Bændur segja allt gott

 Búnaðarþing var sett í dag við hátíðlega athöfn á Hótel Sögu. Einkunnarorð þingsins eru:  „ Bændur segja allt gott“. 

Haraldur Benediktsson lætur nú af formennsku eftir níu ár og hyggst hasla sér völl á hinum pólitíska vettvangi Alþingis. Ég þakka Haraldi samstarfið og góð störf í formennsku Bændasamtakanna og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.Sem fyrrum ráðherra landbúnaðarmála þekki ég frá fyrstu hendi trausta baráttu Bændasamtakanna gegn aðlögun og inngöngu í ESB.

Hefðum við ekki notið einbeittrar andstöðu þeirra, studda ítarlegri faglegri vinnu, væri Ísland nú þegar búið að gefa eftir mörg grundvallaratriði sem lúta að sjálfstæði Íslands og fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar í svokölluðum samningaviðræðum við ESB. Náið samstarf mitt sem ráðherra við forystu Bændasamtakanna og starfsmenn þeirra og þrotlaus barátta þeirra hefur skipt sköpum fyrir þjóðina í þeim efnum.   

Matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar

Ég minni á átökin í kringum bannið á innflutningi á hráu, ófrosnu kjöti og lifandi dýrum. Þar vildu forystumenn ríkisstjórnarflokkanna og samninganefndarinnar að gefið væri eftir fyrirfram í samræmi við kröfur ESB. Og það þrátt fyrir að Alþingi hefði nýlega samþykkt lög sem viðhéldu banni á innflutningi á þessum vörum. Aftur var tekist á um þessi mál inni í utanríkismálanefnd en þar átti ég sæti í nokkra mánuði. Með harðfylgi og kröftugum stuðningi Bændasamtakanna tókst að koma í veg fyrir stórslys af hálfu stjórnvalda í mótun samningsafstöðu Íslendinga í þessum málum. Sú barátta átti reyndar þátt í að mér var síðan vikið úr utanríkismálanefnd, sem er önnur saga.

 Nú hafa stjórnvöld neyðst til að gera sýndarhlé á aðlögunarviðræðunum fram yfir kosningar. Áfram streymir þó aðlögunarfé ESB til landsins, áróður og undirbúningur aðildar er á fullu.  

  Látum ekki blekkjast

 Formaður Bændasamtakanna var þó óvarlega bjartsýnn á að umsóknin væri pólitískt dauð. Því miður er það ekki svo. Hann sagði orðrétt:

 „Í mínum huga er umsókn um aðild að Evrópusambandinu pólitískt dauð, henni verður endanlega aflýst eftir Alþingiskosningarnar í vor en þær kosningar eru fullveldiskosningar. Við höfum staðið fast á okkar stefnu í málinu og sætt margvíslegum ákúrum en okkar sjónarmið hafa aldrei verið hrakin. Nýjasta sending frá ESB til okkar er að sambandið hyggst hafa meðalgöngu í málaferlum gegn Íslandi, svona rétt eins og glæsilegur árangur þeirra í Icesave var, í deilum um að troða inn í landið hráu kjöti sem ESB getur ekki ábyrgst hvort hneggjaði eða baulaði í lifandi lífi. Allt á grundvelli fullkominnar löggjafar um heimsins besta matvælaeftirlit. Verði þeim að góðu“.  

 Vissulega höfum við unnið varnarsigur og andstaðan gegn umsókn og aðild að ESB meðal þjóðarinnar hefur trúlega aldrei verið meiri en nú.

Staðreyndin er því miður sú, að þrír stjórnmálaflokkar, Samfylking, Vinstri græn og Björt framtíð hafa nú þegar lýst því yfir að halda beri áfram aðlögun og samningum við ESB að kosningum loknum. Ég hef rækilega kynnst því hve lítil innstæða getur verið fyrir digurbarkalegu tali um andstöðu við aðild að ESB, en sverustu hnén virðast bogna fljótt þegar ríkisstjórnarsamstarf er í boði eða ráðherrastólar að veði. Það gildir að öllum líkindum um forystufólk hjá fleiri flokkum en Vinstri hreyfingunni - grænu framboði, þótt þeir hinir sömu lýsi því yfir fyrir kosningar að þeir vilja stöðva viðræðurnar eða gera á þeim hlé. Það þarf að ýta þeim strax ákveðið og varanlega út af borðinu.   

 Fullveldiskosningar í vor

 Þegar kemur að fullveldi þjóðarinnar þýðir ekki að vera með eitthvert hálfkák, „bjölluat“ eða að „kíkja í pakkann“. ESB veit hvað það vill.

 Kosningarnar í vor munu  svo sannarlega snúast um fullveldið, eins og fráfarandi formaður Bændasamtakanna komst að orði.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband