Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 25. desember 2012
"Lýsi ykkur ætíð lífsins sól"
Jólin, hátíð ljóss og friðar eru nú gengin í garð. Á þessum dögum sameinast stórfjölskyldan í gleði og fögnuði jólanna, á sjálfan aðfangadag eða í ýmsum fjölskylduboðum um hátíðarnar.
Í erli dagsins megum við ekki að gleyma að fjölskyldan, vinir og nágrannar er grunnur og kjölfesta samfélagsins. Þar liggja þau bönd sem binda okkur við lífið og gera okkur að heilsteyptum manneskjum.
Búsetubreytingar síðustu ár hafa einnig fært í sundur fjölskyldur, og jólin eru þess vegna oft og tíðum sameiningarhátíð þar sem fólk hittir hvert annað eftir langt hlé.
Þrátt fyrir að jólahátíðin hafi fengið á sig aukinn verslunarblæ og bæði börn og fullorðnir fái jafnvel fleira en " kerti og spil" í jólagjöf, þá eru og verða jólin fjölskylduhátíð í víðri merkingu þess orðs, tákn mannlegrar hlýju, friðar, vonar og kærleika.
Kveðjan gleðileg jól hefur sígilda þýðingu og segir svo margt, en einfalt.
Ég óska ættingjum og vinum, landsmönnum öllum til sjávar og sveita gleðilegra jóla.
Bestu þakkir til ykkar allra fyrir gott samstarf, hvatningu og stuðning á árinu sem er að kveðja. Megi gæfan verða ykkur hliðholl á nýju ári.
Við, fjölskyldan deilum með ykkur jólakveðjunni frá kærum vini, séra Birni H. Jónssyni.
Lýsi ykkur ætíð lífsins sól,
ljúflega á tímans bárum,
Gefi ykkur Drottinn gleðileg jól
og gæfu á komandi árum.
Sr. Björn H. Jónsson er frá Bakka í Viðvíkursveit, Skagafirði. Hann var prestur í Árnesi á Ströndum en lengst af sóknarprestur Húsvíkinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.12.2012 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. desember 2012
ESB- Engar varanlegar undanþágur í boði fyrir Íslendinga
Ráðherraráð ESB: Aðildarviðræður ganga vel en Ísland þarf að samþykkja allan lagabálk ESB
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 9. desember 2012
Afturköllun umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu.
Þannig hljóðar þingsályktunartillaga okkar Atla Gíslasonar frá því fyrr í haust. Hún kemur vonandi til meðferðar Alþingis á næstu dögum.
Engar varanlegar undanþágur frá lögum og regluverki ESB í boði.
Í greinargerð með tillögunni segir:
Alþingi samþykkti með þingsályktun hinn 16. júlí 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt samþykkti þingið að fylgja við aðildarviðræðurnar ítarlegu nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem kvað á um ákveðna meginhagsmuni Íslands sem settir voru sem skilyrði og afmörkuðu umboð ríkisstjórnarinnar til aðildarsamninga. Nú rúmum þremur árum síðar liggur fyrir að umsóknarferli Íslands að ESB verður ekki fram haldið nema vikið sé í verulegum atriðum frá þeim meginhagsmunum sem meiri hluti utanríkismálanefndar dró fram í áliti sínu (þskj. 249, 38. mál 137. löggjafarþings) og Alþingi gerði að skilyrðum sínum við samþykkt ályktunarinnar 16. júlí 2009. Umboð ríkisstjórnarinnar til að halda áfram aðlögunar- og aðildarvinnu er því ekki lengur fyrir hendi og telja flutningsmenn þessarar tillögu að viðræðum skuli hætt og umsóknin afturkölluð.
Þjóðin fái að segja sitt áður en lengra er haldið
Flutningsmenn telja jafnframt brýnt að ekki verði gengið að nýju til viðræðna við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar Íslands að sambandinu. Engin rök hníga að því að Ísland sæki um aðild að ríkjasambandi ef ekki er almennur vilji til aðildar.
Komið hefur í ljós að umsóknar- og aðildarferli Íslands að ESB er með allt öðrum hætti en haldið var fram af talsmönnum þess þegar umsóknin var lögð fram sumarið 2009. Kröfur ESB eru einhliða og ganga mun lengra en Alþingi hefur heimilað ríkisstjórninni að byggja á sem samningsgrundvöll. Sett hafa verið einhliða opnunarskilyrði við einstaka kafla en aðrir eru óopnaðir af hálfu ESB og allt samningsferlið lýtur algerlega geðþótta ESB. Jafnframt er krafist fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana að ESB án þess að niðurstaða sé fengin í viðræðunum. Þá verður ekki horft fram hjá því að aðildarferlið er kostnaðarsamt sem og aðild að sambandinu.
Verið að binda aðildarferlið með milljörðum króna til næstu ára
Utanríkisráðherra hefur sjálfur sagt að aðild að sambandinu mundi fela í sér umtalsvert meiri kostnað vegna krafna ESB um uppstokkun og aukið umfang stofnanakerfis landsins (B-mál 699, 91. fundur á 138. löggjafarþingi). Þar sem komið hefur í ljós að krafist er fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana fellur þessi kostnaður augljóslega til meðan á umsóknarferlinu stendur.
Fullveldisframsal
Framsal á fullveldi og einhliða kröfur og skilyrði sem ESB hefur sett í viðræðunum eru með öllu óásættanlegar fyrir íslenska hagsmuni og sjálfsforræði. Kröfur ESB ganga þvert gegn þeim meginhagsmunum og skilyrðum Íslands sem Alþingi samþykkti að fylgja hinn 16. júlí 2009. Framhald aðlögunar Íslands að ESB og eftirgjöf í stórum hagsmunamálum í alþjóðaviðræðum stríðir gegn framtíðarhagsmunum Íslands.
Þá hafa ESB og fulltrúar þess nú þegar ástundað beina íhlutun í íslensk innanríkismál í skjóli umsóknarinnar, sbr. ályktun Evrópuþingsins frá 14. mars sl., og krafist fylgispektar Íslands á alþjóðavettvangi sem er með öllu ólíðandi af Íslands hálfu. Efnahagsleg inngrip ESB í íslenskt þjóðfélag hafa alvarlegar afleiðingar og eru ekki í samræmi við forsendur umsóknarinnar. Það felur annars vegar í sér að með því er verið með peningagjöfum, sem stýrt er frá Brussel, að hafa áhrif á atvinnu, afstöðu til ESB-aðildar og almenna skoðanamyndun í landinu og hins vegar að um er að ræða falskar væntingar um áframhaldandi verkefni en þeim mun ljúka jafnskjótt og þetta gjafafé er upp urið.
Makríldeilan dæmigerð fyrir yfirgang ESB
Þá má nefna makríldeiluna og áform og hótanir Evrópusambandsins í garð Íslendinga um viðskiptaþvinganir, samtímis því sem aðildarviðræður standa yfir. Sýna þær hótanir best hvernig þetta ríkjasamband beitir sér gegn smáríki eins og Íslandi. Samningur ríkisstjórnarinnar um Icesave hefur ætíð verið skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar, enda hefur ESB nú gerst formlegur málsaðili og ákærandi gegn Íslandi í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum.
Jafnframt hafa forsendur á Evrópusambandssvæðinu sjálfu breyst í veigamiklum atriðum. Hið sama á við um starfshætti sambandsins og pólitísk tilræði þess við sjálfstjórnarrétt aðildarríkjanna, einkum á sviði efnahagsmála, sem felur í sér að eftirlit og ákvarðanir um þann málaflokk innan hvers ríkis eru færðar frá sambandsríkjunum sjálfum til miðstjórnarvaldsins í Brussel. Enn fremur hefur það komið í ljós að hin sameiginlega mynt, evran, sem var talin fela í sér vörn fyrir viðkomandi land, sem ætti í efnahagsörðugleikum, hefur þvert á móti magnað upp vanda ríkjanna og stefnir þeim í átt að gjaldþroti. Þar með eru brostnar eða gjörbreyttar veigamiklar forsendur sem lágu fyrir við samþykkt þingsályktunartillögunnar á sínum tíma.
Í ljósi þess hvernig umsóknar- og aðildarferlið hefur þróast þvert á vilja og hagsmuni íslensku þjóðarinnar telja flutningsmenn tillögunnar brýnt að Alþingi samþykki að afturkalla umsókn sína um aðild að ESB. Og umsóknin fari ekki gang aftur fyrr en þjóðin hefur verið spurð hvort hún vilji ganga í ESB.
Flutningsmenn tillögunnar eru Atli Gíslason og Jón Bjarnason
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. nóvember 2012
Kallað eftir hreinskilni í ESB viðræðum
Mikilvægt er að farið sé með rétt mál og talað skýrt í viðræðum við ESB. Það á að gerast óháð því hvort menn eru með eða á móti aðild og hvort verið sé að tala til íslensku þjóðarinnar eða ESB.
Á fundi sem þingmannahópur Alþingis átti með þingmönnum og forystuliði ESB í síðust viku létu þeir í ljós efasemdir um heilindi Íslendinga í umsóknarferlinu þegar þeir voru upplýstir um þá miklu andstöðu sem er meðal þjóðarinnar gagnvart þessari umsókn og veikan pólitískan stuðning við hana.
Kom þeim mjög á óvart t.d. að meirihluti eða um 54% svarenda í nýjustu skoðanakönnun vildi draga umsóknina til baka og að aðeins einn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, styddi hana óskiptur á Alþingi. En sá flokkur leitar stefnu sinni fylgis hjá þjóðinni með loforðum um að það væri óskynsamlegt annað en að kíkja í pakkann.
ESB vill ekki taka þátt í "bjölluati"
Fulltrúar ESB lögðu áherslu á að þær þjóðir, sem sæktu um aðild að ESB gerðu það til að komast inn í sambandið. Í aðlögunarferlinu væri reynt að leysa á sem bestan hátt úr tímabundnum örðugleikum í upphafi aðildar og síðan með aðlögun umsóknarlandsins í ferlinu til þess að komast snuðrulaust í sambandið.
ESB byði fram verulega fjárhagsaðstoð í þessu skyni.
Hugtakið að kíkja í pakkann og sjá hvað væri í boði fannst mér þeir líta á sem beina móðgun við sambandið.
Var mér af því tilefni hugsað til þeirra sem stöðugt væru að telja þjóðinni trú um kosti þess að kíkja í pakkann og virðast vilja halda áfram þeirri iðju á næsta kjörtímabili. - Engu sé að tapa en allt að vinna.
Talsmenn ESB sögðust hinsvegar ekki vera í þessum samningum af leikaraskap eða tækju þátt í bjölluati. Þótt sumir stjórnmálamenn á Íslandi léku það til heimabrúks, ættu þeir að vita betur.
Engar varanlegar undanþágur veittar frá lögum ESB
Á upplýsingavef ESB (sjá http://en.euabc.com/word/280) er nánast sagt beinum orðum að varanlegar undanþágur frá lögum ESB er ekki að hafa við aðild nýrra landa. Eftir að stækkunarferli ESB hófst að nýju í byrjun aldarinnar hefur einungis Malta hlotið undanþágu sem varðar búseturétt á Möltu. Upplýsingavefurinn ber með sér að Framkvæmdastjórnin er mjög andvíg því að veita varanlegar undanþágur og vill að sama lagaumhverfi gildi um öll ESB lönd.
Ekki minnist ég þess að forystumenn ESB hafi nokkru sinni lofað varanlegum undanþágum í neinu atriði er varðar Ísland, sem er í samræmi við ofanritað.
Þvert á móti hafa þeir ítrekað að það væri Ísland sem væri að sækja um aðild að ESB , og að Ísland verði að lúta lögum ESB en ekki öfugt.
Þær undanþágur sem talið hefur verið að Ísland þurfi á að halda og geti óskað eftir, munu því ekki verða varanlegar, heldur aðeins tímabundnar eða framkvæmanlegar innan gildandi laga ESB. - Allt sem um verður samið verður að rúmast innan Rómarsáttmálans-.
Vandamálið er að undanþága frá regluverki ESB og réttindi Íslands til sjálfsákvörðunar eftir henni, og ekki er skráð í samningnum sem varanleg er lítils eða einskis virði því ESB/ framkvæmdastjórn/ þingið getur vikið henni til hliðar hvenær sem er eftir að undanþágutímabili lýkur.
Villandi ummæli sendifulltrúa ESB á Íslandi
Í áliti utanríkismálanefndar frá í júlí 2009 er lögð áhersla á að fá varanlegar undanþágur, ef til aðildar kemur fyrir tilgreind þýðingamikil atriði s.s. í landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum dýraheilbrigðismálum, séu dæmi séu tekin. Engin fyrirheit hafa verið gefin af hálfu ESB, um að þær finnist í umræddum pakka enda engin fordæmi fyrir varanlegum undanþágum sem slíkum.
Það er því vægast sagt mjög óvarlegt þegar erindrekar ESB hér á landi eða einstaka aðilar í samninganefndum, stjórnsýslu eða á Alþingi, fara gáleysislega með yfirlýsingar í þeim efnum.
Nægir að vitna í ummæli yfirmanns Evrópusviðs hjá sendinefnd ESB á Íslandi, Henriks Bendixsen sem fullyrti í fréttaviðtali 13. nóv sl. að öll 12 aðildarríkin sem gengið hafa í ESB að undanförnu hafi fengið undanþágur og það sé að sjálfsögðu opið gagnvart Íslandi líka". Þarna er aðeins hálfur sannleikur sagður, því allar þessar undanþágur hafa verið tímabundnar og því ekki varanlega bindandi samkvæmt lögum ESB eins og nefnt er hér að ofan. Ummæli sendifulltrúans voru svo tuggin athugasemda- og skýringalaust í fjölmiðlum .
Spurningin er einföld: viltu ganga í ESB eða ekki.
Á fundi í Strassburg í vikunni undirstrikaði stækkunarstjórinn, Stefán Fule með ótvíræðum hætti að sama regluverk eigi að gilda innan ESB og ekki standi til að víkja frá því með því að veita Íslendingum varanlegar undanþágur frá lagabálki ESB. Að öðru leyti vék hann sér undan að svara spurningum íslensku þingmannanna.
Áframhald þessara viðræðna við ESB snýst því eingöngu um hvort vilji er fyrir því að ganga í ESB eða ekki án undanþága frá regluverki ESB. Að mínu mati er allt tal um varanlegar undanþágur frá lagabálki ESB, eins og við krefjumst, fullkomið villuljós og blekking.
Ekkert er því til fyrirstöðu að Alþingi og þjóðin taki strax afstöðu til málsins.
Þriðjudagur, 13. nóvember 2012
Kirkjan svarar ávalt kalli
Stjórnarskráin kveður skýrt á um stöðu þjóðkirkju á Íslandi:
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Margir hafa sótt að kirkjunni á síðustu misserum, starfi hennar og stöðu í samfélaginu. Þrátt fyrir mannlega brotsjói hefur hún staðið það af sér og nú síðast í ráðgefandi atkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni. Þar var spurt: Vilt þú að ákvæði um þjóðkirkju sé í stjórnarskrá Íslands? Tæp 60% svarenda sögðu já við þeirri spurningu. Ekki er óeðlilegt að um þetta geti verið skiptar skoðanir sem ekki tengjast beint kristinni trú heldur alveg eins stjórnsýslulegri stöðu kirkjunnar sem stofnunar. Ég sagði já við þessari spurningu og þar með leit ég svo á að þar með væri ég að staðfesta óbreytta núverandi stöðu þjóðkirkju Íslands í stjórnarskránni.
Þjóðkirkjan er okkar allra
Eitt af einkennum þjóðkirkju er að hún stendur öllum opin. Jesús fór ekki í manngreinarálit og það gerir kirkja hans ekki heldur. Erindi hennar er öllum ætlað. Öllum landsmönnum gefst kostur á henni óháð trúfélagsaðild."
Þannig mæltist nýjum biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur, í vígsluræðu sinni í Hallgrímskirkju 24. júní sl. Hún áréttaði mikilvægi kirkjunnar sem einnar af grunnstoðum samfélagsins og þjónustu hennar um allt land:
"Kirkjan hefur haft mótandi áhrif á samfélagið alla tíð, ekki vegna sjálfrar sín heldur vegna þess erindis sem henni er ætlað að koma á framfæri. Það erindi er gefandi og gott, lífgefandi og styrkjandi. Þess vegna er kirkjan ein af grunnstoðum samfélagsins. Kristin hugsun hefur mótað menningu okkar í meira en 1000 ár og á þeim arfi byggist samfélag okkar."
Var það ekki einmitt þetta sem verið var að árétta í þjóðaratkvæðagreiðslunni?
Hornsteinar samfélagsins mega ekki bresta
Kirkjan og safnaðarstarfið eru hornsteinar fjölbreytts menningarlífs víða, ekki síst í minni samfélögum úti á landi. Má þar sérstaklega nefna söng- og tónlistarlíf og barna- og unglingastarf sem fjölskyldan öll er virkur þátttakandi í, að ógleymdum hlut starfs eldri borgara. Fjöldi barna, unglinga og fullorðinna um land allt syngur í kirkjukórum eða tekur þátt í tónlistarlífi og uppbyggilegu trúarlífi í kringum kirkjurnar.
Fjölþætt ábyrgð um land allt
Kirkjustaðirnir eru einstæðar vörður í sögu, atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar og samofnir örlögum hennar. Kirkjurnar vítt og breitt um landið eru byggingarsögulegir dýrgripir og búnaður þeirra hluti af listasögu landsins. Þessum verðmætum verður að halda til haga og gera sýnileg í nútímanum. Þarna ber þjóðkirkjan og við öll víðtækar samfélagsskyldur.
Kirkjusagan og kirkjustaðirnir eru samofin þeim verðmætum sem reynt er að miðla og laða fram, t.d. í menningartengdri ferðaþjónustu. Kirkjustarfið er mikilvægur hlekkur í byggðamálum og ómetanlegt í öllu félags- og menningarlífi. Það er mikilvægt að við höfum þessa fjölþættu ábyrgð í huga.
Nú kallar kirkjan á hjálp fyrir mig og þig
Hart hefur verið sótt að fjárhagslegum grundvelli kirkjustarfsins. Stjórnvöld hafi krafið kirkjuna um niðurskurð á starfsemi sinni og skert fjárframlög og lögvarða tekjustofna hennar.
Kirkjan hefur brugðist við og axlað sinn hlut í efnahagslegum þrengingum þjóðarinnar.
En hjá henni eins og í allri annari starfsemi kemur að þolmörkum. Tekið er að bresta í grunnstoðunum. Það var rækilega áréttað svo á nýafstöðnu kirkjuþingi unga fólksins:
Kirkjuþing unga fólksins skorar á stjórnvöld að leiðrétta þann niðurskurð sem átt hefur sér stað á sóknargjöldum til kirkjunnar þar sem grunnstoðir í starfsemi safnaða þjóðkirkjunnar eru að hruni komnar vegna fjárhagsvanda.
Starfsemi kirkjunnar, presta og safnaðarfólks um allt land er einn af hornsteinum velferðarþjónustunnar. Fari nú sem horfir í niðurskurði til kirkjunnar er hætt við að hún sem stofnun verð að grípa til örþrifaráða. Það mun bitna ekki hvað síst á æskulýðsstarfinu og starfseminni úti á landsbyggðinni, einmitt þar sem hún er viðkvæmust fyrir. Er það forgangsröðun í niðurskurði velferðarþjónustu, sem þjóðin vill? Ég held ekki. Hér verða stjórnvöld að koma til, standa við sinn hlut og færa kirkjunni þá fjármuni sem innheimt er nú með sóknargjöldum.
Komið er að þolmörkum í kirkjustarfi víða um land vegna niðurskurðar fjárveitinga. Staða, hlutverk og ábyrgð kirkjunnar og fjölþætt starfs á hennar vegum er með þeim hætti að við hljótum að leggja við hlustir og bregðast við þegar hún kallar á hjálp, ekki sjálfrar sín vegna heldur fyrir okkur, mig og þig.
( Birtist sem grein í mbl. 13.11.2012)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. nóvember 2012
Hvernig leið þér árið 2012 ?
Embætti landlæknis hefur sent út viðamikinn spurningalista til nokkur þúsund handahófsvalinna Íslendinga, Rannsókn á heilsu og líðan Íslendinga árið 2012. Spurningarnar eru í 123 köflum og býsna margbreytilegar. Athyglisverðast er þó, að spurt er í einum kaflanum, hvaða stjórnmálaflokk svarandinn kaus síðast. Hér fylgja nokkur sýnishorn af spurningalistanum. Forvitnilegt er að fá upplýsingar um andlegt ástand kjósenda eftir flokkum: Hvaða flokksmenn eru með mestan athyglisbrest? Kjósendur hvaða flokks fengu flest reiðiköst á árinu 2012, öskruðu og hentu lausum hlutum í sína nánustu o.s.frv.?
Maður veltir því fyrir sér, hvar Landlæknisembættið fékk heimild fyrir þvílíka spurningum?
Þjóðin bíður spennt eftir niðurstöðum !!!
Dæmi um spurningar :
"8. Hefur sálfræðingur greint hjá þér einhverja eftirfarandi sjúkdóma eða einkenni? Merktu í einn reit í hverjum lið.a) Athyglisbrest með eða án ofvirkni (ADD/ADHD) já eða neib) Síðþreytu já eða nei
c) Áfengis- eða fíkniefnavanda já eða nei
d) Langvinnan kvíða/spennu já eða nei
e) Áfallastreitu já eða nei
f) Langvarandi þunglyndi já eða nei
g) Önnur vandamál tengd geðheilsu já eða nei27. Hversu oft, ef nokkurn tíma, á síðustu 12 mánuðum hefur þú drukkið á einum degi að minnsta kosti 5 áfenga drykki? Merktu í einn reit.
- Daglega eða næstum daglega
- Þrisvar til fjórum sinnum í viku
- Einu sinni til tvisvar í viku
- Einu sinni til þrisvar í mánuði
- Sjö til ellefu sinnum á síðustu 12 mánuðum
- Þrisvar til sex sinnum á síðustu 12 mánuðum
- Einu sinni til tvisvar á síðustu 12 mánuðum
- Aldrei á síðustu 12 mánuðum
29. Hversu oft á síðustu 12 mánuðum hefur Merktu í einn reit í hverjum lið: aldrei, mánaðarlega eða sjaldnar, einu sinni til þrisvar í mánuði, vikulega, daglega eða nánast daglega
a) þú fengið þér áfengi til að komast yfir eftirköst drykkju?
b) þú komist að því að þú gast ekki hætt að drekka þegar þú varst á annað borð byrjuð/byrjaður?
c) þú fundið til eftirsjár eða sektarkenndar eftir drykkju?
d) þú ekki getað munað það sem gerðist kvöldið áður vegna þess að þú hafðir drukkið áfengi?
e) þú ekki getað gert það sem venjulega er ætlast til af þér vegna drykkju?
f) áfengisneysla þín haft skaðleg áhrif á vinnu þína, nám eða atvinnutækifæri?
66. Hversu oft varðst þú var/vör við eftirfarandi vanlíðan eða óþægindi síðastliðna viku? Merktu í einn reit í hverjum lið: aldrei, sjaldan, stundum, oft
a) Það var auðvelt að pirra mig eða ergja
b) Ég fékk reiðiköst sem ég gat ekki stjórnað
c) Mig langaði að brjóta eða mölva hluti
d) Ég öskraði eða henti hlutum
e) Ég lenti í rifrildi
f) Mig langaði til að slá, eða skaða einhvern
70. Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingum? Merktu í einn reit í hverjum lið: mjög sammála, frekar sammála, hvorki sammála né ósammála, frekar ósammála, mjög ósammála
a) Ég er ánægð/ur með útlit mitt eins og það er
b) Flest fólk myndi segja að ég væri aðlaðandi
c) Ég er óánægð/ur með líkamsbyggingu mína
d) Ég er ánægð/ur með hvernig ég lít út nakin/n
e) Líkami minn er kynferðislega aðlaðandi
f) Mér líkar hvernig fötin passa á líkama minn
g) Ég er líkamlega óaðlaðandi
84. Flestur finnst þeir tilheyra ákveðinni stétt. Hvaða þjóðfélagsstétt þú telur þig tilheyra? Merktu í einn reit.â¡ Lægstu stéttâ¡ Verkamannastéttâ¡ Lægri millistéttâ¡ Millistéttâ¡ Efri millistéttâ¡ Efstu stétt
119. Í stjórnmálum er oft talað um vinstri og hægri. Hvar myndir þú staðsetja sjálfa/n þig á eftirfarandi kvarða þar sem 0 þýðir lengst til vinstri og 10 þýðir lengst til hægri? Merktu í einn reit.
Vinstri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Hægri
120. Hvaða flokk eða lista, ef einhvern, kaust þú í síðustu Alþingiskosningum sem haldnar voru í maí 2009?
Ég kaus ekki
Ég skilaði auðu
Borgarahreyfinguna
Framsóknarflokkinnâ
Frjálslynda flokkinn
Lýðræðishreyfingunaâ
Samfylkinguna
Sjálfstæðisflokkinn
Vinstrihreyfinguna grænt framboð
123. Merktu við hversu sannar eftirfarandi staðhæfingar eru fyrir þig. Merktu í einn reit í hverjum lið: alls ekki sönn, ekki mjög sönn, frekar sönn, alveg sönn
a)Líf mitt hefur augljósan tilgang
b) Ég geri mér vel grein fyrir því sem gerir líf mitt þýðingarmikið
c) Ég hef fundið gefandi hlutverk í lífinu."
Það er mikill humor í þessum spurningum, en svarendum er boðið að vera áfram á spurningavagninum, þannig að hægt sé að fylgjast með hvort einhver skifti um flokk og líði þá betur eða verr eftir en áður. Ég hef til fróðleiks sent fyrirspurn á velferðarráðherra hvort hann og persónuvernd eða stjórnmálaflokkarnir viti af þessari stórmerkilegu, en háalvarlegu könnun og hafi gefið leyfi sitt fyrir henni og spurningunum sem þar eru lagðar fram.
Að öllu gamni slepptu er hér alltof langt gengið og með ólíkindum að embættið skuli komast upp með að senda svona spurningar út óátalið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.11.2012 kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. nóvember 2012
Allt að 10 þús. fjár talið hafa farist í óveðrinu 9.- 11 sept. sl.
Tjónið kom misjafnlega niður á einstaka búum. Góð loforð hafi verið gefin um bætur að því marki sem heimildir Bjargráðsjóðs og Viðlagatryggingar veita. En mikilvægt er að styðja svo vel við fólk og bú að ekki komi til alvarlegs tekjutaps eða búseturöskunar vegna þessa.
Mikið tjón varð á dreifikerfi rafmagns og fjarskipti, sími, útvarp og fleiri grunn öryggisþættir urðu óvirkir á stórum svæðum. Þá var og misjafnt eftir svæðum hvernig almannavarnarkerfið var virkjað.Svo sannarlega vann fólkið, íbúarnir á þessum óveðurs svæðum kraftaverk svo og björgunarsveitir, starfsmenn orkuveitna og vegagerðar við mjög erfiðar aðstæður.
Ég lagði áherslu á í ræðu minni, að innanríkisráðherra sem yfirmaður almannavarna léti safna upplýsingum og vinna skýrslu um atburðarásina þessa óveðursdaga, þannig að mætti draga lærdóm af. Þetta á m.a. við aðvaranir, viðbrögð opinberra aðila og vettvangsstjórnun. Enn fremur verði tekið saman og kortlagðir veikir hlekkir í öryggiskerfinu eins og fjarskiptum, útsendingum útvarps, flutningskerfi rafmagns og staðsetning varaaflsstöðva.Þá verði tekið saman tjón bæði á búfé, girðingum ofl. , framlag björgunarfólks og tækja ofl. og fá þannig heildar mynd af atburðarás, aðgerðum og afleiðingum þessa óveðurs.
Huga þarf vel að sálgæslu og eftirfylgni í þeim efnum en atburðir sem þessir taka á og hafa mikil áhrif á fólk ekki síst börn sem sjá á eftir kindinni sinni undir snjó.
Markmiðið með samantekt og skýrslu er ekki hvað síst að draga lærdóm af og styrkja veika hlekki í skipulagningu, viðbrögðum, aðgerðum, öryggisbúnaði og virkni hans við hamfarir sem þessar.
--Svör innanríkisráðherra voru skilmerkileg og góð og gat hann þess að vinna við umrædda gagnasöfnun, samantekt og skýrslugerð væri þegar hafin--.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 31. október 2012
Staða og framtíð innanlandsflugsins tekin upp á Alþingi.
Í kjölfar frétta um að flugfélagið Ernir hyggist leggja af flug til minni staða á landsbyggðinni eins og til Gjögurs, Bíldudals, jafnvel Hafnar í Hornafirði og Húsavíkur, hef ég lagt fram fyrirspurn á Alþingi um hvernig Innanríkisráðherra hyggist bregðast við til að tryggja öryggi og framtíð áætlunarflugs til þessara staða. Stjórnvöld verða að bregðast við
Óþarft er að rekja hér mikilvægi þessa flugs fyrir þjóðina og skyldur við íbúa og atvinnulíf á þessum svæðum. Síðastliðinn vetur lagðist af áætlunarflug til Sauðárkróks þrátt fyrir loforð stjórnvalda um að svo yrði ekki. Jafnframt voru þá gefin fyrirheit um að flug til Sauðárkróks yrði tekið upp aftur með haustinu.Í áskorun sveitarfélaganna til innanríkisráðherra og Alþingis, sem birtist í fjölmiðlum í dag segir m.a.:
"Það er alvarleg staða sem upp er komin og má benda á að innanlandsflugið eru einu samgöngur Árneshrepps við umheiminn að vetri til. Það er algerlega ólíðandi að stjórnvöld láti hjá líða að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin og skorum við á innanríkisráðherra að beita sér fyrir því að tryggja að leiðréttur verði strax sá forsendubrestur sem orðinn er á verksamningi ríkisins við Flugfélagið Erni svo tryggja megi áframhaldandi flugsamgöngur til áfangastaða félagsins, segir í áskoruninni.
Mikilvægt er að íbúar á þessum stöðum, sem eru jafnframt útverðir byggðar og atvinnulífs á stórum svæðum fái um þetta skýr og ákveðin svör. Þetta er ekki aðeins mál fólksins, íbúanna á þessum stöðum, heldur og ekki síður þjóðarinnar allrar. Þess vegna verður innanlandsflugið tekið upp á Alþingi og spurt hvernig megi tryggja öruggt áætlunarflug til þessara staða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. október 2012
Guðbrandur Brynjúlfsson á Brúarlandi talaði tæpitungulaust á fundi VG í N.V. kjördæmi
Hvernig ætlar Vinstrihreyfingin grænt framboð að fara í kosningar með ESB málin opin og óafgreidd.? Hvernig ætla einstakir frambjóðendur að gefa kost á sér til framboðs með aðildarumsókn í gangi á ábyrgð flokksins, þvert á grunnstefnu hans?.
Það er ekki hægt að endurtaka leikinn frá síðustu kosningum og telja fólki áfram trú um að VG sé á móti umsókn og aðild að ESB, eins og reyndar stefna flokksins kveður skýrt á um, en styðja áframhaldandi samninga og aðlögun að ESB?.
Allir vita að umsóknarferlið er algjörlega á forsendum ESB og því ferli lýkur ekki fyrr en við höfum innleitt flestar gerðir sambandsins.
Samningurinn og samningsvinnan er á ábyrgð ráðherra VG með Samfylkingunni. Ráðherrar VG munu þurfa að undirrita samninginn þegar þar að kemur eins og þeir staðfesta nú samningsskilyrði og einstaka kröfur ESB í ferlinu.
Það er ekki nóg að vera á móti aðild að ESB eins og við sem hér eru inni en styðja svo áframhaldandi aðlögunarferli sem enginn getur sagt fyrir um hvað stendur mörg ár enn.
Fyrir mér er þetta mikið alvörumál sem flokkurinn getur ekki vikist undan að afgreiða fyrir kosningar. Traust og trúnaður kjósenda til flokksins hefur beðið mikinn hnekki.Við höfum misst þingmenn, fjölda forystufólks, félaga og fært miklar fórnir vegna ESB stefnu flokksins í ríkisstjórn með Samfylkingunni.
Bæði einstakir frambjóðendur, þingmenn, ráðherrar og flokkurinn í heild verður að gera hreint fyrir sínum dyrum í ESB málinu og útkljá málið, áður en kosningabaráttan hefst.
Ég sé ekki, hvernig óbreytt staða með ESB umsóknina inn í næsta kjörtímabil gengur fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð._- -Þetta var inntak ræðu Guðbrands Brynjúlfssonar á Brúarlandi á Mýrum á kjördæmisráðsfundi VG í Norðvesturkjördæmi í Árbliki, Dölum í gær.
Guðbrandur hefur mikla reynslu í stjórnmálum. Hann var einn af stofnendum Alþýðubandalagsins á sínum tíma og átti síðar virka og beina aðild að stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Guðbrandur hefur alla tíð verið einn af öflugustu einstaklingum í forystusveit Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og staðið með stefnuskrá hennar.
Ég get tekið undir með Guðbrandi Brynjúlfssyni á Brúarlandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 27. október 2012
Ófrávíkjanlegar kröfur Íslendinga gagnvart ESB
Nú er unnið að mótun samningsafstöðu Íslands gagnvart ESB í 12. kafla er varðar matvælaöryggi, dýra og plöntuheilbrigði.
Þetta er einn af afdrifaríkustu þáttum okkar Íslendinga í samningum við ESB og því mikilvægt að talað sé skýrt og staðið fast á ófrávíkjanlegum hagsmunum Íslendinga í þessum efnum.
Baráttumál Vinstri grænna
Af hálfu Íslands verður því að setja fram mjög afdráttarlausa kröfu og skilyrði í viðræðunum við ESB, sem tryggi öryggi og verndun íslenskra búfjárkynja og plantna með þeim varanlegu undanþágum sem landið hefur haft skv. EES samningnum og barist var fyrir og staðfest með hinum s.k. matvælalögum árið 2010.
Matvælalögin s.k. sem samþykkt voru á Alþingi 2010 samhljóða og mótatkvæðalaust undirstrika og staðfesta rétt Íslendinga til að beita þessum lagalegu vörnum til verndar viðkvæmum búfjárkynjum landsins, fæðu og matvælaöryggis þjóðarinnar. Þessi ákvæði matvælalaganna voru einmitt sérstakt baráttumál Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við síðustu alþingiskosningar, sem lauk giftusamlega með samþykkt laga frá Alþingi.
Skýrar varnarlínur
Bændasamtök Íslands létu framkvæma mjög vandaða úttekt og greiningu á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart ESB og þeirri áhættu sem tekin væri með umsókn og/ eða aðild að ESB og hvernig bæri að taka á einstaka efnisþáttum í samningaviðræðunum.
Settu þau fram ákveðin grundvallaratriði varðandi þá samninga sem þau kölluðu " varnarlínur" Bændasamtakanna í landbúnaðarmálum, matvæla- og dýraheilbrigðismálum og tollamálum.
Frá upphafi samningaferilsins við ESB lýsti ég því yfir sem ráðherra, að ég gerði varnarlínur Bændasamtakanna að mínum hvað áðurnefnda þætti varðar. Tilkynnti ég það með formlegum hætti í ríkisstjórn á sínum tíma og að á þeim væru grunnsamningskilyrði Íslendingas byggð í þessum málaflokkum.
Ófrávíkjanlegar kröfur í dýraheilbrigðismálum
Nú er komið er að því að leggja fram samningsafstöðu Íslands um 12 . kafla - Matvælaöryggi og dýra og plöntuheilbrigði. Þar verða tilgreindar lágmarkskröfur Íslendinga í þessum viðræðum.
Í ljósi mikilvægis þessa máls fyrir Íslendinga og ofangreindra skilyrða sem liggja fyrir, er það mitt mat að íslensk stjórnvöld verði að setja fram í texta samningsafstöðunnar skýlausa og ófrávíkjanlega kröfu um að Ísland fái haldið varanlega rétti sínum og undanþágum hvað varðar bann við innflutningi á lifandi dýrum og innflutningi á hráum ófrosnum dýraafurðum og bann við innflutningi tiltekinna planta og trjáa en framselji ekki þann rétt til Brussel.
ESB verði krafið svara innan tiltekins tímafrests um afstöðu sambandsins til þessara atriða á grundvelli þess að hér sé um ófrávíkjanleg skilyrði af hálfu Íslands að ræða fyrir áframhaldandi viðræðum um kaflann.
Talað tæpitungulaust
Við ætlum ekki að gefa eftir kröfu okkar um bann við innflutningi á lifandi dýra og hráum ófrosnum dýraafurðum og það á að orða það skýrt í þeim texta sem fer frá Íslendingum til ESB hvað þennan málaflokk varðar. Meðan ferlið og aðlögunin er ekki stöðvuð af hálfu Alþingis eða umsóknin borin undir þjóðina, verður Ísland að setja fram með skýrum og afdráttarlausum hætti kröfur sínar, fyrirvara og ófrávíkjanlegu skilyrði í samningaviðræðunum sem ekki verði samið um.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)