Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ný ríkisstjórn í dag - gömul fer

Sjálfsagt er að óska nýrri ríkisstjórn og einstökum ráðherrum til hamingju og  velfarnaðar í starfi. Það er mjög skynsamlegt að stofna á ný sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og þar með að styrkja stöðu þessara grunnatvinnugreina landsbyggðarinnar innan stjórnsýslunnar.  Mikilvægt er að skil milli ráðuneyta séu skýr og boðleiðir stuttar og einfaldar. Ég óska Sigurði Inga til hamingju með ráðherrastólinn.

Við stofnun „atvinnuvegaráðuneytisins“ var slegið saman mjög óskyldum þáttum og aðrir sem þar tilheyrðu vistaðir út.

Það að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sýndi bæði dómgreindarleysi og veruleikafirringu forystumanna fráfarandi ríkisstjórnar og vanvirðu gagnvart landsbyggðinni og höfuðatvinnuvegum hennar. Sú sameining var gerð þrátt fyrir mótmæli allra sem þar áttu hlut að máli. Enda var hún fyrst og fremst   liður í því að þóknast aðlögunarkröfum ESB og losa sig við tvo ráðherra sem voru formönnunum ekki að skapi.

 Það mátti ljóst vera frá upphafi að erfitt yrði fyrir einn mann að hafa yfirsýn yfir óskyld verkefni í svokölluðu "atvinnuvegaráðuneyti".   Eftir þessi síðustu tvö ár liggur aðeins sérstakt veiðigjald, landsbyggðarskattur sem enginn kemst enn til botns í hvernig á að reikna út. 

 Þær kerfisbreytingar sem náðust fram í sjávarútvegi voru gerðar á fyrstu tveimur árum ríkisstjórnarinnar og höfðu mikla þýðingu einkum í minni sjávarbyggðum á landsbyggðinni. Hefði ég þó viljað komast enn lengra í þeim breytingum en við það var ekki ráðið.

Og þrátt fyrir mikinn þrýsting forystu ríkisstjórnarinnar tókst að koma í veg fyrir að  kröfurnar um eftirgjöf og aðlögun að skilyrðum ESB í landbúnaði,  sjávarútvegi, matvæla- og dýraheilbrigðismálum næðu fram að ganga. Er ég að vonum stoltur yfir mínum hlut þar.

 Svipaða sorgarsögu má segja um stofnun svokallaðs „velferðarráðuneytis“ en heilbrigðismálin hafa verið í ólestri og örugglega liðið fyrir flausturskennda sameiningu ráðuneyta og heilbrigðisstofnana enda eru þau mál ein og sér næg verkefni fyrir einn ráðherra.

 

 Síðustu tvö ár hafa verið fráfarandi ríkisstjórn ósköp verklítil og í stað vinnu að velferð almennings hafa formennirnir setið fastir í einstökum þráhyggjumálum og  leitað sér að andstæðingum sem hefur verið stjórnunarstíllinn. 

   Svífur samvinnuhugsjónin yfir vötnum nýrrar ríkisstjórnar

 Stjórnarsáttmáli þeirra flokka  sem nú taka við er um margt hógvær og sýnir vonandi jarðtengingu við fólkið og atvinnulífið í landinu, ekki síst á landsbyggðinni.  Hinsvegar er orðalagið mjög óljóst, talað er um úttektir og nefndir sem ber vitni um nokkurn vandræðagang.

Það er mjög gott ef svo verður í raun að samvinnuhugsjónin og ungmennafélagsandinn svífi þar yfir vötnum.  Ég er hinsvegar hissa á því að Framsókn skuli ekki vera með 5 ráðherra eins og Sjálfstæðisflokkurinn og tel það misráðið. Það er ekki svo auðvelt að breyta tölu ráðherra eftir á. Þá væri mjög óviturlegt og spor til baka  að leggja niður Umhverfisráðuneytið þó svo eðlilegt geti verið að endurskoða verkefnasvið þess.

Það sem vekur þó mesta furðu er að  Vigdís Hauksdóttir einn skeleggasti talsmaður framsóknarmanna á þingi og einlægur andstæðingur umsóknarinnar að ESB skuli vera sett út í kuldann. Eru það ákveðin skilaboð til grasrótarinnar og ESB- andstæðinga sem standa að baki Vigdísar.

 Ég veit  af kynnum mínum við það fólk sem nú sest á ráðherrabekkinn að hver og einn vill gagnast þjóðinni sem best.  Rétt er að leyfa nýrri ríkisstjórn að njóta hveitibrauðsdaganna og sjá  hvernig henni tekst að efna hin stóru loforð flokkanna frá því fyrir kosningar.  

   Eftirgjöf og óljóst orðalag í ESB-málum brennur á nýjum utanríkisráðherra

 ESB-umsóknin var lík í lest fráfarandi ríkisstjórnar frá fyrsta degi til hins síðasta. Þess vegna veldur það miklum vonbrigðum hversu yfirlýsingar nýju ríkisstjórnarinnar um Evrópusambandsumsóknina eru veikar og  loðnar.Gleymdu formennirnir hverju kjósendum var lofað?   Nú er talað um hlé á viðræðum en í samþykkt beggja flokkanna fyrir kosningar var því lýst yfir að þeim yrði hætt. Og einstaka þingmenn og frambjóðendur  tóku enn sterkar til orða. Umsóknin um aðild að ESB er pólitískt mál en ekki viðskiptasamningar á vogarskál, og hún snýst um framsal á fullveldi sem ekki á að þurfa neina nefnd í til að gera úttekt á. 

 Nú hlakkar í ESB-sinnum  yfir þeirri eftirgjöf sem sjá má í stefnuyfirlýsingunni, sbr. viðtal við Benedikt Jóhannesson í sjónvarpi í gærkvöld og gleði Stefáns Ólafssonar á Eyjunni í dag.

Það er því ljóst að hné forystumanna hinnar nýju ríkisstjórnar koma bogin til leiks í ESB- málinu. Það átti strax að lýsa því yfir undanbragðalaust að samningum og innlimunarferlinu í ESB væri hætt, afturkalla umsóknin, leysa upp allar samninganefndir og vinnuhópa, segja formanni samninga­nefndarinnar upp störfum og loka áróðursmiðstöð Evrópusambandsins. Samtímis á að óska eftir samstarfi við Norðmenn um endurskoðun á EES-samningum og byggja upp áframhaldandi sambönd við önnur ríki á grunni tvíhliða samninga eins og verið hefur.  Loðið orðalag í þessu stóra máli ríkisstjórnar gengur á svig við stefnu og kosningaloforð stjórnarflokkanna og er erfitt vegarnesti fyrir nýjan utanríkisráðherra. 

Ég óska Gunnari Braga hinsvegar  farsældar í vandasömu starfi utanríkisráðherra.


ESB- umsóknin afturkölluð ?

 Framsókn og Sjálfstæðisflokkur munu verða að standa við landsfundarsamþykktir og kosningaloforð sín og afturkalla umsókn Íslands að Evrópusambandinu , loka áróðurskrifstofu ESB, skera á „mútustyrkina“ og treysta sjálfstæði þjóðarinnar í samskiptum við aðrar þjóðir. Ef þeir gera það ekki strax og afdráttarlaust  flækjast þeir áfram í netinu og litið verður á það sem hrein svik. Það var Alþingi sem samþykkti að sækja um aðild og það er því þess að samþykkja breytingu þar á og afturkalla umsóknina.

Hamskipti Framsóknar og VG í  ESB- málum  

Framsóknarflokkurinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar var mjög ESB- sinnaður og yfirbauð meira að segja Samfylkinguna í undirlægjuhættinum gangvart ESB og vildi hraðferð þar inn. Grasrótin leit á stefnu Halldórs og forystusveit hans í ESB- málum sem svik við flokkinn. 

Vinstrihreyfingin grænt framboð var meðal annars stofnuð um sjálfstæði í utanríkismálum og til að berjast gegn hugsanlegri umsókn og aðild að ESB-  Þar skildu leiðir milli VG og  Samfylkingar í upphafi. Það var hinsvegar forysta VG sem gekk á bak stefnu flokksins og loforða og sótti um aðild að ESB.  Á síðasta landsfundi  samþykkti VG að halda því umsóknar- og innlimunarferli áfram. 

 Framsóknarflokkurinn getur í raun ekki annað en staðið við að afturkalla umsóknina eins og hann hefur lofað.  Þá hefur forysta þessara tveggja  flokka farið í hring á nokkrum árum.

 Fyrrverandi formaður Bændasamtakanna hlýtur að standa í lappirnar 

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki annað en staðið við sína landsfundarsamþykkt sem einnig er afdráttarlaus um afturköllun umsóknarinnar. Ég óska  fyrrverandi formanni Bændasamtaka Íslands, Haraldi Benediktssyni til hamingju að vera kominn á þing. Það er fengur að Haraldi í þingliðið og gott fyrir landsbyggðina.

 Saman og með liði Bændasamtakanna  tókum  við slaginn í minni ráðherratíð og síðar í utanríkismálanefnd Alþingis gegn framsali á meginhagsmunum Íslands til ESB. En hart var sótt að okkur af „Sambandssinnum“ innan ríkisstjórnarinnar  og á Alþingi eins og atburðarásin sannar.  Haraldur á sinn pólitíska feril undir því að afturköllun umsóknar að ESB verði afdráttarlaus.

Sjálfstæði þjóðar er ekki verslunarvara

 Sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi  á ekki að gera að verslunarvöru í samskiptum við ríki eða ríkjasambönd.  Verði umsóknin að ESB nú formlega og endanlega afturkölluð hefur verið til nokkurs barist. Ég treysti á að svo verði gert.   


Yrði skelegg sem ráðherra

 Vigdís Hauksdóttir hefur barist einarðlega gegn umsókn og innlimun Íslands í ESB og flutt um það tillögur að draga beri þá umsókn til baka. Ég vona og treysti því að við það verði staðið og umsóknin afturkölluð tafarlaust og tekin upp samskipti við ESB á jafningja grundvelli eins og við önnur ríki.

Annars ætla ég ekki að blanda mér í skiptingu ráðuneyta og vali á einstaka þingmönnum í ráðherrastóla hjá Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.  Hinsvegar vaknar sú spurning hvort strax eigi að hefja eineltisumræðuna  gagnvart einstökum þingmönnum og ráðherrum eða ráðherraefnum og  þá eru einhverjir fengnir til að ríða á vaðið  í ómálefnalegu einelti samanber meðf. frétt:

"Áhyggjur verði Vigdís ráðherra“ 

 Orðræðan er einum of kunnugleg.  Eineltið á að halda áfram.  Vigdís Hauksdóttir hefur barist einarðlega gegn umsókn og innlimun Íslands í ESB og flutt um það tillögur að draga beri þá umsókn til baka. Ég vona og treysti því að við það verði staðið og umsóknin afturkölluð tafarlaust og tekin upp samskipti við ESB á jafningja grundvelli  eins og við önnur ríki. Sambandssinnar hafa haft horn í síðu Vigdísar vegna þessa ekki síst á Alþingi.

 Gæti verið að þessi einarða afstaða Vigdísar ásamt mjög skeleggri baráttu á þingi í fleiri málum einkum þeim  sem lúta að velferð og réttindum fólks kalli fram m.a. ómálefnaleg viðbrögð andstæðinganna.

Ég treysti m.a. Vigdísi til að bogna ekki í ESB - málinu. Það geta  því miður hin ólíklegustu hné gert þvert á gefnar yfirlýsingar. Ég vona að sagan með þingflokk  og forystu VG  í ESB málinu endurtaki sig ekki hjá væntanlegum ríkisstjórnarflokkum. Til þess er nú of mikið í húfi.

Vigdís Hauksdóttir  hélt uppi baráttu fyrir sjónarmiðum sínum á Alþingi og fékk oft ágjöf og kaldar kveðjur frá forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna sem þoldu illa eindrægni hennar og hreinskilni. Þar á bæ vissu menn gjarnan upp á sig sökina og kveinkuðu sér undan.

Má segja að Vigdís hafi jafvel oft á tíðum veitt öðrum framsóknarmönnum  visst  skjól í umræðunni og hún á tvímælalaust sinn veigamikinn þátt í kosningasigri flokksins.

 

Glæsilegt hjá Eyþóri Inga

Ég á líf, Ég á líf - vegna þín  - fór áfram í úrslitin n.k. laugardag. Við öll erum mjög stolt.

Eyþór Ingi hefur afar fallega og mikla rödd og tæra tóna. Baksviðið gaf í senn hlýjan og sterkan bakgrunn fyrir bæði lag og texta.

Það yljaði okkur sem erum á "sauðskinnskónum" að heyra textann fluttan á íslensku. Það gerði allan flutninginn enn þá áhrifameiri, miklu frekar en að hnoða honum yfir  á ensku eins og var títt hér fyrir nokkrum árum.

Hlökkum til laugardagsins

 

 


Háir vextir eru hagstjórnarmistök Seðlabankans

 Seðlabankinn tilkynnti í gær áfram óbreytta háa stýrivexti, 7% á daglánum og 6% á almennum stýrivöxtum. Í löndunum í kringum okkur eru þeir komnir niður í 1-3 %. Og svo er eðlilega kallað eftir jafnræði í samkeppnisaðstöðu atvinnulífis og búsetu  milli landa hvað fjármagnskostnað varðar. Jafnframt telur Seðlabankinn að hagvöxtur verði minni en áætlað var eða milli 1- 2%.  Sumir kalla eftir erlendum fjárfestingum á þessum lágu útlendu vöxtum. Til hvers það þegar við höfum næga  íslenska peninga hér innanlands sem aðeins þurfa að komast í brúk.

Himinháar hagnaðartölur bankanna

Meðan útlánavextir eru í himinháir eru innlánsvextir eru hér jafnvel neikvæðir í 3-4% verðbólgu. Manni sundlar við að heyra í fréttum gríðarlegar hagnaðartölur bankanna sem þýðir að þeir bólgna út af íslenskum krónum.   Sem betur fer koma gjaldeyrishöftin í veg fyrir að hægt sé að flytja þessa peninga úr landi hömlulaust því til þess höfum við alls ekki gjaldeyri og munum ekki eiga á næstu árum.

Við eigum svo mikla möguleika ef rétt er á haldið

Það er hrópað á innlendar fjárfestingar til að örva atvinnulíf og framleiðslu og þar með nettó gjaldeyristekjur. Ferðaþjónustan,  sjávarútvegurinn, landbúnaðurinn, garðyrkjan, fiskeldið, matvælavinnslan  og nýsköpunin skortir fjármagn og það eru til krónur sem þarf að koma í notkun. Það sér hver heilvita maður að vinnulag og sjálftökuvald Seðlabankans í þessum efnum  gengur ekki. Kallað er eftir  og lofað niðurfellingu skulda hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Sum fyrirtæki hafa nú þegar  fengið miklar niðurfellingar önnur ekki. Síðan eiga þau  að keppa innbyrðis á þessum háu vöxtum. Sér nú hvert er  óréttlætið.   Fyrsta skrefið í þessum efnum ætti að vera það að lækka vextina og jafna aðstöðumuninn.

Beitum íslensku krónunni til eflingar atvinnulífs 

 Háir stýrivextir Seðlabankans og síðan bankakerfisins í heild  hafa  tafið uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífinu og þrengt með óeðlilegum hætti að skuldurum. Fyrsta skrefið ætti að vera að lækka stýrivextina umtalsvert t.d. niður í 2-3%  svipað eins og er í nágrannalöndunum. Við eigum að koma í notkun þeim peningum, íslenskum krónum sem hlaðast upp í bönkunum hér heima  til hagsbóta  fyrir almenning og eflingar atvinnulífs í landinu á okkar eigin forsendum . Seðlabankinn segist eiga að fara að stefna stjórnvalda. Látum hann gera það.


Ég á líf - Ég á líf - vegna þín

_g_a_lif-mynd_1201546.jpgFramlag Íslands til Euróvisionkeppninnar í ár er  Ég á líf  sem er óður til lífsins og ástarinnar.

Textinn er í senn einfaldur og afar fallegur. Skilaboðin eru skýr. Trúin á lífið og það getur þurft að klífa yfir fjöllin til að finna ástina sem gefur kraftinn og  nærir trúna. Við settumst  niður, við  Valdimar Kolka, dóttursonur, og Katrín Kolka, sonardóttir, og slógum inn í tölvuna þetta fallega ljóð. Valdimar fór einn daginn og söng það í skólanum. Ég set það hér inn á síðuna og hvet sem flesta til að taka undir með Eyþóri Inga.

 

Lagði ég af stað í það langa ferðalag

ég áfram gekk í villu eirðarlaus

Hugsaði ekki um neitt, ekki fram á næsta dag

Einveru og friðsemdina kaus

Ég á líf, ég á líf

yfir erfiðleika svíf

Ég á líf, ég á líf vegna þín

Þegar móti mér blæs

yfir fjöllin há ég klíf

Ég á líf, ég á líf, ég á líf

 

Ég skildi ekki ástina sem öllu hreyfir við

þorði ekki að faðma og vera til.

Fannst sem ætti ekki skilið að opna huga minn

Og hleypa bjartri ástinni þar inn.

Ég á líf , ég á líf

Yfir erfiðleika svíf

Ég á líf , ég á líf vegna þín.

Þegar móti mér blæs

Yfir fjöllin há ég klíf

Ég á líf, ég á líf vegna þín

Ég á líf, ég á líf.

 

Og ég trúi því

já ég trúi því

kannski opnast fagrar gáttir himins

Yfir flæðir fegursta ástin

hún umvefur mig alein

 

Ég á líf, ég á líf

yfir erfiðleika svíf

Ég á líf, ég á líf vegna þín

Þegar móti mér blæs

yfir fjöllin há ég klíf

Ég á líf, ég á líf vegna þín

Ég á líf, ég á líf, ég á líf

(Lag og texti: Örlygur Smári & Pétur Örn Guðmundsson. Flytjandi: Eyþór Ingi.)

 

Um leið og við óskum góðs gengis í Euróvisionkepnninni er gott að hafa með sér aukapar af sauðskinnsskóm yfir fjöllin.


Að standa við stóru orðin

  Af hálfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur því verið lýst yfir að hætta beri við umsókn Íslands að ESB. Það þýðir í raun að Alþingi feli ríkisstjórninni að afturkalla umsóknina. 

Ný umsókn verði því aðeins send að þjóðin hafi staðfest vilja sinn til aðildar að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt er alveg sjálfstætt mál.

Ýmsir þingmenn þessara flokka hafa tekið mjög djúpt í árinni og munu eiga mjög erfitt með að verja að annað verði gert. Það skiptir miklu máli, að myndi þessir flokkar næstu ríkisstjórn verði staðið strax við þessi fyrirheit.  Fjallað er um stöðu flokkanna í málinu á vef Heimsýnar í dag.

Þó nú eigi að heita hlé á samningum um nýja kafla þá er stjórnkerfið allt á fullu í framhaldi umsóknarinnar. Nýjasta dæmið eru fréttir frá ESB um kröfur þeirra á hendur  Íslendinga í fiskveiðimálum.

 Þar er ekkert gefið eftir enda ekki neins að vænta í þeim efnum. Lög ESB  munu gilda um þau mál sem önnur hér á landi göngum við í Bandalagið.

ESB umsóknin hefur tafið endurreisn og mótun framtíðarstefnu hér innanlands í atvinnumálum, efnahagsmálum, gjaldeyrismálum svo nokkuð sé nefnt.

Meðan á umsóknarferlinu stendur geta Íslendingar trauðla sett eigin lög eða reglugerðir sem ganga í berhögg við kröfur ESB.

Gjaldmiðilsumræðan ein sér og möguleg  upptaka evru hefur verið leidd eftir algjörum villuljósum og tafið markvissar aðgerðir í peningamálum.

Samningar um Makríl geta t.d.  ekki haldið áfram undir hótunum ESB.

Það var með þingsályktun frá Alþingi sem samþykkt var að sækja um aðild að ESB undir skilgreindum formerkjum sem tekin voru fram í greinargerð með tillögunni. 

  

Mitt mat er því að Alþingi þurfi nú í vor að samþykkja afturköllun þessarar umsóknar.

Það að láta hana liggja óafgreidda undir formerkjun stöðvunar eða hlés þýðir að afram er hún hangandi yfir, áfram verður unnið leynt og ljóst að framhaldi hennar og sú kvörn malar.

Ég þekki það hversu greinar bogna og  traustustu tré brotna í svona málum.

 ESB – kvörnin kanna að mala .      


Krónu- ríkisstjórn komin á koppinn ?

Það er gott að væntanlegir  forystumenn í nýrri ríkisstjórn skulu byrja sinn formlega hitting í "Krónunni" í morgun. Efnahagslíf  Íslendinga og trú á land á þjóð mun byggjast á íslensku krónunni og því verðgildi sem að baki henni stendur. Við munum nú sem fyrr þurfa að treysta á okkur sjálf þar á meðal okkar eigin mynt. Því fyrr sem flestir átta sig á því þeim mun betra fyrir framtíðina

 Það var hreint óþolandi að heyra fráfarandi forsætisráðherra frá fyrsta degi ríkisstjórnar stöðugt hallmæla íslensku krónunni og taka ætti upp ervu þá strax. Mér fannst hún nú reyndar aldrei skilja sjálf mjög mikið í því sem hún var að segja.  Allur vandi átti að leysast með umsókn og innlimun í ESB.  Heimiliskettirnir í kringum forsætisráðherrann í ríkisstjórn og hennar nánustu möluðu sama Evrukattasönginn og nudduðu sér utan í fótleggina og fengu strokur á bakið í staðinn. Og öll smákattahjörðin hvort heldur var innan samtaka atvinnurekenda eða ASÍ mjálmuðu sama sönginn. Sá svikasöngur sem sunginn var evrunni og gegn gjaldmiðli eigin þjóðar myndu einhverjir kalla að varði við drottinssvik. 

Evrusöngurinn verður nú vonandi endanlega kveðinn niður um leið og umsóknin að ESB verður afturkölluð og þjóðin beðin afsökunar á því að íslensk stjórnvöld skuli upp á eindæmi og gegn vilja hennar hafa lagt til að framselja fullveldið erlendu ríkjasambandi. Það er mikið á sig leggjandi til að ESB umsóknin verði afturkölluð refjalaust og þegar í stað og áróðursmiðstöð ESB hér á landi lokað. Það eru hátíðleg kosningaloforð sem hvorki Framsókn né Sjálfstæðisflokkur geta svikið.

Hins vegar verður maður hugsi yfir fréttaflutningi  síðustu daga af stjórnarmyndunarviðræðum. Alltaf er greint frá því sérstaklega  að formennirinr hittist aleinir til að ráða málum og ná saman. Mikið er lagt upp úr því að formennirnir nái vel saman. Þetta eintal formannanna  kann ekki góðri lukku að stýra því ein megin ástæða að baki hrunsins var í rannsóknarskýrslu Alþingis  talin  foringjadýrkun og taumlaust formannaræði. Slíkt formanna- og foringjaræði var einmitt einnig stór hluti af vanda fráfarandi ríkisstjórnar frá fyrsta degi og átti drjúgan þátt í því hvernig  fór fyrir henni.

 Vonandi er að þau mistök endurtaki sig ekki.  En foringjadýrkun nærir valdahégómann og getur byrgt jafnvel bestu mönnum sýn einkum hjá þeim sem eru veikir fyrir í þeim efnum eins og dæmin sanna.

 

 


Náttúruvernd 1. maí - af heilum hug?

Landvernd og fleiri umhverfissamtök hafa boðað til kröfugöngu fyrir náttúruvernd í dag.

Verndun umhverfisins og einstakra náttúruvætta er órjúfanlegur hluti af fullveldisbaráttu og sjálfstæði hverrar þjóðar. Fullt tilefni er til að veita stjórnvöldum og samtökum atvinnulífs aðhald í umhverfismálum. Að mínu mati væru kröfuspjöld fyrir verndun náttúrunnar eðlilegur hlutur í kröfugöngunni sjálfri, frekar en boðað sé til sérstakrar göngu ofan í kröfugöngu verkamanna á alþjóðlegum baráttudegi þeirra. Verkalýðsbarátta og umhverfisvernd eiga samleið.

 Saman fari orð og athafnir í náttúruvernd

Það er eins með náttúruvernd og önnur mál að saman þurfa að fara orð og athafnir, ekki hvað síst hjá þeim sem veljast til forystu og ábyrgðar í þjóðfélaginu. Úr starfi mínu sem ráðherra er mér minnistætt ferlið á rammaáætluninni í ríkisstjórn og á þingi. Eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra var að skipta um fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í verkefnistjórn um rammaáætlun og setja þekkta baráttumanneskju í náttúruvernd, Björg Evu Erlendsdóttur, sem fulltrúa minn. Sú skipan vakti mótmæli og mikinn óróa í ríkisstjórn - verið væri að „rugga bátnum“ í einu pólitískasta máli ríkisstjórnarinnar, eins og komist var að orði af hálfu talsmanns forsætisráðherra sem reyndi að stöðva skipan fulltrúa míns í verkefnisstjórnina á þeim tíma. Aðrir ráðherrar höfðu ekki til þess kjark eða vilja að fara í fótspor mín, þóttust þeir þó vera „miklir umhverfissinnar“.

 VG brást í náttúruverndarmálum

Ég var mjög hugsi yfir þeirri afstöðu og vinnubrögðum sem síðan komu í ljós hjá ríkisstjórn VG og Samfylkingar í vinnunni við rammááætlun. Við áttum þar gullin tækifæri. Ég lýsti vonbrigðum mínum með vinnu umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra að rammaáætlun og þá eftirgjöf sem gefin var frá grunnstefnu VG og reyndar beggja flokkanna. Í stað verndaráætlunar var lögð fram rammaáætlun um virkjanir. Ég lýsti vanþóknun minni á þeirri nálgun bæði innan ríkisstjórnar, þingflokks og á Alþingi. Fyrir mér voru umhverfismálin, verndun jökuláa og háhitasvæða og stöðvun stórvirkjana og orkufrekrar stóriðju mikið hjartans mál. Báðir stjórnarflokkarnir höfðu t.d. lýst yfir í þingsályktunatillögum og stefnuyfirlýsingum að friðun Jökulánna í Skagafirði, Skjálfandafljóts og háhitasvæða á miðhálendinu og Reykjanesi væri forgangsmál af hálfu þessara flokka. Allt annað var síðan upp á teningnum.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit kom Magma-málið, þar sem ég lét bóka andstöðu mína við gjörðir ríkisstjórnarinnar og eftirgjöf sem gekk þvert á yfirlýsta stefnu VG og ítrekaðar samþykktir.

Ég hafði mikla fyrirvara við rammaáætlunin eins og hún koma fram þar sem gert var ráð fyrir því m.a. að í stað verndar skyldu Jökulárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót sett í biðflokk fyrir virkjanir og Bjarnarflag í nýtingarflokk. Reykjanesskaginn var nánast allur settur í virkjanaflokk. Svo mætti áfram telja.

Bjarnarflag í nýtingarflokk og stóriðja á Bakka

Það urðu mér mikil vonbrigði þegar þingmenn VG, „umhverfisverndarflokksins“ sjálfs, felldu tillögu Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur sem ég studdi um að Bjarnarflag yrði tekið úr virkjanaflokki og sett í biðflokk.  Nokkru síðar samþykkti Alþingi og þar með taldir flestir þingmenn VG ríkisstyrkta stóriðju á Bakka við Húsavík þar sem gert var ráð fyrir orku úr virkjun í Bjarnarflagi eins og nýsamþykkt rammaáætlun gerði ráð fyrir. (Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=48088)

 Rammaáætlunin hafði verið svo lengi til meðferðar að fátt átti þar að koma þingmönnum á óvart. Hinsvegar gerðist það að þegar leið að kosningum og fram kom andstaða fleiri náttúruverndarsinna við virkjun í Bjarnarflagi, sem myndi enn frekar ógna lífríki Mývatns lögðu sömu þingmenn og ráðherrar á flótta frá atkvæðagreiðslu sinni á Alþingi. Hástemmdar auglýsingar um verndun Bjarnarflags hljómuðu í fjölmiðlum frá sama fólki og nokkrum mánuðum áður höfðu í tvígang samþykkt á Alþingi að virkja í Bjarnarflagi. Þessu er gerð góð skil í grein Atla Gíslasonar og Þorsteins Bergssonar, „VG fórnaði Mývatni“. (Sjá: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1463458/?item_num=1&searchid=9bdf387ba1b5ba0d171e0a31710c781bd61aa355)

Heiðarleiki í stað tvöfeldni

Tvöfeldni í málflutningi hef ég aldrei kunnað að meta. Náttúran þarf á einurð stuðningsmanna sinna að halda en ekki tækifærismennsku. Vafalaust munu einhverjir þeir sem felldu tillöguna um að setja Bjarnarflagsvirkjun í bið og samþykktu orkufreka stóriðju á Bakka taka kinnroðalaust þátt í göngu náttúruverndarsinna í dag. Þau munu jafnvel bera kröfuspjöld um verndun Bjarnarflags og Mývatns og jökulánna í Skagafirði. Það er eitt að þykjast standa með náttúrunni en bregðast henni svo þegar á reynir.

Þetta er alveg nákvæmlega sama „hundalógik“ og að þykjast vera á móti ESB-umsókn og -aðild en greiða samt atkvæði með innlimunarferlinu! Ég ber virðingu fyrir rökstuddum skoðunum annarra þótt ég sé þeim ósammála og það er líka hægt að skipta um skoðun og viðurkenna mistök sín en mikilvægt er að standa með sannfæringu sinni af heiðarleika, líka í náttúruverndarmálum.


Að loknum kosningum

jon_og_inga_1199575.jpg

Nú að loknum alþingiskosningum er mér efst í huga þakklæti til alls þess fjölda stuðningsfólks sem bæði hvatti mig og studdi og okkur frambjóðendur í kosningabaráttunni. Sérstaklega er ég þakklátur kjósendum mínum og samherjum í Norðvesturkjördæmi fyrir góða vinnu og dyggan stuðning.

Sjálfum fannst mér kosningabaráttan ákaflega gefandi og skemmtileg. Hvarvetna í kjördæminu sem ég fór fann ég mikinn hugmyndafræðilegan samhljóm með íbúum enda þekki ég aðstæður vel.

Fullveldismálin, afturköllun umsóknar að ESB, sjávarútvegsmálin og baráttan fyrir stöðu sjávarbyggðanna, landbúnaður, matvælavinnsla, ferðaþjónustan, samgöngumál kjördæm­isins, raunveruleg náttúruvernd og ekki síst heilbrigðisþjónustan á landsbyggðinni - öll þessi baráttumál sem við stöndum fyrir komu skýrt fram í kosningabaráttunni og höfðu sín áhrif.

 Svo sannarlega vildi ég hafa náð kosningu inn á Alþingi og geta beitt kröftum mínum þar. Ég mun áfram sem hingað til berjast með samherjum mínum í kjördæminu og fólkinu í landinu fyrir hugsjónum  okkar  og baráttumálum og leita þeim stuðnings þótt það verði á öðrum vettvangi en ræðustóli Alþingis

Bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, sigurvegarar kosninganna, lofuðu því að eitt fyrsta verk þeirra í ríkisstjórn yrði að afturkalla ESB-umsóknina og loka áróðurmiðstöð ESB hér á landi. Þessi skilyrði væru af þeirra hálfu óumsemjanleg.

Úrslit kosninganna undirstrikuðu mikilvægi þess að frambjóðendur og flokkar standi við grunnstefnumál sín og kosningaloforð þegar þeir komast í ríkisstjórn og hverjar afleiðingarnar verða ef það bregst. Traustið er þá týnt og verður ekki endurunnið með loforðum og auglýsngaherferð. Það verða ávalt verkin sem tala.

Ég óska stuðningsfólki mínu og landsmönnum öllum gleðilegs sumars. 

(Mynd: Jón Bjarnason og Ingibjörg Sólveig Kolka fyrir framan kjörstað á Blönduósi. Í baksýn Héraðshæli Húnvetninga.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband