Laugardagur, 21. apríl 2012
Uppkaup Kínverja á landbúnaðarlandi vekja harðar deilur
http://www.aljazeera.com/video/asia-pacific/2012/04/2012420141723456740
Þessu hefur verið lýst sem siðferðilegri baráttu fyrir eigin landi. Nú hefur hinsvegar Nýsjálenska þingið komist að þeirri stefnumarkandi niðurstöðu að Kínverskt fjárfestingafyrirtæki geti keypt þar upp gríðarstóran búgarð ásamt landi. Nýja Sjáland er mikið landbúnaðarland og því hefur þetta mál vakið upp mjög sterkar tilfinningar. Fólk hefur áhyggjur af því að verið sé að selja úr landi meginatvinnuveg þjóðarinnar. Kínverjar hafa hins vegar fagnað þessari niðurstöðu. Þeir sem eru andvígir landsölunni eru engu að síður staðráðnir í að halda baráttunni áfram.
En hvers vegna er Kína að kaupa upp land á Nýja Sjálandi? Meginástæðurnar eru taldar tvær; annarsvegar sé það góð fjárfesting og hinsvegar til að tryggja eigið matvælaöryggi. Ríkar þjóðir eru meðvitaðar um það að þær gætu margar hverjar horft fram á matvælaskort. Vexti fylgir aukin eftirspurn eftir matvælum og því þarf að tryggja matvælaöryggi. Til að tryggja það eru þessar þjóðir að kaupa upp ræktunarland í fjarlægum löndum til að rækta matvæli fyrir sitt eigið fólk.
Þær ríkisstjórnir sem eru veikastar fyrir því að selja frá sér land með þessum hætti er helst að finna í Afríku. Kína hefur til að mynda fjárfest fyrir 800 milljónir dollara í hrísgrjónaræktun í Mosambique, Suður Kórea hefur nýlega gengið frá samningum um 100,000 ha landbúnaðarland í Tansaníu. Margir hafa áhyggjur af því að þær þjóðir, gjarnan þær fátækustu í heiminum, sem eru að selja frá sér land með þessum hætti séu hlunnfarnar og komi ekki að vel út úr þessum viðskiptum. Alþjóðabankinn hefur t.d áhyggjur af því að smærri framleiðendum í landbúnaði sé ýtt til hliðar og fæðuskortur geti orðið á þeim svæðum sem í hlut eiga. Mestar áhyggjur eru samt af því að þær þjóðir sem nú selja land séu að ofra hagsmunum sínum hvað varðar framboð á matvælum og matvælaöryggi til framtíðar fyrir skammtíma gróða.
http://www.aljazeera.com/video/asia-pacific/2012/04/2012420141723456740
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.