Föðurland vort hálft er hafið

 Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra heilla á sjómannadaginn.  Sömuleiðis eru sendar árnaðar-og þakkarkveðjur til starfsfólks Landhelgisgæslunnar, björgunar- og slysavarnarsveita og öllum þeim sem koma að öryggismálum sjómanna. 

 Árið 2001 gerði Landhelgisgæslan vísuorð Jóns Magnússonar skálds ( 1896- 1944) að kjörorði sínu: „Föðurland vort hálft er hafið“.

Ljóð Jóns Magnússonar: Líknargjafinn þjáðra þjóða er eitt af fallgegustu ljóðum okkar Íslendinga og ég minnist þess að móðir mín Laufey hélt mikið upp á það ljóð enda bæði eiginmaður og sumir bræður sjómenn:

Líknargjafinn þjáðra þjóða. 

 Líknargjafinn þjáðra þjóða,
þú, sem kyrrir vind og sjó,
ættjörð vor í ystu höfum
undir þinni miskunn bjó.
Vertu með oss, vaktu hjá oss,
veittu styrk og hugarró.
Þegar boðinn heljar hækkar,
Herra, lægðu vind og sjó.

 

Föðurland vort hálft er hafið,
helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.
Yfir logn og banabylgju
bjarmi skín af Drottins náð.
Föðurland vort hálft er hafið,
hetjulífi' og dauða skráð.

 

Þegar brotnar bylgjan þunga,
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn,
syrgir, tregar þjóðin öll,
vertu ljós og leiðarstjarna,
lægðu storm og boðaföll,
líknargjafinn þjáðra þjóða,
þegar lokast sundin öll.

Drottinn, þinnar ástar óður
endurhljómi' um jörð og höf.
Breiddu þína blessun yfir
blóma lífs og þögla gröf.
Vígi' og skjöldur vertu þeim, sem
vinda upp hin hvítu tröf.
Drottinn, þinnar ástar óður
endurhljómi' um jörð og höf.

Jón Magnússon 

Peningarnir voru búnir í Landsbankanum- farnir suður?

Fyrirvaralausar lokanir Landsbankans á fjölda  þjónustustöðva á landsbyggðinni kalla eðlilega fram hörð viðbrögð íbúa á viðkomandi svæðum.
Harkaleg og órökstudd framganga stjórnenda bankans við þessar lokanir er bæði siðlaus og ábyrgðarlaus gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum sem um áratugaskeið hafa byggt upp og notið þessarar þjónustu.
Ábyrgð stjórnvalda 
Hér bera stjórnvöld einnig ábyrgð en Landsbankinn er um 80- 90% í eigu ríkisins sem skipar meirihluta innan stjórnar og á aðalfundi hlutafélagsins. Jafnframt er það aðaleigandinn, ríkissjóður Íslands sem setur bankanum eigendastefnu.
Þessi órökstudda framganga Landsbankans gangvart landsbyggðinni gengur þvert á stefnu og áherslur Vinstri grænna í þessum málum.
Ég hef því í dag skrifað formanni þingflokks VG eftirfarandi bréf:
"Hér með óska ég eftir að þingflokkur VG sendi áskorun á stjórnendur og eigendur Landsbankans um að fresta og endurskoða áform sín um lokanir starfsstöðva sinna á landsbyggðinni sem boðaðar eru frá 1. júní nk.
Fyrirvaralausar lokanir og skerðing á þessari grunnþjónustu í dreifðum byggðarlögum samrýmist hvorki stefnu VG í almannaþjónustu og byggðamálum né heldur siðlegum vinnubrögðum og samfélagsábyrgð þjónustustofnunar eins og Landsbankinn er.
Skorað er á stjórnendur Landsbankans að taka strax upp viðræður við heimaaðila og sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum um tilhögun þjónustunnar ef nauðsynlegt er að breyta þar um.
Landsbankinn þarf að sjálfsögðu að geta haldið stöðu sinni í samkeppni ekki aðeins með arði til eigenda sinna heldur einnig í þjónustu og viðskiptavild.
 Eðlilegt er að gera ríkar kröfur til Landsbankans sem ríkisbanka á landsvísu um vinnubrögð og samfélagsskyldur.
Lagt er til að þingflokkur VG hafi forgöngu um að kveðið verðið skýrt á um þessar skyldur í eigendastefnu Landsbankans reynist þess þörf.
Minnt er á að starfsemi Landsbankans í minni byggðarlögum skiptir miklu máli fyrir heildarþjónustustig við íbúa á viðkomandi svæðum. Víða á Landsbankinn þar í samstarfi við aðra aðila, eins og Íslandspóst og fleiri, sem með þessum lokunum er sett í uppnám".
Vænti ég þess að þingflokkurinn taki af myndugleik á þessum málum þannig að lokanir verði endurskoðaðar og  eigendastefnan varðandi Landsbankann kveði skýrt á um samfélags og samráðsskyldu bankans við nærsamfélagið.
Póstsparibankinn
Jafnframt tel ég mjög miklivægt að nú þegar verði sett formleg vinna í að finna leiðir sem tryggja héraðsbundna fjármálaþjónustu með sparisjóðum eða t.d.  í gengum Íslandspóst.  "Póstsparibankinn" er mjög miklivægur í þjónustu við hinar dreifðu byggðir í nágrannalöndum okkar og gæti vel verið fyrirmynd sem við getum tekið upp.

Landsbankinn bregst skyldum sínum á landsbyggðinni

Landsbankinn hyggst nú loka fjölda útibúa sinna á landsbyggðinni. Einkum eru það sjávarbyggðirnar á Snæfellsnesi Vestfjörðum og Austfjörðum sem verða fyrir högginu.

Sömu byggðir hafa margar  mátt sæta stórfelldum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu og ýmissi annarri stoðþjónustu á síðustu árum. En þessar byggðir eiga það þó flestar sameiginlegt að liggja að  gullkistu þjóðarinnar, einum fengsælustu  fiskimiðum heims. 

Framganga Landsbankans eins og hún birtist almenningi í gær  er eins og í stríðsrekstri, skyndiárás -  tilkynning - lokað. Sveitarstjórnir, samfélög, fyrirtæki og  starfsfólk standa skyndilega  frammi fyrir stórfelldri skerðingu á grunn þjónustu sinni án nokkurs samráðs eða undangenginna viðræðna. Bankastarfsemi er ekki til sjálfs sín vegna heldur er hún mikilvæg grunnþjónustu sem þarf að vera nærri fólkinu og fyrirtækinum. Hún þarf að vera hluti af nærsamfélaginu og axla þar sína ábyrgð. Við viljum hafa landið allt í byggð, vernda og nýta auðlindir þess og samfélög. En það gerist ekki sjálfkrafa eins og dæmin sanna.

Að sjálfsögðu hefur tækni í fjarskiptum og samgöngum breytt hér miklu um. Landsbankinn hefur almannaskyldur og viðskiftavild og traust eru ekki hvað síst undir því komin hvernig þær skyldur eru ræktar.  Þjónustustig og þjónustuskylda ætti að vera skilgreind í starfsleyfi banka sem fá starfsleyfi á landsvísu og taka þar mið af stærð og hlutverki. Skipan og veiting grunnþjónustu í útibúaneti eins og bankaþjónustu er ekki ekki bara einkamál þeirra sjálfra. Landsbankinn er auk þess að miklum meirihluta í eigu ríkisins og ber þar með enn ríkari almannaþjónustuskyldur og stjórnvöld sem eigendur geta krafið hann um að sinna þeim.

Þótt hann sé almennur viðskiftabanki og á samkeppnismarkaði er það fjarstæða að hann verði ekki að lúta samráði og kröfum eigenda sinna í skyldum við almenning. Sparisjóðirnir gegndu og  mikilvægum svæðisbundnum hlutverki og þótt illa hafi farið fyrir mörgum þeirra í hruninu og  í aðdraganda  þess sýnir þessi aðgerð Landsbankans nú hversu mikilvægt það er að endurreisa og styrkja staðbundna fjármálaþjónustu.

Þessar minni sjávarbyggðir sem nú fá þetta högg frá ríkisbankanum fá á sama tíma kröfur frá sama ríkissjóði um sérstök gjöld á grunnatvinnugrein sína sjávarútveg, sem á að renna beint í ríkissjóð. Þetta eru sömu byggðir og búa við himinhátt raforkuverð úr orkulindum landsmanna. Þetta eru sömu byggðir og hafa fengið á sig miklar skerðingar í heilbrigðisþjónustu .   Þetta eru sömu byggðir og taka á sig verulega aukinn kostnað vegna álagningar á olíur og bensin  en hver íbúi  leggur jafnframt hvað stærstan hlut í sameiginlega sjóði landsmanna.

Ef Landsbankinn væri á hausnum  þá mætti sýna vorkunn. En hann skilar þvert á móti miklum hagnaði og er boðað að hann muni borga eigendum sínum milljarða í arð.  Hér skal jafnframt lögð áhersla á að stjórnendur bankans hafa komið í mörgu mjög vel fram í  lausn skuldavanda margra fyrirtækja og einstaklinga. Við fækkun og sameiningu bankastofnana vofir sú hætta yfir að boðvald í krafti fákeppni taki yfir á í þessari grunnþjónustu landsmanna.

Ég skora á bankastjóra og stjórn Landsbankans  að fresta þessum boðuðu lokunum og þjónustuskerðingu á landsbyggðinni og taka þess í stað upp samræður og samvinnu við stjórnvöld og heimamenn á þjónustusvæðunum um skipulag þjónustunnar

 Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu á Alþingi um málið og vænti þess að hún fari fram áður en til þessara lokana kemur.


Sjálfstæðisbaráttan er eilíf - 1. maí ávarp í Grundarfirði

 

Makríldeilan við ESB, hótanir og yfirgangur færa okkur best heim sanninn um að við höfum ekkert að gera inn í þetta ríkjasamaband. Því fyrr sem við stöðvum þessa vitlausu umsókn og drögum hana til baka því betra.

Við þurftum að berjast fyrir sjálfstæði okkar á sínum tíma. Það tók okkur aldir. Og við þurfum að berjast fyrir að fá að halda því. Sjálfstæðisbarátta lítillar þjóðar er eilíf.

  
Ágætu Grundfirðingar, gleðilega hátíð!

 

Í dag komum við saman til að gleðjast yfir góðum sigrum, til að hvetja hvert annað, til að treysta andann og styrkja hugsjónabaráttuna, fyrir bættum kjörum, fyrir atvinnuöryggi, góðu samfélagi, öllum þeim stoðum sem byggja upp það samfélag sem við viljum búa í. Sú barátta er eilíf en hver og ein kynslóð ber sína ábyrgð sem henni ber skylda til að axla.

En þeir sigrar náðust aðeins fram á sínum tíma með baráttu, samstilltu átaki: Veikindaréttur, sjúkrasjóðir, orlof, 40 stunda vinnuvika kostuðu átök. Laugardagurinn sem frídagur var tekinn í áföngum og hver áfangi var talinn svo alvarlegur að hann myndi ríða einstaka atvinnurekendum að fullu. „Vinna er velferð „ stendur sem yfirskrift fyrir 1. maí í dag. Svo sannarlega er krafan um að fá að vinna samfélagi sínu eftir getu og hæfi hvers og eins frumburðar réttur sérhvers einstaklings sem fæðist á okkar jörð.

Að búa í góðu og öflugu samfélagi

Í samfélagi eins og hér í Grundarfirði er það ekki aðeins vinnan og launin sem skipta máli. Það eru einnig önnur gæði sem fólk þarf að berjast fyrir annaðhvort til að fá þau til sín , byggja þau upp eða verja og koma í veg fyrir að þau hverfi á brott. Það eru sérstaklega minni samfélög á landsbyggðinni sem verða að heyja stöðuga varnar- og sóknarbaráttu til að halda hlut sínum. Það hafa Grundfirðingar, þið ágætu áheyrendur svo sannarlega gert. Hér er sterkt og gott samfélag.

Góður leikskóli, grunnskóli, aðbúnaður aldraðra, heilsugæsla , löggæsla allt þetta skiptir máli til að byggja upp samfélag sem er eftirsótt að búa í. Traust og gott starfsfólk er forsenda farsæls starfs. Ég vil nefna hér til viðbótar Fjölbrautarskóla Snæfellinga hér í Grundarfirði. En tillaga um stofnun Framhaldsskóla á Snæfellsnesi var eitt fyrsta mál mitt á Alþingi árið 2000. Reyndar flutti ég þá einnig tillögu um stofnun framhaldsskóla á Patreksfirði og fyrir Dalvík og Ólafsfjörð. Þetta mál mætti andstöðu og tómlæti af hálfu alþingis á þeim tíma. En áfram var barist og heimamenn hér á norðanverðu Snæfellsnesi tóku málið upp á sína arma og með öflugri samstöðu og baráttu þeirra var skólinn settur hér haustið 2004. Er ekki á aðra hallað er ég nefni Björgu Ágústsdóttur í þessu samandi. En þessi merki áfangi náðist ekki án baráttu. Fjölbrautarskólinn hér skiptir nú miklu máli fyrir búsetugæði í þessum byggðarlögum og ekki hvað síst fyrir Grundfirðinga.

Ég er stoltur yfir að hafa átt þarna hlut að máli.

Baráttan um Fjölbrautarskólann

En þótt Fjölbrautarskólinn sé kominn og starfið gangi vel, þarf stöðugt að verja stöðu hans og tilveru.

Fyrir um ári síðan voru lagðar fram af hálfu menntamálaráðherra og fjármálaráðuneytis tillögur um að framhaldsskólunum í Grundarfirði og Borgarnesi væri lokað sem sjálfstæðum stofnunum og þær lagðar sem útibú undir Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. En þannig stóð á að skólameistarastöður allra skólanna þriggja voru þá lausar. Þótti þá lag að sameina þá alla í einn skóla. Átti að mati þessara ráðuneyta að verða mikið hagræði og sparnaður af þessari sameiningu. Ekki var það nú ítarlega rökstutt en fylgt fram af miklum þunga.

Er skemmst frá að segja að ég lagðist alfarið gegn þessum áformum í ríkisstjórn. Það kom ekki til greina af minni hálfu að leggja þessa skóla niður sem sjálfstæðar stofnanir. Á næstu dögum hafði ég svo samband við heimamenn og forystufólk í sveitarstjórnum og fleiri á heimasvæði skólanna eins og sumir sem hér eru inni kannast vel við.

Með samstilltu átaki tókst að stöðva þessi áform. Sjálfstæðar stöður skólameistara við alla skólana þrjá, Akranesi, Borgarnesi og Grundarfirði voru auglýstar og áfram starfa þeir sjálfstæðar skólastofnanir héruðum sínum til heilla. En þetta sýnir að á öllum sviðum verður að halda vöku sinni og vera reiðubúin í slaginn. Þetta þekkið þið.

Öflug sjávarbyggð

Sjávarútvegurinn og fiskvinnslan eru höfuðatvinnugreinar byggðarlagsins. Styrkur Grundarfjarðar er ekki hvað síst sá að hér eru nokkur fjölskyldufyrirtæki í greininni en ekki bara einn stór aðili sem öllu ræður og hefur framtíð byggðalagsins í greipum sér. Ég minni hér á nokkrar mikilvægar breytingar sem komust á í minni tíð sem ráðherra:

Strandveiðarnar, opnuðu kerfið og hleyptu á sinn hátt miklu lífi í samfélag sjávarbyggðanna. Vafalaust má sníða af þeim ýmsa agnúa sem komið hafa ljós til að gera þær þjálli. Dæmalaus var þó yfirlýsing Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ, sem lagði lykkju á leið sína nýlega til að tala gegn strandveiðunum. Þau ummæli sýna best veruleikafirringu þessa manns.

Skötusels ákvæðið fræga sem öllu hleypti upp en var mjög þýðingarmikið sem voru að fá skötusel sem meðafla , en sá fiskur hafði gjörbreytt útbreiðslu sinni. Nýtt skipulag makrílveiða komst á sem opnaði veiðar fyrir útgerðarflokka af öllum stærðum og dýrmæta landvinnslu á makríl. Þyrfti að færa enn stærri hluta frá stóra uppsjávarflotanum til minna báta sem landa til vinnslu. Hér unnu heimamenn í Grundarfirði algjört brautryðjendastarf í makrílvinnslu, sem skópu fjölda sumarstarfa og dýrmæta útflutningsvöru. Opnað var í haust á möguleika fyrir minni báta til síldveiða. Allmargir hér á Snæfellsnesi nýttu sér það. Þannig get ég talið áfram í smáu og stóru.

Tilskipun um að koma með allan afla að landi hefur skapað dýrmæt störf og aukin verðmæti.

Ég lagði mikla áherslu á að styrkja stöðu sjávarbyggðanna til veiða og vinnslu. Ég vildi byggðatengja hluta aflaheimilda sem fastan grunn sérstaklega fyrir þær minni.

Ég hef gagnrýnt nýjustu frumvörp um stjórn fiskveiða m.a. fyrir það að nánast allar byggðatengingar aflaheimilda eru afnumdar og veiðigjaldtakan er hreinn landsbyggðarskattur á sjávarbyggðirnar hér á Snæfellsnesi. Útgerðir og samfélög í hinum minni sjávarbyggðum munu aldrei ráða við að keppa í óheftu markaðskerfi og uppboði aflaheimilda. Þar verða það stærstu útgerðirnar sem hafa vinninginn. Mín skoðun er sú að hluti af hóflegu veiðigjaldi eigi að renna aftur beint til viðkomandi sjávarbyggða. Ég skil og tek alvarlega áhyggjur margra sjávarbyggða sem treysta á bolfisksútgerð.

Afturkalla á umsóknina að ESB

Ég virði skoðanir opinberra ESB-sinna sem viðurkenna af heilindum samningaviðræðurnar eins og þær eru: aðlögunarferli. Þeir vilja hraða för okkar eins og kostur er inn í sambandið. Þeir eru ekki í neinu „bjölluati“. För annarra er hins vegar heldur verri – þeirra sem tala í vestur en ganga samt í austur þegar ESB-aðild er til umfjöllunar. Slíkur blekkingaleikur sumra íslenskra forystumanna er ekki heiðarlegur og er ólíðandi gagnvart þjóðinni.

Umsókn Íslands að ESB klýfur þjóðina í tvennt. Harkan í umræðunni eykst. Brennimerkingar, fórnir og flokkadrættir munu enn aukast ef framhald verður á, ekki síst þegar stofnanir og stjórnsýsla ánetjast fjárframlögum ESB í aðlögunarferlinu. Umsóknin hefur komið bæði lagasetningu Alþingis og vinnu stjórnsýslunnar í uppnám. Það er heldur ekki að undra. Margir þeir sem voru hlynntir því að sækja um aðild héldu að hér væri um samningaviðræður að ræða. Þeir héldu í sakleysi sínu að hér gengju tveir fullbærir aðilar til samninga á sjálfstæðum forsendum. Sumir halda enn í þessa óskhyggju og tala um samninga. Lagagerð og reglusmíð ísl. stjórnsýslu taka nú þegar mið af því sem okkur verður gert að uppfylla við inngöngu í ESB.

Aðlögun en ekki samningar við ESB

Það er mikill misskilningur að hægt sé að leika sér í milliríkjasamningum, að „kíkja hvað sé í pakkanum“. Ríki sem sækir um aðild að Evrópusambandinu fer inn í aðlögunarferli þar sem umsóknarríki tekur jafnt og þétt upp lög og reglugerðir Evrópusambandsins. Ráðamenn í Brussel gera ráð fyrir að umsóknarríki hafi gert upp hug sinn og vilji inn í félagsskapinn. Evrópusambandið býður ekki upp á neinar óskuldbindandi viðræður. Á vefsíðu ESB segir orðrétt: „ Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu. Um þessar reglur verður ekki samið.“

Forseti ASÍ og ESB

Nýjar tölur um fylgi við aðild Íslands að ESB sýna að 66% þeirra sem afstöðu taka eru nú andvíg aðild Íslands að ESB en aðeins 34% hlynnt aðild. Könnunin er í samræmi við fyrri kannanir og getur ekki talist mæling á andstöðu vegna makríls eða nýjustu Icesave mála. Íslenska þjóðin er einfaldlega andvíg aðild.

Þegar við tökum tillit til þess að um fimmtungur tekur ekki afstöðu þá er ljóst að heildarfjöldi ESB sinna meðal kosningabærra Íslendinga er um 60 þúsund manns.

Á baráttudegi verkalýðsins leiðum við hugann að því að Alþýðusamband Íslands sem er með yfir 100 þúsund félagsmenn hefur gert ESB aðild að helsta baráttumáli sínu. Á heimasíðu sambandsins er sérstakur liður sem fjallar um aðildarumsóknina og forseti ASÍ tekur ekki svo þátt í þjóðfélagsumræðu að hann reki ekki það erindi að Ísland skuli í Evrópusambandið. En í hvers umboði talar forseti ASÍ? Eru félagar í ASÍ einhuga í þessu máli?

Jafnvel allir fylgjendur Evrópusambandsins hér á landi væru félagar í ASÍ þá dygði það ekki til að réttlæta trúboð forystunnar. Eftir sem áður væri helft félagsmanna andvíg aðild og það er reyndar einfalt reikningsdæmi út frá öðrum tölum um afstöðu landsmanna að meirihluti ASÍ félaga er andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Sú afstaða þarf ekki að koma á óvart þegar til þess er horft að í ESB ríkjunum er atvinnuleysið helsta og eina hagstjórnartækið sem þjóðríkin hafa í hendi sinni. Gengið og vextirnir hafa verið látnir yfir til hins yfirþjóðlega valds í Brussel. Atvinnuleysi ungs fólks er nú um 50% í Miðjarðarhafslöndunum og kjör alþýðu manna eru bág. Gengisfelling hefur vissulega rýrt kjör almennings á Íslandi en kjaraskerðing almennings í jaðarlöndum ESB eins og Írlandi og Grikklandi er til muna meiri.

Sjálfstæðisbaráttan er eilíf

Makríldeilan við ESB, hótanir og yfirgangur færa okkur best heim sanninn um að við höfum ekkert að gera inn í þetta ríkjasamaband. Því fyrr sem við stöðvum þessa vitlausu umsókn og drögum hana til baka því betra.

Við þurftum að berjast fyrir sjálfstæði okkar á sínum tíma. Það tók okkur aldir. Og við þurfum að berjast fyrir að fá að halda því. Sjálfstæðisbarátta lítillar þjóðar er eilíf.

Gleðilega hátíð


Þjóðin stendur með Ögmundi í Grímsstaðamálinu

 

Hvorki ríkisstjórn Íslands né sú kínverska með auðmanninn Huang Nubo geta enn sem komið er hrósað happi yfir að vera laus við innanríkisráðherrann Ögmund Jónasson.

Ögmundur hefur lagst gegn því í ríkisstjórn að afsalað verði  landréttindum á Íslandi  til kínverska auðmannssins. 

Ég þekki þó tóninn og hin bognu hné á ríkisstjórnarheimilinu hvað þetta og önnur viðlíka mál varðar og veit hversu mikilvægt það er að hafa strax varann á. 

 Ég fullyrði að megin þorri íslensku þjóðarinnar standi með Ögmundi og þeim öðrum sem vilja standa vörð um íslenskar auðlindir, bújarðir og víðerni gegn ásælni erlendra stórvelda. 

 Þegar jarðakaup auðmannsins frá hinu kínverska stórveldi komu upp í haust stóð ég sem landbúnaðarráðherra með innanríkisráðherranum gegn þeim kaupáformum.

Það landaframsal átti þó sterka talsmenn í ríkisstjórn eins og menn muna.

 En þau kaup voru þá stöðvuð og ekki síst var það að þakka vasklegri framgöngu Ögmundar.

Nú þegar framsal á landi Grímstaða á Fjöllum kemur aftur upp þó með öðrum formerkjum sé er mikilvægt að standa í lappirnar en láta ekki hnén bogna.

 Það ætti svo sem ekki að vera erfitt fyrir ráðherra Vinstri grænna  að standa gegn  landaframsali sem þessu  eins og það birtist með skýra stefnu flokksins í auðlinda-,  umhverfis-, náttúruverndar og sjálfsstæðismálum og  láta frá sér heyra.

Jarðakaup Kínverja víða um heim einkum í fátækari löndum valda nú miklum deilum hjá hlutaðeigandi þjóðum.

 Kaup Kínverja  nýverið á stórum búgarði og landbúnaðarlandi á Nýja-Sjálandi hafa vakið upp harðar deilur þar í landi og málaferli. Þar höfðu kínverjar sitt fram með hörðum lögsóknum.

Uppkaup Kínverja á landbúnaðarlandi vekja harðar deilur  


Röggsöm stjórn forseta Alþingis

Það var hárrétt hjá Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta þingsins að taka hið umdeilda og illa unna mál: uppstokkun ráðuneyta, útaf dagskrá þingsins um hádegisbilið í dag og taka til umræðu önnur brýnni mál. Þetta gerði hún þvert á vilja forsætisráðherra.
Mörgum hefur ofboðið hvernig formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa verið með hótanir og stóryrði  í garð Alþingis um að það verði að afgreiða þetta mál og hitt á tilgreindum tíma, óháð því hversu seint það kemur fram eða er illa unnið.
 Lengst gekk nú forsætisráðherrann, "sáttasemjarinn", Jóhanna Sigurðardóttir, þegar hún steytti hnefann framan í alþingismenn í gær á þingi og setti þeim afarkosti, hótaði næturfundum og sumarþingum ef Alþingi afgreiddi ekki refjalaust illa unnin gælumál hennar umyrðulaust.
 Sá tími á að vera liðinn að forsætisráðherra geti með geðþóttaákvörðun skipað þinginu fyrir. Virðing og staða þingsins er ekki hvað síst undir framgöngu forseta þess komin.
Mér hefur fundist þingforseti, Ásta Ragnheiður Jóhannnesdóttir hafi oft staðið sig mjög vel við erfiðar aðstæður.
Forsætisráðherra hefur keyrt þingsályktunartillöguna um að leggja niður Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og Efnahags- og viðskiftaráðuneytið fram af miklu offorsi og í fullkominni andstöðu við nánast alla þá aðila sem málið snertir.
Forseti Alþingis verður að geta tekið í taumana og staði vörð um Alþingi og störf þess. Það gerði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir í dag.

Hótanir ESB í makríl stríða gegn alþjóðalögum

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar Evrópusambandsríkjanna fjalla nú um víðtækar refsiaðgerðir gegn Færeyingum og Íslendingum vegna makrílveiðanna. Íslensk stjórnvöld mega ekki bogna í hnjánum fyrir hótunum ESB.

 Meginröksemd  fyrir þeim áformum eru að stöðva þurfi skipulagða ofveiði á makrílstofninum.  

Rétt er að hafa í huga að samkvæmt hafréttarsáttmála SÞ hafa öll hlutaðeigandi strandríki sama rétt og sömu skyldur til veiða og verndunar á sameiginlegum fiskistofni. 

 Íslendingar hafa lagt mikla áherslu á að ríkin semji innbyrðis um makrílveiðarnar á sanngirnisnótum en hefur mætt fullkominni óbilgirni af hálfu ESB.

ESB  og Noregur hafa einhliða skammtað sér rúmlega 90% af veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins á makríl. Samkvæmt þeirri  ákvörðum væri aðeins eftir um 10% til skipta fyrir Ísland,  Færeyjar og Rússland.  Þessu hafa Íslendingar  harðlega mótmælt.  

Ákvörðun ESB og Noregs um eigin hlutdeild  er  því bein og meðvituð ávísun þessara ríkja á ofveiði  á makríl, veiðistofni sem öll löndin bera sameiginlega ábyrgð á.

Eigi að beita refsiaðgerðum vegna ofveiði og ósjálfbærum veiðum á makríl verða þær aðgerðir að ná til allra hlutaðeigandi ríkja,  bæði innan ESB svo og Noregs,  Íslands,  Færeyja og Rússlands.  Að taka tvö lönd út úr og hóta þeim sértækum refsiaðgerðum er brot á jafnræðisreglu m.a. Gatt samkomulagsins um verslun og viðskifti og því fullkomlega  ólögmætt.  Þetta vita æðstu stofnanir ESB .

Hótanir  ESB  er því fyrst og fremst ætlað til að hræða Íslendinga og Færeyinga og  kúga stjórnvöld þessara landa til  undirgefni.

Sjálfssagt halda einhverjir innan ESB að okkur  Íslendingum sé svo  í mun að komast í ESB að við beygjum okkur í duftið fyrir hótunum þeirra.

 Það má vel vera að hótanir ESB hrífi á hörðustu ESB -sinnanna en fyrir okkur hin  færir það enn frekar heim sanninn um að við eigum ekkert erindi þangað.

  Auðvitað getur ESB í krafti stærðar sinnar beitt lítil ríki eins og Færeyinga og  Íslendinga  ofríki og yfirgangi,  andstætt alþjóðlögum en þá er málið orðið stórpólitískt og hlýtur  að vera meðhöndlað sem slíkt.  

ESB umsóknin verður þá löngu rokin út í veður og vind. 

Hitt er svo öllu alvarlegra að það er vandséð  hvernig hægt er fyrir Ísland sem  frjálst og fullvalda ríki  að halda áfram eðlilegum samningaviðræðum um makríl undir slíkum hótunum.   

Uppkaup Kínverja á landbúnaðarlandi vekja harðar deilur

Harðar deilur eru nú á Nýja- Sjálandi vegna uppkaupa Kínverja á stóru landbúnaðarlandi og heilum búgörðum. Eftir áralanga baráttu við lögin hefur Kína verið heimilað að kaupa upp stóran búgarð ásamt miklu landi á Nýja Sjálandi til landbúnaðarframleiðslu. Salan mætir harðri andspyrnu fólks heimafyrir sem finnst verið að selja auðlindir þeirra úr land og ofra fæðu- og matvælaöryggi eigin þjóðar til framtíðar fyrir skyndigróða. Kínverjar séu hinsvegar að tryggja fæðuöryggi sinnar þjóðar með uppkaupum á landi í öðrum heimsálfum. Fjallað var um þetta á fréttastofu Aljazeera í gær.

http://www.aljazeera.com/video/asia-pacific/2012/04/2012420141723456740

Þessu hefur verið lýst sem siðferðilegri baráttu fyrir eigin landi. Nú hefur hinsvegar Nýsjálenska þingið komist að þeirri stefnumarkandi niðurstöðu að Kínverskt fjárfestingafyrirtæki geti keypt þar upp gríðarstóran búgarð ásamt landi. Nýja Sjáland er mikið landbúnaðarland og því hefur þetta mál vakið upp mjög sterkar tilfinningar. Fólk hefur áhyggjur af því að verið sé að selja úr landi meginatvinnuveg þjóðarinnar. Kínverjar hafa hins vegar fagnað þessari niðurstöðu. Þeir sem eru andvígir landsölunni eru engu að síður staðráðnir í að halda baráttunni áfram.

En hvers vegna er Kína að kaupa upp land á Nýja Sjálandi? Meginástæðurnar eru taldar tvær; annarsvegar sé það góð fjárfesting og hinsvegar til að tryggja eigið matvælaöryggi. Ríkar þjóðir eru meðvitaðar um það að þær gætu margar hverjar horft fram á matvælaskort. Vexti fylgir aukin eftirspurn eftir matvælum og því þarf að tryggja matvælaöryggi. Til að tryggja það eru þessar þjóðir að kaupa upp ræktunarland í fjarlægum löndum til að rækta matvæli fyrir sitt eigið fólk.

Þær ríkisstjórnir sem eru veikastar fyrir því að selja frá sér land með þessum hætti er helst að finna í Afríku. Kína hefur til að mynda fjárfest fyrir 800 milljónir dollara í hrísgrjónaræktun í Mosambique, Suður Kórea hefur nýlega gengið frá samningum um 100,000 ha landbúnaðarland í Tansaníu. Margir hafa áhyggjur af því að þær þjóðir, gjarnan þær fátækustu í heiminum, sem eru að selja frá sér land með þessum hætti séu hlunnfarnar og komi ekki að vel út úr þessum viðskiptum. Alþjóðabankinn hefur t.d áhyggjur af því að smærri framleiðendum í landbúnaði sé ýtt til hliðar og fæðuskortur geti orðið á þeim svæðum sem í hlut eiga. Mestar áhyggjur eru samt af því að þær þjóðir sem nú selja land séu að ofra hagsmunum sínum hvað varðar framboð á matvælum og matvælaöryggi til framtíðar fyrir skammtíma gróða.

http://www.aljazeera.com/video/asia-pacific/2012/04/2012420141723456740


Gleðilegt sumar - Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar er góð kveðja sem hljómar nú um allt land. Sumardagurinn fyrsti var um aldir  og er enn einn mesti helgidagur þjóðarinnar einkum í sveitum næst á eftir jólum. Sumardagurinn fyrsti var í mínu ungdæmi helgaður börnum og svo er enn. Fyrsti opinberi barnadagurinn var haldinn á sumardaginn fyrsta  í Reykjavík 1921.

Á mínu heimili norður á Ströndum var Sumardagurinn fyrsti mikill hátíðisdagur og hann einkum tileinkaður ungum piltum eins og fyrsti dagur Einmánaðar var helgaður ungum stúlkum.

Fjölmennt var í heimili og ungu piltarnir fóru snemma á fætur og búið var til kakó og bakaðar lummur. En áður tíðkuðust sérstakar glóðarsteiktar flatkökur með smjöri eða öðru lúxus viðbiti og þóttu mikið lostæti og ómissandi hluti af sumarkomunni. Eitthvað hafði þetta nú verið undirbúið daginn áður.

Í minnist þess á heimili foreldra minna og einnig fyrstu árin í okkar eigin búskap að þá voru það það ungu mennirnir á bænum sem báru morgunhressinguna í rúmið til annarra heimilsmanna, rjúkandi heitt kakó og lummur eða pönnukökur. Var mikill spenningur, hátíðleiki og gleði í kringum þá athöfn.

Á eftir var farið í leiki. Gjarnan var farið í heimsóknir á næstu bæi eða unga fólkið af næstu bæjum kom til okkar. Allt fór þó eftir veðri. Ef gott veður var þá var gengið niður á fjörur einkum eftir að við komum í Bjarnarhöfn. En óvíða er vorkoman fegurri en einmitt í hinu víðáttumikla útfyri og eyjum Breiðafjarðar. Fuglinn var þá kominn á fjörurnar og í björgin.  Gjarnan var  svartbakurinn farinn að draga og hægt að krækja í einn og einn dreginn rauðmaga.

Sumardagurinn fyrsti var frá því  ég  man, fyrst og fremst helgaður börnum og hátíðamatur hafður á borðum og gefnar sumargjafir. Ég man þó eftir því að afi minn og amma sem voru hætt búskap fóru í opinbera heimsókn í  fjárhúsin til að skoða féð og fylgdi þá öll fjölskyldan með. Var þá litið á heyforðann, tekið á holdum kindanna , hvernig væri fóðrað, og þreifað undir ærnar hvort væri að koma júgur og þær farnar að búa sig til burðar. " Búast til" eins og kallað var.

Ég man enn vel eftir síðasta Sumardeginum fyrsta  okkar í Asparvík  1951. Eftir að hafa hlustað á sumarlög í útvarpinu og guðsþjónustu fórum við Sesselja systir að ganga á rekann sem var okkur hin besta skemmtun. Fundum við þá á svokölluðum Sandodda, sunnan við bæinn gríðarlega stórt  tré, rekið. Flýttum við okkur heim að segja tíðindin og að bjarga þyrfti viðnum undan sjó. Þóttum við nokkuð óðamála um tréð því afi spurði nákvæmlega um stærðina. Vitnaði hann til gamals atviks úr sínu ungdæmi þar sem ungur maður óðamála eins og við lýstu risastóru ný reknu tré. Stór, sívöl, rekin tré voru oft nefndar súlur.

Súlurýja rak í vog

rétt upp í hann Sigurð

Tíu álnir var hún og

eftir því á digurð.

Þessi stund er mér minnistæð.

Þetta tré okkar Sesselju var  svo nokkrum vikum síðar flutt ásamt  fjölskyldunni  með Skjaldbreið til Bjarnarhafnar og unnið þar í girðingarstaura.

Sumardagsins fyrsta er snemma getið. Í Gylfaginningu Snorra-Eddu segir frá því hvernig æsir rufu eiða þá sem þeir höfðu svarið borgarsmiðnum. Borgarsmiðurinn hafði boðist til að reisa á þremur misserum borg svo góða að hún héldi frá bergrisum og hrímþursum. Í staðinn átti hann að fá Freyju að konu og að auki sól og mána.

"Þá gengu æsir á tal ok réðu ráðum sínum, ok var þat kaup gert við smiðinn, at hann skyldi eignast þat, er hann mælti til, ef hann fengi gert borgina á einum vetri, en inn fyrsta sumarsdag, ef nökkurr hlutr væri ógerr at borginni, þá skyldi hann af kaupinu."

Ekki mælum við með slíkum brigslum heldur gleðjum hvert annað með  fallegum óskum og með sumarbrosi og góðum vinargjöfum

Gleðilegt sumar


Í minningu látins vinar og góðs mágs, Jónasar Þorsteinssonar frá Ytri- Kóngsbakka í Helgafellssveit

„Kvöldið er fagurt, sól er sest og sefur fugl á grein.

Við skulum koma vina mín og vera saman ein.“

Sólin er sest í jarðnesku lífi góðs mágs og vinar, Jónasar á Kóngbakka.

 Árið 1951 flutti fjölskylda mín frá Asparvík á Ströndum til Bjarnarhafnar á Snæfellsnesi. Ég var þá barn að aldri í hópi níu systkina, sem seinna urðu tíu.

Mér er enn í fersku minni þegar Skjaldbreið lagðist fyrir akkeri á Kumbaravogi, hinni fornu höfn Bjarnarhafnar með stórfjölskylduna frá Asparvík um borð. Við krakkarnir vorum ákaflega spennt að sjá víðáttur hins fyrirheitna lands og ekki hvað síst hina nýju nágranna. En þeir höfðu safnast þar saman við voginn til að rétta hjálparhönd við uppskipunina.

Hér voru ungu piltarnir úr Helgafellssveitinni og í þessum hópi var Jónas. Hann kom því inn í líf fjölskyldunnar frá fyrsta degi á nýjum stað og var alltaf hjá okkur síðan. Elsta systir okkar, Aðalheiður, var þá 18 ára, rösk og glæsileg stúlka og vön að taka til hendi á stóru heimili.

Sú góða saga er sögð að Heiða hafi rétt út yfir borðstokkinn eldavélina þeirra afa og ömmu og sagt: „Taki nú einhver við!“. Jónas var þá næstur og tók á móti. Það hefur ýmislegt verið sagt, bæði satt og logið, um ást við fyrstu sýn. Hafi ástin ekki kviknað á milli þeirra við Skjaldbreið er þau héldu á eldavélinni á milli sín, var þess alla vega ekki langt að bíða.

Jónas var okkur strax ómetanleg hjálparhella. Í samanburði við Asparvíkina norður þar voru lendur Bjarnarhafnar víðáttumiklar og gerðar fyrir hesta. Hestakostur var ekki mikill fyrstu árin í Bjarnarhöfn en Jónas var afburða knapi og átti góða reiðhesta.

Fyrir hann var það svo sjálfsagt að hlaupa undir bagga með okkur bæði með hesta og reiðtygi auk þess að kenna okkur hestamennsku til skemmtunar.

 En í þann tíma var það eitt helsta gaman ungs fólks að fara í útreiðartúra á sunnudögum. Og þar var Jónas í forystu hóps af ungu fólki sem naut samvistum við náttúruna við gleði og söng. Reiðtúrarnir með honum voru ógleymanlegir, upp í Botna, að Írafelli eða í kringum Bjarnarhafnarfjall. Ávallt var Jónas í broddi fylkingar á honum Jarp sínum sem bar af öðrum hestum.

Og þegar áð var tóku allir lagið eða hlupu í skarðið. Svo á heimleiðinni, þegar dró að kveldi, voru Jónas og Heiða orðin síðust í hópnum. Heiða var þá komin á Jarp sem ég minnist ekki að aðrir hafi fengið að fara á bak á en Jónas. Hópurinn hélt áfram.

 

Jónas og Heiða systir tóku saman og hún flutti að Kóngsbakka til Jónasar. Áfram var Jónas sami æringinn, hinn góði félagi, ávalt reiðubúinn að leggja hjálparhönd. Við minnumst varla hjálpfúsari eða glaðlyndari manns.

Við krakkarnir dáðum Jónas. Hann tók okkur öllum sem jafningjum, hvatti okkur og sagði okkur til í hestamennskunni, spilum eða hverju sem var.

Minningarnar eru margar og góðar : Þegar hann kom með dráttarhestana sína og sláttuvélina og sló túnið. Við áttum þá engan vélakost. Þegar hrossin, hálfvillt stóð, voru rekin saman niður í fjöru og út í flutningapramma og flutt til vetrarvistar út í eyjar. Biluð ljósavél sem þurfti að skrúfa í sundur þótt það tæki daginn og nóttina. Sækja hross í stóðið upp á fjall eða út á Botna, reka féð til slátrunar, smala til rúnings. Alltaf var Jónas tiltækur með glampa í augum og bros á vör.

Eftir að við Ingibjörg hófum búskap í Bjarnarhöfn nutum við góðrar sambúðar við Jónas, Heiðu og fjölskylduna,  Þorstein, Bjarna, Agnar og Guðbjörgu. Jónas bauð Bjarna elsta syni okkar að velja sér fyrstu kindina, hana Móru sem varð ættmóðir fjárstofnsins hans í Bjarnarhöfn.

Jónas lifði og hrærðist í hrossum og átti ávalt góða gæðinga. Átti hann glæsta sigra á þeim vettvangi. Og til síðasta dags hélt hann glampanum í augum og bauð upp á hestakaup.

Á níræðisafmælinu kom fjölskyldan og nánustu vinir Jónasar saman og glöddust. Og Jónas brást ekki sínum heldur gat glatt alla og söng eitt eftirlætis ljóða sinna "Undir bláhimni" með  tærri og hljómmikilli röddu.

Nú þegar við kveðjum góðan mág og vin er okkur efst í huga þakklæti fyrir samferðina. Jónas auðgaði lífið, hann var fastur fyrir en bar ávallt  með sér gleði, kærleika og reisn sem við samferðafólk hans nutum. Þar var það hann sem gaf.

„Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,

 er gleðin skín á vonar hýrri brá.“

Með söng  munu gamlir félagar hans og vinir taka á móti honum handan móðunnar.

Við sjáum í anda Jónas á Kóngsbakka, stoltan og glaðbeittan taka töltsprettinn á Jarp og þeysa út í hið eilífa, græna vor.

Blessuð sé minning Jónasar Þorsteinssonar frá Ytri- Kóngsbakka. 

Jónas var fæddur á Kóngsbakka 18. nóv. 1920 og lést 27. mars sl..

Útför hans fór fram frá Stykkishólmskirkju 14. apríl sl. að viðstöddu miklu fjölmenni.

( Birtist sem minningagrein í mbl. 14. apríl) 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband