Logi Sigurðarson
logis@mbl.is
Kaup franska fjárfestingarsjóðsins Ardian á Mílu af Símanum eru nú í uppnámi eftir að Samkeppniseftirlitið (SKE) gerði athugasemdir við kaupin. Sjóðurinn telur þær tillögur, sem hann hefur lagt fyrir eftirlitið, íþyngjandi fyrir Mílu. Því vilji hann ekki ljúka viðskiptunum á grundvelli óbreytts kaupsamnings.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í samtali við Morgunblaðið að hann geri ráð fyrir því að sjóðurinn vilji semja um lægra kaupverð á Mílu. Helsta áhyggjuefni eftirlitsins sé viðskiptasamband Mílu og Símans eftir að viðskiptin gengju í gegn.
Viðskiptasamningur liggi fyrir
Okkar ábendingar eru þær að við teljum að það hafi fjölþætt jákvæð áhrif að Síminn selji Mílu. Samkeppniseftirlitið er sjálft búið að mæla með því að Síminn og Míla verði ekki lengur í sama eignarhaldi og það er verið að reyna að koma því í kring. Að sjálfsögðu þarf að vera viðskiptasamningur , en það er miklu lausbeislaðra samband en eignarsamband, sem er staðan í dag, segir Orri. Ef kaupin gangi í gegn komi sterkur aðili inn á íslenskan fjarskiptamarkað sem ætli að fjárfesta mikið í bættum innviðum. Lífeyrissjóðirnir séu helstu eigendur fjarskiptafyrirtækja á Íslandi og því myndi salan draga úr eignarhaldi þeirra á fjarskiptamarkaði, sem SKE hafi mælt með.
Aðspurður segir Orri það hafa komið sér á óvart hvað SKE hafi séð marga neikvæða fleti á þessari sölu.
Míla er ekki seljanleg eign ef henni fylgja ekki viðskipti við stærsta kúnnann, að minnsta kosti þann sem er með mestu viðskiptin við félagið í dag. Það getur vel verið að aðrir viðskiptavinir Mílu muni stækka umfram Símann í framtíðinni, sérstaklega þegar Míla er farin úr eignarhaldi Símans. Þá hafa keppinautar Símans meiri áhuga á því að versla við Mílu. Við teljum klárlega út frá samkeppnisvinklinum að þá sé þetta mjög jákvætt skref, segir Orri.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir eignarhald Símans á Mílu hafa verulega slæm áhrif á fjarskiptamarkaðinn, hindri uppbyggingu og bitni á neytendum.
Samkeppniseftirlitið hefur haft orð á því lengi að Síminn þurfi að selja Mílu. Ég vona svo sannarlega að það sé hægt að komast að samkomulagi milli Ardians, Símans og Samkeppniseftirlitsins svo að þessi sala fari fram, það er best fyrir Ísland, segir Heiðar. Aðspurður segir Heiðar það ekki rökrétt hjá SKE að halda að viðskiptasamband Símans og Mílu verði of sterkt eftir söluna, sérstaklega miðað við stöðuna í dag.
Stjórnkerfið of svifaseint
Kaupsamningur Ardians og Símans var undirritaður í október í fyrra og hljóðaði upp á 519 milljónir evra, rúma 78 milljarða króna á þáverandi gengi. SKE hóf að skoða söluna í febrúar og skilaði andmælaskjali nú í júlí.
Heiðar segir það einsdæmi í Evrópu hve langan tíma það taki fyrir eftirlitsstofnanir að vinna jafn mikilvæg mál og hér sé um að ræða.
Íslenska stjórnkerfið tekur sér allt of langan tíma. Það virðist ekki átta sig á því að Ísland er í samkeppni um fjármagn við önnur lönd. Þegar við erum með viðskipti sem sannarlega gagnast landinu og almenningi mjög mikið, finnst mér ekki sanngjarnt að taka sér svona langan tíma, segir Heiðar og tekur dæmi af því að þegar Sýn seldi stál og steypu til bandarísks fjárfestingasjóðs í fyrra hafi allir frestir verið gjörnýttir. Ferlið hafi tekið þrefalt lengri tíma en gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum.
Tjáir sig ekki um einstök mál
Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra segir í skriflegu svari ekki viðeigandi að tjá sig um einstök mál á borði SKE. Hún sé þó hlynnt erlendri fjárfestingu hérlendis, bæði í þjónustu- og framleiðslu. Þó þurfi að fara varlega í erlenda fjárfestingu í innviðum og auðlindum með tilliti til öryggis- og varnarsjónarmiða.")
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.