Héraðsvötnin á höggstokk Alþingis

Kúvending í náttúruverndarmálum 

  Hart hefur verið barist fyrir friðlýsingu og vernd  Jökulsánna í Skagafirði. 
Í raun hafa Héraðsvötnin verið eitt sterkasta flagg Vinstri grænna og annarra náttúruverndarsinna í  náttúruverndarmálum. 
Eitt af þeim málasviðum sem Vg var stofnað um í upphafi.  Verkefnastjórn rammaáætlunar mat verndargildi  vatnasvæða Héraðsvatna eitt það mesta á landinu.
 
"Heggur sá er hlífa skal"
 
Það kemur því sorglega á óvart að nú skuli ríkisstjórn Vg kúvenda í náttúruverndarmálum.-
Ríkistjórn undir forystu forsætisráðherra sem var af heilum hug aðili að þingmannahópi Vinstri grænna sem flutti tillögu á Alþingi um friðun Jökulsánna.
Tillagan á alþingi  nú hljóðar upp á að fella Héraðsvötnin úr verndarflokki í  biðflokk til frekari virkjunarundirbúnings- þvert á grundvallastefnu VG
Sbr. meðfylgjandi þingsályktun:
  
Verndun Jökulsánna í Skagafirði.
59/135 2008 þáltill.: friðlýsing Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði 
Flm.: Jón Bjarnason, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.
 
Tillaga til þingsályktunar 2008
um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu vatnasvæðisins norðan Hofsjökuls, þ.e. Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði ásamt þverám þeirra.
Friðlýsingin taki til vatnasviðs ánna að meðtöldum þverám og skal hvers kyns röskun á náttúrulegum rennslisháttum ánna vera óheimil.
Skal svæðið friðað og stjórnað til varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundins landbúnaðar. Sérstaklega skal hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing vatnasvæðanna norðan Hofsjökuls geti tengst framtíðaráformum um Hofsjökulsþjóðgarð og fallið að stækkuðu friðlandi Þjórsárvera sunnan jökulsins.
 
Greinargerð.
Frá Hofsjökli renna árnar Austari- og Vestari-Jökulsár. Þegar þær koma saman kallast þær Héraðsvötn en þau eru meginvatnsfallið í Skagafirði.
Koma jökulsárnar saman við bæinn Kelduland. Báðar árnar renna í gljúfrum og er gljúfur Austari-Jökulsár öllu hrikalegra en þeirrar vestari.
Náttúrufegurð jökulsárgljúfranna er einstök, svo og gróður, landslag og náttúrufar á vatnasvæði ánna.
Hér er gert að tillögu að ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga þess efnis að árnar og vatnasvið þeirra verði friðlýst með lögum.
Með hliðsjón af flokkunarkerfi hinna alþjóðlegu náttúruverndarsamtaka IUCN er lagt til að svæðið geti fallið að V. friðlýsingarflokki.
Nánari skilgreining þessa verndarstigs er á þessa leið: „Landsvæði, ásamt strönd eða sjó eftir því sem við á, þar sem samskipti manns og náttúru í gegnum tíðina hafa gert svæðið sérstætt, fagurfræðilega, vistfræðilega og/eða menningarlega, og gjarnan með mjög fjölbreyttu lífríki.
Varðveisla þessara hefðbundnu samskipta í heild sinni er nauðsynleg fyrir verndun, viðhald og þróun slíks svæðis.“
Segja má að viðhorf þeirra sem vilja vernda vatnasvæði ánna speglist vel í ljóðlínum Stefáns Vagnssonar frá Hjaltastöðum (1889–1963) úr kvæðinu Blönduhlíð:
 
"Meðan „Vötnin“ ólgandi að ósum sínum renna,
iðgrænn breiðist gróður um sléttur, hæð og laut,
geislar árdagssólar á bröttum tindum brenna,
blessun Drottins ríkulega falli þér í skaut".
 
Í ályktun félagsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði frá 8. júní 2005 segir:
„Héraðsvötnin og jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs.
Tækifæri framtíðarinnar felast í að vernda þau og nýta óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi.
Þýðing Vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska er einnig ómetanleg.
Félagsfundur VG í Skagafirði leggst því alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði.“
Jökulsárnar í Skagafirði eiga upptök í Hofsjökli og vatnasvið þeirra skapa einstaka, lítt raskaða landslagheild.
Jökulsárnar í Skagafirði eiga upptök í Hofsjökli og vatnasvið þeirra skapa einstaka, lítt raskaða landslagheild. Ljósmyndari: Mirto Menghetti
Ferðaþjónusta í Skagafirði er í örum vexti og hafa fljótasiglingar skapað svæðinu mikla sérstöðu.
Með þingsályktunartillögu þessari eru í fylgiskjölum ályktanir og sýnishorn af greinaskrifum Skagfirðinga sem undirstrika hug þeirra til svæðisins. Augu æ fleiri eru að opnast fyrir verðmæti ósnortinnar náttúru og ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum. Náttúran á sinn eigin sjálfstæða rétt. Við höfum hana að láni frá komandi kynslóðum.
Jökulsárnar í Skagafirði eru mikilvægar fyrir lífkerfi héraðsins frá jöklum til sjávar. Vötnin hafa ekki aðeins mótað skagfirska náttúru heldur einnig skagfirska menningu og daglegt líf. Þau eru lífæð Skagafjarðar.
Í ljósi þessa er þingsályktunartillagan um friðun Austari- og Vestari-Jökulsár flutt.
 
Gæti verið mynd af náttúra
 
 Héraðsvötnin voru síðan í hæsta verndarflokki hjá Verkefnastjórn rammaáætlunar.
 
 Við unnendur jökulsánna í Skagafirði krefjumst þess að vatnasvið Héraðsvatna verði áfram í vernd

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband