aðild að ESB. Nú er svo komið að þrír af þingmönnum VG hafa gengið út og mér sem ráðherra er vikið úr embætti fyrir að vilja gæta vel að hagsmunum Íslands í þessum málum.

Undir minni forystu hefur mikil vinna farið fram innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við aðildarumsókn að ESB í samræmi við fyrirmæli Alþingis. Þess hefur jafnframt verið gætt að í engu sé farið út fyrir það umboð sem Alþingi veitti ríkisstjórninni með þingsályktunartillögu sinni þann 16. júlí 2009. Slík varfærni og ábyrgð er afar mikilvæg þegar um er að ræða meðferð íslenskra hagsmuna í milliríkjasamningum. Án efa mun brotthvarf mitt úr ríkisstjórn gleðja marga þá sem ákafast berjast fyrir skilyrðislausri aðild Íslands að ESB og telja sértæka hagsmuni Íslands litlu skipta.
Um leið og ég óska ráðherrum velfarnaðar í störfum sínum og þakka samráðherrum mínum samstarfið vil ég senda stuðningsfólki og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilegt ár og farsælt komandi ár.

Jón Bjarnason


Sex af hverjum tíu andvígir ESB aðild

Ný könnun  Gallup sýnir afgerandi andstöðu íslensku þjóðarinnar við áform um inngöngu landsins í Evrópusambandið.

Liðlega 6 af hverjum 10 sem afstöðu tóku  í könnuninni eru andvíg aðild.

Þessi niðurstaða kemur mér ekki á óvart og er í fullu samræmi við þau viðhorf sem ég mæti á ferðum mínum um landið.  Sérstaklega  er athyglisvert   að meirihluti aðspurðara  var einnig ósammála þeir ákvörðun Alþingis að sækja um aðild að ESB.

Könnunin var gerð  að beiðni Samtaka Iðnaðarins.

Margir í forystu Samtaka Iðnaðarins  hafa  að undanförnu verið mjög hvetjandi aðildar að ESB og rekið fyrir henni harðan áróður.

  Spurning  er nú hvort niðurstöður þessarar könnunar  breyti   stefnu  S I í ESB málum.

Ýmsum finnst að stjórnsýsla landsins hafi í nógu öðru þarfara að snúast  en  að fleiri   tugir manna sitji kófsveitt við að svara löngum spurningalistum  frá Evrópusambandinu.  Könnunin gefur sterka vísbendingu um að meirihluti þjóðarinnar sé sama sinnis.

Ég óska vinstri meirihlutanum á Noregi til hamingju með kosningasigurinn .

Jafnframt fagna ég yfirlýsingum foystumanna flokkanna um að umsókn  um  aðild að ESB sé ekki á dagskrá norsku ríkisstjórnarinnar 

Íslenskt sement

 

Ég tók málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi upp í ríkisstjórn í morgun.

Mikilvægt er að allt sé gert sem mögulegt er til að verja stöðu og  framtíð íslenskrar sementsframleiðslu. Hef ég áður tekið málefni Sementsverksmiðjunnar upp á Alþingi og í greinaskrifum http://skessuhorn.is/Default.asp?Sid_Id=21464&tre_rod=001|011|&tId=2&FRE_ID=84356&Meira=1

Það ríkja nú  neyðarlög á sviði fjármála- og viðskiptalífs landsins. Í gildi eru lög um  gjaldeyrishöft og barist er fyrir hverju starfi sem skilar verðmætum í þjóðarbúið og sparar erlendan gjaldeyri. Það skýtur því skökku við að opinberir aðilar skulu áfram kaupa innflutt sement til sinna framkvæmda á sama tíma og barist er fyrir lífi og framtíð íslenskar sementsframleiðslu:

“Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hvetur ríkisstjórn Íslands til að standa vörð um Sementsverksmiðjuna og sjái til þess að fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins  styðji  íslenska framleiðslu og um leið noti íslenskt sement. Veljum íslenskt!”, segir í nýrri ályktun Verkalýðsfélagsins.

.... “ Ef það eru tveir valkostir í boði, íslensk einokun  eða dönsk þá vildi ég þessa íslensku “ ,sagði Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins ( í frétt á Stöð 2 , 30 jan. sl.)

 Brennsla úrgangs

Þá hafa forsvarsmenn verksmiðjunnar bent á að hún geti brennt um 20.000 tonnum af flokkuðum úrgangi í gjallofni verksmiðjunnar sem annars yrði að farga með mjög  kostnaðarsömum hætti.

“Með brennslu úrgangs tekur Sementsverksmiðjan þátt í lausn á því samfélagslega  verkefni að minnka úrgang og urðun hans og öðlast verksmiðjan þar með nýtt hlutverk í íslensku samfélagi”

eins og segir í minnisblaði Gunnars H. Sigurðssonar framkvæmdastjóra  sem kynnt var í ríkisstjórn.

 Verksmiðjan hefur því fjölþætt hlutverk í íslensku samfélagi.

Ríkisstjórnin samþykkti að fela iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra  að kanna þessi mál og skila um það áliti.

Sjá meðfylgjandi frétt á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness.

  
21. ágúst 2009 09:17

Sementsverksmiðjan berst fyrir lífi sínu

Störf í hættu

Það er óhætt að segja að sá mikli samdráttur sem nú er að eiga sér stað á byggingarmarkaðnum í kjölfar bankahrunsins sé að gera starfssemi Sementsverksmiðjunnar erfitt fyrir en töluverður samdráttur hefur verið á sölu sements á þessu ári.  Viðræður standa nú yfir við forsvarsmenn Sementsverksmiðjunnar um að lækka starfshlutfall starfsmanna tímabundið niður í 50% vegna þess samdráttar sem nú á sér stað í sölu á sementi. Það vekur upp mikla furðu hjá formanni Verkalýðsfélags Akraness og starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar að fyrirtæki sem er í eigu íslenska ríkisins skuli kaupa innflutt  sementi frá Danmörku á sama tíma verksmiðjan hér á Akranesi berst fyrir lífi sínu.  Það er Aalborg Portland Helguvík sem er íslenskt fyrirtæki í eigu Dana sem flytur inn sement frá Danmörku og hafa verið flutt inn rúm 20 þús tonn á þessu ári að verðmæti ca 240 milljóna í gjaldeyri.  Í fyrra var flutt inn um 111 þúsund tonn af dönsku sementi. Helsti kúnni Aalborg sem flytur inn danska sementið er Steypustöðin h.f sem er í eigu Íslandsbanka og eins og flestir vita er Íslandsbanki í eigu ríkisins. Það vekur einnig um mikla furðu að verið er að nota innflutt dansk sement í Hellisheiðarvirkjun sem Orkuveitan er að gera en rétt er að geta þess að Akranesbær á 5 % í Orkuveitunni.  Það er einnig verið að nota danska steypu við brúarsmíði yfir Hvítá á vegum Vegagerðar ríkisins.  Það er ámælisvert að opinberir aðilar eins og ríkið og Orkuveita Reykjavíkur skuli ekki styðja íslenska framleiðslu og um leið leggja grunn að trygggari starfsemi Sementsverksmiðjunnar sem hefur þjónað okkur Íslendingum allt frá árinu 1958 eða í rúm 50 ár.

Sementsverksmiðjan á Akranesi hefur frá upphafi skilað þjóðinni miklum arði. Hún hefur framleitt rúmlega 5,5 milljónir tonna af sementi úr innlendu hráefni og sparað þjóðinni þann gjaldeyri sem annars hefði verið varið til innflutnings á sementi. Verði stoðunum kippt undan starfsemi verksmiðjunnar mun það hafa alvarlegar afleiðingar.  Um 50 manns og um 90 afleidd störf glatast, tækniþekking sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum verður að engu og sement sem er aðlagað að þörfum íslensks markaðar, víkur fyrir innfluttu sementi.  Rétt er að geta þess að íslenska sementið er um 95% íslenskt hráefni. Það verður að standa vörð um þá framleiðslu og störf sem unnin er í Sementverksmiðjunni hér á Akranesi með öllum tiltækum ráðum enda hefur hún skilað íslensku samfélagi miklum arði og sparað gríðarlegan gjaldeyrir fyrir þjóðarbúið.  Íslenskt atvinnulíf má alls ekki við því að tapa fleirum störfum en orðið er og því verðum við að styðja íslenska framleiðslu.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hvetur ríkisstjórn Íslands til að standa vörð um Sementsverksmiðjunna og sjá til þess að fyrirtæki í eigu ríksins styðji íslenska framleiðslu og um leið noti íslenskt sement.  Veljum Íslenskt.

 

E S B og þjóðarpúlsinn

Mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu í ESB eða 58,3%.  Sama könnun sýndi  að  63% vildu að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Ísland ætti að sækja um aðild að ESB.  Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Gallup fyrir Andríki  sem birtist í fjölmiðlum í dag.

Hinar sterku vísbendingar um hug þjóðarinnar til þessa umdeilda máls eru ótvíræðar og ættu að mínu mati fæstum að koma á óvart:

Spurt var: Ert þú hlynnt/ur eða andvíg/ur inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Niðurstöður urðu þær, að „mjög hlynntur“ reyndust vera 17,1%, „frekar hlynntur“ 17,6%, „frekar andvígur“ voru 19,3% og „mjög andvígur“ 29,2%. „Hvorki né“ sögðust 16,9% vera.Samkvæmt því voru 48,5% mjög andvíg eða frekar andvíg, en 34.7% frekar hlynnt eða mjög hlynnt, en 16,9% hvorki hlynnt né andvíg.Ef þeim, sem völdu svarið „hvorki né“, er sleppt úr niðurstöðunum, eru því 58,3% frekar eða mjög andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið, en 41,7% frekar eða mjög hlynnt.Könnunin var gerð dagana 16. til 27. júlí.

Dagana þar á undan hafði mjög verið deilt um það á þingi hvort fara ætti fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að óska inngöngu í Evrópusambandið.

Þótti því eðlilegt að spyrja einnig hvort fólk vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka ákvörðun, en eins og menn vita, var það niðurstaða meirihlutans á alþingi að ekki skyldi fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu.

Spurt var: Ert þú hlynnt/ur eða andvíg/ur því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu?

Niðurstöður urðu þær, að að „mjög hlynntur“ reyndust vera 45,3%, „frekar hlynntur“ 15,6%, „frekar andvígur“ voru 11,3% og „mjög andvígur“ 17,9%. „Hvorki né“ sögðust 9,9% vera.Samkvæmt könnuninni eru því 60,9% eru frekar eða mjög hlynnt því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um þessa ákvörðun, en 29,2% frekar eða mjög á móti því að um hana fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla, en 9,9% segjast hvorki hlynnt né andvíg. Ef þeim, sem völdu svarið „hvorki né“, er sleppt úr niðurstöðunum eru því 32,4% þeirrar skoðunar að ekki eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort „Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu“, en 67,6% vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um það mál. Könnunin var gerð dagana 16. til 27. júlí og voru 1273 í úrtakinu. Af þeim svöruðu 717 og svarhlutfall var því 56,3%. "

 ( Andríki- vefþjóðviljinn 3. ág. 2009)


Hvatning á glæsilegu Ungmennalandsmóti

"Forseti Íslands, forsetafrú, ágætu keppendur, foreldrar, skipuleggjendur og aðrir landsmótsgestir. Gleðilega hátíð.

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur á þessari glæsilegu íþrótta- og fjölskylduhátíð. Ég færi ykkur einlæga hátíðarkveðju Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra en hún hafði því miður ekki tök á að mæta hér í kvöld.

Ég fagna því sérstaklega að mótið skuli nú haldið hér á Sauðárkróki. Skagafjörðurinn var mín heimasveit um 20 ára skeið. Eitt af ungmennafélögunum hér um slóðir, Ungmennafélagið Hjalti, fóstraði börnin mín og efldi að dug og þroska. Skagfirsk náttúrufegurð, skagfirskt manngildi og skagfirskur dugur er svo sannarlega góð umgjörð þessa glæsilega unglingalandsmóts.

Krakkar! Þið eruð þátttakendur á einni stærstu íþróttahátíð Íslands. En þið eruð einnig hér í risastórri, skemmtilegri útilegu, allsherjar fjölskylduhátið.  Og eins og þið öll vitið getur margt komið upp á í útilegum. Eruð þið ekki öll vel búin, með regngalla, lopapeysur og prjónasokka?  Gleymdi nokkur svefnpokunum?  Og vonandi eruð þið öll vel nestuð af góðum íslenskum mat. Ef ekki, er hægur vandinn að skreppa til Bjarna Har og kaupa harðfisk eða líta inn í bakaríið og fá sér landsfræga súkkulaðisnúðana þar. Hér er allt innan seilingar.

„Fyrir land sitt og þjóð“
Fyrsta ungmennafélagið var stofnað á Akureyri fyrir 103 árum eða 7. janúar 1906. Tilgangur félagsins var skv. fundargerð stofnfundarins:


1. Að reyna af alefli að vekja löngun hjá ungdóminum til þess að starfa fyrir sjálfan sig, land sitt og þjóð.
2. Að temja sér að beita starfskröftum sínum í félagi og utan félags.
3. Að reyna af fremsta megni að styðja, viðhalda og efla allt það sem er þjóðlegt og rammíslenskt, er horfir til gagns og sóma fyrir hina íslensku þjóð.


Þetta voru göfug markmið enda urðu ungmennafélögin strax mikil siðbótar- og mannræktar­félög. Þau beittu sér t.d. gegn áfengisneyslu, fjármálabraski, þéringum og fyrir verndun tungumálsins. Í íþróttunum var lögð áhersla á líkamlega reisn og góða fram­göngu. Við skyldum bera höfuðið hátt og ganga rösklega fram. Fegurð íþróttanna, heiðarleiki og drengskapur í fornum anda voru höfuðdyggðirnar. ÍSÍ var svo stofnað árið 1912, byggt á svipuðum gildum og ungmennafélögin. Sjálfstæðisbaráttan ólgaði í brjóstum þjóðarinnar. Fullveldið var í sjónmáli.


Einn fyrir alla og allir fyrir einn
Sérstök ástæða er til að benda á þessa þrjá grunnþætti í stofnskrá ungmennafélagsins á Akureyri og raunar ungmennahreyfingarinnar allrar. Er það ekki þannig að sjálfstæðisbarátta Íslendinga á þessum tíma búi með okkur öllum og móti okkur til framtíðar? Er það ekki þess vegna sem sem við erum svo á verði gegn allri ásókn í fullveldi okkar og auðlindir?

Ungmennafélögin hafa svo sannarlega reynt að halda í heiðri þessi gömlu góðu gildi og það er ákaflega dýrmætt að vita að þau skuli reiðubúin til þess áfram. Á ýmsan hátt erum við Íslendingar nú í sömu sporum og þegar við börðumst fyrir sjálfstæði landsins eftir aldalanga hnignun og fátækt. Nú sem þá dreymir okkur um hið nýja Ísland, byggt á gildum heiðarleika, jafnréttis og réttlætis, heilinda og drengskapar. Þið, unga íþróttafólk, ég heiti á ykkur að verða áfram framvarðarsveitin í þeirri baráttu. Megi kjörorð ungmennafélaganna,  einn fyrir alla og allir fyrir einn hljóma hátt og hvellt á þessu glæsilega íþróttamóti.
Góðir hátíðagestir, Íslandi allt!"

Ávarp Jóns Bjarnasonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra á unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki 31. júlí 2009


Til hamingju Jóhanna Guðrún

  Glæsileg frammistaða  Jóhönnu Guðrúnar á sviðinu í Moskvu  hreif okkur öll og fyllti þjóðina stolti.  Ákall  hennar til sannleikans - Is it True-   eftir Skagfirðinginn Óskar Pál Sveinsson  mun nú hljóma af vörum þjóðarinnar næstu daga  og fer vel á því.  

Mér fannst  búnaður söngkonunnar og sviðið  með þanin seglin í bakgrunni gefa flutningi lagsins  einstaklega hreina og  sanna umgjörð.

Tignarleg og hrífandi með tærri rödd sinni söng Jóhanna Guðrún  þetta fallega lag , Is it True  í 2. sæti  söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Moskvu í kvöld.  Úrslit réðust ekki fyrr en við síðustu stigagjöf en þá gáfu Norðmenn okkar lagi fullt hús.  Norðmenn unnu svo með miklum yfirburðum 

Það vakti einnig athygli hversu margar þjóðir gáfu íslenska laginu stig.

Okkur er öllum  ljóst að árangur Jóhönnu er persónulegur sigur hennar og þess fólks sem fylgdi henni út, en hann er einnig mikil og dýrmæt landkynning fyrir  íslenska þjóð,  ekki hvað síst á erfiðum tímum.

Til hamingju Jóhanna Guðrún við erum stolt af þér. 


Baráttukveðjur á 1. Maí

 Mikilvægi verkalýðsbaráttu og samstöðu launafólks hefur sjaldan verið mikilvægari en nú. Græðgisöflin sem léku lausum hala í faðmi nýfrjálshyggjunnar höfðu að markmiði að sundra verkalýðsfélögum og  taka upp persónubundna kjarasamninga.  Gegnsæ laun og kjör áttu að heyra sögunni til.

Ég minnist deilna um tilhögun hátíðarhalda á 1. maí fyrir nokkrum árum  þar sem sumir í verkalýðsforystunni töldu tíma kröfuganga og félagslegrar baráttu verkfólks liðinn, -  nú  ætti fólk að safnast á fjölskyldusamkomu í húsdýragarðinum.

Verkalýðshreyfingin fari í innri endurskoðun 

  Gæti það verið  nauðsynlegt fyrir verkalýðshreyfinguna og ekki síst forysta hennar að fara í  innri skoðun á hugmyndafræði sinni og baráttumálum á síðustu árum?  Launa og kjaramunur meðal þjóðarinnar hefur aldrei verið meiri.

 Þessi mismunun jókst mjög hratt og á nokkrum árum breyttist Ísland úr einu mesta kjarajöfnunar landi  í það land þar sem mismunum var mest.  Hvers vegna lét  Verkalýðshreyfingin þetta viðgangast?

 Ég minnist þess t.d.  hvernig forystmenn hjá  ASÍ mærðu einkavæðinguna, stóriðjustefnuna og útrásina.

Hinsvegar var græðgisvæðingin og efnahagshrunið  ekki almennu launafólki að kenna. Þar áttu aðrir alla sök, ekki síst stjórnvöld sem réðu í landinu. En áttu ekki forystumenn verkalýðshreyfingarinnar ekk þar sinn hlut að máli?

 Verkalýðshreyfingin verður að endurvinna traust launþega en það gerir hún ekki með því að breiða yfir mistök undafarinna ára og hrópa á Evrópusambandið  sér til bjargar.

Atvinnuleysið í ESB - löndum 

Viðvarandi atvinnuleysi í ESB löndunum undafarin ár hefur verið yfir 6% og  er nú yfir 8%.  Á Spáni  er atvinnuleysið 17,5%, Lettlandi og Litháen 14%, Írlandi 10%, Þýskalandi 8,6%. 

Atvinnuleysi meðal ungs fólks  í ESB nálgast að meðaltali 20%.  Þótt staðan sé enn erfiðari um þessar mundir  er í ESB löndum atvinnuleysi notað sem hagstjórnartæki.

Er það þetta ástand sem forysta ASÍ vill innleiða á  Íslandi eins og fram kemur í heilsíðu auglýsingu þeirra á blöðum í dag, þar sem kallað er á ESB?

Á Íslandi er nú um 8% atvinnuleysi sem er allt of mikið og við lítum á sem böl.

"Réttur hins vinnandi manns"  

  Rétturinn til vinnu er grunn mannréttindi hvers þjóðfélagsþegns. Við þurfum að jafna kjörin og þau eiga að vera gangsæ. Verkalýðsforystan verður eins og aðrir  að horfa í eigin barm og fara yfir það sem mistókst. Hún verður að endurmeta gildi sín og  ávinna sér traust á ný. Það gerir hún trauðla með því að flýja raunveruleikann og slást í hóp „elítunnar“ sem hrópar á ESB sér til bjargar. 

 ESB – „góðgerðasamtökin“ eru ekki lausnarorð íslensks verkafólks í dag.     

 Baráttukveðjur 

Hinsvegar hefur félagsleg verkalýðsbarátta  sjaldan verið mikilvægari en nú.  Með trú og trausti á land okkar og  þjóð  vinnum við okkur út úr vandanum og endurreisum heiðarlegt þjóðfélag  á okkar eigin forsendum.

Með baráttukveðjum á 1.maí 

 


Sigur Vinstri grænna -Þökkum frábæran stuðning

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vann stórsigur um allt land og bætti við sig 5 nýjum þingmönnum. Í Norðvesturkjördæmi fengum við  þrjá menn kjörna á þing.  Þar komu ný inn  þau Lilja Rafney Magnúsdóttir frá Suðureyri og Ásmundur Einar Daðason bóndi á Lambeyrum í Dalasýslu. Ásmundur er jafnframt yngsti þingmaðurinn sem nú tekur sæti á Alþingi, 26 ára gamall, fæddur 1982.  Geta má þess einnig að fyrsti varaþingmaður VG í  kjördæminu, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir í Reykholti er  fædd 1981 og 2. varþingmaður VG, Telma Magnúsdóttir í Steinnesi,  Austur-Húnavatnssýslu  er  fædd 1983.

Kosningarbarátta VG í kjördæminu var bæði kraftmikil og skemmtileg. Formlegar kosningaskrifstofur voru á 10 stöðum í kjördæminu en auk þess var á mörgum heimilum, götuhornum og hvar sem fólk hittist rekin kosningabarátta og málin skýrð. Við háðum heiðarlega og málefnalega baráttu sem hvíldi á okkar eigin málstað og pólitískri sýn.

Við síðustu Alþingiskosningar fyrir 2 árum fengu  Vinstri græn 16% atkvæða í kjördæminu og voru  hársbreidd frá því að fá tvo menn kjörna. Nú fékk hreyfingin 22,8  % atkvæða og hefur þá ríflega tvöfaldað fylgi sitt frá kosningunum 2003 . 

 Fyrir hönd okkar sem erum nú kjörin á þing fyrir VG í Norðvesturkjördæmi og annarra þeirra sem skipuðu sæti á listanum okkar vil ég  þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu á sig ómælda vinnu, hug og  hönd sem leiddi okkur fram til þessa glæsilega sigurs.  Kjósendum þökkum við stuðninginn og traustið.

 Við höfum verk að vinna, vorið með björtum nóttum fer í hönd.

Með óskum um gleðilegt sumar og baráttukveðjur á hátíðisdegi verkafólks 1.maí 

Undirritun nýrra búvörusamninga- ábyrg aðgerð

  Góð sátt hefur náðast  milli bænda og stjórnvalda um nýjan búvörusamning.

Fyrrverandi ríkisstjórn hafði með fjárlögum 2009 samþykkt 800 mkr. einhliða niðurskurð á verðbótaþætti beingreiðslna til bænda án undangenginnar breytinga á búvörusamningi né nokkurra fyrirheita um slíkar breytingar. Í spilunum lá að það sama myndi gerast á árinu 2010. Reyndar var fátt sem benti til annars en bændur yrðu án verðbóta á beingreiðslur út alla samningstímana þrátt fyrir samninga um annað!  Við þingmenn VG gangrýndum harðalega þessi vinnubrögð fyrrverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og brot á samningum við bændur.

 

Fyrrverandi ríkisstjórn þurfti að skera niður útgjöld ríkissjóðs því getur enginn neitað, en þessi vinnubrögð sem hún beitti eru ekki afsakanleg. Af hverju leitaði hún ekki samninga við bændastéttina eða taldi hún ákvarðanir sínar yfir þá hafna? Nú er það komið í ljós að þetta vinnulag var auðvitað ófært og ekkert annað en ávísun á töpuð málaferli því augljóst er að bændur áttu samningsbundinn rétt og gátu sótt sér hann!

 Samið við bændur

Eftir að Steingrímur J. Sigfússona formaður Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók við embætti hóf hann þegar að ræða við forsvarsmenn bænda um þá stöðu sem uppi var og hvað kom í ljós! Forustumenn bænda höfðu mjög ábyrga afstöðu og það var vel hægt að semja við þá líkt og það hefur ávallt verið. Þeir voru til í að taka á sig byrðar líkt og aðrir í tvö til þrjú ár og semja um það en fóru síðan fram á að bætt yrði tveimur árum við þessa samninga í staðinn gagngert til þess að skapa framtíðarsýn og aflétta óvissu í matvælaöryggi þjóðarinnar. Þar fóru sjónarmið bænda og okkar saman og á þau var fallist og samningur undirritaður á laugardag með fyrirvara um samþykki í atkvæðagreiðslu meðal bænda og samþykkis Alþingis.

Það er í þessum anda sem samskiptin eiga að vera  á milli ríkis og hagsmunaaðila.

  

Áhugi landsmanna á ESB minnkar enn

54,4% landsmanna eru andsnúin því að hefja aðildarviðræður við ESB.  Andstaða fólks á landsbyggðinni er enn meiri. Þetta kemur í fram í nýrri könnun Fréttablaðsins sem birt var sl. laugardag.  

Greinilegt er að áhugi fólks á ESB aðild fer ört dvínandi. 

Liðlega 70% stuðningsfólks VG er andvígt aðildarviðræðum.  Koma þær vísbendingar engum á óvart, en  Vinstri græn hafa tekið skýra afstöðu gegn Evrópusambandsaðild.

Mjög skiptar skoðanir virðast vera innan Framsóknarflokksins  en þó er meirihluti stuðningsmanna flokksins andvígur aðildarviðræðum.

Samfylkingin virðist hinsvegar vera að einangrast í ákafa sínum á ESB aðild en 86,5% stuðningsmanna þess flokks vilja aðildarviðræður.

Er það svo sem í samræmi við þann einfalda  málflutning ýmissa forystumanna Samfylkingarinnar sem ímynda sér að í aðild að ESB felist lausn allra mála,  bæði stórra og smárra.

Það er fagnaðarefni að mikill meirihluti þjóðarinnar virðist klárlega styðja stefnu okkar Vinstri grænna um að Íslandi sé betur borgið sem sjálfstæðu ríki  utan ESB.

Leyfum þjóðinni að ráða ferðinni.

Fækkar heldur sem styðja viðræður Skoðanakönnun Þeim fækkar heldur sem vilja viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins.Skoðanakönnun Þeim fækkar heldur sem vilja viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Nú segjast 45,6 prósent fylgjandi viðræðum, en fyrir tveimur vikum vildu 46,6 prósent viðræðum. Munurinn milli kannana er innan skekkjumarka.Samkvæmt könnuninni eru 54,4 prósent landsmanna andsnúin viðræðum en 45,6 prósent hlynnt þeim. Vikmörkin eru 3,9 prósentustig, og er því marktækur munur á milli þeirra sem eru fylgjandi og þeirra sem eru andsnúnir aðild.Eins og áður er ekki marktækur munur á afstöðu karla og kvenna. Meiri munur er á afstöðu fólks eftir búsetu. Alls vilja 51,8 prósent höfuðborgarbúa aðildarviðræður, en 36,9 prósent þeirra sem búa á landsbyggðinni.Kjósendur Samfylkingarinnar skera sig úr hvað varðar fylgi við aðildarviðræður og segjast 86,5 prósent hlynnt viðræðum. Næsthæst er hlutfallið hjá þeim sem segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn væri gengið til kosninga nú. Af þeim sögðust 43,2 prósent hlynnt viðræðum.Alls sögðust 28,7 prósent fylgismanna Vinstri grænna hlynnt aðildarviðræðum. Hlutfallið er enn lægra hjá þeim sem kjósa myndu Sjálfstæðisflokkinn, eða 24,6 prósent.Hringt var í 800 manns þriðjudaginn 7. apríl og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var: Á Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu. 77,5 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.- bj  ( fréttablaðið,11. apríl 2009) 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband