Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Laugardagur, 15. mars 2014
Skemmtilegast að teikna
Eitt afabarnið, Þórir Kolka Ásgeirsson, 14 ára, opnar sína fyrstu opinberu málverkasýningu á Café Haití í dag klukkan 14. Mjög falleg mynd og opnuviðtal birtist við hann á baksíðu Morgunblaðsins í dag. Skemmtilegast að teikna
Af því tilefni leyfir afi sér að montast aðeins og samgleðjast Þóri:
Ég hef blómstrað í listinni og þess vegna langaði mig til þess að halda sýningu, þar sem ég er með svo margar myndir og mér finnst að þær þurfi að njóta sín einhvers staðar.
Margir segja að börn séu bestu málararnir, því þau máli hlutina eins og þau sjá þá án þess að vera bundin af einhverjum reglum. Þórir segir að hann hafi strax ánetjast listinni. Þegar ég fékk blýant og blað byrjaði ég strax að teikna og fannst það ótrúlega skemmtilegt, segir hann
Sýningin heitir : "Það sem augun sjá og hugurinn skynjar"
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. mars 2014
Þegar mér var sagt að fara með höfuð mitt til forsætisráðherra
Það er fróðlegt að hlusta nú á málflutning á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðna. Ég minnist vordaganna 2009 á Alþingi þegar umsóknin um aðild að ESB var á dagskrá og þröngvað í gegnum þingið. Forystumenn þáverandi ríkisstjórnarflokka , Samfylkingar og Vinstri grænna lögðust afdráttarlaust gegn því að þjóðin yrði fyrst spurð, þegar aðildarumsóknin var til umfjöllunar á Alþingi . Ég var yfirlýstur andstæðingur umsóknarinnar og sagðist myndi greiða atkvæði gegn umsóknartillögunni. Það hafði legið fyrir frá myndun ríkisstjórnar. Þegar fram kom tillaga um að þjóðin yrði spurð áður en sótt væri um studdi ég þá tillögu og lýsti því yfir á þingflokksfundi. Enda var það í samræmi við þá yfirlýsingu, að hver þingmaður færi eftir sinni sannfæringu í þessu máli utan þings sem innan, eins og formaðurinn orðaði það í atkvæðaskýringu sinni. Fyrir atkvæðagreiðsluna voru haldnir neyðarfundir í stjórnarþingflokkunum, þegar ljóst var að mögulega nyti tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu meirihlutastuðnings á Alþingi.
Forystulið beggja ríkisstjórnarflokkanna lagðist afar hart gegn þjóðaratkvæðagreiðslu þá. Forysta VG var þá nýbúin að ganga á bak orða sinna um andstöðu við aðildumsókn í aðdraganda kosninga, enda gekk sú ákvörðun þvert á stefnu flokksins. Var því haldið fram að yrði farið þá í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um, færi stjórnarsamstarfið samstundis út um þúfur. Samfylkingin, sem hafði ESB umsókn þá sem fyrr og síðar sem sitt eina mál leit á það sem stjórnarslit ef þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu yrði samþykkt á Alþingi. Hún hafði áður látið steyta á aðildarumsókn í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.
Þegar kom svo í fréttum að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu nyti stuðnings hóps þingmanna Vinstri grænna og gæti orðið samþykkt fylltust öll herbergi þinghússins af reyk. Á þingflokksfundi VG um málið var stemmingin þrunginn og þegar ég sagðist myndi styðja þjóðaratkvæðagreiðslu, féll sú ákvörðun vægast sagt í mjög grýttan jarðveg. Var mér þá einfaldlega hótað brottrekstri úr ríkisstjórn af formönnum beggja stjórnarflokkanna. Eða eins og formaður Vg orðaði það, þá var mér ætlað að ganga á fund forsætisráðherra.
Ögmundur Jónasson, sem lagði mikið í sölurnar fyrir myndun fyrrverandi ríkisstjórnar, stóð þá upp og tilkynnti að ef Jón Bjarnason ætti að ganga með höfuð sitt á fati til forsætisráðherra þá myndi heilbrigðisráðherra ganga sömu leið. Alkunna var að forsætisráðherra tók einstaka þingmenn undir vegg fyrir atkvæðagreiðsluna eða gekk á milli sæta í þingsal. Var þó búið að samþykkja áður að umsókn að ESB væri ekki ríkisstjórnarmál og hver og einn þingmaður talaði fyrir og greiddi atkvæði í þeim málum samkvæmt sannfæringu sinni.
Þeir sem vildu kíkja í pakkann hafa fengið sín svör. Framhjá Maastrichtsáttmála, Lissabonsáttmála, Kaupmannahafnaviðum, lögum og reglum ESB verður ekki gengið. Ísland verður að taka yfir öll skilyrði Evrópusambandsins refjalaust.
Það er því dapurt að horfa á þingmenn Vg halda hverja ræðuna á fætur annarri um áframhald aðlögunarsamninga við ESB, viðræður, sem þeir vita að voru löngu komnir í strand. Kröfur ESB um forræði í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum sem og samningum við önnur ríki einar sér ganga þvert á þá fyrirvara sem Alþingi setti 2009.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 8. mars 2014
Það er hægt að vera snortinn í gleði
Ásthildur Cesil Þórðardóttir skrifar afar fallegan, myndum prýddan pistil á bloggsíðuna sína í dag. Gleðin og hlýjan skín úr hverju orði og myndirnar tala fyrir sig:
Ég hef oft dáðst að Ásthildi, elju hennar, krafti og heiðarleika sem geislar frá öllu því sem hún sendir frá sér.
" Hann er 17 ára í dag, búin að vera hjá okkur Ella mínum alveg frá því að hann var 6 ára, en þar áður alla daga og oftastnær. "
Ég deili gleði þinni, Ásthildur og ykkar allra með 17 ára afmæli ömmubarnsins og afmæliskveðjur til Úlfs.
Bestu kveðjur
Jón Bjarnason
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.3.2014 kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. mars 2014
Landbúnaðarháskólarnir á Hvanneyri og Hólum
Eru öflugar menntastofnanir sem gegna víðtæku hlutverki í sérhæfðri menntun og rannsóknum á sínum sviðum. Skólasetrin, Hólar og Hvanneyri eru þungamiðja í menningu -, samfélagslegri ímynd og starfi nærumhverfisins síns sem og dreifbýlisins alls.
Ýmsir, sérstaklega í stjórnsýslunni sem þekkja lítið til landsbyggðarsamfélagsins og atvinnugreinanna sem það fóstrar klifa á að leggja beri þessa skóla niður.
Aðrir vilja svipta þá sjálfstæði sínu og fara með þá inn í aðrar fjarlægar skólastofnanir og gera að útibúum.
Nýafstaðið Búnaðarþing ályktaði um málið
Landbúnaðarháskólar á Íslandi
"Markmið
Búnaðarþing leggur áherslu á að sjálfstæði og rekstrargrundvöllur landbúnaðarháskóla á Íslandi sé tryggður. Mikilvægt er fyrir íslenskan landbúnað og þróun hans að í landinu séu öflugir skólar sem sinna endurmenntun bænda, starfsmenntanámi, háskólanámi og rannsóknum í landbúnaði. Sjálfstæðir og öflugir landbúnaðarháskólar eru mikilvægur hlekkur í framþróun og framtíð íslensks landbúnaðar.
Leiðir
Búnaðarþing 2014 leggst gegn hugmyndum menntamálaráðherra um samruna HÍ og LbhÍ. Búnaðarþing hvetur stjórn BÍ til að leita allra leiða til að tryggja áfram sjálfstæði LbhÍ. Búnaðarþing telur eðlilegt að það fjármagn sem menntamálaráðherra er tilbúinn að veita til samruna HÍ og LbhÍ fari í að styrkja rekstur LbhÍ án þess að til þess samruna komi."
Hér með er tekið undir með Búnaðarþingi og stjórnvöld brýnd til að treysta stöðu Landbúnaðarháskólanna á Hvanneyri og Hólum og standa vörð um sjálfstæði þeirra og verkefni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. mars 2014
Störukeppnin
Samningaviðræður við Evrópusambandið eru stopp. Evrópusambandið neitar að opna á viðræður um sjávarútveg. Fyrirvari og kröfur Íslendinga um fullt forræði yfir fiskimiðunum er algjörlega óaðgengilegt fyrir ESB. Þeir fyrirvarar Íslands eru bundnir í samþykktum Alþingis og ekki fram hjá þeim gengið:
"Samstaða var í nefndinni um meginmarkmið í samningaviðræðum við ESB varðandi sjávarútveginn. Þau lúta að forræði yfir sjávarauðlindinni með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Það felur í sér forræði í stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu sem byggð er á ráðgjöf íslenskra vísindamanna. Auk þess verði leitað eftir eins víðtæku forsvari í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er lúti málefni að íslenskum hagsmunum. Jafnframt verði haldið í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og skýrri aðkomu Íslendinga að mótun sjávarútvegsstefnu ESB í framtíðinni. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika þjóðhagslegt mikilvægi atvinnugreinarinnar, en meiri hlutinn telur að með þessu megi tryggja að breytingar sem verða á fiskveiðistjórn hér á landi verði að undirlagi íslenskra stjórnvalda og áhrif landsins aukist á þessu sviði í Evrópusamstarfi. Þá verði forræði þjóðarinnar tryggt yfir sjávarauðlindinni og þannig búið um hnútana að framlag sjávarútvegsins til efnahagslífsins haldist óbreytt".
Íslendingar höfðu lagt fram sína vinnu í sjávarútvegsmálum og kröfurnar lágu fyrir í þeim efnum. ESB lagði ekkert fram annað, en kröfuna um að Ísland samþykkti forræði ESB yfir fiskimiðunum.
Afturköllun IPA- styrkjanna - skýr skilaboð ESB
Einhliða afturköllun ESB á IPA-styrkjunum, aðlögunarstyrkjum sem umsóknarríki fær frá Sambandinu eru einnig skýr skilaboð í verki að þeir hjá ESB líta ekki lengur á Ísland sem umsóknarríki.
Hvernig sem menn vilja orða hlutina er umsóknin fullkomlega strand af beggja hálfu og getur ekki haldið áfram nema Alþingi taki málið aftur fyrir, felli niður fyrirvarana sem það setti með umsókninni og sendi inn nánast nýja umdsókn, sem fellur að skilyrðum og kröfum ESB. Fyrir því er enginn pólitískur meirihluti á Alþingi. Um þetta segir í greinargerðinni með þingsályktuninni:
" Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða.
Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu".
"Störukeppnin" tilgangslaus
Nú er komið í ljós að bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum verður Ísland að gefa í grundvallaratriðum eftir fyrir kröfum Evróðusambandsins til að aðlögunarferlið geti haldið áfram. Samkvæmt ákvörðun Alþingis hefur ríkisstjórnin ekki heimild til þess og áframhaldandi "störukeppni" Íslenskra stjórnvalda og ESB tilgangslaus. Hún aðeins skaðar uppbyggingu eðilegra tvíhliða samskipta milli Íslands annarsvegar og ríkjasambands Evrópbandalagsins hinsvegar.
Afturköllun umsóknarinnar er því hið eina eðlilega og heiðarlega svar Íslendinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 3. mars 2014
Valdabaráttan á Alþingi
Það dylst engum sem þekkja til þingstarfa að umræðan um ESB inni á þingi snýst takmarkað um málefnið sjálft, heldur er hún valdabarátta milli einstaklinga innan og milli flokka stjórnarandstöðunnar.
Innan Samfylkingarinnar, sem rær lífróður, fer fram grímulaus barátta um framtíðarforystusætið milli Árna Páls Árnasonar og Katrínar Júlíusdóttur. Hún birtist m.a. í því, hvort þeirra getur haft hæst og komið að stóryrðum til að fá athygli innan flokks og utan. Katrín er talin hafa skorað stig með því að grípa tækifærið og kalla Bjarna Bemediktsson, þann hógværa oddvita Sjálfstæðisflokksins " helvítis dóna" og komast upp með það.
Efnisleg umræða um stöðu ESB-samninganna er ekki mikil né heldur þá staðreynd að ferlið er stopp. Allir sjá að ekki er hægt að ganga lengra í eftirgjöf gangvart ESB nema afturkalla þau rauðu strik, sem Alþingi sjálft setti við samþykkt þingsályktunartillögunnar 17. júlí 2009 um aðildarumsókn.
ESB- umræðan er hinsvegar góð fyrir einsmálsstefnu Samfylkingarinnar til að fá aftur sess í hinni pólitísku umræðu. Sérstaklega á það við á vettvangi kratísks kjósendahóps sem rokkar á milli Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Bjartrar framtíðar, kratanna í Vinstri grænum og Samfylkingar.
Björt framtíð og Samfylkingin togast á um það hvor gleypir hinn, hver getur haft hæst. Píratar halda sig eðlilega til hlés í þessari umræðu. Innganga í ESB er ekki ofarlega á lista margs þess unga fólks sem styður í Pirata um þessar mundir, jafnvel þvert á móti. Píratar eiga þar samleið með nýbylgju ungs fólks í ESB löndunum sem eru á móti aukinni miðstýringu frá Brussel og kenna stefnu ESB um gríðarlegt atvinnuleysi ungs fólks í Evrópusambandslöndunum. Þar eru því sóknarfæri Pírata hér á landi,
Vg lendir þarna alls staðar á milli. Það treysta þeim fáir í ESB málunum og taka lítið mark á yfirlýsingum þeirra, sem gjarnan eru út og suður. Lái þeim hver sem vill
Þeim ríður þó á að ná aftur sérstöðu Vg í ESB málinu og færa sig á byrjunarreit í stefnu flokksins. Slíkir tilburðir mæta þó enn harðri andstöðu s.k. flokkseigendafélags sem ræður endanlega ferð. Vg hefur tapað stórum hluta landsbyggðarfylgisins og á nú á hættu að skiptast upp milli Bjartrar framtíðar og Pírata.
Esb umræðan er þess vegna, því miður, nýtt í allt annað pólitískt uppgjör og tafl en um afturköllun umsóknarinnar að ESB, sem er þó mál dagsins.
Afgerandi meirihluti landsmanna er hins vegar algjörlega á móti ESB-aðild og vill fá tækifæri til þess að koma þeirri skoðun rækilega á framfæri og fá umsóknina endanlega út úr heiminum. Traust á stjórnmálaflokkum til þeirra verka er eðlilega takmarkað. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eiga því allt undir að standa við ákvörðunina um afturköllun umsóknarinnar.
ESB- umræðan endurspeglar því þessa dagana fyrst og fremst deilur og átök um stöðu einstaklinga og hópa um forystu innan stjórnarandstöðuflokkanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2014 kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 1. mars 2014
ESB krafðist gjörbyltingar á íslenskum landbúnaði og matvælaframleiðslu.
Koma verður ný samþykkt Alþingis um algjöra eftirgjöf á grunngerð íslensks landbúnaðar og matvælavinnslu ef halda á aðlögunarferlinu áfram á þeim forsendum sem ESB krefst. Fyrir því er enginn pólitískur vilji sem betur fer.
Þjóðin vill halda sínum landbúnað og því eru aðlögunarviðræðurnar við ESB stopp.
Evrópusambandið býður umsóknarríki aðeins tímabundna aðlögun að lögum og regluverki sambandsins. Sumir kalla það sérlausnir. Umsóknarríkið sækir um á forsendum ESB og heitir því að gangast undir og samþykkja sáttmála, vinnureglur og lagaverk Evrópusambandsins. Þeir, sem halda því fram að um tvíhliða samninga sé að ræða og nýtt samband verði til með hverju nýju ríki eru vísvitandi að beita blekkingum.
Rétt er að benda á að hver fagráðherra fer með samninga og ber efnislega ábyrgð á málaflokkum sem heyra undir hans ráðuneyti í samræmi við samþykktir Alþingis.
Ég sem landbúnaðarráðherra kynntist því vel kröfum og vinnubrögðum ESB í landbúnaðarmálum.
Eins og allir vita er grundvallar munur á uppbyggingu landbúnaðar, stjórnsýslu og stoðkerfis hans á Íslandi og í ESB.
Á Íslandi leggjum við áherslu á fæðuöryggi og framleiðslustöðugleika, byggðamál og innlendan matvælaiðnað í einstaka greinum. Lagaumgjörðin um atvinnugreinar í landbúnaði eru því með gjörólíkum hætti á Íslandi annarsvegar og ESB - löndum hinsvegar. Um það var enginn ágreiningur.
Þetta kom greinilega fram í niðurstöðum svokallaðra rýniskýrslna þar sem greint var hverju Ísland þyrfti að breyta til að falla að laga- og stofnanaumhverfi landbúnaðar í ESB;
Í lok rýnivinnunnar um landbúnað setti samninganefnd ESB fram skriflega kröfu og fyrirspurn um:
" Hvenær og hvernig ætlar Ísland að aðlaga sinn lagaramma hvað varðar lögbært stjórnvald, forsendur faggildingar, stofnun greiðslustofu, tilnefningu vottunaraðila "?. En þetta eru allt grunnatriði í skipulagi landbúnaðarmála í ESB- löndum.
Þessu svaraði ég sem ráðherra á eftirfarandi hátt:
"Við greiningu og samanburð á lagareglum og stjórnsýslu í landbúnaðarmálum á Íslandi við hina almennu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem hefur komið fram til þessa, hefur þegar komið fram verulegur munur milli aðila á lögum og framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Umbreyting frá hinu íslenska fyrirkomulagi á þessu sviði mun tvímælalaust kalla á verulegar breytingar á lagaumhverfi og aukin umsvif stjórnsýslu, skýrslugjöf og eftirlit og fjölgun stofnana sem ekki er nauðsynleg til að framkvæma þá landbúnaðarstefnu sem hefur gilt á Íslandi í dag.
Ubdirbúningur þeirra atriða sem framkvæmdastjórnin spyr um , þ.e.a.s. ákvörðun um lögbært stjórnvald sem fer með greiðslur til landbúnaðarins, forsendur faggildingar, stofnun greiðslustofu og tilnefningu vottunarðila krefst, eins og fram kemur af spurningunni, að aðlaga þarf ramma íslenskra laga að regluverki ESB.
Stefna íslenskra stjórnvalda er skýr um að ekki verði ráðist í neina aðlögun að regluverki ESB fyrr en að staðfestur samningur um aðild liggur fyrir. Auk þess er það álit stjórnvalda að vegna smæðar landsins sé óþarft að setja á fót allt það stofnanakerfi á Íslandi ef til aðildar kæmi, sem kynnt hefur verið sem nauðsynlegt til að framkvæma hina almennu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins . Um það þurfi að semja milli aðila þegar að samningum kemur.
Af áðurnefndum ástæðum mun Ísland ekki hefja undirbúning að skipulags-og lagabreytingum né aðlaga sinn lagaramma fyrr en að lokinni samningagerð, takist samningar um aðild og fullgildingu aðildarsamnings að lokinni þjóðaratkvæðgreiðslu á Íslandi og samþykkt hans af samningsaðilum á formlegan hátt ".
Skemmst er frá því að segja að þetta skýra og skorinorða svar mitt og höfnun á kröfu Evrópusambandsins um fyrirfram aðlögun varð til þess að framkvæmdastjórnin setti opnunarskilyrði á samningskaflann í nóv. 2011 og neitaði að hefja viðræður fyrr en lögð hefði verið fram "viðunandi" aðgerðaráætlun um breytingar á íslenskum lögum og uppbyggingu nýs stofnanakerfis sem væri í samræmi við það sem gilti í ESB - löndum.
Ég hafði áður gert "varnarlínur" Bændasamtaka Íslands að grunnskilyrðum mínum sem ráðherra í samningaviðræðunum. En þær eru einnig tíundaðar sem viðmið í greinargerð utanríkismálanefndar með þingsályktunartillögunni. Þannig hafði ég á vissan hátt bundið hendur eftirmanns míns því að hann yrði þá með bréfi og formlega að kynna breytta afstöðu fagráðherrans í málaflokknum. En á þeim forsendum sem ég kynnti höfðu Bændasamtökin tekið þátt í vinnunni við landbúnaðarkaflann. Og samningamenn þeirra héldu síðan fast í þær forsendur. Þegar svo stjórnvöld höfðu í júlí 2012 unnið "viðunandi" aðgerðaáætlun að mati ESB var Íslendingum boðið að leggja fram samningsafstöðu.
Þótt einhverjir á vegum nýs ráðherra og samningshópsins hafi í framhaldi af því unnið drög að samningsafstöðu í landbúnaði fyrir Ísland, sem gengi upp gagnvart ESB var ljóst, að stjórnvöld höfðu engan pólitískan styrk hér innanlands til að leggja hana fram. Og þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir í utanríkismálanefnd um að fá að sjá drögin var því hafnað. Í framhaldi af því dagaði frekari samningsvinna uppi, uns hlé var gert á viðræðunum í byrjum árs 2013, enda kosningar í nánd!
Samningaviðræður í landbúnaði urðu í raun formlega stopp með opnunarskilyrðum ESB í nóv 2011. Þá var ljóst að ESB myndi í raun ekki halda áfram samningsvinnunni nema Íslendingar samþykktu fyrirfram að breyta landbúnaðarlöggjöf sinni og ynnu samkvæmt því. Fyrir því var hinsvegar hvorki heimild fyrir af hálfu Alþingis né pólitískur vilji og alls ekki í aðdraganda Alþingiskosninga.
Það er því ákveðin þversögn í eftirfarandi í vangaveltum í skýrslu Hagfræðistofnunar:
"Ekki tókst að klára vinnu við samningsafstöðu Íslands áður en viðræðum var frestað. Af viðræðum við ýmsa aðila má áætla að drög að samningsafstöðu í þessum málaflokki hafi verið umdeild og ekki hafi tekist að sætta ólík sjónarmið. Af viðræðum við embættismenn í Evrópusambandinu verður ekki annað ráðið en að þeir hafi ekki séð fyrir óleysanleg vandamál og þrátt fyrir að ekki hefði verið hægt að semja um undanþágu frá niðurfellingu tollverndar hefði mátt ræða hvernig mætti koma til móts við innlenda framleiðendur til að bæta þeim upp tap af afnámi verndartolla".
Umbylting á markmiðum, grunngerð og stjórnsýslu íslensks landbúnaðar er stórpólitískt mál og um það var grundvallar ágreiningur við ESB. Óljós tilvitnun í töluð orð og loðinn texta embættismanna ESB er að mínu mati ekki mikils virði. Mín reynsla sem ráðherra var sú að hafa bæri allt skriflegt og skorinort sem þar færi á milli ef ætti að vera mark takandi á.
Eins og ég skil stöðuna í samningum um landbúnað við ESB þá yrði að koma til ný samþykkt Alþingis um heimild til að semja um gjörbyltingu íslenska landbúnaðarkerfisins og markmiðum atvinnugreinarinnar ef á að vera hægt að halda áfram aðlögunarviðræðum við ESB. á þeim forsendum það sambandið krefst.Um annað er ekki að ræða.
Staðan er einfaldlega sú að þetta ferli, hvort sem menn kalla það samninga eða aðlögun er efnislega og pólitískt algjörlega stopp af beggja hálfu og getur ekki farið af stað aftur nema að Alþingi gefi eftir og breyti formlega þeim fyrirvörum sem settir voru í greinargerðinni með þingsályktuninni. Og fyrir því er enginn pólitískur meirihluti á Alþingi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.3.2014 kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 26. febrúar 2014
Tillaga okkar Atla Gíslasonar frá í okt 2012 um
Þannig hljóðar þingsályktunartillaga okkar Atla Gíslasonar frá því fyrr í haust. Hún kemur vonandi til meðferðar Alþingis á næstu dögum.
Engar varanlegar undanþágur frá lögum og regluverki ESB í boði.
Í greinargerð með tillögunni segir:
Alþingi samþykkti með þingsályktun hinn 16. júlí 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt samþykkti þingið að fylgja við aðildarviðræðurnar ítarlegu nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem kvað á um ákveðna meginhagsmuni Íslands sem settir voru sem skilyrði og afmörkuðu umboð ríkisstjórnarinnar til aðildarsamninga. Nú rúmum þremur árum síðar liggur fyrir að umsóknarferli Íslands að ESB verður ekki fram haldið nema vikið sé í verulegum atriðum frá þeim meginhagsmunum sem meiri hluti utanríkismálanefndar dró fram í áliti sínu (þskj. 249, 38. mál 137. löggjafarþings) og Alþingi gerði að skilyrðum sínum við samþykkt ályktunarinnar 16. júlí 2009. Umboð ríkisstjórnarinnar til að halda áfram aðlögunar- og aðildarvinnu er því ekki lengur fyrir hendi og telja flutningsmenn þessarar tillögu að viðræðum skuli hætt og umsóknin afturkölluð.
Þjóðin fái að segja sitt áður en lengra er haldið
Flutningsmenn telja jafnframt brýnt að ekki verði gengið að nýju til viðræðna við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar Íslands að sambandinu. Engin rök hníga að því að Ísland sæki um aðild að ríkjasambandi ef ekki er almennur vilji til aðildar.
Komið hefur í ljós að umsóknar- og aðildarferli Íslands að ESB er með allt öðrum hætti en haldið var fram af talsmönnum þess þegar umsóknin var lögð fram sumarið 2009. Kröfur ESB eru einhliða og ganga mun lengra en Alþingi hefur heimilað ríkisstjórninni að byggja á sem samningsgrundvöll. Sett hafa verið einhliða opnunarskilyrði við einstaka kafla en aðrir eru óopnaðir af hálfu ESB og allt samningsferlið lýtur algerlega geðþótta ESB. Jafnframt er krafist fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana að ESB án þess að niðurstaða sé fengin í viðræðunum. Þá verður ekki horft fram hjá því að aðildarferlið er kostnaðarsamt sem og aðild að sambandinu.
Verið að binda aðildarferlið með milljörðum króna til næstu ára
Utanríkisráðherra hefur sjálfur sagt að aðild að sambandinu mundi fela í sér umtalsvert meiri kostnað vegna krafna ESB um uppstokkun og aukið umfang stofnanakerfis landsins (B-mál 699, 91. fundur á 138. löggjafarþingi). Þar sem komið hefur í ljós að krafist er fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana fellur þessi kostnaður augljóslega til meðan á umsóknarferlinu stendur.
Fullveldisframsal
Framsal á fullveldi og einhliða kröfur og skilyrði sem ESB hefur sett í viðræðunum eru með öllu óásættanlegar fyrir íslenska hagsmuni og sjálfsforræði. Kröfur ESB ganga þvert gegn þeim meginhagsmunum og skilyrðum Íslands sem Alþingi samþykkti að fylgja hinn 16. júlí 2009. Framhald aðlögunar Íslands að ESB og eftirgjöf í stórum hagsmunamálum í alþjóðaviðræðum stríðir gegn framtíðarhagsmunum Íslands.
Þá hafa ESB og fulltrúar þess nú þegar ástundað beina íhlutun í íslensk innanríkismál í skjóli umsóknarinnar, sbr. ályktun Evrópuþingsins frá 14. mars sl., og krafist fylgispektar Íslands á alþjóðavettvangi sem er með öllu ólíðandi af Íslands hálfu. Efnahagsleg inngrip ESB í íslenskt þjóðfélag hafa alvarlegar afleiðingar og eru ekki í samræmi við forsendur umsóknarinnar. Það felur annars vegar í sér að með því er verið með peningagjöfum, sem stýrt er frá Brussel, að hafa áhrif á atvinnu, afstöðu til ESB-aðildar og almenna skoðanamyndun í landinu og hins vegar að um er að ræða falskar væntingar um áframhaldandi verkefni en þeim mun ljúka jafnskjótt og þetta gjafafé er upp urið.
Makríldeilan dæmigerð fyrir yfirgang ESB
Þá má nefna makríldeiluna og áform og hótanir Evrópusambandsins í garð Íslendinga um viðskiptaþvinganir, samtímis því sem aðildarviðræður standa yfir. Sýna þær hótanir best hvernig þetta ríkjasamband beitir sér gegn smáríki eins og Íslandi. Samningur ríkisstjórnarinnar um Icesave hefur ætíð verið skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar, enda hefur ESB nú gerst formlegur málsaðili og ákærandi gegn Íslandi í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum.
Jafnframt hafa forsendur á Evrópusambandssvæðinu sjálfu breyst í veigamiklum atriðum. Hið sama á við um starfshætti sambandsins og pólitísk tilræði þess við sjálfstjórnarrétt aðildarríkjanna, einkum á sviði efnahagsmála, sem felur í sér að eftirlit og ákvarðanir um þann málaflokk innan hvers ríkis eru færðar frá sambandsríkjunum sjálfum til miðstjórnarvaldsins í Brussel. Enn fremur hefur það komið í ljós að hin sameiginlega mynt, evran, sem var talin fela í sér vörn fyrir viðkomandi land, sem ætti í efnahagsörðugleikum, hefur þvert á móti magnað upp vanda ríkjanna og stefnir þeim í átt að gjaldþroti. Þar með eru brostnar eða gjörbreyttar veigamiklar forsendur sem lágu fyrir við samþykkt þingsályktunartillögunnar á sínum tíma.
Í ljósi þess hvernig umsóknar- og aðildarferlið hefur þróast þvert á vilja og hagsmuni íslensku þjóðarinnar telja flutningsmenn tillögunnar brýnt að Alþingi samþykki að afturkalla umsókn sína um aðild að ESB. Og umsóknin fari ekki gang aftur fyrr en þjóðin hefur verið spurð hvort hún vilji ganga í ESB.
Flutningsmenn tillögunnar eru Atli Gíslason og Jón Bjarnason
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 25. febrúar 2014
Ráðherraráð ESB - Engar varanlegar undanþágur í boði
12.12 2012 birtist meðf. frétt á Eyjunni:
"Ráðherraráð Evrópusambandsins ítrekar að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagabálk Evrópusambandsins við mögulega inngöngu í sambandið."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. febrúar 2014
ESB krafðist fullveldisafsals á fiskveiðiauðlindinni
Það lá fyrir að ESB neitaði að opna á viðræður um sjávarútvegsmál nema að Ísland féllist fyrirfram á að gefa eftir fullveldisréttinn yfir fiskveiðiauðlindinni í samræmi við samþykktir Evrópusambandsins. Um það segir svo í skýrslu Hagfræðistofnunar:
Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja löggjöf í sjávarútvegsmálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu þess. Varðveisla auðlinda nær ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða.
Til þess að samningaferill gæti hafist í ESB-viðræðunum um hvern samningskafla, sem eru 33 þurftu báðir aðilar að leggja fram svokallaða rýniskýrslu, þar sem greindur var munur á löggjöf og regluverki aðila í málaflokknum. Í rýniskýrslu Íslands var greint í hverju löggjöf Íslands vék frá regluverki ESB. Í rýniskýrslum sínum fer sambandið yfir íslenska regluverkið og hverjir séu annmarkar þess og hverju Ísland þyrfti að breyta í sinni löggjöf til að falla að kröfum ESB. Ennfremur skal rýniskýrsla ESB fela í sér tillögur framkvæmdastjórnarinnar til landa ESB hvort Ísland sé hæft til samninga um viðkomandi kafla og ef ekki þá hvaða fyrirmæli skuli gefa um úrbætur svo samningar geti hafist. Í regluverki ESB eru ákvæði um að sé um annmarka á aðlögun löggjafar umsóknarlands að ræða skuli setja opnunarskilyrði fyrir viðkomandi kafla sem skuli mætt áður en samningar um kaflann geta hafist.
Rýniskýrsla Íslands um sjávarútveg var fyrir löngu tilbúin af Íslands hálfu og rædd, en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þorði ekki að birta sína, Til þess bar of mikið í milli og sérstaklega í grundvallaratriðum. Þar bar hæst ófrávíkjanleg krafa ESB um að öll yfirstjórn auðlindarinnar færðist til Brussel.- Einungis væri hægt að semja um undanþágur til takamarkaðs tíma.
Með því að setja þá kröfu fram sem opnunarskilyrði fyrir sjávarútvegskaflann hefðu samningar um hann aldrei getað hafist og staðið óopnaðir til eilífðarnóns nema því aðeins að öllu hefði verið fórnað af Íslands hálfu aðeins til að ná samningum og fá að "kíkja í Pakkann". Það verður að hafa hugfast í þessari umræðu að ESB heldur alfarið um stýrið á þessari vegferð, ræður því hvort samningar um einstaka kafla hefjast og hvort lokið og hver útkoman er. Það er Ísland sem sækir um aðild að ESB en ekki öfugt.
Ég krafðist þess sem ráðherra að rýniskýrslan um sjávarútveg frá ESB kæmi fram og þá birtust formlega kröfur sambandsins um hverju við yrðum að breyta í okkar löggjöf. Jafnframt myndi þá birtast formleg krafa þeirra um afsal okkar á forræði auðlindarinnar. Það stóð aldrei til af minni hálfu að gefa fyrirfram eða á samningsferlinu eftir fullveldisrétt Íslands í sjávarútvegsmálum.
Krafa ESB um yfirráð á fiskveiðiauðlindinni
Samningamönnum ESB var það reyndar fullljóst að kæmi afstaða og kröfur þeirra formlega fram þá væri í raun samningum sjálfhætt. Hverjum dettur það raunverulega í hug að Ísland myndi nokkurn tíma gefa þann forræðisrétt frá sér?- Þetta var ýmsum öðrum í ísl. stjórnsýslu líka ljóst og því leiddu þeir athyglina frá sjávarútvegi að öðrum deiluatriðum eins og landbúnaði. Um þetta segir í skýrslu Hagfræðistofnunar:
Hvað varðar sjávarútvegskaflann er mikilvægt að árétta að þegar viðræðunum var frestað hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki lagt fram rýniskýrslu sína og Ísland gat því ekki lagt fram formlega samningsafstöðu sína í sjávarútvegi.
Og síðan er vikið að því að Íslendingar myndu seint hafa samþykkt þá kröfu ESB að formlegt forræði yfir auðlindum sjávar, takmarkanir við fjárfestingar og forsvar á alþjóðavettvangi færðist til Brussel. Áfram segir í skýrslu Hagfræðistofnunar:
Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja löggjöf í sjávarútvegsmálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu þess. Varðveisla auðlinda nær ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða.
Samningsstaða Íslands sterk í makrílnum
Þá er vikið að deilunum um makríl og þann rétt Íslands sem sjálfstæðs strandríkis að semja um varðveislu og nýtingu deilustofna. Ég gerði mér grein fyrir mikilvæginu, þegar ég skrifaði undir reglugerð 30.des 2011, sem kvað á um tæp 150 þús. tonn af makríl fyrir íslenska fiskiskipaflotann fyrir árið 2012. En það var að mínu mati eðlileg hlutdeild okkar í makríl, öll veidd innan eigin lögsögu,
Jafnframt vissi ég að með þeirri ákvörðun var verið að setja alla eftirgjöf af Íslands hálfu í frost gagnvart ESB næstu árin í sjávarútvegsmálum. Slíkt er reyndar rækilega undirstrikað í skemmtilegri bók fyrrverandi utanríkisráðherra, Ári Drekans en þar er því lýst hve ESB ríkin áttu erfitt með að sætta sig sjálfstæðan rétt Íslands sem fullvalda ríkis að semja um og veiða makríl í sinni eigin lögsögu.
Sóknarfæri Íslands liggja í sjálfsstæði þess og fullveldi heima sem erlendis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)