Mánudagur, 18. mars 2013
Kosið um sjálfstæði eða inngöngu í ESB
Utanríkisráðherra er bjartsýnn á inngöngu Íslands í ESB:
Frá mínum bæjardyrum séð er það ekki slæmt að viðræðurnar hafi tekið aðeins lengri tíma en við gerðum ráð fyrir þar sem að við, sem styðjum aðild að ESB, þurfum á því að halda að evrusvæðið verði sterkara og að sambandinu gangi betur. Og það er að gerast núna. Segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Óhjákvæmilegt að ganga í ESB
Kosningarnar í vor munu snúast um inngöngu í ESB eða ekki. Það er blekkingaleikur að halda því fram að hægt sé að vinna að aðildarsamningi án þess að ætla að ganga inn. Því lengra sem við sogumst inn í aðlögunarferlið því erfiðra verður að snúa við. Og samningi lýkur ekki af hálfu ESB fyrr en við höfumm innleitt lög og reglur ESB. Og að óbreyttu mun þetta allt gerast, fullveldisframsalið undirbúið og nánast frá gengið án þess að þjóðin hafi nokkurn tíma verið spurð fyrr en þá eftirá. Þetta vita þeir félagar Össur Skarphéðinsson og Stefán Fule stækkunarstjóri ESB. Óhjákvæmilegt að ganga í ESB
Össur var reyndar fullviss um að ný ríkisstjórn hver svo sem hún yrði og tæki við í vor myndi halda áfram samningum og inngönguferlinu í ESB. Þjóðin yrði þá aðeins spurð eftir á svona til málamynda.Kosningarnar í vor munu því snúast um hvort framselja eigi fullveldi þjóðarinnar til Brussel. Vill þjóðin það?.
Nei ég held ekki. En þá verður að stöðva umsóknar- og aðlögunarferið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. mars 2013
Segir sig frá lista VG í Norðausturkjördæmi.
Samþykkt landsfundar VG um áframhaldandi viðræður um inngöngu í ESB var kornið sem fyllti mælinn:
"Þegar þessi lest er komin af stað veit maður ekki hvert hún fer með okkur. Mér finnst því rétt að taka teinana í sundur strax"
segir Þorsteinn í viðtali við Morgunblaðið í dag.
"Ég hafði lengi verið ansi óánægður einkum með það hvernig vinstri grænir afgreiddu Evrópumálin á síðasta landsfundi"
Þorsteinn Bergsson á Unaósi hefur um árabil verið einn af forystumönnum VG á Norðausturlandi. Þorsteinn er landsmönnum einng kunnur fyrir frábæran árangur í spurningakeppninni - Útsvar.
Samþykkt landsfundar um áframhaldandi ESB viðræður var kornið sem fyllti mælinn hjá Þorsteini.
En ágreiningurinn snýst um fleira en Evrópumálin hann nefnir málefni Sparisjóðs Keflavíkur, Sjóvá, umhverfismál á Bakka ofl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. mars 2013
- Svík þú aldrei ættland þitt í tryggðum -
Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð m.a til að berjast gegn umsókn og aðild að ESB. Flokkurinn vann mikinn kosningasigur vorið 2009 á grundvelli heiðarlegra og einfaldra gilda sem fólk skildi.
Trúnaður, traust og orðheldni voru af minni hálfu ekki innantóm slagorð. Ein fyrsta setningin í stofnskrá Vinstri grænna kvað á um fullveldi og sjálfstæði Íslands. Ég lofaði kjósendum mínum því að standa við stefnuskrá flokksins og grunngildi. Ég myndi berjast gegn umsókn og aðild að ESB. Þegar Alþingi hafði samþykkt umsóknina gætti ég að því sem ráðherra að staðið væri á rétti Íslendinga og lagðist gegn fyrirfram aðlögun og undirgefni við ESB í þeim viðræðum. - Það er ekkert sem heitir að kíkja í pakann þegar sjálfstæði þjóðarinnar er annarsvegar. Enda hefur það ítrekað komið fram að ESB veitir engar varanlegar undanþágur, þeir sem halda því fram eru vísvitandi að blekkja þjóðina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.3.2013 kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. mars 2013
M A K R Í L L- Aukum hlut smábáta og landvinnslu
Brýnt er að auka stórlega hlutdeild og magn til smábáta í veiðum á makríl, efla dagróðra og landvinnsluna á makrílnum. Þetta kemur fram í ágætri grein Unnsteins Þráinssonar, smábátasjómanns á Hornafirði á vef samtakanna 27. febr sl.:
Síðastliðið sumar stunduðu vel á annan tug smábáta færaveiðar á makríl. Eftir mikla vinnu síðastliðinna ára, gengu veiðarnar nú vel og skiluðu góðum árangri, segir Unnsteinn sem er einn af frumkvöðlum í þessum veiðum. Makrílveiðar smábáta í brennidepliÁ síðustu árum hefur göngumynstur makríls breyst með þeim hætti að hann hefur gengið upp á landgrunnið, fast upp að ströndinni, fyllt firði og voga hringinn í kringum landið. Á flestum bryggjusporðum í landinu hefur fólk mokað upp makríl.
Makríllinn á veiðislóð smábátanna
Það er mikil breyting frá því sem var í upphafi þegar makríllinn hélt sig djúpt undan suðaustur- og austurlandi. Makríllin hefur nú gengið upp í miklu magni á hefðbundin mið smábátasjómanna og annarra dagróðrarbáta sem koma með aflann daglega í land til vinnslu. Það hefur jafnframt sýnt sig að landvinnsla á makríl, heilfrysting og flökun skila afar góðum virðisauka fyrir minni útgerðir, fiskvinnslur í landi og vinnufúsar hendur. Þegar makríllin gekk fyrst á miðin og inn á grunnslóðina höfðu smábátasjómenn ekki þróað veiðitæki eða aflað sér reynslu í veiðum og vinnslu makríl við slíkar breyttar aðstæður. Nú hefur það tekist og landvinnsla á makríl tvö síðustu ár var mjög ábatasöm skilaði góðri vöru sem og veitti atvinnu í landi, einmitt þegar dró úr veiðum og vinnslu á öðrum fiski. Fyrir skólafólk í sjávarbyggðunum var vinnsla á þessum fiski gríðarlega mikilvæg. Leyfi ég mér einnig að nefna frumkvöðla eins og Sjávariðjuna á Rifi og útgerð Guðmundar Runólfssonar í Grundarfirði, en fleiri hafa gert mjög góða hluti í þessum efnum. Þessar staðreyndir þarf að hafa allar í huga þegar aflaheimildum í makríl verður úthlutað í vor á einstaka veiðiflokka.Landvinnsla á makríl
Ég lagði sem ráðherra strax áherslu á að smærri bátum og ísfisktogurum væri ætlaður umtalsverð hlutdeild í makrílveiðunum og heildar magn til þeirra útgerða aukið. Árið 2010 lagði ég til a.m.k. 3000 tonn til smábátanna í makríl. Að vísu höfðu þeir þá ekki þróað veiðar og vinnslutækni til að taka allt það magn. En smábátasjómenn voru snöggir að ná tökum á hlutunum. Ekki óraði mig þá fyrir því að makríllinn mundi ganga í svo miklu magni inn á grunnslóðina inn á víkur og firði hringinn í kringum landið eins og raun var á. Þessar forsendur bæði réttlæta og krefjast þess að það magn sem úthlutað er til smábáta og annarra dagróðrabáta verði stóraukið frá því sem verið hefur. Landssamband smábátaeigenda hafa sett fram rökstuddar óskir í þeim efnum.Framleiðsla í hágæðaflokki
Dagróðrar og landvinnsla á makríl skiftir gríðarmiklu máli fyrir afkomu minni útgerða, fiskvinnslna og vinnu landverkafólks í sjávarbyggðum víða um land. Sú vara sem þannig er framleidd reynist einnig í hágæðaflokki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 9. mars 2013
Hans og Gréta og ESB
Þeir sem sækja um aðild að ESB gera það til að komast þar inn, annað er óheiðarlegt. Það er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann.
Að halda slíku fram eru ómerkilegar blekkingar. ESB veitir engar varanlegar undanþágur heldur tímabundna aðlögun.
Það hefur marg komið fram að það er ESB sem ræður hraða umsóknarferilsins sem ræðst af því hversu hratt regluverk ESB er innleitt og hvenær það telur pólitískt réttast að ljúka aðlöguninni.Aðild að ESB snýst um framsal á fullveldi og yfirráðum á auðlindum landsins til erlends ríkjasambands. ESB er í þessum samningum eins og nornin og sykurhúsið í Hans og Grétu og forystumenn stjórnarflokkanna eins og börn sem vilja kíkja á nammið.
Ekki er ég hinsvegar viss um að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna og samninganefndarinnar hafi hugrekki Hans og Grétu til að stinga norninni í ofninn. Gréta sá strax að nornin vildi aðeins fita þau og éta svo. Hefðu stjórnvöld það hugrekki sem Gréta hafði, væri nornin þegar komin inn í ofninn. Hinsvegar er haldið áfram að sleikja sykurhúðuðu kökurnar, haldið áfram að kíkja í pokann.
Aðlögunarvinnan að ESB hér innanlands er á fullu, nýir lagabálkar í smíðum, aðlögun stofnana og stjórnsýslu að ESB. Milljarðar í fjármagni og vinnu fólks í ráðuneytum og stofnunum er bundið í ESB umsóknarvinnu, innleiðingu og aðlögun.Atvinnuvegaráðherra og Bændasamtökin skrifuðu nýlega undir framlengingu á búvörusamningi milli ríkisins og bænda, gott mál, en af hálfu stjórnvalda var það gert með skýrum fyrirvara um inngöngu í ESB innan þess samningstíma.
Nú dynja yfir auglýsingarnar í fjölmiðlum frá fótgönguliðum ESB:
Komið og sleikið sykurhúðuðu kökurnar mínar og kíkið í bæinn.
Landsfundur Vinstri grænna , flokksins sem var stofnaður til að berjast gegn umsókn og aðild að ESB samþykkti að áfram skyldi kíkt í pakkann og kökurnar sleiktar a.m.k. eitt ár til. Þær eru svo sætar á bragðið. Við fáum allanokkra milljarða áfram í styrki- aðlögunarfé frá ESB.
Því fjölgar fólki og stofnunum sem er beint háð þessum styrkjum, fjöldi manns fær nú ókeypis flugferðir og hóteldvalir í Brussel. Þetta ástand fer að minna á hermangið á sínum tíma.Sleikjum sykurinn meðan ESB kyndir ofninn dynur á þjóðinni.
Af þessum ástæðum verður að segja stopp. Það verður að bakka Grétu upp sem hafði dug til að stinga norninni sjálfri inn í ofninn. Hverskonar samningar halda menn, að séu gerðir af þeim sem eru með fullan munninn af sykri?
Samninganefndarmenn ESB og fulltrúar þeirra hér á landi kunna sitt fag.
Það er okkar að segja stopp og taka Grétu til fyrirmyndar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. mars 2013
Efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga og kröfuhafarnir
Það er nú alltaf að verða ljósara og ljósara hvað það er mikilvægt að láta
ekki undan áróðri og þrýstingi erlendra kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna.
Hér er gríðarmikið í húfi fyrir landsmenn en allt í allt telja krónueignir
þrotabúanna þriggja um 900 milljaðra. Málið snýst um það hvort hinir erlendu
kröfuhafar eigi að njóta undanþágu frá gjaldeyrislögum landsins og fá
forgang til þess að geta skipt þessum krónum sínum í gjaldeyri. En einnig um
eignarhaldið á nýju bönkunum, en stórhættuleg eru þau áform að selja
fjárfestum þó íslenskir séu hluti kröfuhafanna í Arion banka og
Íslandsbanka og greiða þeim með erlendum gjaldeyri.
Kröfuhafarnir mega ekki ráða ferðinni
Heiðar Guðjónsson hagfræðingur rekur þessa umræðu á mjög skilmerkilegan hátt með
grein í Fréttablaðinu 5.mars sl.: Erlendir kröfuhafa mega ekki ráð ferðinni.
Víkur hann að þeirri umræðu sem er í dag um að kröfuhafarnir selji hluti sína á
miklum afslætti.!
Og Heiðar spyr: Afsláttur frá hverju, það er ekkert verð á þessum bönkum.
Eða hver veit það verð.? Og hver veit um raungildi íslensku krónunnar í
slíkum viðskiftum, þegar í gildi eru gjaldeyrishöft og neyðarlög. Það er ekki jafnvægi á utanríkisviðskiftum sem þýðir að krónan er of sterk, ef
eitthvað er. Allt tal um afslátt er því einungis til að afvegaleiða
umræðuna, segir Heiðar.
Kröfuhafarnir eru engir Íslandsvinir
Og fjármögnum á skuldum Orkuveitu Reykjavíkur er allt í einu orðinn hluti af
uppgjöri við vogunarsjóði erlendu kröfuhafa bankanna sem standa í umdeildum nauðasamningum.
Heimilin í landinu, fyrirtækin stór og smá vita hvað nauðsamningar og
gjaldþrot þýða. Erlendu kröfuhafarnir sem hér telja sig eiga hundruð ef
þúsund milljarða kröfu á Íslendinga eru engir Íslandsvinir komnir til að
þiggja gefins lopapeysur heldur alþjóðlegir, harðsvíraðir peningamenn vogunarsjóða sem
hugsa fyrst og fremst um að hrifsa til sín allt sem þeir geta. Þeir eru
nafnlausir og andlitlausir, enginn veit í raun hverjir þeir eru.
Og Heiðar mælir sterk varnaðarorð: Fjölmiðlafulltrúar kröfuhafa, lögfræðingar þeirra og bankamenn vinna að hagsmunum umbjóðenda sinna en ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Þeir reyna kerfisbundið að draga úr
trúverðugleika þeirra sem standa á rétti þjóðarinnar og reyna að afvegaleiða
umræðuna. Við verðum að standa fast á rétti okkar og ekki leyfa afglöpum í kringum Icesave að endurtaka sig"
Efnahagslegt sjálfstæði er í húfi
Ég tek undir varnaðarorð Heiðars. Að leiða þrotabú gömlu bankanna í gjaldþrot er þekkt og gagnsæ leið. Endanlegt uppgjör við erlendu kröfuhafana og niðurstaða nauðasamninganna er líklega ásamt ESB umsókninni eitt stærsta hagsmunamál almennings og getur ógnað framtíð og efnahagslegs sjálfstæðis Íslendinga, ef ekki er fast á málum haldið.
Liggur kannski beinn þráður milli hnjáliðamýktarinnar í samningum við fulltrúa
hinna erlendu kröfuhafa og umsóknarinnar að ESB?.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. mars 2013
Bændur segja allt gott
Búnaðarþing var sett í dag við hátíðlega athöfn á Hótel Sögu. Einkunnarorð þingsins eru: Bændur segja allt gott.
Haraldur Benediktsson lætur nú af formennsku eftir níu ár og hyggst hasla sér völl á hinum pólitíska vettvangi Alþingis. Ég þakka Haraldi samstarfið og góð störf í formennsku Bændasamtakanna og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.Sem fyrrum ráðherra landbúnaðarmála þekki ég frá fyrstu hendi trausta baráttu Bændasamtakanna gegn aðlögun og inngöngu í ESB.
Hefðum við ekki notið einbeittrar andstöðu þeirra, studda ítarlegri faglegri vinnu, væri Ísland nú þegar búið að gefa eftir mörg grundvallaratriði sem lúta að sjálfstæði Íslands og fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar í svokölluðum samningaviðræðum við ESB. Náið samstarf mitt sem ráðherra við forystu Bændasamtakanna og starfsmenn þeirra og þrotlaus barátta þeirra hefur skipt sköpum fyrir þjóðina í þeim efnum.
Matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar
Ég minni á átökin í kringum bannið á innflutningi á hráu, ófrosnu kjöti og lifandi dýrum. Þar vildu forystumenn ríkisstjórnarflokkanna og samninganefndarinnar að gefið væri eftir fyrirfram í samræmi við kröfur ESB. Og það þrátt fyrir að Alþingi hefði nýlega samþykkt lög sem viðhéldu banni á innflutningi á þessum vörum. Aftur var tekist á um þessi mál inni í utanríkismálanefnd en þar átti ég sæti í nokkra mánuði. Með harðfylgi og kröftugum stuðningi Bændasamtakanna tókst að koma í veg fyrir stórslys af hálfu stjórnvalda í mótun samningsafstöðu Íslendinga í þessum málum. Sú barátta átti reyndar þátt í að mér var síðan vikið úr utanríkismálanefnd, sem er önnur saga.
Nú hafa stjórnvöld neyðst til að gera sýndarhlé á aðlögunarviðræðunum fram yfir kosningar. Áfram streymir þó aðlögunarfé ESB til landsins, áróður og undirbúningur aðildar er á fullu.
Látum ekki blekkjast
Formaður Bændasamtakanna var þó óvarlega bjartsýnn á að umsóknin væri pólitískt dauð. Því miður er það ekki svo. Hann sagði orðrétt:
Í mínum huga er umsókn um aðild að Evrópusambandinu pólitískt dauð, henni verður endanlega aflýst eftir Alþingiskosningarnar í vor en þær kosningar eru fullveldiskosningar. Við höfum staðið fast á okkar stefnu í málinu og sætt margvíslegum ákúrum en okkar sjónarmið hafa aldrei verið hrakin. Nýjasta sending frá ESB til okkar er að sambandið hyggst hafa meðalgöngu í málaferlum gegn Íslandi, svona rétt eins og glæsilegur árangur þeirra í Icesave var, í deilum um að troða inn í landið hráu kjöti sem ESB getur ekki ábyrgst hvort hneggjaði eða baulaði í lifandi lífi. Allt á grundvelli fullkominnar löggjafar um heimsins besta matvælaeftirlit. Verði þeim að góðu.
Vissulega höfum við unnið varnarsigur og andstaðan gegn umsókn og aðild að ESB meðal þjóðarinnar hefur trúlega aldrei verið meiri en nú.
Staðreyndin er því miður sú, að þrír stjórnmálaflokkar, Samfylking, Vinstri græn og Björt framtíð hafa nú þegar lýst því yfir að halda beri áfram aðlögun og samningum við ESB að kosningum loknum. Ég hef rækilega kynnst því hve lítil innstæða getur verið fyrir digurbarkalegu tali um andstöðu við aðild að ESB, en sverustu hnén virðast bogna fljótt þegar ríkisstjórnarsamstarf er í boði eða ráðherrastólar að veði. Það gildir að öllum líkindum um forystufólk hjá fleiri flokkum en Vinstri hreyfingunni - grænu framboði, þótt þeir hinir sömu lýsi því yfir fyrir kosningar að þeir vilja stöðva viðræðurnar eða gera á þeim hlé. Það þarf að ýta þeim strax ákveðið og varanlega út af borðinu.
Fullveldiskosningar í vor
Þegar kemur að fullveldi þjóðarinnar þýðir ekki að vera með eitthvert hálfkák, bjölluat eða að kíkja í pakkann. ESB veit hvað það vill.
Kosningarnar í vor munu svo sannarlega snúast um fullveldið, eins og fráfarandi formaður Bændasamtakanna komst að orði.Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2013 kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. mars 2013
Ekkert hlé á aðlögunarviðræðum við ESB
Stofnfundur nefndar til að koma á formlegum tengslum milli íslenskra sveitarfélaga og Svæðanefndar ESB vegna aðildarumsóknar Íslands að sambandinu verður í Ráðhúsi Reykjavíkur mánudaginn 4. mars kl. 10-15:
"Aðalmarkmiðið með stofnun nefndarinnar er að koma á tengslum milli íslenskra sveitarfélaga og Svæðanefndar ESB vegna aðildarumsóknar Íslands að sambandinu
Þetta kemur fram í frétt mbl. í dag. Umsóknin og aðlögunin að ESB er á fullri ferð þótt einhverjir reyni að þyrla upp því ryki að hlé hafi verið gert á aðildarviðræðunum: Hlutverk sveitarfélaga í aðildarferlinu til umræðu:
Fyrsti fundur sameiginlegrar ráðgjafarnefndar Íslands og Svæðanefndar Evrópusambandsins verður haldinn mánudaginn 4. mars í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Fundurinn, sem er öllum opinn, mun fjalla um hlutverk og þátttöku íslenskra sveitarfélaga í aðildarferlinu og í evrópskum byggðamálum ef til aðildar kemur. Jón Gnarr borgarstjóri og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flytja opnunarávörp. Fundurinn stendur frá kl. 10-15., segir í fréttatilkynningu"
Svona fara nú saman orð og athafnir stjórnvalda í ESB málum.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)