Hans og Gréta og ESB

Þeir sem sækja um aðild að ESB gera það til að komast þar inn, annað er óheiðarlegt. Það er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann.

 Að halda slíku fram eru ómerkilegar blekkingar. ESB veitir engar varanlegar undanþágur heldur tímabundna aðlögun.

Það hefur marg komið fram að það er ESB sem ræður hraða umsóknarferilsins sem ræðst af því hversu hratt regluverk ESB er innleitt og hvenær það telur pólitískt réttast að ljúka aðlöguninni. 

 Aðild að ESB snýst um framsal á fullveldi og yfirráðum á auðlindum landsins til erlends ríkjasambands.   ESB er í þessum samningum eins og nornin og sykurhúsið í Hans og Grétu og forystumenn stjórnarflokkanna eins og börn sem vilja kíkja á nammið.

Ekki er ég hinsvegar viss um að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna og samninganefndarinnar hafi hugrekki Hans og Grétu til að stinga norninni í ofninn. Gréta sá strax að  nornin  vildi aðeins fita þau og éta svo. Hefðu stjórnvöld það hugrekki  sem Gréta hafði,  væri nornin þegar komin inn í ofninn. Hinsvegar er haldið áfram að sleikja sykurhúðuðu kökurnar, haldið áfram að „kíkja“ í pokann.

Aðlögunarvinnan að ESB  hér innanlands er á fullu, nýir lagabálkar í smíðum, aðlögun stofnana og stjórnsýslu að  ESB. Milljarðar í fjármagni og vinnu fólks í ráðuneytum og stofnunum er bundið í ESB umsóknarvinnu, innleiðingu og aðlögun. 

Atvinnuvegaráðherra og Bændasamtökin skrifuðu nýlega undir framlengingu á búvörusamningi milli ríkisins og bænda, gott mál, en af hálfu stjórnvalda var það gert með skýrum fyrirvara um inngöngu í ESB innan þess samningstíma.

Nú dynja yfir auglýsingarnar í fjölmiðlum frá fótgönguliðum ESB:

 „Komið og sleikið sykurhúðuðu kökurnar mínar og kíkið í bæinn“.

Landsfundur Vinstri grænna , flokksins sem var stofnaður til að berjast gegn umsókn og aðild að ESB samþykkti að áfram skyldi „kíkt í pakkann“ og  kökurnar sleiktar a.m.k. eitt ár til.  Þær eru svo sætar á bragðið.  Við fáum allanokkra milljarða  áfram í  styrki- aðlögunarfé  frá ESB. 

Því fjölgar fólki og stofnunum sem er beint háð þessum styrkjum, fjöldi manns fær nú  ókeypis flugferðir og hóteldvalir í Brussel.  Þetta ástand fer að minna á hermangið á sínum tíma.„Sleikjum sykurinn meðan  ESB kyndir ofninn“ dynur á þjóðinni. 

Af þessum ástæðum verður að segja stopp. Það verður að bakka Grétu upp sem hafði dug til að stinga norninni sjálfri inn í ofninn.  Hverskonar samningar halda menn, að séu gerðir af þeim sem eru með fullan munninn af sykri?

Samninganefndarmenn ESB og fulltrúar þeirra hér á landi kunna sitt fag.   

Það er okkar að segja stopp og taka Grétu til fyrirmyndar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband