Herleiðing hugans

„Undir stjörnumprýddum fána ESB ganga þingmenn VG til vinnuaðstöðu sinnar sem þeim er sköpuð á vegum Alþingis í gömlu Moggahöllinni.  ESB-fáninn blaktir á húsinu.  Á hnappaborði lyftunnar sem flytur fólk milli hæða má sjá annarsvegar merkingar VG og hinsvegar merki ESB“. 5. tbl. - fimmtudagur 15. mars

Þannig lýsir leiðarahöfundur nýjasta Bændablaðs anddyrum að höfuðstöðvum þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs en búnaðarþingsfulltrúum var boðið til kvöldspjalls  þar nýverið.

Hér er formaður Bændasamtakanna að vísa til þess að höfuðstöðvar ESB á Íslandi eru á  næstu hæð fyrir neðan vinnuaðstöðu þingmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í gömlu Moggahöllinni.

En glöggt er gestsaugað og þessi lýsing íslenska bændahöfðingjans á höfuðstöðvum þingflokks VG segir meira en mörg orð um þá  aðlögun sem er í gangi  að ESB:  þ.e.  herleiðing hugans. 

Formaður Bændasamtaka  Íslands,  Haraldur Benediktsson rekur í stuttu máli þversagnirnar í aðildaferlinu að ESB.  Kröfur ESB liggi fyrir og  aðlögun er hafin.  Skilyrðin sem sett voru í þingsályktun Alþingis eru teygð og toguð til að ekki steyti á skeri í aðlögunarferlinu. 

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, flokksins sem var stofnaður m.a. til að berjast gegn aðild að ESB þurfa nú að ganga undir stjörnum ESB til vinnu sinnar. 

Og þessa dagana fara sendifulltrúar ESB með friðhelgisstjörnu alþjóðlegra diplómata í fundarherferð um landið til mæra sambandið og  dreifa hlutlausum upplýsingum um ástandið í ESB, framtíðina og ekki síst að gagnrýna samtök bænda fyrir staðfestu þeirra í hagsmunum landbúnaðarins í ESB viðræðunum.  

 

En örvæntingarfull áróðursferð sendiráðsstarfsmanna ESB, sem fara jafnvel á svig við Vínarsáttmálann um réttindi og skyldur diplómata í gestalandinu mun skila þeim litlu enda málstaðurinn vonlaus. 

 

 Varðstaða Bændasamtakanna er hinsvegar aldrei mikilvægari en nú.

 

Leiðara Bændablaðsins lýkur á spurningunni ; „hvernig á að láta stjórnendur Íslands hlusta og skilja að þjóðin vill ekki í ESB“.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband