Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gefum ekki eftir okkar hlut í makrílveiðunum

Miklu skiptir að  halda vel á okkar hlut í heildarveiði á makríl. Nú þegar veiðiheimildir í makríl hafa verið auknar er eðlilegt að hlutdeild Íslands í veiðinni hækki og fylgi þeim breytingum.

Falsaðar veiðitölur ESB - margfalda má með 1,7-3,6

Nýjustu rannsóknir sýna að veiðitölur ESB ríkjanna eru stórlega falsaðar og má margfalda skráðan afla þeirra með 1,7- 3,6. Himinn og haf milli gagna og stofnmats

 Er það væntanlega skýring á að ESB hefur hvorki viljað leyfa fullt eftirlit með löndunum í höfnum sambandsins né taka þáttt í sameiginlegum rannsóknum um útbreiðslu og magn stofnsins.

 Hér eru gríðarmiklir hagsmunir í húfi og skiptir máli að íslensk stjórnvöld standi vel í lappirnar og verji stöðu og rétt Íslendinga í makrílveiðunum.

Mikið og vaxandi magn makríls í íslenskri lögsögu.

Aldrei hefur mælst meira magn af makríl í íslenskri lögsögu en í ár eða liðlega 1.5 milljón tonna. Er það fjórða árið í röð sem makríllinn mælist yfir milljón tonn í lögsögunni. Heildarvístala makríls á því svæði sem rannsakað var í sumar reyndist um 8.8 milljónir tonna, þar af um 17% innan íslensku lögsögunnar. Er það álíka magn og mældist inna færeysku lögsögunnar. Þótt svæðið sem var rannsakað í sumar sé stærra en undanfarin ár er fjarri því að mælingarnar hafi náð yfir allt útbreiðslusvæði makríls . Niðurstöður rannsóknanna sýna að makrílstofninn er í örum vexti og útbreiðslusvæði hans stækkar og göngurnar færast vestar.

Makríllinn fer eins og „ryksuga“ í nýjum beitilöndum

Makríllinn er ekki í neinni kurteisisheimsókn við Íslandstrendur, heldur er hann að leggja undir sig nýjar beitilendur: „Stofn eins og makríll, sem fer vítt og breitt og étur mikið getur unnið svæðisbundinn skaða ef hann fer yfir viðkvæmt svæði á viðkvæmum tímum. Makríllinn er mjög þurftafrekur, hefur hröð efnaskipti og fitnar hratt á skömmum tíma í fæðugöngunni“,segir forstjóri Hafrannsóknastofnunar í viðtali við mbl. 30. ágúst sl. Talið er að makríllinn auki þyngd sína um meira en 40% meðan hann er hér við land. Það er gríðarleg þyngdaraukning. Menn geta sér til um að hann þurfi að éta 2-3 milljónir tonna af sjávarfangi. „ það er augljóst að þegar kominn er nýr gestur sem tekur til sín 2-3 milljónir tonna af lífmassa þá minnkar framleiðslugeta annarra fiskstofna ef fæðunám skarast.“ Það getur leitt til staðbundinna áhrif á vöxt t.d. seiða þorsks og loðnu.

Ég sá þá það í Hólmavíkurhöfn í fyrrasumar að makríllinn hafði smalað sandsíli og seiðum inn í höfnina, króað þau af og síðna hirt upp eins og gríðarstór ryksuga. Allt þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um makrílveiðar og hlut Íslendinga í þeim.

Ekki má bogna undan hótunum

Ráðgjöf fyrir heildarveiði í makríl á næsta ári hefur verið aukin um 65% frá síðasta ári eða úr 542 þús. tonnum í 895 þús. tonn. Í raun er sú tala meðaltals heildarveiði í makríl síðustu þriggja ára. Þar með er viðurkennd sú staðreynd sem við Íslendingar höfum haldið fram að makrílstofninn sé og hafi verið í mjög örum vexti í mörg ár og allt tal um ofveiði og ósjálfbærar veiðar verið rökleysan ein. 

 Þetta þýðir jafnframt að hótanir ESB um viðskiftaþvinganir og refsiaðgerðir vegna offveiði á makríl styðjast ekki við neinar raunverulegar forsendur aðrar en yfirgang og drottnunargirni framkvæmdastjórnar ESB. Ég kynntist því sem ráðherra að ESB hefur í raun haft lítinn áhuga á að rannsaka magn eða útbreiðslu makríls heldur að fá að deila og drottna í makrílveiðum á Norður- Atlantshafi.

Að deila og drottna

Samkvæmt fréttum virðast ísl. stjórnvöld reiðubúin að þiggja úr hnefa ESB aðeins 11,9% af hlutdeild í heildarveiði í makríl. En það er einum 4-5% lægri hlutdeild en við nú þegar höfum. Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50- 60 þús. tonn af makríl til ESB og Noregs.

Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga og nú er talað um í makríl. Og alls ekki má bogna fyrir ríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds eins og ESB hefur gert gangvart Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir 95% af útflutningstekjum þeirra.

Ég sem ráðherra taldi hæfilega hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum. Tók ég þar mið af þáverandi magni og útbreiðslu makríls í íslenskri lögsögu. Lætur nærri að makrílveiði Íslendinga hafi gefið samtals um 100 milljarða króna í útflutningstekjur sl. 4-5 ár. Munar um minna.

Halda fast í okkar hlut

„Ísland hefur á undanförnum árum áskilið sér rétt til að lágmarki 16 -17% af heildarveiði makríls en það er byggt á rétti strandþjóðar, magni makríls í íslenskri lögsögu og gríðarlegu fæðunámi hans hér við land.

 Yfirstandandi samningaviðræður eru í skugga hótana Evrópusambandsins og hafa beina tengingu við aðildarviðræður Íslands sem ekki hefur verið slitið. Heimssýn telur að samningagerð og eftirgjöf undir hótunum Evrópusambandsins um viðskiptabann sé Íslandi sem fullvalda þjóð ekki samboðin“.(Ályktun Heimsýnar 23.okt. sl)

Hér er mikið alvörumál og skiptir miklu að standa vörð um rétt og hagsmuni Íslands í makrílveiðunum.

(Birtist sem grein í mbl. 25.okt.)


Framsókn að bogna í lykilmálum

 Vaxandi vonbrigða gætir vegna  fálmkenndra vinnubragða framsóknarmanna í mörgum meginmálum sem þeir hreyktu sér af og lofuðu í síðustu kosningabaráttu. En miklar væntingar eru bundnar við að þeir standi við stóru orðin.

Eftirgjöf í makríl

Sjávarútvegsráðherrann lætur nú ESB kúga sig til undirgefni í makríldeilunni. Samkvæmt fréttum ætlar hann að þiggja úr hnefa ESB  aðeins tæp 12%  hlutdeild í heildarveiði á makríl. En það er  um 30%  lægri hlutdeild en við nú þegar höfum.  Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50- 60 þús. tonn af makríl til ESB og Norðmanna. Búast við boði um 12 prósent makrílkvótans ,  ..Damanaki er hóflega bjartsýn 

    Að  bogna undan hótunum

Svo virðist sem stjórnvöld séu  að bogna fyrir ólögmætum hótunum ESB um viðskiptaþvinganir og fleiri refsiaðgerðir. Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga eins og nú er talað um í makríl. Og alls ekki á að  bogna fyrir  ríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds eins  og ESB hefur gert gangvart  Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir  95% af útflutningstekjum þeirra.

100 milljarða útflutningsverðmæti í makríl á 4-5 árum

Ég minnist þess fyrir um ári síðan þegar sá orðrómur gekk að þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi boðið ESB að lækka hlutdeild Íslendinga niður í tæp 14% af heildarveiðimagni makríls. Þá höfðu  framsóknarmenn á þingi stór orð um svik og undirlægjuhátt ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms gangvart ESB. Verið væri að bogna fyrir hótunum.  Ég sem ráðherra taldi  lágmarks hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum. Tók ég þar mið af magni og útbreiðslu makríls í íslenskri lögsögu.  Lætur nærri að makrílveiði Íslendinga hafi gefið samtals um 100 milljarða króna  í útflutningstekjur sl. 4-5 ár. Munar um minna.  Kynnti sjónarmið Íslands um makrílveiðar fyrir ESB

Makrílstofninn í mjög örum vexti - höldum okkar hlut 

Þrátt fyrir allt tal um ofveiði er makrílstofninn áfram í örum vexti og sækir stöðugt inn á ný beitilönd. Líkist hann helst stórri ryksugu í útrás og tekur til sin gríðarlegt magn fæðu sem annars væri étin af öðrum fiskum. Vissulega er nauðsynlegt að hlutaðeigandi þjóðir nái að semja um  veiðistýringu og skiptingu veiðiheimilda í makríl. En við Íslendingar megum ekki láta hótanir beygja okkur til að samþykkja niðurlægjandi tilboð ESB eins og nú er látið í veðri vaka. Öðru vísi mér áður brá með yfirlýsingar Framsóknar í makrílmálum.

Orðaskak utanríkisráðherra

Mörgum fannst utanríkisráðherra standa sig vel í upphafi ferilsins en skortir  að fylgja málum eftir.   Hins vegar er fólk tekið að þreytast  á innihaldslitlu orðaskaki  ráðherrans við stækkunarstjóra ESB, Stefán Fule. Ísland er umsóknarríki þar til umsóknin er afturkölluð.

 Stefna Framsóknarflokksins og loforð fyrir kosningar var refjalausa afturköllun umsóknarinnar að ESB.  Skýrslugerð á skýrslugerð ofan lengir í flækjunni og herðir að snörunni hjá Framsókn að standa við kosningaloforðin. Úttekt á aðildarumsókn dregst    

Makríllinn skiptir gríðarmiklu máli.

Eftirgjöf Framsóknar í makrílnum, sem liggur í loftinu, er slæm vísbending um framhaldið. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi að við stöndum á rétti okkar í makríl, en lyppumst ekki niður fyrir hótunum ESB eins og nú ú er látið í veðri vak

 Kröfur ESB hafa alltaf legið fyrir     

Rétt er að minna á að ESB veitir engar varanlegar undanþágur og þarf ekki að gera neina sérstaka skýrslu þar um. Annað hvort ætla menn í ESB eða ekki. Framsókn getur ekki hoppað þar á öðrum fæti frekar en aðrir:

 Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“ [1] “First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable.” (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf).

 


Makrílveiðar Íslendinga auknar verulega á næsta ári

Ráðgjöf fyrir heildarveiði í  makríl  á næsta ári hefur verið aukin um 65% frá síðasta ári eða úr 542 þús. tonnum í 895 þús. tonn. Gefur það tilefni til aukins veiðimagns af Íslands hálfu.  Í raun er sú tala, 895 þús. tonn,  meðaltals heildarveiði á makríl síðustu þriggja ára. Byggir  því ráðgjöfin einungis á veiðitölum.  Þar með er viðurkennd sú staðreynd sem við Íslendingar höfum haldið fram að makrílstofninn sé og  hafi verið  í mjög örum vexti  í mörg ár og allt tal um ofveiði og ósjálfbærar veiðar verið rökleysan ein.  Öll rök okkar orðin sterkari“

Þetta þýðir jafnframt að hótanir ESB um viðskiftaþvinganir og refsiaðgerðir  vegna offveiði á makríl styðjast ekki við neinar raunverulegar forsendur aðrar en yfirgang og drottnunargirni framkvæmdastjórnar ESB.

Ég kynntist því sem ráðherra að ESB hefur  í raun engan áhuga á að rannsaka magn eða útbreiðslu makríls heldur að fá að deila og drottna í makrílveiðum á Norður- Atlantshafi.

Firðir og víkur fullar af makríl

Og meðan ESB löndin héldu því fram að enginn makríll væri við Íslandsstrendur þá fylltust firðir og víkur af makríl kringum allt land. Þess vegna beitti ég mér sem ráðherra  fyrir auknum rannsóknum á makríl í samstarfi við Færeyinga, Norðmenn og Grænlendinga. ESB hafnaði hinsvegar samstarfi um þær rannsóknir. Þar á bæ töldu menn sig væntanlega vita allt um það mál og þyrfti ekki rannsókna við.

 Makríllinn í útrás  

Stækkun makrílstofnsins og sókn hans norður er fyrst og fremst  í ætisleit og  að nema  nýjar lendur og bússvæði. Stofninn stækkar að sama skapi.Breytt hitastig sjávar og fæðuframboð hvetur hann vestur og norður og nú allt upp með Grænlandsströndum. Sérstaða okkar hefur verið sú að nánast  allur makríll Íslendinga er veiddur innan íslensku efnahagslögsögunnar.Það er mikið hagsmunamál að Ísland haldi rétti sínum og ekki lægri  hlutdeild í heildarveiðimagni en við höfum haft undanfarin ár .   

 Miklir hagsmunir í húfi -  höldum okkar hlut

Nú þegar veiðiheimildir í makríl hafa verið auknar er eðlilegt að okkar hlutdeild í veiðinni  fylgi þeim breytingum. Makrílstofninn er í örum vexti og því viðbúið að veitt verði meir en ráðgjöfin segir til um eins og reyndin hefur verið undanfarin ár. Endi bygggir hún á veiðitölum.

 Við gætum þess vegna þurft að auka okkar makrílkvóta enn frekar vegna stækkunar stofnsins til að halda óbreyttri hlutdeild af heildarveiðimagni. Hér eru gríðarmiklir hagsmunir í húfi og skiptir máli að íslensk stjórnvöld standi vel í lappirnar og verji stöðu og rétt Íslendinga í makrílveiðunum.

Að berja sér á brjóst í heilbrigðisumræðunni

  Sú graf alvarlega staða sem hefur verið lýst á Landsspítalanum og á heilbrigðisstofnunum víða um land á sér langan aðdraganda. Hún  speglar  uppsafnaða vanrækslu, veruleikafirringu, einkavæðingadekur, skilningsleysi stjórnvalda og ranga forgangsröðun  undanfarinn áratug.  Þar eiga margir sömu sök.  Þess vegna er það dapurt  að fylgjast með tvískinnungshætti og kattarþvotti  ýmissa stjórnmálamanna í heilbrigðisumræðunni þessa dagana.

Átök í síðustu ríkisstjórn um heilbrigðismálin

 Forystumenn síðustu ríkisstjórnar eru þar engin undantekning síður en svo. Staðreyndin er sú að ástandið í heilbrigðismálum væri enn hrikalegra ef fjárlagafrumvörp fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði orðið óbreytt að lögum eins og ráðherrann lagði þau fram. Sem betur fer tóku þau nokkrum breytingum til batnaðar fyrir lokaafgreiðslu þingsins þótt stórfelldur niðurskurður væri því miður  staðreynd. 

Um fátt var tekist meir á um í síðustu ríkisstjórn en niðurskurðinn til heilbrigðismála. Þær litlu breytingarnar sem urðu frá frumvarpinu til lokaafgreiðslu fjárlaga  voru fyrst og fremst tilkomnar vegna öflugrar baráttu heimafólks og starfsfólks einstakra stofnana og landshluta auk einstakra þingmanna þáverandi stjórnarliðs. 

Þessi  átök þekki ég vel bæði sem þingmaður og ráðherra. Ég hef áður lýst því að þingmenn yfirgáfu Vg  m.a  vegna andstöðu við stefnu forystunnar í heilbrigðismálum og studdu ekki fjárlagafrumvarpið með þeim mikla niðurskurði sem fjármálaráðherra lagði til.  Þeir vildu forgangsraða á annan veg. 

Baráttan heldur áfram

Ég er viss um að íbúar og  hollvinir heilbrigðisstofnananna á  Sauðárkróki,  Blönduósi, Húsavík, Vestmannaeyjum , Selfossi, Ísafirði og víðar um land muni eftir fjöldafundunum,  slagnum sem tekinn var við ríkisstjórn Jóhönnu  og Steingríms um heilbrigðismálin.   Nú mun  þetta sama fólk, hollvinirnir, heimafólk og starfsfólk þurfa að taka slaginn áfram við ríkisstjórn  Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben.

Og forystumenn Samfylkingar og Vinstri grænna munu gleyma sinni eigin ríkisstjórnarsetu  og fara aftur  í gamla farið, tala hæst og hneykslast á þeim sem nú  eru í ríkisstjórn í stað þess að biðjast afsökunar á aðgjörðum sínum og aðgerðarleysi í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Það eru hinsvegar verkin sem þurfa að tala.

Hroki stjórnvalda

 Það var öllum ljóst sem vildu vita að það stefndi í hreint óefni hjá Landspítalanum. Og þegar Þjóðkirkjan og biskup Íslands  hvöttu til átaks  til stuðnings tækjakaupa á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum um síðustu áramót  réðust  þáverandi formaður og varaformaður fjárlaganefndar, talsmenn ríkisstjórnarinnar á  biskup með dylgjum og óhróðri:

  RUV 3. Jan. 2013. Undrast söfnun kirkju (SII)
http://www.ruv.is/frett/undrast-sofnun-kirkju-sem-bad-um-meira-fe

Eyjan 3. Jan. 2013. Hvað á Sigríður Ingibjörg við?
http://www.pressan.is/Kaffistofan/Lesakaffistofu/hvad-a-sigridur-ingibjorg-vid?Pressandate=200904251'+or+1%3D%40%40version%2Fleggjumst-oll-a-eitt%2Fleggjumst-oll-a-%2F%2F%2F%2F%2F%2F%2F
--------------
Heimasíða Björns Vals 3. Jan. 2013
http://www.bvg.is/bvg/2013/01/03/politiskar-akvardanir-umfram-annad

Mbl.is 3. Jan. 2013. Björn Valur og innanmein kirkjunnar
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/03/kirkjan_ekki_faer_adur_vegna_innanmeins/
Nú koma svo fulltrúar fyrri ríkisstjórnar inn  í  umræðuna fullir vandlætingar og  uppmálaðir helgislepjunnu.

 Þarf þjóðarátak og þjóðarsátt um heilbrigðisþjónustuna

Reynslan síðastliðinn áratug sýnir að litlu skiptir hver fer með landstjórnina,  heilbrigðisþjónustan er skorin og holuð innan. Fjárlögin – að mestu óbreytt stefna

 Staðreyndin er að það þarf hugarfarsbreytingu, þjóðarsátt, þjóðstjórn um enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Þar verða allir að leggjast á eitt. Tímaglasið er runnið út.

 Ráðist ekki grundvallarbót á verður að hafa  sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu  um málið.   

Endurminningin merlar æ

Í dag þann 29. september hefði dóttir mín Katrín Kolka, hjúkrunarfræðingur orðið 31 árs, en hún lést úr krabbameini 27. febrúar 2011 aðeins 28 ára gömul.  Þá voru liðin rúm tvö ár frá því hún fyrst greindist með krabbamein í brjósti.

Á degi sem þessum er manni að sjálfsögðu efst í huga þakklæti fyrir að hafa eignast Katrínu og notið samvistar við yndislega dóttur þennan tíma. Augasteinninn hennar og okkar allra, hann Valdimar er ný orðinn 7 ára.

En þessi tvö erfiðu ár veikinda Katrínar leita oft á hugann. Og ekki síst í ljósi umræðunnar sem nú er um stöðu heilbrigðisþjónustunnar. Allt sem ég heyri nú í fjölmiðlum kallast á við mína reynslu af því að fylgja dóttur minni á þessum erfiða vegi og er í samræmi við ýmsar sárar spurningar sem hafa leitað á mig  bæði nú og  þá.  Ég er líka búinn að vera á Alþingi og í ríkisstjórn og þekki því vel umræðuna um heilbrigðismálin þeim megin frá.

Ég man upphafið er Katrín greindist um miðjan desember 2008 eftir að hafa beðið nokkurn tíma eftir röntgenmyndun. Þrátt fyrir að brýnt væri að fara í uppskurð og  fjarlægja brjóstið var starfsemi spítalans í svo miklu lágmarki  vegna sparnaðar um jól og áramót og leyfa hinna fáu sérfræðinga að komið var fram undir lok janúar er skurðaðgerðin var gerð. 

Ég man líka eftir gleðinni um  sumarið þegar gefið var út að aðgerðin hefði heppnast og nú væri hún alfrísk á ný og þyrfti ekki að koma fyrr en eftir ár í eftirlit.

Katrín rétt náði að ljúka hjúkrunarprófinu og njóta stutts sumars því í júní  2010 var ljóst að krabbameinið hafði tekið sig upp á ný og var nú komið í lungun. Og síðar víðar um líkamann.  Ég skildi ekki, og ekki Katrín heldur af hverju það hafði ekki verið talin nein þörf á eftirliti á þessum mánuðum sem liðu frá aðgerðinni og meðferðinni sem fylgdi.

Að greinast veikur að sumri til er ekki nema fyrir frískasta fólk því tveir til þrír mánuðir geta liðið þangað til spítalinn er kominn í fullt starf á ný eftir sumarleyfin.

 Mér var þá ljóst að  spítalinn var  orðinn mjög undirmannaður enda beið dóttur minnar stöðug mannaskipti og óskipulögð viðbrögð við sjúkdómnum sem herjaði bæði með hraða og grimmd. Hver dagur er dýrmætur þegar gengið er með slíkan bráðasjúkdóm og mistök ekki aftur tekin.

 Mér eru minnistæðir dagarnir og næturnar á krabbameinslegudeildinni 11 E  þar sem starfsfólkið lagði fram alla sína hlýju og umhyggju þrátt fyrir mjög erfiðar vinnuaðstæður. Sumt af starfsfólkinu hafði þá þrívegis fengið uppsagnarbréf innan sama árs vegna stöðugrar hagræðingar og niðurskurðar sem aftur kallaði á mikla óvissu og álag.  

 Mér er minnistætt þegar leitað var í dyrum og dyngjum að bestu rúmdýnunni fyrir Katrínu á deildinni en þær voru flestar gamlar, mjög slitnar og signar inn í miðjuna og hún þoldi þær alls ekki. Nýjustu dýnurnar tvær hafði starfsfólkið sjálft haft milligöngu um að útvega og fengið að gjöf frá Íslenskri erfðagreiningu.

Mér er minnistætt þegar eina geislunar eða röntgentækið til að mynda höfuð og heila, áratugagamalt var stöðugt að bila þannig oft varð frá að hverfa og fresta myndatöku.  Katrín var beðin að koma snemma næsta morguns ef tækist að koma tækinu í lag svo hún yrði fyrst ef það síðan bilaði. Þessi ferill allur hefði verið mikið álag fyrir fullfrískt fólk.  

Hvar sem að var komið var undirmönnun, starfsfólk að koma of snemma til vinnu sem hafði veikst. Hjartahlýjan og umhyggjan starfsfólksins var þá ávalt fyrir hendi. Það var hún sem gaf traustið.

Mér finnst það mjög heiðarlegt þegar forstöðumenn og sérfræðingar  Lyflækningadeildar og  Krabbameinsdeildar lýsa því yfir hún sé orðin svo undirmönnuð, sérfræðinga skorti svo og  tækjabúnað og aðstöðu  að komið sé út af brúninni. Það sé ekki lengur hægt að tryggja fullnægjandi  öryggi og þjónustu við sjúklinga krabbameinsdeildarinnar. Þá er staðan orðin meir en graf alvarleg. Mér fannst raunar sú sama staða vera uppi  þegar dóttir mín lá þar veik fyrir tveim árum síðan.  Alla vega er ákaflega erfitt að hugsa til þess að staðan hafi í raun og veru versnað frá þeim tíma.  

 Margt fleira fólk sem hefur svipaða  erfiða reynslu hefur haft samband við mig og sagt sögu sína.

Við heyrum nú af fjöldasöfnunum , áheitahlaupum og framlögum hverskonar til að styrkja tækjakost Landspítalans og sjúkrahúsanna um allt land. 

 Stjórnvöld eru hinsvegar sá aðilinn sem dregur lappirnar í skilningsleysi. Þar ganga dekurverkefni fyrir heilbrigðisþjónustu.  Meir að segja leyfðu forystumenn í síðustu ríkisstjórn sér  að sýna þann hroka að agnúast út í Þjóðkirkjuna og biskup fyrir að beita sér fyrir og hvetja til söfnunar fyrir Landspítalann.

 Það þarf þjóðarsátt, þjóðarátak fyrir heilbgrigðisþjónustuna.

Yfirlýsingar, ákall allra hópa heilbrigðisstarfsfólks um allt land getum við ekki látið sem vind um eyrun þjóta. Það er hrein veruleikafirring og bein kaldhæðni að halda því fram að heilbrigðisþjónustan þoli meiri niðurskurð, hún þolir ekki einu sinn óbreytt ástand.   

Það er ekki heldur svo að Íslendingar séu bjargarlausir, síður en svo. Það hefur verið, árgæska til sjávar og sveita síðustu fjögur ár og meiri tekjur af ferðaþjónustu en nokkru sinni, svo dæmi sé tekið.  Það er aðeins forgangsröðun í ráðstöfun tekna ríkisins og þjóðarinnar sem er röng. Henni verður að breyta.

Ég mun leggja mitt af mörkum  í umræðunni til að standa að baki heilbrigðisþjónustunnar hvort heldur er á Landspítalanum eða á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum um allt land.

 Með niðurskurðinum á heilbrigðisstofnunum  landsbyggðarinnar eykst álagið á Landsspítalann.

 Það er komið að örlagastundu fyrir heilbrigðisþjónustu landsmanna. 

Neyðarkall heilbrigðisþjónustunnar

Uppsögn Björns Zoega framkvæmdastjóra Landspítalans undirstrikar þá alvarlegu stöðu sem heilbrigðisþjónusta landsmanna er komin í.  Allar starfsstéttir heilbrigðisþjónustunnar hafa sent út neyðarkall. Þær staðfesta að ekki er lengur  hægt að veita það félagslega  öryggi og þau gæði heilbrigðisþjónustu sem landsmenn vilja hafa og  talin var  sátt um.  Sérfræðideildir eru undirmannaðar, nauðsynlegustu tæki mörg biluð og úrelt. Heilu landshlutarnir eru án fullnægjandi heilbrigðisþjónustu langtímum saman. Fólk þarf að ferðast hundruð kílómetra til að sækja nauðsynlega læknisþjónustu.  Landspítalinn, flaggskip sérhæfðar heilbrigðisþjónustu er í sárum.

Þessi staða hefur hinsvegar átt sér aðdraganda og á ekki að koma neinum á óvart. Hún kemur í raun lítið sem ekkert „hruninu“ við, heldur er það notað sem skálkaskjól og  afsökun fyrir aðgerðum og aðgerðarleysi undanfarinna ára.   Einmitt í "hruninu" áti að forgangsraða í  þágu heilbrigðisþjónustunnar.

Uppsögn forstjórans eðlileg

Reyndar má segja að framkvæmdastjóri Landspítalans hafi ekki átt annars úrkosta en að segja af sér eftir launahækkunina sem gerð var að tjaldabaki  fyrr á árinu. Enda fylgdi  þeim gjörningi eðlileg hrina átaka um kaup, kjör og starfsaðstæður alls heilbrigðisfólks í kjölfarið.

Hvort sem launa og kjaraviðbótin var nauðsynleg til að „ halda góðum manni í starfi", eins og ráðherra sagði, sýndi hún fádæma  skilningsleysi og dómgreindarskort, hún  var eins og endanlegt trúnaðarrof milli heilbrigðisþjónustunnar og stjórnvalda.

Starfsfólki í heilbrigðisþjónustu og almenningi í landinu var nóg boðið. Hins vegar hlaut að koma að uppgjöri gagnvart stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum. Skipulagsleysi, fálm og blóðugur niðurskurður hlaut að leiða hana endanlega út  á bjarg brúnina.

Það er ekki aðeins forstjóri Landspítalans heldur fjöldi starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni um allt land, sem finnur sig ekki geta tekið þátt í  að hrinda henni fram af bjargbrúninni. Þetta er búið að eiga sér aðdraganda. Þar virðist lítill munur á hvaða stjórnmálaflokkar eru í ríkisstjórn, því miður.

 Ég hef áður lýst því hversu mér blöskraði hræsnin í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ég sat í um tíma,  allt velferðartalið og „verja heilbrigðisþjónustuna“ þegar svo hún var miskunnarlausast skorin niður og kostnaði velt yfir á notendur.

Skipbrot einkavæðingarstefnunnar

Ég man líka slaginn við fyrri ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og síðar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar að einkavæða átti nánast alla heilbrigðisþjónustu, gera Landspítalann að hlutafélagi, sem reka átti á rekstrarlegum arðsemisgrunni. Svo var um fleiri grunnstofnanir heilbrigðis- og öldrunarþjónustunnar.  Sjúklingaskrár og biðlistar áttu að vera markaðsvara og hvíldi yfir þeim sérstök viðskiftaleynd.

Með skipulagslausu samkrulli einkavæðingar í heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum hefur  markmið og heildarstefna farið á tvist og bast og hugmyndafræði félagslegrar heilbrigðisþjónustu þynnst út. Þessi aðferðarfræði gengur meðan verið er að hola kerfið að innan, en svo kemur hrunið og það er að gerast nú.

Stjórnir og tengsl og aðkoma heimamanna við opinbera heilbrigðisþjónustu var skorin af í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokkss; það að blanda heimamönnum eða samfélaginu, notendum í sína eigin grunnþjónustu,  truflaði einkavæðinguna og torveldaði niðurskurðinn. Að skera af heilbrigðisstjórnir í heimahéruðum var sérstakt kappsmál framsóknarmanna í heilbrigðislögunum  2003.

Landsíminn  var seldur og til að sá gjörningur gengi í landsmenn átti að byggja nýtt sjúkrahús fyrir söluverðið á næstu 2- 5 árum.    Dráttur á nýbyggingu Landspítalans  er engin afsökun fyrir því skipulagsleysi, tækjaskorti, öryggisleysi og vanlíðan heilbrigðisþjónustunnar sem við nú stöndum frammi fyrir.

Þarf nýja hugmyndafræði félagslegrar velferðar

Það voru mikil mistök þegar hugtökunum í lagaumgjörð um heilbrigðismál var breytt úr þjónustu í rekstur. Það sem við þurfum fyrst og fremst er grundvallar hugarfarsbreytingu að baki heilbrigðisþjónustunnar, miklu frekar en að umræðan snúist  aðeins um  þúsundir rúmmetra af steinsteypu.   


Hjartað slær í Vatnsmýrinni !

Komið er að lokadögum undirskriftanna til stuðnings innanlandsflugvelli þjóðarinnar í Höfuðborginni,  Texti ákorunarinnar er einfaldur og skýr:     "Flugvöllurinn í Vatnsmýri er hjartað sem slær allan sólahringinn árið um kring. Þangað koma og fara slasaðir á bráðamóttöku, sjúkir á sjúkrahús, starfsmenn á fundi, vörur til fyrirtækja, embættismenn í stjórnsýslu, ferðamenn í ferðaþjónustu, nemendur til náms, auk þess sem völlurinn er hjartað í flugsögu Íslendinga aftur til ársins 1919."        http://www.lending.is/

Styðjum áskorunina

 Ég hvet alla landsmenn til að styðja þetta átak og ná því fram að óvissu um flugvöllinn í Reykjavík verði endanlega eytt, framtíð hans tryggð á núverandi stað. Skipulag og uppbygging, samgangna og  þjónustumiðstöðva landsmanna í höfuðborginni taki mið af því.  Nú þegar er undirskriftasöfnunin ein sú fjölmennasta í sögu þjóðarinnar sem segir sína sögu um samstöðu og vilja hennar í þessu máli.    http://www.lending.is/

Skyldur höfuðborgar

Ef forsvarsmenn Reykjavíkurborgar sjá ekki sóma sinn í að verða nú þegar við þessum eindregnu óskum landsmanna eða að Alþingi taki ekki af skarið, er sjálfsagt  og einboðið að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Var engin velferðarstjórn í heilbrigðismálum

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var alls engin velferðarstjórn í heilbrigðismálum. Hún gekk beint inn í niðurskurðarstefnu fráfarandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í heilbrigðismálum. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG  2009  kokgleypti og framkvæmdi í blindni kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um gífurlegan niðurskurð og kerfisbreytingar í heilbrigðismálum. Krafa AGS var  auk þess sú að framlög til þess málaflokks yrðu innan marka sem þeir settu um hlutfall af þjóðarframleiðslu, en þau voru langt undir því sem viðgengst í raunverulegum velferðarsamfélögum. Enn sendir AGS tóninn um frekari niðurskurð til heilbrigðismála. Kári Stefánsson gerir þessum málum vel skil í grein í Mbl. sl. mánudag. „ Hvenær drepur maður ( ríkisstjórn) mann“) og tek ég undir með honum um alvarleika málsins. Lækka frekar skatta en bæta heilbrigðiskerfið

Kerfisbreytingar og varanlegur niðurskurður í skjóli kreppu.

Vissulega voru efnahagsmál þjóðarinnar í uppnámi eftir hrunið, en þeim mun meiri nauðsyn var til að forgangsraða í þágu öryggis og velferðar. Heilbrigðismálin og síðan löggæslan voru þeir málaflokkar sem lentu lang harðast undir hnífnum.

Niðurskurðurinn var í fyrstu hlutfallslega mestur á landsbyggðinni allt upp í 40% á einstaka stofnunum. Hún kallaði fram fjöldamótmæli íbúanna, hvort heldur það var á Sauðárkróki, Húsavík, Blönduósi, Ísafirði, Selfossi eða Vestmannaeyjum. Fólk var reiðubúið að taka á sig byrðar vegna efnahagsvandans en gat ekki samþykkt að hrunið væri nýtt til þess að koma á kerfisbreytingu og varanlegri skerðingu heilbrigðisþjónustu. Niðurskurðurinn á landsbyggðinni færði aukinn þunga á Landspítalann.

Ég kynntist áhrifum niðurskurðarins á Landsspítalanum í veikindum dóttur minnar og því óöryggi sem bæði sjúklingar og starfsfólk bjó við vegna lélegs tækjabúnaðar, skorts á starfsfólki, mikils vinnuálags, stöðugra „hagræðinga“ og uppsagna í starfi. Starfsfólk vann kraftaverk við erfiðar aðstæður. Ég var ekki sammála niðurskurðarstefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum og  þeirri röngu forgangsröðun sem beitt var í ríkisfjármálum. Svo var um fleiri þingmenn  og voru lagðar fram formlegar breytingartillögur í þingflokknum í þágu heilbrigðismála en þær náðu ekki fram.

 Gæluverkefni í stað heilbrigðisþjónustu

Hinsvegar voru það önnur gæluverkefni einstakra ráðherra í ríkisstjórn sem náðu fram eins og rakið er í grein Kára Stefánssonar. Hversu harkalega gengið var fram í niðurskurði og skipulagsbreytingum í heilbrigðismálum var ein af ástæðum þess að bæði Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir sögðu sig úr þingflokki VG og féllu frá stuðningi við „velferðarríkisstjórnina“. Þegar svo verja átti milljörðum króna til verkefna eins og  Vaðlaheiðarganga, ríkistyrkja til erlendrar stóriðju og ESB umsóknar í stað heilbrigðismála var mér öllum lokið. Ég gat ekki stutt fjárlagafrumvarp sem gekk svo þvert gegn mínum hugsjónum, gegn kosningaloforðum og  stefnu flokksins  sem ég þá  tilheyrði og gegn  almannaheill í landinu.

Heilbrigðisþjónusta  en ekki bara rekstur

Umræðan um stöðu heilbrigðismála á Íslandi er komin á suðupunkt og ekki að ástæðulausu.Hjúkrunarfræðingar áhyggjufullir Gæti valdið óbætanlegu tjóni

Heilbrigðisstéttirnar hafa verið í fararbroddi umræðunnar: Læknar, hjúkrunarfólk, geislafræðingar, ljósmæður, sjúkraliðar, lögreglumenn, almennt starfsfólk, hafa tekið þessa umræðu í krafti þekkingar sinnar og reynslu á vettvangi. Það er þjónustan og öryggi hennar sem brennur á þessu ágæta fólki. Stjórnvöld hafa á hverjum tíma reynt að gera heilbrigðismálin að deilu um kaup og kjör fólksins sjálfs en forðast að taka á umræðunni um stöðu heilbrigðismála; hvaða þjónustu við sem þjóð viljum setja á oddinn, sækja fram og verja.

Komið að örlagastundu í heilbrigðisþjónustu landsmanna

 Sú spurning er pólitísk en ekki kjaraleg , þótt vissulega tengist hún forgangsröðun fjármuna. Reynslan af síðustu ríkisstjórn sýnir að það hefur litlu breytt til þessa, hvort það er svo kölluð  "vinstri" eða "hægri" stjórn í landinu, hvað heilbrigðismálin varðar,  því miður.

Sú ríkisstjórn sem nú situr verður að stíga í alvöru fram og segjast ætla að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar í landinu en ekki horfa á hana sem ískalt rekstrarverkefni með reikningslegt „debet og kredit“. Þessi spurning tekur til allrar heilbrigðisþjónustunnar í landinu, hvort heldur er landsbyggðin, höfuðborgin, sjúkraflutningar, Reykjavíkurflugvöllur, Landspítalinn eða pólitísk stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum.

Ný ríkisstjórnin getur ekki skýlt sér á bak við að gera þurfi nýjar úttektir. Það er komið að örlagastundu í íslenskri heilbrigðisþjónustu, nú þarf aðgerðir.  

(Grein birtist í Mbl. 12. sept)


Vestfirskur mjólkuriðnaður - til hamingju

Hún gladdi mig fréttin : -Mjólk ostar og skyr úr vestfirskri mjólk.-  Feðgarnir Hálfdán Óskarsson og Óskar Hálfdánarson ásamt fleirum ætla í næstu viku að hefja mjólkurvinnslu í Bolungarvík.  Sérgrein framleiðslunnar verður mjólk án mjólkursykurs eða laktósafrí mjólk, en margir hafa ofnæmi fyrir laktósa í mjólk: „ Stútfullar skyrdósir, ávalir ostar, hnausþykkur þeytirjómi og belgmiklar mjólkurfernur“ munu í næstu viku renna um færibönd verksmiðjunnar. Mjólk og skyr úr vestfirskum kúm Myndskeið  

MS lokaði á Ísafirði 

Eins og nú er þá er allri mjólk af Vestfjörðum fyrst ekið suður til vinnslu og síðan aftur vestur til neyslu.  Mjólkursamsalan hætti vinnslu í mjólkurbúinu þar um mitt ár 2011 þvert gegn vilja bænda og neytenda á svæðinu. Mótmæltu þeir framkomu  MS harðlega. Bændur gagnrýna Mjólkursamsöluna  Ísfirðingar þrýsta á MS 

Beitti mér sem ráðherra

Ég beitti mér í málinu sem ráðherra. Gerði  ég forsvarsmönnum MS grein fyrir því að lokun mjólkurbúsins á Ísafirði gengi gegn pólitískri stefnumörkun fyrir   mjólkurframleiðslu í landinu, afhendingaröryggi mjólkurvara á Vestfjörðum og markmiðum sjálfbærar þróunar. Eftir lokun mjólkurbúsins væri mjólkin flutt frá bændum suður á land eða til Reykjavíkur og svo aftur vestur til neyslu samtals á annað þúsund kílómetra.Kemst ekki suður með mjólkina  Rjómalaust á Ísafirði

 Verðmiðlunargjaldið  til Vestfirðinga

MS hafði ekki lagt fram sannfærandi rök fyrir því að óhagkvæmni í rekstri búsins væri það mikil að hún réttlætti lokun þess. Ákvað ég sem ráðherra í árslok 2011 að halda eftir hluta verðmiðlunargjalds í mjólk sem ætlað er að jafna rekstrakostnað minni eininga í mjólkurvinnslu sem brýnt er að halda í rekstri af ýmsum þeim ástæðum sem nefnd eru að framan. Styrkur til mjólkurvinnslu vestra

Væri verðmiðlunargjaldið til reiðu fyrir þá sem vildu halda áfram mjólkurvinnslu á svæðinu.

Þessu var að vísu ekki fylgt eftir af eftirmanni mínum í ráðherrastól og MS gaf út þá fréttatilkynningu að mjólkurvinnslu af þeirra hálfu væri endanlega hætt á Ísafirði og tækin flutt af staðnum. Engin mjólkurvinnsla á Ísafirði 

 Gleðilegt frumkvæði á Bolungarvík

Fréttin nú  af framtaki þeirra á Bolungarvík er mér sérstakt gleðiefni og óska ég þeim farsældar í frumkvöðlastarfinu. Verðmiðlunargjaldið sem ég neitaði að greiða Mjólkursamsölunni hlýtur nú að ganga til þessara nýju mjólkurvinnslu.

Hagræðing í íslenskri stjórnsýslu !

Ég rakst á þessa góðu sögu og taki hana til sín hver sem vill: 

„Íslenskt og japanskt fyrirtæki ákváðu að keppa í róðri á áttæringi. Liðsmenn frá báðum fyrirtækjum æfðu stíft og voru í toppformi þegar að sjálfri keppninni kom. Japanir urðu 1 km á undan íslenska liðinu.  Eftir útreiðina var mórallinn að sjálfssögðu slæmur í íslenska fyrirtækinu og yfirstjórnin ákvað að fyrirtækið yrði að vinna keppnina að ári. Var settur á  fót vinnuhópur til að skoða vandamálið. Eftir heilmiklar pælingar komst vinnuhópurinn að því að Japanirnir létu sjö menn róa en einn stýra.  Hjá Íslenska liðinu var það einn sem reri og sjö stýrðu.

Nýtt skipurit

Vegna þessarar miklu krísu afréð yfirstjórn íslenska fyrirtækisins að fá ráðgjafafyritæki til að kanna strúktúr íslenska liðsins og gera nýtt skipurit, ef á þyrfti að halda. Eftir margra mánaða vinnu komust stjórnskipunarfræðingar að því að í íslenska bátnum væru það of margir sem stýrðu en of fáir sem réru. Með hliðsjón af skýrslu sérfræðinganna var strax ráðist í skipulagsbreytingar. Í stað þess að hafa sjö stýrimenn og einn áramann  voru nú hafðir fjórir stýrimenn, tveir yfirstýrimenn, einn leiðtogi stýrimanna og einn áramaður. Að auki var áramaðurinn „ mótiveraður“ samkvæmt meginreglunni : „ Að  breikka starfssvið starfsmanna og veita þeim meiri ábyrgð“

Næstu keppni unnu Japanir með 2 km forskoti.

Ræðarinn rekinn

Íslenska fyrirtækið rak að sjálfssögðu áramanninn með tilliti til lélegrar frammistöðu, en greiddi stjórninni bónus vegna þeirrar miklu vinnu sem hún hafði innt af hendi. Ráðgjafafyrirtækið gerði nú aðra úttekt og komst að þeirri niðurstöðu að valin hefði verið rétt taktík og hvatning, því væri það búnaðurinn sem þyrfti að einbeita sér að. Í dag er íslenska fyrirtækið að láta hanna nýjan bát“.(Úr  verkfræðiblaðinu)

Árangur í hnotskurn

Þessi saga lýsir í hnotskurn mörgum hagræðingaaðgerðum íslenskra stjórnvalda á undanförnum árum og árangri þeirra. Er skemmst að minnast sameiningu ráðuneyta, stofnana í heilbrigðismálum,  byggingu nýs landspítala og hagræðngaraðgerðir í fjölmargri annarri almannaþjónustu. Enn á að halda áfram á þeirri braut? Í stað verka er unnar greinargerðir, skipaðar nefndir á nefndir ofan sem  bendir til að parkisonslögmálið lifi góðu lífi. Útþensla eftirlitsiðnaðar og æ flóknara regluverk á flestum sviðum er oft afrakstur hagræðingar og niðurskurðarvinnunnar eins og dæmin sanna.

Ég hef hinsvegar alltaf viljað stuttar og skýrar boðleiðir og sem flesta við árarnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband