Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 1. mars 2013
Ekkert hlé á aðlögunarviðræðum við ESB
Stofnfundur nefndar til að koma á formlegum tengslum milli íslenskra sveitarfélaga og Svæðanefndar ESB vegna aðildarumsóknar Íslands að sambandinu verður í Ráðhúsi Reykjavíkur mánudaginn 4. mars kl. 10-15:
"Aðalmarkmiðið með stofnun nefndarinnar er að koma á tengslum milli íslenskra sveitarfélaga og Svæðanefndar ESB vegna aðildarumsóknar Íslands að sambandinu
Þetta kemur fram í frétt mbl. í dag. Umsóknin og aðlögunin að ESB er á fullri ferð þótt einhverjir reyni að þyrla upp því ryki að hlé hafi verið gert á aðildarviðræðunum: Hlutverk sveitarfélaga í aðildarferlinu til umræðu:
Fyrsti fundur sameiginlegrar ráðgjafarnefndar Íslands og Svæðanefndar Evrópusambandsins verður haldinn mánudaginn 4. mars í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Fundurinn, sem er öllum opinn, mun fjalla um hlutverk og þátttöku íslenskra sveitarfélaga í aðildarferlinu og í evrópskum byggðamálum ef til aðildar kemur. Jón Gnarr borgarstjóri og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flytja opnunarávörp. Fundurinn stendur frá kl. 10-15., segir í fréttatilkynningu"
Svona fara nú saman orð og athafnir stjórnvalda í ESB málum.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 28. febrúar 2013
- VG út úr skápnum -
Á sama tíma kom VG út úr skápnum sem einhverskonar krataflokkur með áherslur á kvenfrelsi og umhverfismál. Það er ekki að sjá á samþykktri stjórnmálaályktun flokksins að hann sé róttækur vinstri flokkur, sem er samt sú skilgreining sem margir flokksmenn hans vilja kenna sig við.
Þannig kemst leiðarahöfundur Fréttablaðsins að orði 27. febr. sl og ræður sér ekki fyrir kæti yfir kúvendingu landsfundar Vinstri grænna á stefnuskrá flokksins í ESB málum. Kvenfrelsismál og umhverfismál eru mikilvægar grunnstoðir VG en með því að samþykkja áframhald aðlögunar að ESB og klára það ferli er flokkurinn (VG) allt í einu orðinn möguleiki í þriggja flokka stjórn með Bjartri framtíð og Samfylkingu.
Og leiðarahöfundurinn, Þórður Snær Júlíusson er heiðarlegur og bjartsýnn fyrir hönd ESB-sinna:
Að lokum er ljóst að innan bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru margir Evrópusinnar. Þeir gætu ákveðið að kjósa áframhaldandi viðræður.
Og skiljanlega er ritstjórinn himinlifandi og fagnar niðurlægingu landsfundarins gagnvart þeim hugsjónum sem VG var stofnað um en leiðaranum líkur þannig:
Hinsvegar er möguleg þriggja flokka stjórn tveggja keimlíkra frjálslyndra jafnaðarmannaflokka og vinstri flokks, sem er að mörgu leyti hættur að haga sér eins og vinstriflokkur, með áframhaldandi aðildarviðræður sem aðalmál. Þetta verður athyglisvert.
Leiðarhöfundur Fréttablaðsins sem er þekkt sem málgagn þeirra sem vilja ganga í ESB , getur talað um hlutina tæpitungulaust og hefur ekkert að fela.Það minnir okkur jafnframt á að ESB umsóknin er á fullri ferð, öll vinna á fullum hraða þó svo reynt sé að blekkja með því að hlé hafi verið gert á vinnu við samningsafstöðu í sjávarútvegi og landbúnaði.
Að sjálfsögðu réðu flokkarnir ekki við þá vinnu póltískt í aðdraganda kosninga og því var nauðsynlegt að þyrla upp þessu ryki um hlé á viðræðum, sem er því miður alrangt.
Það er mikil alvara á ferð
Rétt er að rifja upp að Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnað til að standa vörð um frjálst og fullvalda Ísland og berjast gegn umsókn og aðild að ESB og á þeim forsendum fórum við, frambjóðendur VG í kosningarnar 2009 og unnum stórsigur. Því miður var sú stefna og þau kosningaloforð brotin með umsókninni að ESB vorið 2009. Því ferli átti hinsvegar að vera lokið vel innan kjörtímabilsins samkvæmt yfirlýsingu margra þeirra sem guldu já við að senda umsóknina til ESB.
Með landsfundarsamþykkt sinni núna um áframhaldandi aðlögun og aðildarvinnu að ESB er gengið þvert á grunngildi og hugsjónir Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, hugsjónirnar sem flokkurinn var einmitt stofnaður um. Er nema vona að kratarnir gleðjist.
Jafnframt er sú staðreynd herhvöt til okkar allra, þeirra sem hafna þessu ferli og vilja standa vörð um frjáls og fullvalda Ísland.
ESB hefur sitt á hreinu
Afstaða ESB er og hefur alltaf verið ljós.
Þar er ekkert til sem heitir að "kíkja í pakkann" í eitt ár til og það vita líka þeir stjórnmálamenn sem stóðu að tillöguflutningnum á landsfundi Vinstri grænna:
Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu. Um þessar reglur verður ekki samið.[1]
First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable. Þetta vita íslenskir stjórnmálmen og því eiga þeir að tala hreint út.
[2] [1]
Sjáfstæði þjóðar og fullveldi
Það á ekki að kíkja í pakkann eða fara með blekkingar gangvart þjóðinni þegar fullveldi hennar er annarsvegar. Þessa umsókn á einfaldlega að draga til baka og snúa sér að öðrum mikilvægum og brýnum verkefnum fyrir almenning í landinu. Samninga á aðeins hefja að nýju hafi þjóðin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirfram að óska eftir inngöngu í ESB.
[1] https://postur.althingi.is/owa/?ae=Item&a=New&t=IPM.Note#_ftnref1
[1] http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf
Byggt á grein sem grein í Fréttablaðinu 28.02. 2013 . jb
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. febrúar 2013
Hingað og ekki lengra
" Mitt mat var að meirihluti þingflokks og þeir sem þar stýra för og í ríkisstjórn væru komin svo langt frá grunngildum flokksins og kosningaloforðum ásamt óásættanlegum vinnubrögðum, að við ættum ekki lengur samleið á þeim vettvangi"
Blaðamaður Morgunblaðsins, Pétur Blöndal tók viðtal við mig sem birtist í blaðinu 20. jan sl. Þar eru m.a. raktar stuttlega ástæður þess að ég sagði mig úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Hér birtist viðtalið í heild:Ágreiningur innan þingflokksins kom fram á fleiri sviðum.
Mér finnst alltof harkalega gengið fram í niðurskurði til velferðar- og heilbrigðismála. Þar er hrunið engin afsökun, því fyrst og fremst er tekist á um forgangsröðun. Niðurskurður á heilbrigðisstofnunum, jafnvel 40% á einu ári, er óverjandi.
Nú síðast átti að krefja RARIK og Orkubú Vestfjarða um að greiða hundruð milljóna í arð í ríkissjóð. Á meðan berjast þessar dreifbýlisveitur við að endurnýja raflagnir og halda niðri kostnaði við dreifingu rafmagns, en raforkukostnaður er 30-40% hærri í dreifbýlinu. Þetta gengur fullkomlega gegn stefnu VG, enda börðumst við gegn því á sínum tíma að ákvæði um að ríkið mætti taka út arð yrði sett í lögin. Samtímis hefur ríkið ekki staðið við það sem lofað var við setningu raforkulaganna árið 2003, að jafna raforkukostnað og húshitunarkostnað um landið. Þetta finnst mér spegla allt aðra sýn en þá sem ég hef hvað varðar forgangsröðun og hugmyndafræði.
Ræturnar liggja á landsbyggðinni
Rætur Jóns Bjarnasonar liggja á landsbyggðinni. Það fer ekkert á milli mála þegar komið er inn á heimilið, þó að húsið standi við Aragötu í einu rótgrónasta hverfi Reykjavíkur.Á stofuveggnum hangir málverk af Asparvík á Ströndum. Þar fæddist hann og ólst upp til sjö ára aldurs. Og á ganginum er málverk af föður hans við Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi, en þangað flutti fjölskyldan frá Ströndum. Maður er umkringdur æskustöðvunum, segir hann.
Miklar væntingar
Óhætt er að segja að kjörtímabilið hafi verið róstusamt hjá Jóni og einkennst af átökum, einkum innan flokks. Jóni var vikið úr stóli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á miðju kjörtímabili og svo fór að Jón sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna um miðja viku, en hafði í ársbyrjun tilkynnt að hann hygðist ekki taka þátt í prófkjöri flokksins fyrir næstu kosningar. Ég hugleiddi þetta fram á síðustu stundu - þetta vó salt í huganum, segir hann.
Jón var kosinn á þing árið 1999 þegar flokkurinn var stofnaður og það var því stór ákvörðun að hverfa á braut. Ég hef helgað flokknum hugsjónir mínar og krafta, fyrst sem þingmaður Norðurlands vestra og svo Norðvesturlands, segir hann. Landsbyggðin á sterk ítök bæði í mér og stefnu flokksins, sem ég hef átt þátt í að móta. Þess vegna hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum með ríkisstjórnina síðustu misserin, ekki aðeins vegna ESB heldur einnig í því hvernig haldið hefur verið á mörgum málefnum landsbyggðarinnar og þjóðmálum almennt. Mér finnst það ganga í berhögg við þær hugsjónir og stefnu sem ég hef talið flokkinn standa fyrir. Ég var beggja blands hvort ég ætti að taka slaginn eða láta við svo búið sitja. Ákvörðun mín laut eingöngu að því að taka ekki þátt í þessu prófkjöri Vinstri grænna. Hann segir samstarfið hafa verið mjög erfitt innan þingflokksins og ágreiningur um bæði stefnu og vinnubrögð. Ég nefni sem dæmi að mínir nánustu samherjar hafa flestir horfið á braut, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og allir vita hvernig komið var fram við Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þá miklu hugsjóna- og baráttukonu, sem að síðustu sagði af sér þingmennsku. Það þýðir ekkert að segja að þau hafi horfið á braut - af því bara. Það getur enginn leitt það hjá sér. Síðan hættu góðir félagar og jafnvel forystumenn víða í félögum flokksins, sögðu af sér ábyrgðarstöðum eða sögðu sig úr flokknum.
Jón skýrir þessar hræringar innan flokksins með því, að mikill ágreiningurinn sé í grundvallarmálum sem hann var stofnaður um. Það hafi verið rótin að því að hann gaf ekki kost á sér fyrir VG í næstu kosningum. En hann útilokar ekki framboð. Í svona stöðu útilokar maður aldrei neitt," segir hann. "Við lifum jú á tímum þar sem skiptir máli hvert stefnt verður. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að berjast áfram fyrir mínum hugsjónum með því fólki sem á samleið með mér. En ekkert liggur fyrir í þeim efnum, enda er það í sjálfu sér allt önnur ákvörðun.
Ágreiningur frá fyrsta degi
Strax frá fyrsta degi var verulegur ágreiningur í þingflokksherberginu um ESB-umsóknina. "Þá þegar var gerð sú krafa að VG ætti í upphafi aðild að umsókninni, en því var hafnað af mörgum þingmönnum flokksins og þar með varð ljóst að ekki lægi fyrir meirihlutastuðningur stjórnarflokkanna. Lyktirnar urðu þær að Atli Gíslason lagði fram bókun sem við fleiri studdum um að þetta yrði ekki skilyrði í ríkisstjórnarsamstarfinu og færi svo, þá áskildum við okkur allan rétt til að halda fram okkar sjónarmiðum og berjast fyrir frjálsu Íslandi innan þings sem utan. Þess vegna kom ESB-umsóknin inn í þingið sem einskonar þingmannamál sem utanríkisráðherra flutti og síðan var það Alþingis að greiða atkvæði um framhaldið."Jón segir að skýrt hafi verið tekið framað það ætti að taka skamman tíma að fá úr því skorið hvort eitthvað væri að sækja inn í Evrópusambandið eða ekki. Auk þess kom ekki til greina neinskonar aðlögun eða aðkoma ESB inn í íslenskt samfélag meðan á samningaviðræðunum stæði. Á því hefur síðan orðið grundvallarbreyting og engan veginn verið staðið við þau fyrirheit. Við erum komin í bullandi aðlögun á mörgum sviðum og tökum við milljörðum í beinum fjárstuðningi frá ESB til að aðlaga íslenskar stofnanir og íslenskt stjórnsýslukerfi að sambandinu, nokkuð sem aldrei var látið uppi þegar atkvæðagreiðslan fór fram. Í ofanálag hefur verið komið á laggirnar stórri áróðursmiðstöð ESB með sérstökum sendiherra hér á landi, sem mjög er farinn að gera sig gildandi í íslenskri umræðu og íslenskum innanríkismálum. Hann boðar nú til mikillar hátíðar á næstu dögum til að fagna ágæti ESB.
Þetta er í hróplegu ósamræmi við það sem talað var um í byrjun, slær Jón föstu. Þessi ágreiningur speglaðist enn frekar þegar út í umsóknarferlið var komið. Þess var krafist að við aðlöguðum íslenskan landbúnað og stjórnsýslu í landbúnaði og jafnvel sjávarútvegi að reglum og skipulagi ESB, en allt heyrði það undir mitt ráðuneyti. Þá sagði ég: Nei, við förum ekki í slíka aðlögun. ESB skal svara því fyrst hvort það veitir varanlegar undanþágur eða ekki." Það vita allir sem vilja vita, að ESB hefur aldrei lofað varanlegum undanþágum. Þegar íslenskir stjórnmálamenn tala um slíkt þá er það fullkomin blekking. Þeir vita betur. Enda neitaði ESB að taka við skilyrtri umsókn.
Skilur ekki óttann við þing og þjóð
Í ársbyrjun 2011 hafði ágreiningur um framhald aðildarviðræðna magnast. Svo fór að þeir sem réðu ferðinni í VG, að ekki sé talað um Samfylkinguna, viku mér úr ríkisstjórn, segir hann. Alllöngu síðar var fallist á að ég tæki sæti í utanríkismálanefnd. Þar myndaði ég meirihluta með Framsókn og Sjálfstæðisflokki um að stöðva aðildarferlið og leggja til við Alþingi að afturkalla umsóknina þar til vilji þjóðarinnar lægi fyrir. Ég var búinn að leggja tillöguna fram, en þá kom krafa frá forystu okkar flokks og væntanlega Samfylkingarinnar um að falla frá þessu, því stórhættulegt væri að tillagan færi inn í þingið. Til að koma í veg fyrir að nefndin afgreiddi málið samt frá sér, var mér vikið úr henni. Ljóst varð í hvað stefndi á þingflokksfundi 2. janúar, sem varð til þess að ég tók endanlega ákvörðun um að bjóða mig ekki fram í prófkjörinu. Þegar því var fylgt eftir af fullri einurð í þingflokknum að ég færi úr utanríkismálanefnd vegna afstöðu minnar til ESB, sem er þó í samræmi við stefnu flokksins, varð ljóst að við ættum ekki samleið í þingflokknum.Hann segist ekki skilja af hverju óttinn stafi við að kalla Alþingi að borðinu og raunar líka þjóðina. Ég bara skil það ekki. Á meðan sökkvum við æ dýpradýpra í þetta ferli. Hingað berast milljarðar króna í fjármagni og íslenska ríkið ver í það gríðarlegum fjármunum. Sífellt fleiri stofnanir og einstaklingar eru orðnir háðir þessum fjármunum og aukin heldur fer mikil vinna stjórnsýslunnar í þetta, þannig að aðlögunin gengur sífellt dýpra inn í íslenskt samfélag. ESB er í sjálfu sér alveg sama hvað ferlið tekur langan tíma og ræður alveg ferðinni, hvenær það lokar hverjum kafla. Við höfum í sjálfu sér ekkert um þá vinnu að segja, svo lengi sem við tökum þátt í henni. Þess vegna tel ég að það eigi að stöðva ferlið og stíga út úr því. Það er fáránlegt að fara inn í næsta kjörtímabil með málið opið og það af hálfu flokks sem segist berjast gegn aðild að ESB. Þetta speglaðist líka í því að ég sat hjá við afgreiðslu fjárlaga, því ég gat ekki hugsað mér að styðja frumvarp sem gerði ráð fyrir milljörðum króna í vinnu við ESB- umsókn og aðlögun og tæki á móti fé frá þessu ríkjasambandi til þess hreinlega að hafa áhrif á ganga mála hér á landi.
Hingað og ekki lengra
Spurður um þá gagnrýni sem heyrst hefur á Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri grænna, að hann vilji eingöngu raða já-fólki í kringum sig, svarar Jón með því að skýra frá því að fella hafi átt Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í prófkjöri VG í suðvesturkjördæmi. Þó að allir hafi sama rétt til að bjóða sig fram, var öllum ljóst að það átti að koma Ögmundi út. Þannig að þetta er réttmæt gagnrýni. Steingrímur verður að svara þessu sjálfur, en ég held að það megi vel segja að dæmin tali sínu máli. Hvað með mann eins og Atla Gíslason? Hannhefur starfað í vinstri pólitík í áratugi, verið leiðandi í verkalýðsmálum, umhverfismálum og stutt félagsleg sjónarmið lögfræðilega sem málflutningsmaður með yfirburða þekkingu og reynslu. Að hann skuli finna sig knúinn til að yfirgefa flokkinn, ásamt fleirum sem ég nefndi áðan, sýnir að eitthvað er ekki í lagi. Það þýðir ekkert að halda öðru fram. Hér var ráðist gegn fólki með mikla þekkingu og reynslu, baráttujöxlum sem segja: Hingað og ekki lengra!Þótt oft þurfi að semja í samstarfi við aðra má ekki hverfa frá grunngildunum. Ágreiningur innan þingflokksins kom fram á fleiri sviðum. Mér finnst alltof harkalega gengið fram í niðurskurði til velferðar- og heilbrigðismála. Þar er hrunið engin afsökun, því fyrst og fremst er tekist á um forgangsröðun. Niðurskurður á heilbrigðisstofnunum, jafnvel 40% á ári, er óverjandi. Sem betur fer náðist nokkuð af því til baka með harðvítugri baráttu, bæði af okkar hálfu og fólks vítt og breitt um landið, þúsunda sem mótmæltu með undirskriftum og kröfugöngu.Nú síðast átti að krefja RARIK og Orkubú Vestfjarða um að greiða hundruð milljóna í arð í ríkissjóð. Á meðan berjast þessar dreifbýlisveitur við að endurnýja raflagnir og halda niðri kostnaði við dreifingu rafmagns, en raforkukostnaður er 30-40% hærri í dreifbýlinu. Þetta gengur fullkomnlega gegn stefnu VG, enda börðumst við gegn því á sínum tíma að ákvæði um að ríkið mætti taka út arð yrði sett í lögin. Samtímis hefur ríkið ekki staðið við það sem lofað var við setningu raforkulaganna árið 2003, að jafna raforkukostnað og húshitunarkostnað um landið. Þetta finnst mér spegla allt aðra sýn en þá sem ég hef hvað varðar forgangsröðun og hugmyndafræði.
Stjórnarskrá breytt með handafli og hnefarétti
Og Jón er ómyrkur í máli um vinnubrögðin í kringum breytingar á stjórnarskránni. Þegar stjórnlagaþing var kosið var landið gert að einu kosningasvæði, sem gerði það að verkum að einungis þrír hinna kosnu voru með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins. Það sýndi veikleika málsins í upphafi og skapaði fullkomna vantrú gagnvart þessu verki. Enda hefur komið í ljós að margar tillögurnar miða annarsvegar að því að rýra hlut landsbyggðarinnar á þingi með beinum hætti og skerða fullveldið. Nú skal breyta stjórnarskránni þannig að hún sé ekki hemill á að við göngum í ESB. Það átti líka að gera aðför að þjóðkirkjunni, en sem betur fer var kosið um það sérstaklega og þó að einungis brot af þjóðinni tæki þátt var stuðningur við þjóðkirkjuna afdráttarlaus.Það á að vanda til vinnu við stjórnarskrána, ekki hlaupa til með offorsi. Maður rekur hana ekki í gegnum þingið og ofan í þjóðina með handafli og hnefarétti - alls ekki. Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá. Ég er þó sammála því að rýmka fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök mál, og einnig á þjóðin að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarlegar skuldbindingar. Eru það ekki einmitt þær ákvarðanir sem eru þjóðinni mikilvægastar?
Jóhanna varð æf yfir makrílnum
Þegar Jóni var vísað úr ráðherrastól sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að hann hefði dregið lappirnar í sjávarútvegsmálum og skipaði ráðherranefnd undir stjórn Guðbjarts Hannessonar sem átti að skila af sér 15. desember. Ekkert bólar á niðurstöðu úr þeirri vinnu. Jóhanna sagði að ég hefði brugðist öllum mögulegum trúnaði og setti málið í nefnd, en ég held það hafi verið af því að ég var búinn að vinna hættulega gott frumvarp, sem gat náðst sátt um. Ég var alltaf andvígur hækkun á veiðigjaldinu, maður fer ekki samtímis í kerfisbreytingar og stórhækkar veiðigjald. Það verður að velja. Bæði Samfylkingin og Steingrímur voru að hugsa um ríkissjóð, en ég var að hugsa um byggðirnar. Ég vildi setja þak á hlutfallslega stærð útgerðarfyrirtækja, takmarka krosseignatengsl og treysta þannig dreifða útgerð og fiskvinnslu í landinu og binda veiðiheimildum sjávarbyggðunum.Og Jón segir allar ákvarðanir sínar sem sjávarútvegsráðherra standast gagnrýni, þó að þær hafi verið umdeildar á sínum tíma, en hann var meðal annars gagnrýndur fyrir að brjóta gegn stöðugleikasáttmálanum, þar sem kveðið var á um að ekki yrði hróflað við fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þetta voru miklar breytingar og lutu m.a að strandveiðum, fleiri byggðatengdum aðgerðum, veiðum á skötusel og því að losa hluta af síldinni úr kvótakerfinu, þannig að bátarnir á Breiðafirði fengju aftur heimild til að veiða síld.Það voru líka átök í kringum makrílveiðarnar. Ég tók ákvörðun um að Íslendingar fengju svona mikla hlutdeild í markíl. Jóhanna varð æf yfir því, þetta truflaði jú ESB umsóknina, en gert var gert. Hún gat auðvitað ekki lamið það til baka gagnvart þjóðinni. Ég deildi veiðiheimildum á alla bátaflokka og skikkaði alla til fullvinnslu á aflanum til manneldis. Ég mundi vilja deila enn meira út á minni bátana sem koma með aflann til vinnslu í land. Það var skemmtilegur tími, segir hann og hlær. Nú situr ríkisstjórnin uppi með ákvörðun mína og ég hef stundum velt fyrir mér hvort ég hefði átt að fara enn hærra með magnið í byrjun, en ég þorði það ekki. Ákvörðun mín um 147 þús tonn af makríl í hlut Íslendinga 30. des 2011 eða sama dag og mér var vikið úr ráðherrastóli skipti sköpum fyrir framhaldið. Mér fannst þetta eðlileg hlutdeild og vel rökstudd en hún batt líka eftirmanninn. Það var ekki skálað í Brussel þann daginn, en það var hinsvegar gert tveim dögum síðar og forystumenn ESB fögnuðu opinberlega ráðherraskiptunum í skýrslugerð sinni.
Hann verður kíminn. Viltu hákarl? Blaðamaður hikar. En konan vill ekki að ég borði hann inni í stofu, bætir hann við.- Hvar borðarðu hann? Úti á stétt, svarar hann og hlær.
Og hann segir grundvallarmál að standa við bakið á íslenskri matvælaframleiðslu. Ekki síst í ljósi hrunsins þegar ekki var víst að við hefðum gjaldeyri til að flytja inn mat. Íslendingar eru betur í stakk búnir en önnur lönd til að takast á við efnahagslega holskeflu af því að hér eru sterkir grunnatvinnuvegir sem byggja á framleiðslu. Það hvernig við nýtum náttúruauðlindir okkar í landbúnaði og sjávarútvegi hefur einnig gert okkur kleift að móta umgjörðina um ferðamálin.
Unga fólkið fór verst út úr hruninu
Hann hefur áhyggjur af ungu fólki, sem hann segir fara verst út úr hruninu. Það er nýbúið að stofna heimili, er með ung börn, há námslán, mikinn leikskóla og húsnæðiskostnað í formi lána sem rjúka upp úr öllu valdi í gegnum verðtryggingu eða gengisfall. Það er þetta fólk sem hefur tekið á sig stóra skellinn í þessu efnahagshruni - eins ósanngjarnt og það er. Það hefur ekki verið leiðrétt. Þetta er sá hópur fólks, sem lokið hefur skólagöngu og er að hasla sér völl á fjölbreyttum sviðum atvinnulífsins, en horfir í meira mæli til útlanda. Þarna hafa stjórnvöld ekki staðið undir væntingum. Það eiga margir um sárt að binda eftir efnahagshrunið, það hefur komið mishart niður á fólki, en ef maður lítur á eitt aldursbil þjóðarinnar, þá er það þessi hópur. Og hann er hundeltur úr öllum áttum með sköttum og gjöldum, beinum og óbeinum. Ég held að stjórnvöld hafi ekki forgangsraðað og leiðrétt eins og til var ætlast. Verðtryggingunni er kennt um, en það þarf að taka á svona vandamálum með almennum algildum aðferðum - jafnvel þótt einn njóti þess ef til vill örlítið betur en annar. Þetta er það alvarlegasta sem fylgir okkur óuppgert inn í næstu ár.Jón er ómyrkur í máli um afstöðu ríkisstjórnarinnar. Upphaflega átti að beita sér fyrir samfélagssátt í þessu máli en ekki láta erlenda kröfuhafa njóta sérstaks forgangs sem standa þyrfti vörð um. Við áttum fyrst og fremst að forgangsraða í okkar eigin samfélagi. Það var hægt í upphafi, en það verður æ þyngra eftir því sem lengra líður. Og við stöndum frammi fyrir því núna að við munum aldrei geta greitt út til þeirra kröfuhafa, sem eiga bankana og safna upp eignum og arði. Við munum ekki í sjáanlegri framtíð eignast gjaldeyri til að kaupa þá út og hleypa þeim úr landi. Sú snjóhengja vofir yfir okkur, af því að málið var ekki leyst í upphafi eins og hefði átt að gera.
Minn harðasti stuðningsmaður
Framtíðin er óráðin, en það er hugur í Jóni. Eins og mál hafa þróast, blasir við að fjöldi fólks, kjósendur, hefur orðið fyrir vonbrigðum með það hvernig forysta VG hefur haldið á málum. Það er augljóst og þarf ekki stjórnmálaspeking til að segja það. Ég hef verið hugsjónamaður alla tíð og lagt mitt af mörkum eftir fremsta megni, sama hvort ég labba í fjörunni norður í Asparvík, er bóndi í Bjarnarhöfn eða skólastjóri á Hólum í Hjaltadal. Það eru nákvæmlega sömu hugsjónirnar sem drífa mig áfram og ég hef lagt mig fram um að vera trúr þeim. Það er svo annarra að meta hvernig til tekst. Ég mun að sjálfsögðu sitja á þingi til vors og meta stöðuna eftir því sem á líður. Í sjálfu sér er ekkert útilokað í þeim efnum, hvort heldur sem er á þessum vettvangi eða öðrum. Ég ítreka að ég er með sjálfum mér baráttuglaður maður. Og það mun ég verða áfram.En hvað um framtíð VG sem stjórnmálahreyfingar? Hugsjónirnar og þau gildi sem VG var stofnað um og hefur barist fyrir standa óbreytt," segir Jón, "hvort það er síðan sá flokkur eða einhver annar sem ber þau gildi fram. Við höfum séð að flokkar hafa komið og farið, gjörbreyst o.s.frv. En grunngildin verða áfram þau sömu og kalla á sína málsvara.Kjörtímabilið hefur ekki aðeins verið Jóni erfitt í stjórnmálunum, því hann missti einnig dóttur sína úr veikindum. Ég vil ekki blanda persónulegum málum saman við pólitíkina, segir hann. Maður axlar sína pólitísku ábyrgð og persónuleg mál hafa ekki áhrif þar á. En þetta var engu að síður erfiður tími. Mér þykir hinsvegar vænt um að stuðningurinn frá fjölskyldunni var alltaf óbreyttur og sterkur. Fjölskyldan hefur staðið vel saman og þegar dóttir mín var orðin veik var hún líklega minn harðasti hvatningarmaður í mínu pólitíska starfi. Það er ljúft að minnast þess, þó að söknuðurinn sé mikill.Hann þagnar.
Þá sér maður hvað skiptir máli í lífinu og hvað á að hafa forgang. Það er einmitt ánægjulegt að dóttir mín átti son, yndislega fallegan strák, sem er uppalinn að nokkru leyti inni á okkar heimili og er einmitt að koma til okkar núna á eftir. Hann verður hér um helgina, ég sæki hann seinna í dag. Börnin og barnabörnin, það eru komin sjö barnabörn, þau eru náttúrlega augasteinarnir, ekki satt?
Þannig að þegar upp er staðið er það fjölskyldan, nánustu ættingjar, börn og barnabörn, sem skipta gríðarlega miklu máli og til þeirra sækir maður styrk til að takast á við viðfangsefni á öðrum vettvangi. Ég er lánsamur í þeim efnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 30. janúar 2013
Áætlunarflug að nýju til og frá Sauðárkróki
Áætlunarflug hófst að nýju á Sauðárkrók í gær, en rúmt ár er síðan það lagðist af. Það er flugfélagið Eyjaflug í Vestmannaeyjum eða Air Arctic eins og það er nefnt í símaskrá. Vélin er 10 sæta og sæmilega rúmgóð.
Fyrsta ferðin var farin í gærmorgun um áttaleytið. Afgreiðslan er hjá Flugfélagi Íslands á Reykjavíkurflugvelli.
Fall er fararheill
Eftir smá byrjunarörðugleika í skráningu farþega hóf vélin sig á loft með 9 farþega innanborðs. Ég hafði tekið mér far með vélinni, bæði til að prófa kostinn og eins átti nokkur stutt erindi á Sauðárkrók. Veðrið var gott , en þegar lenda átti á Alexandersvelli við Sauðárkróki kviknaði ekki á einu ljósi við lendingarhjól svo í öryggisskyni var snúið aftur til Reykjavík, þar sem lent var heilu og höldnu. Eftir um 3ja tíma bið var lagt í hann aftur og gekk nú ferðin vel og lent mjúklega á Alexandersflugvelli á Sauðárkrók um 3 leytið. En þá voru farþegarnir orðnir tveir. Ég átti góðan dag á Sauðárkrók, fékk bílaleigubíl hjá Birni Mik. og gat gert mest það sem áætlað var og síðan flogið til baka rúmlega 6 og lent í Reykjavík um 7- leytið.
Afar þægilegt
Tekið fast á málum á Alþingi til að tryggja flugið
Ljóst er að þessar flugleiðir til minni staða geta ekki borið sig fjárhagslega án stuðnings. Enda er flugið einn af mikilvægum þáttum í almannasamgöngum í landinu. Það er óþolandi að áætlunuarflug til staða eins og Sauðárkróks, Gjögur, Bíldudals, Hafnar í Hornarfirði, Þórshafnar og Raufarhafnar svo dæmi séu tekin verði reglulega í óvissu eða felld niður vegna hárra gjalda á flugið og vegna skorts á nauðsynlegum stuðningi hins opinbera. Ég hef beitt mér sérstaklega á Alþingi í þessum málum. En fleiri þingmenn hafa einnig barist vel í flugmálunum.
Árangur náðist
Og við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2013 tókst að fá samþykkt nægilegt fé til stuðnings innanlandsfluginu þannig að hægt væri að halda áfram reglubundnu flugi til þessara staða og bæta inn Sauðárkrók á ný. Þess vegna er það mér sérstök ánægja að áætlunarflug hefjist nú að nýju til Sauðárkróks. En ég geri mér samt grein fyrir því að fjárveitingin sem þó fékkst til innanlandsflugsins er svo skorin við nögl að áætlunarflug til þessara minni staða mun áfram berjast í bökkum.
Sveitarstjórnarmenn tóku fast á málinu
Áætlunarflug er ett helsta baráttumál viðkomandi sveitarfélaga og hefur Sveitarfélagið Skagafjörður og sótt endurupptekningu flugsins af miklu kappi og leggur nú til umtalsvert framlag frá sér til að treysta grundvöll flugsins.
Allt flug fer jú til Reykjavíkur og þar eru flest erindi fólksins. Væri ef til vill eðlilegra að Reykjavíkurborg niðurgreiddi flugið á móti ríkinu í stað litlu sveitarfélaganna á landsbyggðinni ? Arðurinn af viðskiptum og þjónustukaupum fólksins fellur nánast allur til Reykjavíkur.
Metnaðarull flugáætlun
Fluáætlunin á Sauðárkrók er metnaðarfull: Mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga eru tvær ferðir á dag fram og til baka. Fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga er ein ferð fram og til baka.
Hér með er Vængjum eða Air Arctic óskað farsældar í þessu flugi og íbúum Skagafjarðar, svo og landsmönnum öllum sendar heillaóskir af þessu til efni.
(Nánar um flugið á Eyjaflug.is)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 29. janúar 2013
Í minningu látins vinar
Það er nú einu sinni svo að sumt fólk fær sérstakan sess í hug og hjarta samferðamanna sinna. Það átti sérstaklega við um Guðmund Ágústsson eða Gúnda eins og við kölluðum hann daglega.
Ekki man ég hvenær leiðir okkar lágu saman fyrst en líf hans og starf var svo tengt Kaupfélagi Stykkishólms að um tíma fannst manni eins og hann hefði alltaf verið þar. Sérstaklega er nafn hans í mínum huga tengt búðinni sem Kaupfélagið átti en hann sá um og hafði að geyma allt á milli himins og jarðar.
Þessi búð var reyndar sjaldnast kennd við Kaupfélagið heldur gekk undir nafninu Gúndabúð. Þar fengust hamrar og naglar, sagir og sandpappír, fóðurbætir og áburður, vasahnífar og leiktæki - svo fátt eitt sé nefnt.
Fyrir jólin fylltist allt af jólaskrauti og leikföngum til gjafa fyrir jólin. Það sem skipti þó mestu var að gleði, gamansemi, greiðvikni og einstök lipurð fyllti andrúmsloftið í þessari ævintýralegu búð hans Gúnda. Alltaf hljóp Guðmundur við fót, enda léttur á sér ávalt með bros á vör. Guðmundur var glettinn, kímnin í góðu lagi og varð sjaldan svarafátt. Eitt sinn kom maður í búðina og vildi kaupa stóran hníf. Því miður á ég ekki hníf eins og er, en ég á snæri svaraði Gúndi með alvörusvip.Meðan ég bjó í Bjarnarhöfn held ég að hafi eiginlega aldrei komið svo til bæjarins án þess að líta við í Gúndabúð til þess að fá eitt og annað sem vantaði, auk þess að spjalla við Guðmund sjálfan og hann kunni vel að segja frá.
Ég hef einnig þá trú að viðmót gagnvart börnum segi meira en flest annað um þann innri mann sem hver hefur að geyma. Guðmundur var einstaklega barngóður og ég minnist þess sérstaklega að börnin okkar Ingibjargar dáðu Gúnda og búðina hans og enginn var svo lágur í loftinu að hann fengi ekki sömu athyglina og þeir sem eldri voru og jafnvel gott betur. Og þau minnast hans öll nú með mikilli hlýju.
Svipaða sögu um hlýtt viðmót má reyndar segja um allt starfsfólk Kaupfélagsins, en ég kynntist því vel persónulega bæði sem viðskiftavinur, stjórnarformaður félagsins í nokkur ár og einnig sem starfandi kaupfélagsstjóri um tíma.
Eftir að Kaupfélagið hætti starfsemi sinni fór Guðmundur að vinna í olíuafgreiðslunni við innkeyrsluna í bæinn.
Þar í búðinni tók hann á móti öllum með sömu gleði og léttleika sem bauð alla velkomna í bæinn.
Við sem vorum burtflutt fundum að við vorum komin heim. Þar á bensin - og olíuafgreiðslunni vann Gúndi svo lengi sem starfþrek entist. Guðmundur var vinmargur og með kærleiksríkri framkomu setti hann mark sitt á allt samfélagið þar sem við vorum þiggjendur.
Nú er hún Gúndabúð horfin en eftir standa minningarnar um einstaklega góðan og hlýjan mann. Þær minningar geymum við, samferðafólk Guðmundar og yljum okkur við og þökkum honum samferðina.
Blessuð sé minning Guðmundar Ágústssonar.
Við sendum Dísu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.
(Guðmundur Ágústsson fæddist í Reykjavík 21. júlí 1939. Hann lést á Sjúkrahúsi Stykkishólms þriðjudaginn 8. janúar 2013.Foreldarar hans voru Ágúst Stefánsson og Katrín Guðmundsdóttir. Þau eru bæði látin. Guðmundur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Vigdísi Kristjönu Þórðardóttur, 9. september 1967. Fyrstu 5 búskaparárin bjuggu þau í Reykjavík en árið 1972 fluttu þau til Stykkishólms, þar sem þau bjuggu alla tíð síðan. Sonur þeirra, Hafþór Smári Guðmundsson, fæddist 16. apríl 1968.Útför Guðmundar fór fram frá Stykkishólmskirkju laugardaginn 19. jan sl. að viðstöddu fjölmenni )
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. janúar 2013
Hugsjónir og stefna ekki til sölu
-Segir í stefnuskrá Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, en undir merkjum þessarar stefnu bauð VG fram við síðustu Alþingiskosningar.
Áfram segir í stefnuyfirlýsingu VG:
Samskipti við ESB þróist í tvíhliðasamningum
Samskipti við Evrópusambandið( ESB) ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.Fullveldi Íslands var úrslitamál hjá VG
Og frambjóðendur VG , sem voru trúir stefnu flokksins voru ekki í neinum vandræðum með að rökstyðja sitt mál án minnimáttarkenndar á grunvelli stefnuyfirlýsingarinnar: Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi geta sjálf tekið ákvarðanir um lagabreytingar hliðstæðar þeim sem ákveðnar eru innan ESB, ef þau svo kjósa og þá út frá eigin forsendum. Aðild að ESB myndi skerða fullveldi Íslands enn frekar en orðið er með EES-samningnum og tefla í tvísýnu yfirráðum Íslendinga yfir auðlindum sínum.Alþjóðleg viðskipti einkennast í síauknum mæli af því að þar eru þrjú stór markaðssvæði, Evrópusambandið, Ameríka og Suðaustur-Asía. Óráðlegt er fyrir smáríki eins og Ísland sem er bæði mjög háð innflutningi og útflutningi að taka sér stöðu innan tollmúra ESB. Íslendingar verða að geta samið um viðskipti við aðrar þjóðir á eigin forsendum".Ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann í stefnuskrá VG
Hjá VG var öllum það fullljóst frá stofnun hreyfingarinnar, að það var ekkert til sem heitir að kíkja í pakkan. Þeir sem síðar eru að halda því fram til heimabrúks, og réttlæta aðgerðir sínar eru að blekkja sjálfan sig og aðra.
Áfram segir í stefnuyfirlýsingu VG:
Áróður um að Ísland geti gengið í ESB en fengið undanþágur frá grundvallarsáttmálum þess er varasamur. Undanþágur eru jafnan hugsaðar til skamms tíma á meðan aðlögun á sér stað. Íslendingar eiga ekki að sækjast eftir sérsamningum heldur axla sömu ábyrgð og önnur fullvalda ríki á alþjóðavettvangi.
Umsóknin að ESB, aðildar og aðlögunarferlið allt gengur gegn stefnu VG og þvert á þau kosningaloforð sem frambjóðendur hans og þingmenn gátu gefið og gáfu samkvæmt þeirri stefnu.
Afturkalla ber umsóknina og segja "fyrirgefðu"
Sá heimiliskattaþvottur sem nú á sér stað í að "hægja á umsókninni " vegna ótta við umræðuna fyrir kosningar, og þora ekki með hana inn í þingið, er sömuleiðis ómerkileg blekking, því aðlögunarvinnan er á fullu í ráðuneytum, stofnunum og stjórnsýslu. " Brusselmaskinan" gengur. Peningarnir, milljarðarnir sem ESB veitir til að koma landinu í Sambandið streyma inn óbreytt. Hverjum verður treystandi fyrir framhaldinu eftir kosningar?
Það ber að afturkalla umsóknina að ESB og hætta þessum blekkingar og skrípaleik.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 16. janúar 2013
Um heilbrigðan aðskilnað viðskifta- og fjárfestingabanka
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga frá okkur Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur um að skilja á milli starfsemi fjárfestingabanka og viðskiftabanka. Frumvarpið er samhljóða þeim sem ég ásamt fleiri þingmönnum hef flutt allt frá 2003.
Í skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins frá í mars 2012 er einmitt talið að óæskileg tengsl milli þessara þátta hafi átt snaran þátt í rótum kreppunnar 2008.
Alhliða bankar hafi fyrir tilstuðlan ríkisábyrgðar á innstæðum og vegna annarra óheppilegra hvata í fjármálakerfinu haft tilhneigingu til að stunda áhættusamar fjárfestingar sem skattgreiðendur hafi borið mikinn skaða af.
Frumvarpið mælir af þeim sökum fyrir um að starfsheimildir viðskiptabanka verði takmarkaðar við hefðbundna viðskiptabankaþjónustu með nokkuð svipuðum hætti og ákveðið var við setningu laga nr. 77/2012 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki er varðaði sparisjóði.
Kominn tími aðgerða
Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi viðskiptabankanna verði bundin við inn- og útlánastarfsemi en ekki viðskipti og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti en undir þau lög fellur meðal annars verðbréfamiðlun, viðskipti fyrir eigin reikning og fjárfestingarráðgjöf.
Með hliðsjón af því að fjárfestingastarfsemi viðskiptabankanna hefur verið í lágmarki eftir hrun fjármálakerfisins má halda því fram að nú sé hentug tímasetning til þess að breyta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þrátt fyrir víðtækar skýrslugerðir, þingsályktanir og pólitískar yfirlýsingar frá byrjun þessa kjörtímabils um að þessi aðskilnaður verði gerður, hefur því miður ekkert orðið úr efndum. Þvert á móti er flutt frumvarp um sölu á hlutum ríkisins í núverandi bönkum með óbreyttri umgjörð hvað þetta varðar. Ég var ekki sammála þeim áherslum. Að mínu mati á fyrst að setja bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum skýra umgjörð, til dæmis um þennan aðskilnað.
Þar að auki er ekki rétti tíminn nú til að selja banka. Ég er reyndar eindregið þeirra skoðunar að ríkið, fólkið í landinu, skuli eiga að fullu einn sterkan banka sem hægt sé að gera samfélagskröfur til, enda er það .
Að standa við orð sín og stefnu
Endurskipan bankanna hefur verið eitt af stærstu málum Vinstri grænna á undanförnum árum. Græðgisvæðingin, spillingin og hrunið er rakið til þess að hluta hvernig þar fór allt úr böndum.
Í landsfundarályktun VG frá í mars 2009 segir m.a:
Starfsemi bankanna sinni eingöngu inn- og útlánastarfsemi fyrir almenning auk grunnþjónustu við atvinnuvegina. Þeir bankar sem einungis sinna fjárfestingar- og áhættustarfsemi séu aðskildir almennri bankastarfsemi og séu alfarið á ábyrgð eigenda þeirra.
Flokksráðsfundur VG í nóv 2010 krefst þess að tryggður verði með lögum aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingasjóða og að afnumin sé með lögum verðtrygging lána og þak sett á fjármagnskostnað.
Á flokksráðsfundi VG í febrúar 2012 ríkti bjartsýni um að nú fari eitthvað raunverulegt að gerast í þessu baráttumáli flokksins:
Flokksráð fagnar að ráðuneyti bankamála skuli vera komin á ábyrgð Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs og felur nýskipuðum ráðherra bankamála að flytja frumvarp til laga um aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka sem þingmenn flokksins hafa flutt endurtekið á fyrri þingum.
Frumvarpi okkar þremenninga er einmitt ætlað að fylgja eftir í verki þessu baráttumáli VG áður en kjörtímabilið er úti.
Fleiri sömu skoðunar
Í september sl. var gerð könnun meðal landsmanna. Hún sýndi eftirfarandi:
Rúmlega 80% landsmanna eru fylgjandi aðskilnaði á starfsemi fjárfestingabanka og viðskiptabanka að því er fram kemur í nýrri könnun sem Capacent framkvæmdi að beiðni Straums fjárfestingabanka. Könnunin var lögð fyrir 1375 manns, en af þeim svöruðu 827. 80,2% þeirra voru alfarið, mjög eða frekar hlynnt aðskilnaði, en aðeins 4,2% voru andvíg aðskilnaðinum. Rúmlega 15% svarenda sögðust hvorki vera hlynnt né andvíg." (Heimild: Morgunblaðið).
Vilji Íslendinga í þessum efnum er því ljós.
Til fróðleiks má nefna að hið sama er uppi á teningunum í breska þinginu en samkvæmt fréttum Fiancial Times sýndi árleg skoðanakönnun í Bretlandi að um 2/3 breskra þingmanna eru nú hlynntir aðskilnaði viðskipta og fjárfestinga í starfsemi bankanna. Meirihluti í öllum flokkum á Bretlandi var hlynntur þessum aðskilnaði.
Heilbrigð fjármálastarfsemi
Ég hef ásamt fleiri þingmönnum Vinstri grænna lagt þunga áherslu á að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka verði aðskilin með lögum. Ég tók þetta mál ítrekað upp í ríkisstjórn á meðan ég átti þar sæti og sömuleiðis í þingflokknum. Þrátt fyrir glaðbeittar yfirlýsingar hafa menn reynt að kaupa sér tíma frá aðgerðum með þingsályktunum og skýrslugerð. Að sjálfsögðu er mikilvægt að aðskilnaðurinn sé vel rökstuddur og framkvæmdin rétt útfærð. En ákvörðunin er engu að síður pólitísk. Nú eru aðstæður til að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Tillaga okkar Atla og Lilju kveður skýrt á um hvernig það skuli gert á einfaldan hátt með lögum. Vonandi nær frumvarp okkar fram að ganga fyrir þinglok í vor.
( birtist sem grein í mbl.sl. laugardag)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 8. janúar 2013
Yfirlýsing vegna framboðsmála VG í Norðvesturkjördæmi
Ég undirritaður oddviti Vinstrihreyfingarinnar grænt framboð í Norðvesturkjördæmi hef ákveðið að gefa ekki kost á mér á framboðslista VG í komandi Alþingiskosningum.
Við Alþingiskosningar 2009 fékk Vinstrihreyfingin grænt framboð yfirburða kosningu í Norðvesturkjördæmi og 3 þingmenn. Enginn vafi er á að einörð stefna og áherslur flokksins og okkar sem skipuðum þá forystusveit, átti hljómgrunn og stuðning meðal íbúa kjördæmisins og raunar langt út fyrir mörk þess. Kjörorðin -vegur til framtíðar- vörðuð trausti og trúnaði voru aðalsmerki Vg í þeirri kosningabaráttu og eftir þeim gildum hef ég starfað.
Ég hef setið á Alþingi sem fulltrúi VG frá því flokkurinn fékk fyrst kjörna menn á þing 1999 og átt virkan hlut í að móta grunnstefnu flokksins og áherslur ásamt mörgu öðru góðu fólki.
Það hafa orðið mér vonbrigði hvernig haldið hefur verið á mörgum stefnumálum VG síðustu misseri og vikið frá þeim gildum sem hann var stofnaður um.
Afstaða mín og skoðanir í þeim málum eru öllum kunnar. Ég nefni hér umsóknina um aðild að ESB þvert á grunnstefnu flokksins og gefin kosningaloforð, niðurskurð til velferðarmála, ásamt því hvernig hert hefur verið með margvíslegum hætti að íbúum á landsbyggðinni.
Þótt ég hafi nú ákveðið að gefa ekki kost á mér til framboðs fyrir VG við næstu alþingiskosningar mun ég áfram leggja mitt af mörkum og berjast fyrir þær hugsjónir og grunngildi sem ég hef verið talsmaður fyrir og starfað eftir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. janúar 2013
Skýr skilaboð frá kjósendum VG
Nýjasta skoðanakönnun Gallup sýnir að VG er aðeins með 9,1% fylgi, sem er ekki helmingur þess sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Vissulega er þetta aðeins skoðanakönnun, skilaboð, en hún kemur okkur ekki á óvart, sem þekkjum vel til í grasrótinni. Umsókn að ESB, þvert á grunnstefnu flokksins og loforð fyrir síðustu alþingiskosningar kom almennum kjósendum hans í opna skjöldu. ESB umsóknin tekur auk þess í gíslingu flest önnur mál og umræðu þjóðfélagsins , sem er algjörlega óviðunandi.
Kjósendur VG hafa fengið gjörsamlega upp í kok af þrákelkni þeirra forystumanna VG sem hafa keyrt þessa ESB umsókn áfram , sumir undir þeim formerkjum að kíkja í pakkann. Sömu aðilar þykjast vera á móti aðild, en standa samt að margvíslegum breytingum á stjórnsýslu og innviðum að kröfu ESB og þiggja milljarða króna frá sambandinu til aðlögunar íslensks samfélags að ESB.
Í síðustu fjárlögum var keyrt um þverbak, en þar er gert ráð fyrir milljörðum króna til aðlögunar og aðildarvinnu að ESB á næstu árum auk enn frekari óbeinna fjárskuldbindinga, langt inn í næsta kjörtímabil. En VG er samt á móti aðild!
Þingmenn, forystufólk í félögum VG vítt og breytt um landið hafa séð sig knúna til að yfirgefa flokkinn, og stuðningsfólki sem treysti á VG hefur verið fórnað á altari ESB - einsmálsstefnu Samfylkingarinnar.Til þess að bjarga VG frá hruni og endurvekja traust á baráttu fyrir grunngildum flokksins verður formaðurinn og aðrir forystumenn sem gengið hafa í björg ESB að brjótast undan því valdi og losa sig úr þeim álögum þegar í stað.
Þarna er í raun ekkert val. Hér dugar enginn heimilskattaþvottur, svo gengið sé í smiðju forsætisráðherra Samfylkingarinnar.Forysta Vinstri Grænna , sem þarna á í hlut, verður einfaldlega að stíga fram og biðja þjóðina og kjósendur VG afsökunar fyrir að hafa gengið undir þessi álög ESB og Samfylkingarinnar.
Því næst ber að stöðva aðildarviðræðurnar við ESB nú þegar og koma þeim algjörlega útaf borðinu. Við eigum þess í stað að beina kröftum að öðrum mikilvægari verkefnum sem nóg er af og semja við ESB innan EES eða beint á tvíhliða forsendum eins og önnur ríki. Það er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann hjá ESB. Makríldeilan er gott dæmi um það og er fínt að hafa hana sem afsökun fyrir þá sem þurfa þess.
Viðræður um aðild að ESB eiga ekki að hefjast aftur nema að þjóðin hafi samþykkt að óska eftir aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillögur þessa efnis frá mér og fleirum liggja bæði fyrir utanríkismálanefnd og Alþingi og verða vonandi samþykktar hið bráðasta.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 31. desember 2012
Að vera: "Sómi Íslands, sverð þess og skjöldur"
Margir hafa reynt að gera orð hans að sínum á hátíðis- og tyllidögum.
Ég er til dæmis ekki í vafa um, hvar Jón Sigurðsson myndi standa í umræðunni um aðild Íslands að ESB og að mínu mati myndi Jón aldrei hafa hleypt þeirri umsókn af stað fengi hann þar um ráðið.
Að standa á gömlum merg
Mér áskotnaðist í jólagjöf bókin Jón Sigurðsson, hugsjónir og stefnumál, en
hún var gefin sem sérstök útgáfa af Skírni, Tímariti Bókmenntafélagsins, í
tilefni af 200 ára afmæli Jóns árið 2011. Skírnir hóf göngu sína árið 1827
og er elsta tímarit á Norðurlöndum sem enn kemur út.
Þessi afmælisútgáfa er vel við hæfi þar sem Jón var, sem kunnugt er, lengi forseti hins íslenska bókmenntafélags og þaðan kom nafngiftin "forseti" upphaflega sem ætíð hefur fylgt nafni hans síðan meðal þjóðarinnar. Bókin hefur að geyma ritgerðir 8
fræðimanna um hugmyndaheim Jóns forseta, hugsjónir og baráttumál. Bókin er í senn fræðandi og skemmtileg, en ber þess eðlilega merki að sérfræðingarnir lifa sig inn í fræðaheim Jóns forseta, hver út frá sínum forsendum.
Jón forseti var ekki haldinn minnimáttarkennd eða tækifærismennsku þeirra, sem telja fólki í trú um að hægt sé að "kíkja í pakkann" í samningum við aðrar þjóðir og blekkja þar með bæði viðsemjendur sína og samferðamenn.
Slík framkoma og tvískinnungur eins og viðgengst í ESB umsóknarferlinu, hefði seint dugað í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á tímum Jóns Sigurðssonar. Alþingi samþykkti naumlega að sækja um aðild að ESB eftir kosningarnar 2009, þvert á gefin loforð t.d. VG fyrir kosningar. Umsóknarferillinn átti aðeins að taka tvö ár ! Nýlega voru samþykkt fjárlög fyrir 2013, sem gera ráð fyrir mörgum milljörðum króna til umsóknar og aðlögunar Íslands að ESB og fjárskuldbindinga til næstu ára. Og svo halda sumir áfram að "kíkja í pakkann" hjá ESB en þykjast samt vera á móti aðild !
Leyfum Jóni Sigurðssyni að tala í þjóðina kjark:
Farsæld þjóða
Farsæld þjóðanna er ekki komin undir því að þær séu mjög fjölmennar eða
hafi mikið um sig. Sérhvörri þjóð vegnar vel sem hefur lag á að sjá kosti
lands síns og nota þá eins og þeir eiga að vera notaðir. Löndin eru lík
einstökum jörðum ; ekkert land hefur alla kosti og öngu er heldur alls
varnað; en það ríður á að taka eftir kostunum og nota þá vel en sjá til að
ókostirnir gjöri sem minnst tjón. Einkanlega varðar mjög um þetta í hinum
harðsætari löndum því kostir þeirra eru ógreiðari aðgöngu og þarf fylgis og
dugnaðar ef þeir eiga að verða að fullum notum. En fylgi og dugnaður geta
eins lýst sér hjá fámennari þjóð eins og fjölmennri og reynslan sýnir að
jafnvel á meðal heldri þjóðanna hafa einstakir menn fyrst tekið sig fram um
sérhvurn dugnað en síðan hefir þótt vel takast ef aðrir hafa viljað hafa það
eftir sem hinir léku fyrir. (Úr formála Jóns Sigurðssonar að bókinni Tvær
ævisögur útlendra merkismanna, Khöfn, 1839)
Íslendingar eru nú orðnir fjórfalt eða fimmfalt fjölmennari en á tímum Jóns
Sigurðssonar og ætti okkur af þeim sökum að vera vansalaust að halda sjálfstrausti
og reisn fullvalda þjóðar eins og Jón forseti lagði grunninn að.
Tökum undir orð Jóns Sigurðssonar: Sérhverri þjóð vegnar vel sem hefur lag á
að sjá kosti lands síns. Höfum það hugfast Íslendingar, á nýju ári.
Ég þakka landsmönnum öllum samstarfið, stuðning og hvatningu á árinu sem er að kveðja.
"Sjálfstæðið er sívirk auðlind" (R.A.)
Megi gæfan vera landi og þjóð hliðholl á nýju ári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)