Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 30. ágúst 2013
Er þessi frétt Færeyska útvarpsins í dag rétt?
"Íslendingar vilja ikki hava sild og makrel úr Føroyum"
"Jacob Vestergaard, landsstýrismaður, sigur, at føroyingar í fjør fingu eina ábending um, at føroysk skip skuldu ikki koma til Íslands
Ísland vil ikki hava føroysk skip til Íslands við makreli og sild, fyri at sleppa undan at skula taka støðu til boykott móti Føroyum. Men føroyska Fiskimálaráðið hevur ikki noktað føroyskum skipum at landa í Íslandi.
Jacob Vestergaard, landsstýrismaður, sigur, at føroyingar í fjør fingu eina ábending, ella eitt hint fyri at brúka hansara egna orð. Sambært hesum er Grønland einasta Norðurlandið, sum ikki noktar føroyskum skipum at koma við makreli og sild." Høgni Djurhuus Johnsigurd Johannesen
Við eigum að standa þétt með Færeyingum í deilunni við ESB.
Refsiaðgerðir ESB gangvart Færeyingum sem eiga allt sitt undir fiskveiðum eru forkastanlegar og siðlausar. Þótt við séum ekki á eitt sáttir við síldveiðar Færeyinga réttlætir það engan vegin að við sitjum hjá þegar stórveldi í krafti stærðar og yfirgangs túlkar og tekur lögin einhliða í sínar hendur. ESB er með aðgerðum sínum gegn Færeyingum ( og næst Íslandi) að grafa undan Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. En hann kveður m.a. á um réttindi og skyldur strandþjóða til veiða í sinni lögsögsögu svo og hvernig leysa á úr ágreiningu um veiðar úr sameiginlegum stofnum.
Ég sem ráðherra hafði ávalt mjög náið samband við sjávarútvegsráðherra Færeyinga.
Aðgerðir ESB gegn Færeyingum eru af svipuðum toga og hryðjuverkalög Breta gegn Íslendingum. Í kraftir stærðar er ofríki beitt gegn smáþjóð. Hótanir ESB gegn Íslendingum liggja á borðinu
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.8.2013 kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. ágúst 2013
Dönum til ævarandi skammar
Ef Danir loka höfnum sínum fyrir færeyskum fiskiskipum í dag að kröfu ESB verður það þeim til ævarandi skammar. Færeyjar eru ríkjasambandi við Dani, eru danskir ríkisborgarar og eiga sína fulltrúa á þjóðþingi Dana:
"Að sjálfsögðu verðum við að fylgja lögum og reglum (ESB) en það er mikilvægt að við getum sagt Færeyingum að við erum andvíg þessum aðgerðum",segir Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra Dana en fundur ríkjasambandsins; Dana, Færeyinga og Grænlendinga stendur nú yfir.
Í dag eiga að koma til framkvæmda einhliða refsiaðgerðir ESB gegn Færeyingum vegna síldveiða og makílveiða þeirra, m.a lokun hafna og viðskipta fyrir færeyskum fiskiskipum. ESB hefur sagt 48 þúsund manna eyþjóð sem á allt sitt undir fiskveiðum stríð á hendur. Fiskafurðir eru yfir 95% af útflutningstekjum Færeyinga:
Hryðjuverkalög, hótanir og ólöglegar refsiaðgerðir
Mál sem þessi á að leysa við samningaborðið en ekki með hótunum og viðskiptaþvingunum í krafti stærðarmunar.
Er ESB einhver alþjóða lögga gagnvart smáþjóðum?
ESB er aðeins með 6% af síldarkvótanum, myndu þeir haga sér eins ef þeir væru aðeins með 1%? Er einhver munur þar á? Hvers vegna taka þau ekki fyrst eigin lönd sem sannanlega eru sek um ofveiði fiskistofna.
Færeyjar stóðu með Íslendingum þegar "evrópsku heimsveldin" settu hryðjuverkalög á Íslendinga. Enginn annar þorði. Nú er það okkar að taka slaginn með Færeyingum. ESB hefur engan rétt á að leika löggu í krafti stærðar og yfirgangs gagnvart smáþjóðum og lífsafkomu þeirra.
.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. ágúst 2013
Davíð og Golíat - Færeyjar og ESB
Á morgun 28.ágúst, koma til framkvæmda refsiaðgerðir ESB gagnvart Færeyingum. Færeyingar, þessi harðduglega 48 þús. manna eyþjóð á nánast allt sitt undir sjávarútvegi sem gefur þeim yfir 90% af útflutningstekjum.
ESB ríkin 28 eru samtals með aðeins með um 6% af heildarkvóta í síld. Í efnahagslegu tilliti skiptir síld þá sáralitlu máli. Risinn ESB telur sig þess umkomna að beita ólöglegum viðskiftaþvingunum, löndunarbanni og refsiaðgerður gagnvart einu af minnstu ríkjum heims vegna síldveiða innan sinnar eigin lögsögu. Færeyingar hafa fært rök fyrir sínum aðgerðum en einnig lýst sig reiðubúna og beinlínis óskað eftir að fara yfir þau við samningaborðið þar sem á að bera upp svona mál og leysa .
Hryðjuverkalög og viðskiptaþvinganir
Það er aumingjalegt og sýnir innræti gömlu nýlenduveldanna í ESB að taka "lögin" í sínar hendur, brjóta alþjóðasamninga og sperra stélið til þess að sýna umheiminum mátt sinn og ráðast á lítið eyríki í Atlantshafi. Að vísu er þetta í takt við það þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum á Íslendinga með samþykki yfirstjórnar ESB. Þar var um að ræða ofbeldisaðgerð stórþjóðar gegn smáþjóð á viðskiptasviði. Jafnframt er ástæða til að benda á að ofbeldi í viðskiptum sem byggir á mismun á afli vegna stærðar kemur næst á eftir beitingu vopnavalds þar sem sá stærri kúgar þann minni.
Aumingjaháttur Dana
Aumingjaháttur Dana er að sitja í bandalagi með þjóðum sem brjóta alþjóðasamþykktir og láta yfir sig ganga að beita ofsóknum gegn dönskum ríkisborgurum sem Færeyingar eru. Framganga ESB gagnvart Færeyingum og hótanir í garð okkar Íslendinga ættu ein sér að færa okkur heim sanninn um að við eigum ekkert að gera í þetta samband. Meðan ég var sjávarútvegsráðhera átti ég mjög gott samstarf við færeyska sjávarútvegsráðherrann og veit að hann er hógvær en fylginn sér. ESB þykist aftur á móti geta deilt og drottnað í þessum efnum sem öðrum í skjóli afls og stærðarmunar..ESB tók sér einhliða síldarkvóta 1996, 150 þús. tonn í deilu við Íslendinga, Norðmenn og Færeyinga. Þá báðu Danir Færeyinga að sýna sér miskunn og fengu að landa síld í Færeyjum.
Styðjum Færeyinga í verki!
Færeyingar hafa í gegnum árin sýnt og sannað að þeir kunna að stíga ölduna þótt hátt rísi og kæmi engum á óvart þó Golíatinn, ESB- verði sjóveikur og missi jafnvægið í þeim dansi við Færeyinga.Íslendingar eiga að taka afdráttarlausa afstöðu og vinna með Færeyingum gegn yfirgangi ESB. Færeyingar tóku af skarið og veittu Íslendingum lið og beinan stuðning þegar hryðjuverkalögin voru sett á Íslendinga. Norðurlandaþjóðirnar dönsuðu þá með öðrum ESB ríkjum.
Yfirlýsing íslenskra stjórnvalda um stuðning við Færeyinga var góð svo langt sem hún náði, en henni þarf að fylgja hraustlega eftir í verki. Þar fara saman hagsmunir og hugsjónir okkar og Færeyinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. ágúst 2013
Íslendingar sýna á ný tennurnar í makríldeilunni.
Þegar ég stóð á bryggjunni á Hólmavík og sá tugi smábáta í biðröð eftir að landa makríl sem veiddur var upp við landssteina, fann ég vel hversu mikilvægt það var að hafa boðið ESB birginn þegar ég ákvað hlutdeildarmagn Íslendinga í makrílveiðum. Fulltrúi ESB kallaður á teppið
M.a. á grundvelli upplýsinga um útbreiðslu makríls í íslenskri lögsögu svo og áætlaðs fæðunáms hans hér ákvað ég sem ráðherra liðlega 16% hlutdeild okkar af heildarveiði strandríkjanna í makríl. Síðustu mælingar benda til að makrílstofninn fari enn stækkandi. Makrílveiðarnar síðustu 5 ár hafa gefið tugi milljarða á ári í gjaldeyristekjur og átt sinn hlut í að rétta efnahag landsins eftir hrun.
Vissulega óttaðist ég að eftirmenn mínir á stól sjávarútvegsráðherra myndu bogna í hnjánum gagnvart ESB og bjóða sig niður fyrir 16% mörkin er ég setti, sem og raunin varð. Aðildarumsókn að ESB gekk jú fyrir öllu hjá mörgum fyrrum félögum mínum í ríkisstjórn eins og allir vita.Ég treysti á og hvet núverandi sjávarútvegsráðherra til að standa á rétti okkar í makríl. Góðs viti eru fréttir í dag þess eðlis að utanríkisráðherra hafi látið kalla fulltrúa ESB í utanríkisráðuneytið þar sem þeim var lesinn pistillinn vegna glórulausra hótanna í garð Íslendinga og mótmælt harkalegum yfirgangi ESB gagnvart Færeyingum. Það var svo sannarlega tími til kominn að láta í sér heyra. Fulltrúi ESB kallaður á teppið
Stuðningsyfirlýsing sjávarútvegsráðherra við Færeyinga í slagnum við ESB var einnig meir en tímabær, en hefði mátt vera ákveðnari: Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands vegna hótana Evrópusambandsins í garð Færeyinga og Íslendinga.
Hollt er að minnast þess,að ofríki ESB gagnvart makrílveiðum Norðmanna á sínum tíma átti stóran þátt í að Norðmenn höfnuðu aðildað ESB.
Það var mér hinsvegar fyrirsjáanlegt að ákvörðunin um makrílveiðarnar og hversu fast var staðið á rétti okkar þar myndi setja ESB umsóknina í algjört uppnám sem og varð. Réttur okkar til veiðanna innan eigin lögsögu er ótvíræður. ESB ætti að líta í eiginn barm og hirta sín eigin lönd t.d. fyrir ofveiði og brottkast. Það hafa þau sjálfssagt vald til.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 17. ágúst 2013
Dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal 250 ára
Fyrsta steinkirkja landsins
Hóladómkirkja, er lifandi minnisvarði um fornan glæsileik og veldi Hóla í Hjaltadal. Núverandi kirkja er ein sú hin minnsta er staðið hefur á Hólum frá stofnun biskupsstóls árið 1106. Hinar fyrri kirkjur voru hátimbraðar byggingar er annað hvort fuku eða brunnu. Sú kirkja sem nú stendur er aftur á móti fyrsta steinkirkja landsins og líklega eina byggingin hérlendis sem var reist í þegnskyldvinnu. Þótti víst mörgum betra að þéna að Brimarhólmi en standa í steinhöggi í Hólatúni . Byggingasaga kirkjunnar er í raun stórmerkileg og verður gerð nákvæm skil á Hólahátíð. Hin rauða steinkirkja hefur staðið af sér endurtekin harðindi, hörmungar og niðurlægingu er riðu yfir Norðurland og Ísland allt. Hún stendur sem skjólshús yfir dýrmæta helgigripi allt frá kaþólskri tíð og minna á stórbrotna menningu á Hólastað. Þeir munir eru þó aðeins brot af því staðurinn eitt sinn átti, en kirkjan var rænd af dönskum hermönnum eftir aftöku Jóns Arasonar 1550. Þegar litið er yfir sögu Hólakirkju virðist þó sem hagræðing, skammsýni og aurasálgæsla hafi verið hættulegasti óvinur Hólastaðar fremur en harðindi og skepnufellar.
Lok biskupsstóls á Hólum 1801.
Hannes Pétursson lýsir atburðarrásinni í bók sinni Rauða myrkur: Þá höfðu lengi gnúð á harðindi með hungurdauða og pestum ; að norðan komu ísar og bruni, aska og eldur að sunnan. Svarf þetta allt svo nærri jarðeignum og landsetum stólsins að tekjur hans urðu valtar og stundum mjög rýrar. Setrið á Hólum sem átti sér þrjár miklar rætur eins og hið aldna tré norrænnar goðsögu , lafði nú uppi og mornaði og þornaði, uns konungur vor sá að baðmurinn var merktur dauðanum. Þá lét hann gera tvö bréf , hið fyrra 14. júní 1799 og dæmdi þar prentverkið af norðlendingum, bráðum 300 ára gamalt og hið síðara 2. október 1801, er afnam biskupsdóm og latínu skóla á Hólum. Ári síðar voru allar stólsjarðir í Skagafjarðarsýslu,um 200 talsins með hjáleigum seldar á uppboðsþingum. Sömu leið fór jarðargóss stólsins í öðrum sýslum stiftisins;
Hóladómkirkja sjálf átti sér eftir sölu jarðarinnar 1802 engin réttindi, hún gleymdist á uppboðsþingum. Stefán Þórarinsson amtmaður á Möðruvöllum sem þá keypti Hóla átti hana ekki né heldur söfnuðurinn. Kirkjan stóð í Hólagarði öllum réttindum og hlunnindum rúin, eigendalaus, eignalaus og fjárhaldsmannslaus.
Jarðarmatsnefnd konungs mat máliðs svo: Þyrfti Hólakirkja sérlega mikillar aðgjörðar við, þá skyldi brjóta hana niður með því að hún lægi illa og væri of stór handa svo lítilli sókn og reisa aðra kirkju mátulega á Kálfsstöðum.
Hólar í einkaeign
Þessi umsögn mun hafa leitt til þess að konungur hafi af ráðnum hug ekki viljað leggja það á nokkurn, hvorki söfnuð né jarðareiganda að bera eignarábyrgð á kirkjunni. Kirkjan á Hólum átti sig sjálf.Nýir eigendur á Hólum létu vera sitt fyrsta verk að rífa mörg hús staðarins og selja timbrið, og þar á meðal hina 500 ára gömlu Auðunnarstofu. Hefðu þeir án efa rifið kirkjuna einnig ef hún hefði verið úr timbri og í þeirra eigu. Gekk svo til ársins 1824 er Benedikt Vigfússon frá Garði í Kelduhverfi kaupir Hóla. Hann var kvæntur Þorbjörgu Jónsdóttur Konráðssonar frá Mælifelli. Bæði vel auðug. Hér tók sá við Hólum sem reisti staðinn úr rústum og húsaði allan upp að nýju. Hann varð skjótt einn af auðugustu mönnum landsins. Dómkirkjan á Hólum naut atorku Benedikts sem endurbætti hana og lagfærði sem sína eign, en hún var þá mjög að fótum komin, án viðhalds í hartnær hálfa öld. Með Bendikt Vigfússyni er þögguð niður umræðan um að rífa Hólakirkju. En Bendikt vissi sem var að hann var ekki eilífur og framtíð dómkirkjunnar var ekki frekar örugg eftir hans dag en var þegar hann kom heim að Hólum.
Vörn Hólakirkju- Bænarskrá Benedikts
Árið 1862 sendi Benedikt bænarskrá til Alþingis um fjárframlag til Hólakirkju. Bendir hann á að Hóladómkirkja sé einskonar sjálfseignarstofnun en séreignir hennar hafi verið seldar undan henni án endurgjalds. Vill hann að Alþingi og kóngurinn greiði henni bætur og tryggi rekstur kirkjunnar og viðhald um ókomin ár.Málið fékk mikla umræðu á Alþingi. Milliþinganefnd undir forystu Arnljóts Ólafssonar skilaði áliti er þing kom saman árið 1865.Tekur nefndin undir óskir Bendikts og leggur til að veitt verði fé til kirkjunnar og staða hennar tryggð til framtíðar. En hvorki Alþingi né kirkjuyfirvöld voru reiðubúin að taka á sig eigendaábyrgð kirkjunnar né heldur töldu sér það heimilt án undangengins dóms. Höfða þyrfti dómsmál til að fá úr því skorið hver ætti Hóladómkirkju. Þar til yrði að líta svo á að kirkjan ætti sig sjálf en eigandi Hóla hlyti að bera ábyrgð á henni. Benedikt hefði sýnt það að hann hefði vel efni á að standa undir rekstri hennar og viðhaldi og væri eðlilegast að svo yrði áfram. Benedikt deyr 1868.
Hólar í höndum Norðlendinga
Það varð Hólakirkju til bjargar að Skagafjarðarsýsla kaupir Hóla 1881 og stofna þar öflugan Búnaðarskóla, nýjan Hólaskóla . Norðlendingar sameinuðust síðan um rekstur hans. Aftur eru Hólar komnir í þjóðbraut. Þeir öxluðu einnig ábyrgð á dómkirkjunni. Viðhald kirkjunnar var órjúfanlegur þáttur í rekstri skóla og staðar. Hélst svo einnig eftir að Hólar urðu eign ríkisins. Sérstaða Hóladómkirkju að eiga sig sjálf hefur verið virt. Reksturinn og viðhald er á ábyrgð ríkisins en falin í hendur sérstakrar Hólanefndar: vígslubiskups, rektors Hólaskóla, prófasts Skagfirðinga og formanns sóknarnefndar. Þegar turninn var reistur við hlið dómkirkjunnar árið 1950 á 400 ára ártíð Jóns Arasonar og sona hans var einmitt áréttað með gjafabréfi að klukkuturninn væri gefinn Hóladómkirkju.Sama var svo einnig þegar Auðunnarstofa hin nýja var byggð. Þá afhenti bygginganefnd Stofunnar Hóladómkirkju húsið til eignar og varðveislu. Var það gert meðvitað því eignarleg staða Hóladómkirkju er sú að hún á sig sjálf. Sú staða bjargaði kirkjunni frá niðurrifi í gegnum mörg erfið ár og fer best á því að sú verði staða hennar áfram.
Endurreisn Hóla 1981
Það hafa ávallt skipst á skin og skúrir í sögu Hóla. Um 1980 var svo komið að formlegt skólahald hafði lagst af og framtíðin óviss. Háværar raddir, líkt og 200 árum áður töldu að leggja bæri staðinn niður. Þá risu Norðlendingar aftur stað sínum til varnar en svo vildi til að í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sátu atkvæðamiklir norðlenskir ráðherrar eins og Pálmi Jónsson á Akri landbúnaðarráðherra og Ragnar Arnalds fjármálaráðherra. Ég hygg að það ásamt öflugum einstaklingum heimafyrir hafi ráðið úrslitum um að sú ríkisstjórn tók þá ákvörðun árið 1980 að endurreisa Hóla. Það var þá sem var kallaður heim til Hóla og átti því láni að fagna að stýra þeirri endurreisn ásamt mörgu öðru góðu fólki. Mér er mjög minnisstæð sú orðræða sem ég mætti á þeim tíma, að hin gömlu og veglegu skólahús staðarins væri svo úr sér gengin að óvíst væri hvort borgaði sig að gera þau upp. Ég vildi að skólahúsið yrði gert upp og það varð. Staðurinn hefur nú verið húsaður upp að nýju, skólahúsið stendur tignarlegt og engum dettur nú í hug að láta það grotna niður, sem þó lá fyrir um 1980.
Hóladómkirkja- biskupssetur - skóli
Forvígismenn Hólaskóla og Hólastaður litu á ávallt hann sem eina heild með skóla, kirkju vísindi og menningu. Því hlutu endurbætur á Hóladómkirkju að verða liður í átakinu svo og flutningur vígslubiskupsembættisins heim að Hólum. Þetta hefur nú hvorutveggja gengið eftir. Þar með hafa verið endurreistar þær stoðir, ræturnar sem Hólar hvíldu á um aldir, en voru höggnar af með konungsbréfunum 1798 og 1802. Hólar í Hjaltadal eru í dag eitt öflugusta menntasetur á landsbyggðinniNú er við fögnum 250 ára afmælis Hóladómkirkju tek ég undir orð vinar míns Gunnars Eyjólfssonar leikara, sem vann hug og hjörtu Skagfirðinga er hann lék Jón Arason biskup heima á Hólum þjóðhátíðarárið 1974: Ég skal segja þér það Jón, þegar ég kem hér að aðalhliðinu heim að Hólum grípur mig sterk tilfinning:
Drag skó þína af fótum þér því staðurinn sem þú stendur á er heilög jörð.
Velkomin heim að Hólum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 6. júlí 2013
Brotinn betlistafur Jóhönnu og Steingríms til Brussel
Skipaður hefur verið hagræðingarhópur undir forystu Ásmundar Einars Daðasonar alþm. og í honum sitja auk hans, Vigdís Hauksdóttir alþm., Unnur Brá Konráðsdóttir alþm.og Guðlaugur Þór Þórðarson alþm.,
Hagræðingahópur á gjörbreyttum forsendum?
Í erindisbréfinu segir að hópurinn skuli fara yfir stóra útgjaldaliði ríkisins s.s. fjölda stöðugilda, skipulag, rekstur, innkaup og skoða hvort gera megi kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar framleiðni og betri nýtingar fjármuna. mbl.: Aðgerðir til hagræðinga hjá stofnunum"
Mér líst vel á það fólk sem hefur verið skipað í þennan hagræðingarhóp. Verður sá hópur vonandi gott mótvægi við hagræðingarhóp fyrrverandi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms sem lagði fram tillögur sínar í vor og fengu viðurnefnið: Samráð gegn landsbyggðinni? hjá Stefáni Ólafssyni prófessor og álitsgjafa Eyjunnar, og kallar Stefán ekki allt ömmu sína í þeim efnum.
Með trúna á Ísland
Ásmundur Einar, Unnur Brá og Vigdís Hauksdóttir hafa öll staðið í eldlínunni gegn umsókn og aðild að ESB og munu vonandi leggja aðrar áherslur og forgansgsröðun í ráðstöfun opinbers fjár og vinnu en fyrri ríkisstjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartar Framtíðar gerði, sem var með aðlögun og innlimun í ESB sem sitt aðalmál. Fjármunir og vinna ráðuneyta, stofnana og stjórnsýslu sem bundin hafa verið í ESB umsókninni geta þá farið í eitthvað þarflegra þegar umsókninni hefur verið ýtt út af borðinu
- Enda hefja ESB- sambandssinnar nú upp harmakvein sín á bloggsíðum, fésbókum og á fjölmiðlum sínum- yfir þessari skipan.
Ég hef þá trú þar til á reynir að þetta fólk sem þarna velst gangi upprétt, trúi á eigið land og þjóð og sé landsbyggðarsinnað, hafi félagsleg velferðargildi í forgrunni og hagsmuni hins almenna Íslendings, óháð búsetu eða þjóðfélagsstöðu að leiðarljósi.
Ég nefni hér atvinnuvegi landsbyggðarinnar: sjávarútveg, landbúnaða, matvælavinnslu og menningu og náttúrutengda ferðaþjónustu. Þar liggja ekki hvað síst sóknarfæri Íslendinga næstu árin í öflun útflutningstekna.
Jöfnun búsetuskilyrða- bætt kjör láglaunafólks
Ég hef þá trú að þessi hópur geti forgangsraðað fyrir jöfnun á skilyrðum fólks til búsetu og atvinnulífs óháð því hvar það býr á landinu. Ég nefni menntastofnanir á landsbyggðinni, heilbrigðismál og löggæslu. En þessi opinbera grunnþjónusta var skorin miskunnarlaust niður og þá sérstaklega á landsbyggðinni af fyrri ríkisstjórn.
Ég mótmælti þessum landsbyggðarfjandsamlegu áherslum fyrri ríkisstjórnar meðan ég átti þar sæti og gat ekki stutt fjárlög t.d. þar sem Rarik og Orkubú Vestfjarða voru krafin um hundruð milljóna arðgreiðslna til ríkisins meðan stór hluti notenda þessara almenningsveitna um sveitir og kauptún landsins bjuggu við mun hærra raforkuverð en aðrir íbúar, lélegt og úrsérgengið dreifikerfi. Nær væri að mínu mati að leggja fé til styrkingar innviða þessarar þjónustu á landsbyggðinni. Átti þetta þó þá að heita félagshyggjustjórn
Rétt forgangsröðun- afturköllun ESB-umsóknar- og tækifærin kalla
Það verður bæði fróðlegt og forvitnilegt að fylgjast með vinnu, forgangsröðun og tillögum þessa hóps ESB andstæðinga eftir að ESB umsókn Samfylkingar og VG hefur verið drepin og afturkölluð. Þá verður hægt að snúa sér af alvöru að viðfangsefnum þjóðarinnar á rausnsönnum grunni með okkar eigin hagsmuni, fullveldi og velferð að leiðarljósi. Hagræðingahópurinn fær sín tækifæri á nýjum og breyttum forsendum.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 10. júní 2013
Forsetinn minnir á fullveldið og efna kosningaloforð
Forseti Íslands tók afdráttarlaust af skarið af sinni hálfu við setningu Alþingis að hætta beri aðildar og innlimunaferlinu að ESB og afturkalla umsóknina. Umsókn og aðild að ESB snýst um fullveldisframsal og því hæsta máta eðlilegt að forsetinn tjái hug sinn gagnvart þingi og þjóð. Það gerði hann reyndar líka rækilega fyrir síðustu forsetakosningar enda má segja að slagurinn milli tveggja aðalkeppinautanna hafi snúist um forseta með eða móti ESB aðild. Flokkarnir tveir sem nú mynda ríkisstjórn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur höfðu báðir lýst því afdráttarlaust yfir að þeir myndu hætta umsókninni og fella niður allt það sem henni tilheyrði.
Skilaboðin frá þjóðinni skýr
Hinn meginn armur pólitíska litrófsins, Samfylking, VG og Björt framtíð sögðust allir vilja halda áfram umsóknar-og innlimunarferlinu að ESB ef þeir kæmust áfram til valda. Kannski var þetta einmitt ein ástæðan fyrir ákvörðun forsetans um hverjum skyldi falin stjórnarmyndun og þá hafi verið rætt eftir hvaða megin línum ný ríkisstjórn ynni í þessu stóra máli.Ég met það svo að í setningaræðu sinni hafi forsetinn verið að gera þjóðinni kunnugt að hann teldi afturköllun ESB umsóknarinnar eitt mikilvægasta málið til að ná sáttum innan þjóðarinnar og jafnframt var hann að segja núverandi stjórnarandstöðuflokkum að vegna ESB afstöðu sinnar hafi þeir ekki að hans mati komið til greina við ríkisstjórnarmyndun. Forsetinn gat líka verið árétta samtöl og loforð núverandi ríkisstjórnarflokka um að standa undanbragðalaust við það sem heitið var fyrir kosningar. Það væri hluti af því að endurvinna traust milli þings og þjóðar.
ESB -Sambandssinnar fara á taugum
Auðvitað fara ESB- sambandssinnar á taugum yfir þessari innblöndun forsetans en ég er sammála Sigmundi Davíð að í fullveldis máli eins og ESB umsókn hefur forsetinn fullan rétt til að tjá skoðun sína enda var hann kosinn út á hana sem forseti
Hvað hefði gerst í ESB málum ef Samfylkingin, Björt framtíð og VG hefðu fengið meirihluta og myndað ríkisstjórn?
Ríkisstjórn yrði að skrifa upp á ESB- samninginnJú þá væri Ísland nú á fullu í áframhaldandi innlimunarferli að ESB. Blekkingarleiknum um að kíkja í pakkann ljúka samningum og kjósa svo væri haldið fram sem yfirskini. Innlimunarferlið sem sumir kalla samninga eru á forsendum ESB þeir ráð hraðanum.
Samningum af hálfu ESB verður aðeins lokið við íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn sem vill ganga í ESB. Ríkisstjórnin verður að skrifa upp á samninginn fyrir sitt leyti og mæla með samþykkt hans. Það er hluti af því að ljúka samningnum. Þetta hefur verið ljóst frá byrjun.
Forsetinn og fullveldið
Ég var ekki hrifinn af útrásardekri forsetans á sínum tíma. En framlag hans síðustu misseri í einörðum málflutningi fyrir fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga hefur skipt miklu máli. Ég tek undir með forseta Íslands um að umsóknina að ESB á að afturkalla strax og refjalaust.
Rétt er að minna á í hverju vinnan við aðildarumsókn að ESB er fólgin:
. Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið. [1] First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable. (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 7. júní 2013
Birgir Ármannsson nýr formaður Utanríkismálanefndar
Sannarlega erum við, andstæðingar inngöngu í ESB öruggari að hafa Birgi Ármannsson sem formann utanríkismálanefndar en Árna Þór Sigurðsson, þegar kemur að ESB málum. Ég hef reynt Birgi að því að vera heiðarlegur og traustur í þeim málum og einlægan stuðningsmann þess að innlimunarferlinu í ESB verði hætt og umsóknin kölluð til baka. Engin hálfvelgja þar gengur, enda er betra að vinna í samskiptum við önnur ríki á hreinu borði. Fyrirfram þá treysti ég Birgi Ármannssyni vel sem formanni utanríkismálanefndar. En hjá honum eins og öðrum verða það verkin sem tala.
Sammála forseta Íslands við þingsetninguna
Ummæli forseta Íslands við þingsetningu í gær um heilindin að baki umsóknar Íslands að ESB hafa vakið umræðu. En forsetinn er sömu skoðunar og ég að mikilvægt sé að draga umsóknina með afdráttarlausum hætti strax til baka ekki síst til að koma heiðarlega fram gagnvart ESB ríkjunum. Við erum ekkert á leiðina inn í ESB- sem betur fer. Sambandssinnar hafa beðið ósigur sem á að fylgja eftir svo trúverðugt sé.
Umsóknin að ESB byggð á blekkingum
Ég sem ráðherra hitti fjölmarga forystumenn ESB ríkja sem voru forviða yfir því að umsókn um aðild skyldi vera send án þess að hún nyti óskoraðs stuðnings allrar ríkisstjórnar. Annar ríkisstjórnarflokkurinn þættist vera á móti aðild og ætlaði aðeins að blekkja sjálfan sig og aðra með því að kíkja í pakkann. Ekkert slíkt er til í orðasafni ESB. Þeir forsvarsmenn sem ég hitti hjá ESB voru ekki hrifnir af því að taka þátt slíku bjölluati og mér fannst eðlilegt að þeir litu á slíka framkomu sem óheiðarlega. Margir höfðu ekki hugmynd um hinar veiku pólitísku stoðir umsóknarinnar á Íslandi.
Sigur ESB - andstæðinga
Á móti voru þeirra fullvissaðir um að þetta væri bara einn ráðherra sem væri til vandræða og eins og ýjað var að í framvinduskýrslu um aðildarvinnu að ESB. Þar var jafnframt fullyrt að aðild að ESB nyti æ meiri stuðnings meðal almennings á Íslandi, þó svo raunin væri allt önnur. Og þegar mér var skipt út sem ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðarmála vegna andstöðu minnar við innlimunarferlið og nýr tók við, var því fagnað sérstaklega í Brussel. Með þeim ráðherraskiptum var þess vænst í Brussel að umsóknin væri nú komin á beinu brautina. Sem betur fer hafði áður tekist að setja þau skilyrði bæði í landbúnaði, sjávarútvegi og dýraheilbrigðismálum meðan ég var ráðherra, sem ekki var svo auðgert að ganga fram hjá þó reynt væri.
Makrílveiðarnar skiptu sköpum
Réttmæt ákvörðun um makrílveiðarnar var afar þýðingarmikil bæði fyrir þjóðarhag og einnig til að standa á strandríkjarétti Íslendinga. Mér finnst gott að nýr ráðherra sjávarútvegsmála er sömu skoðunar og ég, að ógerlegt sé að semja sem fullvalda ríki um hlutdeild okkar í makríl við ESB samtímis því að vera í aðildarviðræðum og innlimunarferli í ESB. Það gengur einfaldlega ekki upp. Auk þess hljóta Norðmenn að vera tregir í makrílviðræðum við þær aðstæður þar sem hlutdeild Íslendinga rynni beint inn í heildarkvóta ESB við inngöngu Íslands í sambandið.
ESB- umsóknin verði afturkölluð undanbragðalaust
Það er afar mikilvægt að afturköllun umsóknarinnar að ESB verði gerð með afdráttarlausum hætti og vinna við aðlögun og innlimun Íslands í ESB verði lögð af. Þessu hafa núverandi ríkisstjórnarflokkar lofað og verða að standa við strax.
Ekki má setja traust sitt á eitthvert "svikalogn" í þeim efnum sem sambandssinnar reyna nú að læða inn í umræðuna.
Það var Alþingi sem samþykkti að senda umsóknina og það er Alþingi sem verður að afturkalla hana.Þjóðaratkvæðagreiðsla sem er um að óska eftir inngöngu í ESB er svo sjálfstætt mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 1. júní 2013
Úr sögu "vinstri" stjórnar
ESB - lík í farteskinu
ESB -umsóknin var fullkomið lík í farteski ríkisstjórnarinnar frá fyrsta degi. Fyrst og fremst var ESB umsókn ekki kosningamál vorið 2009 og alls ekki það sem lá brýnast fyrir gagnvart kjósendum eftir hrun . Að gera ESB umsókn að meginmáli ríkisstjórnarinnar var fráleitt, ekki síst þegar ljóst var í upphafi að umsóknin naut ekki meirihlutastuðnings ríkisstjórnarflokkanna. Henni var hnoðað í gegnum þingið sem einskonar þingmannamáli, þó flutt af utanríkisráðherra. ESB- sinnarnir treystu á stuðning þingmanna úr öðrum flokkum. Þá lýstu allmargir þingmenn yfir andstöðu sinni við aðild þótt þeir styddu tillöguna. Sá tvískinnungur lýsti þeim veruleika að viðkomandi þingmenn gerðu sér ekki grein fyrir hvers eðlis umsókn er. Hún er ekki könnunarviðræður heldur umsókn um inngöngu . Sumir halda enn í þennan blekkingaleik sér til friðþægingar. Aðrir þingmenn lýstu því yfir að innan tveggja ára ætti að taka stöðuna og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort menn vildu ganga í ESB eða ekki. Ekkert af þessu hefur gengið eftir.
Í nóvember 2011 var ljóst að ESB myndi ekki samþykkja áframhaldandi samnings- og innlimunarferli nema að Íslensk stjórnvöld gæfu út skuldbindandi yfirlýsingu um nánast fullkomna eftirgjöf í landbúnaðarmálum, dýraheilbrigðismálum og sjávarútvegsmálum. Gefin væri út tímasett áætlun um aðlögun og upptöku laga og reglna ESB sem yrði að vera lokið eða sæist fyrir endann á áður en viðkomandi samningskafla væri lokað. Ég sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gat alls ekki fallist á þessar kröfur ESB og taldi það reyndar ekki samræmast samþykkt og fyrirvörum Alþingis. Ákvörðun mín um makrílkvóta Íslendinga var síðan einn dropinn sem fyllti mælinn. Deilt var um fyrirfram eftirgjöf við ESB og ég gaf mig ekki en stóð á rétti Íslendinga..
Lítill áhugi á að breyta kvótakerfinu
Mér var búið að vera lengi ljóst að forystumenn ríkisstjórnarinnar höfðu enga sérstakan áhuga á að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þar á bæ var fyrst og fremst hugsað um stórhækkun veiðigjalds og að ná tekjum í ríkissjóð. Ég var á öndverðum meiði og lagði megináherslu á kerfisbreytingu og þá með hagsmuni sjávarbyggðanna í huga og að sporna gegn enn frekari samþjöppun. Maður gerir ekki mikla kerfisbreytingu samtímis og að leggja á himinhátt veiðigjald.
Ég er sammála Sighvati Björgvinssyni í því að Guðbjartsnefndin svokallaða sem skipuð var vorið 2009 í upphafi ríkisstórnarinnar um endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar, var fyrirfram ráðslag til að koma í veg fyrir uppstokkun fiskveiðikerfisins. Það var krafa Jóhönnu og Samfylkingarinnar við ríkisstjórnarmyndunina 2009 að þessi nefnd væri skipuð og undir formennsku Samfylkingarinnar. Ég var ekki sammála þeirri kröfu, en hún var studd af formanni VG. Nefndin fékk víðtækt hlutverk og engar breytingar mátti gera í sjávarútvegsmálum meðan hún væri að störfum.
Fyrst átti Guðbjartsnefndin aðeins að starfa til haustsins 2009 en raunin varð sú að hún lauk ekki störfum fyrr en ári seinna eða um 1.sept 2010. Ég var ítrekað kominn á fremsta hlunn með að leysa nefndina upp, en þá kom skjálftahrina frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar.
Stöðugleikasamningurinn mistök
Í stöðugleika samningi ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins var m.a. kveðið á um að engar grundvallarbreytingar mætti gera á fiskveiðistjórnunarkerfinu næstu tvö árin þ.e. gildistíma samningsins og auk þess mætti ekkert gera í þeim breytingum, fyrrr en Guðbjartsnefndin hefði lokið störfum. Ég lét það þó ekki hindra mig að bera fram tillögur um tímabundnar aðgerðir sem skiptu miklu máli og eru sumar orðnar varanlegar.
Stöðugleikasamningurinn sumarið 2009 var að mínu mati ein stærstu mistök fráfarandi ríkisstjórnar enda var tekist á um hann í ríkisstjórn og þar var hann aldrei formlega samþykktur þó svo formennirnir hafi skrifað upp á hann. En hann batt hendur ríkisstjórnar, sem var samt kosin til að gera breytingar. Stöðugleikasamningurinn átti að tryggja óbreytt ástand á sömu forsendum og giltu fyrir hrun, þó svo þær væru í raun brostnar. Samningurinn batt ríkisstjórnina í fiskveiðisstjórnun, í endurskipan fjármálakerfisins og efnahagsmálum og á fjölmörgum öðrum sviðum sem að mínu viti gengu gegn grundvallarstefnumiðum ríkisstjórnarflokkanna.
Í viðjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Að hinu leytinu var ríkisstjórnin bundin af skilyrðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn m.a. um að hlífa erlendum kröfuhöfum í íslensku fjármálastofnunum. Þar ofan á komu svo samningarnir um Icesave, sem hluti af þessum pakka og ESB umsóknin sem alltaf átti að hafa forgang í samskiptum við ESB ríkin. Tillaga Guðbjartsnefndarinnar um langtímasamning við útgerðirnar um kvóta var mér aldrei að skapi og þýddi í raun að verið var að festa núverandi kvótakerfi í sessi enn frekar en er með núgildandi lögum.
En samkvæmt samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar átti að semja frumvarp á grundvelli tillagna Guðbjartsnefndarinnar. Sjávarútvegsráðherra fékk þó ekki frjálsar hendur með það heldur var sett til höfuðs honum nefnd þingmanna úr flokkunum og þegar svo hún lauk störfum í mars 2011 var sett á ráðherranefnd undir formennsku Jóhönnu Sigurðardóttur sem skilaði svo því frumvarpi sem lagt var fram í maí 2011. Vissulega var það frumvarp um margt gallað en reynt hafði verið að taka tillit til mismunandi sjónarmiða flokkanna og einstakra þingmanna þeirra, en halda samt megináformum um endurbætur og breytingar.
Byggðasjónarmið og markaðssjónarmið
Samfylkingin vilda ganga mjög langt í markaðsvæðingu aflaheimilda. Ég og fleiri vildum tryggja stöðu og rétt sjávarbyggðanna auk þess að setja aukinni samþjöppun skýrar skorður. Skemmst er frá því að segja að jafnvel þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem höfðu mest haft við að koma einstökum óskum sínum að, hlupu svo frá málinu og þóttust ekki kannast við krógann.
Haustið 2011, frá því í október og fram í nóvember, hafði svo ég loksins sem ráðherra málið hjá mér, vann úr umsögnum og kynnti svo drög að nýju frumvarpi sem grundvöll og jafnframt voru þau drög sett á upplýsingavef ráðuneytisins til kynningar. Þar var fyrst og fremst var tekið á kerfisbreytingunni, treyst stöðu sjávarbyggðanna og spornað gegn aukinni samþjöppun.
Frá árslokum 2011 hefur síðan ekkert gerst annað en að lagt var á sérstakt veiðigjald sem verður trúlega afnumið áður en það kemur að fullu til framkvæmda, en enginn sér enn til botns í því hvernig á að reikna það út.
Þær breytingar sem náðust fram voru gerðar framhjá Guðbjartsnefndinni og stöðugleikasáttmálanum eins og skötusels málið fræga, sem hleypti öllu upp. Þar var í raun kynnt hugmynd, fyrirmynd að heildar útfærslu sem samræmdist stefnu beggja flokkanna.
Baráttan um "skötuselsákvæðið" var líka hatrömm, svikabrigsl og uppsögn stöðugleikasáttmálans og verkföllum og vinnustöðvunum hótað. Formenn ríkisstjórnarflokkanna gengu sérstaklega á fund meirihluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, til að fá hana til að stöðva eða afturkalla frumvarpið fyrir lokaafgreiðslu í þinginu. Sem betur fór stóðst nefndin álagið. Það sýndi í raun huga formannana til breytinga í verki.Skötuselsákvæðið er svo ekki inní nýjasta frumvarpi sjávarútvegsráðherra sem dagaði uppi.
Rekið áfram á þráanum
Árni Páll Árnason hafði sem efnahags- og viðskiptaráðherra sýnt af sér sjálfstæði og einurð í starfi m.a. í viðbrögðum gagnvart Icesave, uppgjöri og lausn á skuldum heimilanna, í efnahagsmálum og uppgjöri og eftirliti með bönkunum svo nokkuð sé nefnt. En verksviðið skaraðist á köflum við svið fjármálaráðherra og frumkvæði Árna ekki alltaf vel séð. Þótt ég væri oft ósamála Árna Páli og finnst hann alltof hægrisinnaður og hallur undir ESB, virti ég hann fyrir frumkvæðistilburði sem fóru óneitanlega mjög þverrandi hjá forystu ríkistjórnarinnar.Og menn vildu þar heldur verja tímanum í hrein þrákelknismál eins og stjórnarskrármálið, uppstokkun ráðuneyta, sem öll orka og stífni var nú sett í.
Undir árslok 2011 lá einnig ljóst fyrir að innan ríkisstjórnarflokkanna var ekki meirihluti fyrir mörgum veigamiklum þáttum stjórnarskrárfrumvarpsins og andstaða var við þann ferill sem málið hafði lent í.
Þegar svo forystumenn ríkisstjórnarflokkanna ákváðu skömmu fyrir jól 2011 að keyra áfram á þráanum og víkja tveimur ráðherrum úr ríkisstjórn, sem þeim var ekki að skapi, var ljóst að ekki voru áform um að fara yfir stöðu mála, styrkja innviðina, endurskoða samstarfið og meta framhaldið. Vg hafði þegar misst þingmenn vegna ágreinings.
Stjórnmál snúast um traust
Forystumenn ríkisstjórnarinnar völdu að semja við þingmenn Hreyfingarinnar í árslok 2011 um stuðning eða hlutleysi gegn því að halda áfram stjórnarskrármálinu. Þar með var forysta ríkisstjórnarinnar að innsigla uppgjöf sína. Hefðu ríkisstjórnarflokkarnir þá í þess stað farið málefnalega ofan í stöðuna og samstarfið og framtíð þess og ákveðið framhaldið að tekinni slíkri umræðu, hefðu hlutirnir getað þróast á allt á annan hátt innan beggja flokkanna. Flestum var vel ljóst þá, að formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna voru að missa tiltrú og traust og tapað tengslum við almenning og grasrót flokkanna, Þau hefðu þá átt að segja af sér bæði og hleypa öðrum að. Ríkisstjórnsamstarfið hafði um of byggst á einkasambandi þeirra Steingríms og Jóhönnu. Endalok stjórnarinnar voru nátengd stöðu þessarra tveggja.
Hefði getað farið öðruvísi
Hefði Árni Páll orðið formaður haustið 2011, Steingrímur látið af formennsku þá hjá VG einnig og ríkisstjórnarsamstarfið endurskoðað væru þessir flokkar trúlega í allt annarri stöðu. ESB andstæðingar innan Vg, sem vildu aðeins " kíkja" í pakkann og hætta innan tveggja ára eins og lofað var gætu þá haldið haus. Einnig ESB -sinnar Samfylkingarinnar sem gætu sagt, að nú væru kaflaskil, hver vill arka veginn með okkur áfram inn í ESB?
Það sem skrif Kristrúnar, Ingibjargar Sólrúnar, Sighvats Björgvinssonar eru að segja og flestie höfðu fyrir löngu gert sér grein fyrir var, að Jóhanna sem forsætisráðherra var löngu hætt að gera sér grein fyrir til hvers hún væri forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Hún eyddi allri orku sinni og samningslipurð í að kalla fram og elta "villiketti" og leita sér að andstæðingum til að stilla upp gegn sér og til að siga liði sínu á.
Það hefur aldrei þótt farsælt eða mjög gáfulegt að hengja bakara fyrir smið
Ég get því um margt tekið undir með þeim Kristrúnu, Ingibjörgu og Sighvati í gagnrýni þeirra á umræðu og atburðarrásina innan þeirra eigin flokks og ríkisstjórnarinnar. Þótt ég sé þeim ekki málefnalega sammála, hefur hið sama gerst innan Vinstri grænna í ríkisstjórnarsamstarfinu. Áður en yfir lauk höfðu 5 þingmenn yfirgefið þingflokk Vg og báðir formenn ríkisstjórnarflokkanna sagt af sér..
Það átti að endurskoða stjórnarsamstarfið haustið 2011 og slíta því þá, ef ekki næðist málefnalegt samstarf. Þá hefði átt að skipta um forystu beggja flokkanna, frekar en hengslast tvö ár enn verklítil og með málefnin og flokkana í upplausn.
Nú verður fróðlegt að sjá hvað framtíðin ber í skauti sínu fyrir þessa tvo flokka en oft endurtekur sagan sig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 25. maí 2013
Heiðurskonan Marta í Víðidal, Skagafirði kvödd
Sumt fólk skilur eftir sig minningar á við litla gimsteina, blóm eða græn laufblöð í hjörtum vina, sem eftir standa á bakkanum, þegar horfið er á braut yfir móðuna miklu. Þannig hygg ég að okkur flestum sé innanbrjósts er við kveðjum Mörtu í Víðidal. Við Ingibjörg og fjölskyldan erum þakklát fyrir að hafa átt samleið með kærleiksríkri og góðri manneskju og notið samvista við hana.
Marta Fanney Svavarsdóttir í Víðidal í Skagafirði var borin til grafar í dag og útförin gerð frá Víðimýrarkirkju.
Því miður gátum við ekki fylgt Mörtu síðasta spölinn en hugurinn var hjá Stefáni og fjölskyldu þeirra hjóna.
Marta í Skógræktinni eins og hún oft var kölluð var ein af þeim fyrstu sem við Ingibjörg kynntumst í Skagafirði þegar við fluttum heim að Hólum í Hjaltadal 1981. Skógræktin á Hólum var samvinnuverkefni Hólaskóla og Skógræktarfélags Skagafjarðar og snar þáttur í starfi, ásýnd og umgjörð staðarins. Marta sem þá var orðin yfirmanneskja í stöð Skógræktar ríkisins í Varmahlíð var vakin og sofin yfir velferð trjáa og skógarlunda í héraðinu og nágrannasveitum.
Sem skólastjóri á Hólum átti ég við Mörtu margvíslegt samstarf þar sem hún var veitandinn en ég þiggjandinn. Til hennar voru sótt ráð og hún deildi út plöntum og hvatti alla sem til hennar leituðu. Hjartahlýja og góð leiðsögn fylgdi hverri plöntu úr hlaði. Skógurinn og trjálundirnir í Reykjarhólnum við Varmahlíð og reyndar víðar um Skagafjörð eru fallegir lundir og gróskumikill skógur, veglegir minnisvarðar um græna fingur og ræktunarstarf Mörtu sem átti hug hennar allan. Marta var verkstjóri hjá Skógrækt ríkisins í Varmahlíð 1978- 2001 þar til er stöðin var lögð niður. Mér fannst röng sú ákvörðun stjórnvalda að loka starfs-og þjónustustöðvum Skógræktarinnar eins og í Varmahlíð. En það var liður í einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar á þeim tíma.
Heimili þeirra hjóna, Stefáns og Mörtu í Víðidal bar og geislaði sömu hlýju og gestrisni eins og gróðurinn. Við Ingibjörg og krakkarnir okkar yngstu nutum þess að koma til Mörtu og Stefáns í Víðidal í stutta heimsókn. Kakóið og pönnukökurnar vitnuðu um gestrisnina og var gerð góð skil.Að leiðarlokum þökkum við Mörtu fyrir samferðina. Hún naut verðskuldað mikillar virðingar í héraðinu og meðal allra sem þekktu til verka hennar. Það var gott að eiga Mörtu að vin og vinirnir voru margir.
Marta skilur eftir sig gifturíkt starf sem mun bera uppi nafn hennar um ókomin ár: Guð gefi landi voru margar slíkar var sagt um aðra merkiskonu, sem ég heimfæri á Mörtu Fanney Svavarsdóttur í Víðidal.
Marta eins og fleiri af hennar kynslóð voru hvött áfram af bjartsýni, afli og gleði yfir nýfengnu fullveldi. Lýðveldið Ísland var í augsýn.
Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.( Hannes Hafstein)
Blessuð sé minning Mörtu Fanneyjar Svavarsdóttur í Víðidal. Við Ingibjörg sendum Stefáni og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.
(Marta Fanney Svavarsdóttir var frá Reykjum í Tungusveit, Skagaf. f. 8.nóv. 1931. D. 15.05. 2013. Maki: Stefán Gunnar Haraldsson frá Brautarholti Skagafirði. Þau stofnuðu nýbýli í landi Víðimýrar 1954 sem þau nefndu Víðidal og bjuggu þar sína búskapartíð. Þau eignuðust fjögur börn, Svavar Harald, Pétur Helga, Jóhönnu Sigríði og Margréti Sigurlaugu) Nánar er greint frá æviferli og fjölskyldu í Morgunblaðinu í dag. laugardag 25. maí.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.5.2013 kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)