Vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda mannsins skýrist í allt að 60% á fráflæði ákveðinna sýklalyfjaónæmra dýraflórusýkla í menn, svokallaðra súnu-baktería og sem eru í grunninn sameiginlegar stofnar flórubaktería dýra og manna og smitast geta á báða vegu. Sýklalyfjaónæmi í heiminum er skilgreind nú sem mesta heilbrigðisógn framtíðar af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, WHO.
Sýklalyfjaónæmar flórubakteríur geta þannig auðveldlega blandast í okkar flóru með smiti frá dýrum og hráum dýraafurðum. Í byrjun án þess að valda endilega sýkingum, eins og t.d. E.coli bakteríur (ESBL) og Klasakokkar (MÓSAR, MRSA), en sem síðan geta valdið hluta af okkar algengustu og alvarlegustu tilfallandi sýkingum og sem á þá uppsprettu úr okkar eigin flóru. Þvagfærasýkingar, iðrasýkingar hverskonar eða sárasýkingar t.d. og sýklalyfin duga þá illa á eða jafnvel ekkert á.
Við Íslendingar höfum búið við ótrúlegt heilbrigðisöryggi sl. áratugi hvað þetta smit varðar og sýklalyfjaónæmi súna í landbúnaði með því minnsta sem þekkist í heiminum en sem er algengt víða erlendis, jafnvel hjá nágranaþjóðum. Þrátt fyrir þá staðreynd að hér þrifust betur en víða annars staðar fjölónæmir pneumókokkar og sem ekki voru súnur í tímabundnum faraldri um og upp úr sl. aldarmótum og sem átti upptök erlendis frá í upphafi, en þrifust óvenju vel hér í nefkoki íslenskra barna, mest vegna ofnotkunar sýklalyfja, oft af litlu tilefni, ekki síst meðal barna. Smit sem náði til allt að 20% barna og olli hundruðum innlögnum á barnadeild Hringsins til sýklalyfjagjafar á sterkustu sýklalyfjum sem völ var á, í æð eða vöðva.
Sýklalyfjaónæmi helstu sameiginlegu sýkingarvalda manna og dýra er þannig orðin nú orðin ein mest heilbrigðisógn framtíðar. Skynsamleg sýklalyfjanotkun meðal manna og sem minnst í landbúnaði eru helstu markmið WHO og eins að hefta smitleiðir með öllum skynsamlegum ráðum, ekkert síður á milli landa til að sporna gegn þróuninni.
Ísland hefur staðið afar vel að vígi varðandi þessa sýklalyfjaónæmu flórustofna vegna lítillar sýklalyfjanotkunar í landbúnaði, en sem skýrir allt að 70% heildarsýklalyfjanotkunar annars staðar. Sýklalyfjaónæmar súnur hafa mælst í mjög litlu magni eldisdýra hér á landi eins og t.d. í lömbum. Ákveðnar og takmarkaðar rannsóknir hafa sýnt minna en 3% smits sýklalyfjaónæmra súna, á móts við oft yfir 30-50% smits í erlendu sláturkjöti eins og t.d. kjúklingi og svínakjöti. Full ástæða er því til að halda þessari góðu stöðu og sem er öfundsverð um allan heim. Að beinlínis stofna til aðgerða eins og gert var með nýjum lögum um áramótin og auka stórlega smithættu sýklalyfjaónæmra súna, er því glórulaus ákvörðun, lýðheilsunnar vegna. Eins til að forða íslenska heilbrigðiskerfinu frá stórfeldum kostnaði og tjóni og sem gert hefur verið vel grein fyrir í fyrri pistlum og ályktun stjórnar LÍ frá því sl. haust.
Líklegt er að sýklalyfjaónæmar flórubakteríur erlendis frá dreifist í vaxandi mæli nærflóru landsmanna og bíði þar tækifæris. Vakni til lífsins og blómstri jafnvel enn frekar tengt tilfallandi sýklalyfjagjöfum sem við þurfum á að halda vegna tilfallandi algengra sýkinga, eins og t.d. öndunarfærasýkingum eða þvagfærasýkinga. Með öðrum orðum ef gamla góða garnaflóran okkar heldur ekki þeim ónæmu þeim mun meira í skefjum. Ein af hverjum 5 sýkingum í Bandaríkjunum og víða í Evrópu í dag á þannig rætur að rekja til sýklalyfjaónæmra baktería sem koma beint frá landbúnaðarvörum. Vandamálið hefur verið nær óþekkt hér á landi, þótt tíðni sérstaklega ESBL og Mósa bera hefur farið heldur vaxandi sl. áratug á Íslandi (<5%) og valdið heilbrigðiskerfinu íslenska þegar vaxandi þunga og sjúklingum jafnvel skertri þjónustu og bið eftir aðgerðum vegna smithættu á sjúkrahúsunum og skurðstofum. Miklu betra ástand samt en víða erlendis þar sem sýklalyfja-ónæmishlutfall meðal íbúa getur talist í tugprósentum og í allt að helmingi t.d. þvagfærasýkinga Góðri stöðu má fyrst og fremst þakka lítilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér á landi, einangrunar landsins og frystiákvæðanna sem giltu á erlendu innfluttu kjöti fram til síðustu áramóta.
Allir ættu að geta séð að ófrosið lekt og blautt kjöt smitar auðveldlega frá sér hugsanlegum bakteríum sem berast geta með kjötinu. Við slátrun, vinnslu og í flutningi. Óhjákvæmilegt smit þannig á sýklalyfjaónæmum bakteríurum úr görn og yfirborði dýranna og sem berst síðan með kjötinu og þá allt nærliggjandi í kring. Í kjötborðið að lokum og á aðrar nærliggjandi vörur, á hendur okkar viðskiptamannanna og barnanna. Eða bara smá saman í margnota innkaupapokann okkar góða. Sem frosið kjöt gerir þúsundfalt minna eðli málsins samkvæmt. Álíka viturleg ákvörðun að leyfa slíkan innflutning og að leggja til að handþvottur sé óþarfur gagnvart smiti og sem allir landsmenn ættu nú að vita hvað Covid19 faraldurinn hefur kennt okkur hingað til. Skýrt brot á almennum smitvörnum, nú líka gegn sýklalyfjaónæmu en samt næmu sjúkdómunum okkar og sem nú verða væntanlega miklu sýklalyfjaónæmari en áður á Íslandi.
Já, og til hvers sprittum við heilbrigðisstarfsfólk hendur okkar milli sjúklinga á spítölunum nema vegna Covid19, ESBL og spítalamósa, ef við fáum svo síðan bara slæmu bakteríurnar í kjötborðinu hjá kaupmanninum, svona auðveldlega og síðan inn á heimilin okkar?
ONE HEALTH er mál sem flestir fjölmiðlar Íslands eiga erfitt með að skilja m.a. RÚV ohf. Eða vilja sennilega ekki vegna hagsmunatengsla við Samtök verslunarinnar, tengt auglýsingatekjum sem hart er barist um þeirra á milli. Manna og dýraheilbrigði eru hins vegar nátengt hvoru öðru hvað allar almennar sýkingarvarnir varðar að mati WHO og sem telur vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda mannsins meðal mestu heilbrigðisógna mannsins eins og áður sagði (sjá meðfylgjandi skýringarmyndir).
Áhyggjur eru þegar í dag að stór hluti sjúklinga sem fara verst út úr Covid19-lungnabólgunni, deyi vegna fylgisýkinga sem sýklalyfjaónæmar bakteríur valda. Gríðarleg notkun nú í dag á sýklalyfjum meðal manna, auðveldar síðan ekki frekari þróun/dreifingu sýklalyfjaónæmis og spáð er í dag að að verði helsti orsakavaldur ótímabærra dauðsfalla eftir u.þ.b þrjá áratugi, eða allt 10 milljón manns á ári í raunhæfum spálíkönum. Miklu algengari orsök en spáð er t.d. vegna krabbameina og ekki útlit að ný góð sýklalyf komi á markað í bráð sem virki til lengri tíma, frekar en með sýklalyfjaþróunina hingað til.
Gott eftirlit með matareitrunar-sýkingarvöldum eins og Kamphýlóbakter og Salmonellu (jafnvel sýklalyfjaónæmra) sem mesta athygli fær í ráðgerðu eftirliti stjórnvalda nú með innfluttu kjöti og vottun erlendis frá að sé ekki smitað, er alls ekki nóg. Málið snýr ekkert síður að þætti sameiginlegu eðlilegu nærflóru dýra og manna (í görn, loftvegum og á húð) eða hinum svokölluðum súnu-bakteríum sem smitast miklu auðveldar frá ófrosnu kjöti en frystu, eðli málsins samkvæmt. Og vissulega ber ekkert síður að hafa áhyggjur og nánara eftirliti með innfluttu grænmeti og sem er annað stórmál. LÍ sendi alþingi ályktun sína um málið sl. haust. Auðvitað ráðum við síðan ekki við alla þætti eins og smit vegna ferðamanna, en fyrr má nú rota en dauðrota.
Landbúnaðarmálin í dag snúa a.m.k. að mikilvægustu heilbrigðis- og lýðheilsumálum þjóðarinnar og sem ekki er hægt að spila með af hentisemi markaðshyggjunnar. Við þurfum ný lög sem banna innflutning á ófrosnu kjöti í þeim tilgangi að minka hættu á smiti sýklalyfjaónæmra súnuflórubaktería í landsmenn. Á sama tíma og heimsfaraldur Covid19 hefur lagt heiminn á hliðina, hafa flestar ríkisstjórnir heims beitt fyrir sig neyðarlögum í smitvarnarskyni, lýðheilsusjónarmiða vegna. Sérákvæði í ESB, EFTA og EES samningum skipta þá engu máli.
https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5611.pdf
https://www.bbl.is/frettir/frettir/fjolonaemar-bakteriur-i-innfluttu-graenmeti/20504/
https://www.cdc.gov/drugresistance/pdf/threats-report/2019-ar-threats-report-508.pdfr
http://www.euro.who.int/en/health-topics/disease-prevention/antimicrobial-resistance/news/news/2018/11/of-all-human-diseases,-60-originate-in-animals-one-health-is-the-only-way-to-keep-antibiotics-working?fbclid=IwAR00d8OJnxwL97E34pEt8A15kA1x06AI10VSglkyE5wOpERkjFSxDO_G51Q
https://www.bbl.is/frettir/frettir/erum-ad-taka-rosalega-ahaettu/15246/
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.