Itamar Ben-Gvir, þjóðaröryggisráðherra í nýrri ríkisstjórn Ísraels, hefur ákveðið að banna notkun palestínska fánans á almannafæri og fela lögreglu að fylgja því banni eftir. Þessi ákvörðun ráðherrans, harðlínumanns yst á hægri kantinum í ísraelskum stjórnmálum, var kynnt í fyrradag.
Þetta fánabann bætist við fleiri aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar Ísraels sem beinst hafa gegn Palestínumönnum núna í upphafi ársins, en aðgerðirnar eru andsvar við því að fulltrúum Palestínuríkis tókst að fá samþykkta þingsályktunartillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember, sem fól meðal annars í sér að Alþjóðadómstóllinn í Haag verður fenginn til að veita ráðgefandi álit á lögmæti hernáms Ísraelsríkis á landsvæðum Palestínumanna.
Niðurstaðan lá fyrir á allsherjarþinginu 30. desember, og var nokkuð afgerandi, en 87 ríki samþykktu málið, 26 greiddu atkvæði gegn því, 53 sátu hjá (Ísland þeirra á meðal) og 27 ríki tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslunni. Í fyrri atkvæðagreiðslu á vettvangi fjórðu nefndar allsherjarþingsins Sameinuðu þjóðanna í nóvembermánuði var tillagan samþykkt með 98 atkvæðum gegn 17 mótatkvæðum, en 52 ríki sátu hjá.
Netanjahú hefur boðað að jafnvirði 5,6 milljarða íslenskra króna af skatttekjum sem renna áttu til palestínsku heimastjórnarinnar, en Ísraelsríki innheimtir, yrðu teknar og nýttar til þess að greiða miskabætur til fjölskyldna ísraelskra borgara sem fallið hefðu í árásum Palestínumanna.
Frekari áform eru svo uppi um að halda eftir skatttekjum sem innheimtar eru fyrir hönd palestínsku heimastjórnarinnar, auk þess sem ákveðið hefur verið að allar byggingarframkvæmdir Palestínumanna á svokölluðu svæði C á hernumdum Vesturbakkanum verði settar á ís.
Á sama tíma hyggst ný ríkisstjórn, sem hefur verið lýst sem mestu harðlínustjórn Ísraelsríkis í sögunni, beita sér fyrir áframhaldandi aukningu landnemabyggða á Vesturbakkanum, en nú þegar búa hundruð þúsunda Ísraelsmanna í slíkum byggðum í trássi við alþjóðalög.
Nú hefur þjóðaröryggisráðherrann svo boðað, sem fyrr segir, að lögregla skuli gera palestínska fána upptæka ef þeir sjást á almannafæri. Það hefur ekki verið almenn stefna yfirvalda í Ísrael allt frá árinu 1993, er stjórnvöld í Ísrael hættu að álíta Frelsishreyfingu Palestínumanna (PLO) sem hryðjuverkasamtök í kjölfar þess að samkomulag um Ósló-yfirlýsinguna var undirritað.
En nú hefur lögreglunni beinlínis verið falið að fjarlægja fánann ef til hans sést á almannafæri, og það á þeim grundvelli að palestínski fáninn sé myndmerki hryðjuverkasamtaka, samkvæmt yfirlýsingu þjóðaröryggisráðherrans Ben-Gvir."
Ísland á að standa með rétti Palestínu
Ég heimsótti Palestínu fyrir nokkrum árum og það var mjög sár lífsreynsla að sjá hvernig heil þjóð er kúguð og hernumin í sínu eigin landi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.