Föstudagur, 10. apríl 2020
Óveðrið í Dymbilviku 9.-12. apríl 1963
Mér verður hugsað til 9.april 1963
Það kann að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp erfiða daga en það hafa svo sannarlega skiptst á skin og skúrir í lífi og sögu þjóðarinnar
Páskaveðrið mikla 1963 kom upp í hugann þennan þriðjudag nú í dymbilivikunni. Ég var í Menntaskólanum í Reykjavík og hlakkaði til páskafrísins. Allur marsmánuður hafði verið mjög hlýr, einmuna blíða og tún orðin græn, blóm útsprungin og tré laufguð. Sérstaklega þessi innfluttu lauftré. Íslenska birkið mun þó hafa haft varan á sér og beðið reglubundins vortíma.
Stykkishólmsrútan fór klukkan 9 um morguninn 9. apríl og Guðmundur minn Gunnarsson kenndur við Fögruhlíð í Stykkishólmi keyrði eins ag vanalega. Það var hlýtt og við hlökkuðum til páskafrísins í Bjarnarhöfn með stórfjölskyldunni.
Mannskaðaveður skellur á
En skjótt skipaðist veður i lofti. Hitastigið féll mjög hratt úr um 5-10 stiga hita í um 10- 15 stiga frost og um 6 leytið var kominn norðan ofsastormur með hörkufrosti og stórhríð.
Við bjuggum þá í gamla bænum í Bjarnarhöfn sem var járnklætt þriggja hæða timburhús og ég man enn hvað var óskaplega kalt í bænum. Við gátum varla sofið fyrir kulda og vindurinn eins og blés í gegnum húsið.
Kannski var það líka óhugurinn sem fyllti okkur kulda þvi fregnir bárust að fjöldi sjómanna á minni bátum hringinn í kringum landið berðust fyrir lífi sínu og að ná landi
Veðrið skall á með miklu offorsi fyrivaralaust. Og það tók sinn stóra toll. 18 manns fórust, fjölskyldur, fólk, mæður og börn, heilu byggðarlögin og þjóðin öll í mikilli sorg. Feður 22 barna drukknuðu.
"Hákonarhret"
Tré og skógar, sem teknir voru að blómstra kólu og báru hvorki sitt barr eða lauf í mörg ár eftir. Skógræktarmenn kölluðu þetta "Hákonarhret" í höfuðið á Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra
Minnismerkið á Dalvík
Ég kom í sumar að minnismerkinu á Dalvík sem reist hafði verið til minningar um þá 5 sjómenn sem fórust frá þessari litlu sjávarbyggð. Fallegt og áhrifamikið. Á meðal þeirra sem fórust frá Dalvík var Jóhann Helgason faðir góðs vinar og samþingmanns Árna Steinars Jóhannssonar.
Feður 22ja barna fórust
Í þessu mannskæða óveðri fórust fimm bátar norðanlands og eitt stærra fiskiskip við Reykjanes. Með þessum skipum fórust alls 16 sjómenn, og misstu 19 ung börn þar feður sína, en alls áttu þessir sjómenn 22 börn. Tveir sjómenn fórust af þýskum togara. Allmörgum mönnum og bátum var bjargað af félögunum við mannskæðar og fádæma erfiðar aðstæður
Gleðilegt er að þrjú síðustu ár hefur enginn látist á sjó, enda tímarnir breyttir með stærri bátum, fjölbreyttari tæknibúnaði og björgunarþyrlum.
Á vef Veðurstofunnar segir þetta um Páskaveðrið 1963:
1963:
"Páskadagur 14. apríl. Frægasta páskahretið. Veðrið skall skyndilega á eftir miðjan dag á
þriðjudegi, 9. apríl, með hörkufrosti og stormi eftir óvenjumilda tíð. Miklir mannskaðar urðu í
hretinu, 18 menn fórust á sjó og fádæma skemmdir urðu á gróðri. Fimm menn fórust af
tveimur bátum frá Dalvík, 2 menn af báti frá Þórshöfn, 2 af báti frá Siglufirði. Allir þessir
bátar voru norðan við land, skip fórst einnig við Reykjanes, þar fórust fimm, en sex björguðust
naumlega. Tvo menn tók út af þýskum togara. Fjárskaðar urðu vestan- og norðanlands. Bátur
sökk í Vopnafjarðarhöfn, mikið brim var á þeim slóðum. Rúður brotnuðu í húsum á
Hvallátrum, þak tók af fjárhúsum í Breiðuvík og hús í Hænuvík löskuðust nokkuð. Miklir
skaðar urðu á sunnanverðu Snæfellsnesi, þök tók af útihúsum á Bláfeldi, Lýsuhóli,
Kálfárvöllum, Hraunsmúla, Hofgörðum og Hólakoti og af íbúðarhúsi á Hóli. Bíll fauk út af
veginum við Bláfeld. Steinsteypt sæluhús fauk í Hafursey á Mýrdalssandi. Á páskadaginn tók
þak af hálfum fjárhúsum á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi. "
En skammt var stórra högga á milli
" Íslenska þjóðin var í sárum vegna þessara atburða þegar sú harmafregn barst frá Noregi að Hrímfaxi, Viscount-flugvél Flugfélags Íslands, hefði farist í aðflugi við Fornebuflugvöll hjá Ósló á páskadagsmorgun og fórust allir, sem í vélinni voru, alls 12 manns. Þetta hörmulega flugslys tengdist að vísu ekki duttlungum veðurguðanna eins og sjóslysin í norðurhöfum þessa páskahelgi, en blóðtakan var mikil fyrir fámenna þjóð. Og vísast hefur sú fallega kveðja Íslendinga, að óska hverjir öðrum gleðilegrar hátíðar, verið trega blandin um páskana 1963" segir í morgunblaðinu 9 apríl 1969, "Í helgreipum Kára og Ægis"
Greypt í hugann.
Hafandi verið aðeins áhorfandi og heyrandi af þessum atburðum á sínum tíma eru þeir greyptir í hugann og nú þegar atburðirnir bera upp á sömu dagana 1963 og í ár 2020.
Blessuð sé minning þeirra sem létu líf sitt í þessum veðurhamförum.
- "Líknargjafinn þjáðra þjóða,
- þú, sem kyrrir vind og sjó,
- ættjörð vor í ystu höfum
- undir þinni miskunn bjó.
- Vertu með oss, vaktu hjá oss,
- veittu styrk og hugarró.
- Þegar boðinn heljar hækkar,
- Herra, lægðu vind og sjó.
- Föðurland vort hálft er hafið,
- helgað þúsund feðra dáð.
- Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
- þar mun verða stríðið háð.
- Yfir logn og banabylgju
- bjarmi skín af Drottins náð.
- Föðurland vort hálft er hafið,
- hetjulífi og dauða skráð."
- ...
- Jón Magnúson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.