Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að naga þröskuldana í Brüssel

Það virðist of stórt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn að standa við kosningaloforð og landsfundarsamþykkt um afturköllun umsóknarinnar að ESB. Ummæli Bjarna Benediktssonar formanns flokksins  í Mbl. um að of hratt hafi verið farið í því máli, hljóta að vekja furðu. Bjarni: Evrópumálið of fyrirferðamikið

Flestir bjuggust við að ríkisstjórnarflokkarnir Framsókn og Sjálfstæðisflokkur myndu efna loforð sín og afturkalla umsóknina strax eftir kosningar í fyrra.

Að fara í bakið á utanríkisráðherra  

Þegar svo loksins kom fram ríkisstjórnartillaga utanríkisráðherra í febrúar sl. um að Alþingi samþykkti afturköllunina hafa ýmsir  ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hlaupið fram á völlinn og reynt að slá fæturna undan ríkisstjórninni í þessu máli. Þessir sömu ráðherrar og sömu þingmenn hlutu kosningu m.a. á grundvelli einarðar stefnu og loforða  þessara flokka í ESB málinu. Umsóknin skyldi afturkölluð þegar í stað.  Nú síðast fer sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins í bakið á utanríkisráðherra, leggst á þröskuldinn og segir: 

  Ég held að það sé öll­um ljóst að það hafi verið farið full­bratt á eft­ir skýrsl­unni fram með til­lög­una“

Og þó formaður Sjálfstæðisflokksins  ljúki vandræðalegu viðtali sínu  með því að segja:

„Hvað sem öllu öðru líður þá er þessi rík­is­stjórn ekki að fara í viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Það er auðvitað aðal­atriði máls­ins“ 

þá virðist hann vera á leiðinni á hnén með Halldóri Halldórssyni oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavík sem ætlar að halda áfram „að naga þröskuldana“ í dyragættum Brussel .

 Loforð skulu standa 

Svo lengi sem umsóknin verður ekki afturkölluð og gert hreint borð mun „þröskuldanagið í Brüssel   halda áfram þvert á stefnu og kosningaloforð núverandi ríkisstjórnarflokka.

 

 


Umboðslaus formaður BHM ?

 

Þótt formaður BHM geti verið persónulega þeirrar skoðunar að ganga eigi í Evrópusambandið er það býsna bíræfið, ef verið er að nota nöfn  25 sjálfstæðra félaga og  tíu þúsund félagsmenn samtakanna til þess að koma þeirri skoðun sinni á framfæri.  En  í lok umsagnar frá BHM til utanríkismálanefndar sem formaður samtakanna skrifar undir fyrir þeirra hönd segir orðrétt:

 

„BHM leggst því gegn tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn íslands um aðild að Evrópusambandinu“.  umsögn til alþingis

 

BHM er bandalag hagsmunatengdra félaga og/eða stéttarfélaga sem starfa að fag- og vinnumarkaðslegum málefnum félagsmanna sinna. BHM eru því  heildarsamtök  háskólamenntaðs fólks á vinnumarkaði.

Aðildarfélög eru 25 og heildarfélagafjöldi um 10.000.  Á heimasíðu samtakanna segir:

 

„Flest aðildarfélög BHM eru svokölluð fagstéttarfélög þar sem þau eru skipuð einstaklingum einnar fagstéttar. Háskólamenntun félagsmanna liggur til grundvallar störfum þeirra og veitir þeim tiltekin starfsréttindi. Sum félögin eru jafnframt fagfélög og starfa því bæði að hagsmunamálum sem varða kjör og réttindi félagsmanna jafnhliða faglegum málefnum stéttarinnar“.

Um markmið samtaka BHM segir:

„Grundvallarmarkmið bandalagsins er að efla fagstéttarfélög háskólamanna, standa vörð um samningsrétt þeirra og auka veg æðri menntunar á Íslandi.  Starfsemi bandalagsins byggir þannig á tveimur meginþáttum: að menntun háskólamanna sé virt sem forsenda þróunar og framfara í íslensku atvinnulífi og að hún sé metin að verðleikum til launa.“

 

Þegar litið er yfir ályktanir einstakra félaga og stjórnar BHM lúta þær fyrst fremst  að menntun, starfskilyrðum og kjaramálum félagsmanna einstakra fagstéttarfélaga.

Þess vegna kemur verulega á óvart að formaður BHM sendi inn umsögn  í nafni samtakanna um þingsályktunartillöguna um afturköllun umsóknarinnar að ESB sem nú liggur fyrir Alþingi. Ekki síður vekur það furðu að í umsögninni án rökstuðnings er hvatt til áframhaldandi aðlögunarferils að ESB og afturköllun umsóknarinnar mótmælt.  Umsóknin að ESB var komin á endastöð og verður ekki haldið áfram nema að gefnir verði eftir fyrirvarar sem Alþingi setti. Það þýðir í raun ný umsókn um aðild að ESB án skilyrða.

Á heimasíðum BHM eða einstakra aðildarfélaga þess  get ég hvergi séð að  minnst sé  á ályktun eða afstöðu til umsóknarinnar að Evrópusambandinu. Umsögn formanns BHM  í nafni samtakanna til stuðnings ESB umsókninni er því með hreinum ólíkindum.

 

Þótt formaður BHM geti verið persónulega þeirrar skoðunar að ganga eigi í Evrópusambandið er það býsna bíræfið, ef sú er raunin  að nota nöfn  25 sjálfstæðra félaga og  tíu þúsund félagsmanna til þess að koma þeirri skoðun sinni á framfæri.

 


Sparisjóður Strandamanna

 Sparisjóðaskýrslan dregur fram að þeir sparisjóðir sem störfuðu samkvæmt hugsjónum sínum  voru einu fjármálastofnanirnar í landinu sem stóðu af sér sukkið, svallið og græðgisvæðinguna. Skýrslan gefur jafnframt dökka mynd af því sem gerðist hjá þeim sparisjóðum sem sviku hugsjónir sínar,  lög, siðferði og starfslreglur og urðu græðginni að bráð. Undir þá var malað af stjórnvöldum og opnuð hliðin fyrir úlfunum oft nánum skjólstæðingum þeirra sem sátu á Alþingi og ríkisstjórn eða öðrum valdastöðum  á hverjum tíma. 

Ég minni á heimild sem Alþingi veitti illu heilli  til hlutafjárvæðingar sparisjóðanna. Ég lagðist mjög gegn þeirri ákvörðun en talsmenn fjármagnsins og takmarkalaus einkagróða höfðu sitt fram á þingi og því fór sem fór. Sparisjóður skal vera sparisjóður

Flest af því sem skýrslan greinir frá var viðbúið eða fyrirsjánlegt að myndi gerast á þeim árum þótt stærðargráðan og svikamyllurnar séu stærri og óhuggulegri en nokkurn óraði fyrir.  Aðkoma ríkisins og einstakra ráðherra er þar ekki undanskilin. 

Það er hinsvegar ekki sanngjarnt að draga þar alla sparisjóði og aðstandendur þeirra í sama dilk. Þeir sparisjóðir sem störfuðu samkvæmt hugsjónum og tilverugrunni  eins og þeim var ætlað að, stóðu betur af sér freistingar og spillingu en nokkrar aðrar fjármálastofnanir í landinu. Ég nefni Sparisjóð Strandamanna, ég nefni Sparisjóð Suður - Þingeyinga.

Sparisjóðahugsjónin enn dýrmætari nú en áður 

Það er nú ekki svo að við þessu hafi ekki verið varað. Ég flutti ítrekað á Alþingi frumvörp til laga til stuðnings sparisjóðunum og varaði við þeirri hættu sem vofði yfir,  ef sjóðirnir kæmust í hendur óprúttinna aðila. Ég sakna þess í hinni annars viðamiklu sparisjóðaskýrslu að þess skuli ekki getið þar. Um þetta var  grundvallar pólitískur ágreiningur á Alþingi á þessum árum og er enn.

Það er því ekki hægt að kenna sparisjóðahugsjóninni um hvernig fór heldur græðgisvæddum fjármálaheimi og erindrekum þeirra á Alþingi og ríkisstjórnum sém þá sátu.

Varðhundar fjármagnsins hafa verið svo harðir, að Það hefur ekki einu sinni verið hægt að ná fram lagafrumvarpi um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka þótt allir virtust sammála um nauðsyn þess og það áður en nýtt bankakerfi væri endurreist eftir hrun.

Það er mikil einföldun og hrein rangtúlkun að halda því  fram að Sparisjóðakerfið hafi gengið sér til húðar. Þá mætti alveg eins  og enn frekar segja það um bankakerfið í heild.  Ekki fæst einu sinni gefið upp hverjir eru hinir raunverulegu eigendur núverandi banka. Og þeir komast upp með að halda því leyndu.

Hins vegar koma engin lög í stað heiðarleika

Skýrslan undirstrikar að mínu viti nauðsyn þess að endurreisa og festa í sessi  sparisjóðakerfið á þeim hugsjónagrunni sem það var byggt  á og slá um það lagalegri skjaldborg. Hver vill sjá einkavædda bankaþjónustu í höndum þeirra sem engin veit hver er vera hér með algjöra fákeppniseinokun á þessari mikilvægu en viðkvæmu þjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu. 

Viðverðum að koma í veg fyrir að þeir sparisjóðir sem eftir eru verði gleyptir af stóru bönkunum og frekar að stofna nýja sparisjóði með staðbundnar þjónustuskyldur. Stóru bönkunum verður að setja ákveðnar  stærðarskorður, og skýrari  samfélags- og þjónustuskyldur. Það á að skipta núverandi bönkum upp og reka aðskilið viðskiptabankaþjónustu og þjónustu fjárfestingabanka. 

 

 

Aðskilnað viðskiftabanka og fjárfestingabanka - Hvers vegna gerist ekkert?


Samstaða þings og þjóðar í landhelgismálinu

Útfærsla fiskveiðilögusögunnar í 50 sjómílur var samþykkt samhljóða á Alþingi 15. febrúar 1972. Lúðvík Jósepsson þáverandi sjávarútvegsráðherra undirritaði síðan reglugerð um 50 mílurnar sem kom til framkvæmda 1. september 1972. Ekki skorti harkaleg viðbrögð Vestur-Þjóðverja og Breta sem hótuðu strax herskipum á Íslandsmiðin og allsherjarviðskiptabanni á íslenskar vörur. Þeir kærðu Ísland til Alþjóðadómstólsins í Haag sem úrskurðaði með fjórtán atkvæðum gegn einu Íslendingum í óhag.  Þessum úrskurði mótmælti íslenska ríkisstjórnin harðlega og kvaðst fylgja eftir ákvörðun sinni sem væri fyllilega lögmæt samkvæmt íslenskum lögum. Hverjir hefðu trúað því þá að til væru þeir  eftirmenn Lúðvíks Jósepssonar á stóli sjávarútvegsráðherra, sem  stæðu að og styddu umsókn um aðild að Evrópusambandinu, vitandi það að sú umsókn fæli í sér framsal sama réttar og þá var barist fyrir?

"Þá stækkar Ísland"

Hinn 31. ágúst 1972 flutti Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra útvarpsávarp til þjóðarinnar. Hann vísaði til einróma samþykktar Alþingis og „að baki hennar stendur þjóðin öll“.

 Útfærsla landhelginnar „byggist á þeirri sannfæringu, að réttur okkar til náttúruauðlinda landsgrunnsins sé í eðli sínu sá sami og til landsins sjálfs…“ og hann lauk ávarpi sínu: „ Það er stór dagur á morgun. Þá stækkar Ísland. Þess dags mun minnst meðan Íslandssaga er skráð.“

Við tók viðskiptabann og þorskastríð með erlendum herskipum og átökum innan lögsögu Íslendinga. „Við munum aldrei láta undan ofbeldi í þessu máli. Nú er það sem gildir að þrauka,“ sagði forsætisráðherrann.

 Þá var Snorri Jónsson en ekki Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ

Þetta var allt fyrir tíma Samfylkingarinnar, Viðskiptaþings, Evrópustofu og Gylfa Arnbjörnssonar hjá ASÍ. Hinsvegar var Snorri Jónsson þá forseti ASÍ sem beitti sér fyrir fjölmennasta útifundi til þess tíma í Reykjavík, hinn 22. maí 1973.  Yfir 30 þúsund manns mættu á Lækjartorg og lýstu yfir fullum stuðningi við útfærslu landhelginnar og mótmæltu „ innrás breska sjóhersins í íslenska fiskveiðilandhelgi“.

Hver hefði séð núverandi forystu ASÍ beita sér fyrir slíkum fundi? Þess í stað ganga menn þar fremst í flokki sem heimta inngöngu í Evrópusambandið með tilheyrandi framsali á yfirráðum fiskimiðanna til Brüssel. Ég man ekki einu sinni eftir að hryðjuverkalögum Breta á Ísland 2008 hafi verið mótmælt í þeim ranni.

 Íslendingar létu ekki deigan síga

Matthías Bjarnason varð sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Matthías var kjarkmaður mikill og fylginn sér. Hinn 15. júlí 1975 skrifaði hann undir reglugerð um að fiskveiðilögsaga Íslendinga skyldi færð út í 200 sjómílur. Algjör þjóðarsamstaða var um útfærsluna. Í ræðu sem Matthías hélt þá segir m.a.:

„Með gildistöku hinnar nýju reglugerðar er allt hafsvæðið út í 200 sjómílur frá grunnlínu allt í kringum landið lýst lögsögusvæði Íslands. Frá þeim tíma er því öll veiði erlendra skipa innan 200 mílna markanna óheimil samkvæmt íslenskum lögum nema til komi sérstök heimild veitt af íslenskum stjórnvöldum“.

Og 12. desember 1975 kærðu Íslendingar Breta fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna ásiglingar breskra skipa á íslensk varðskip innan íslenskrar landhelgi fyrir: „svívirðilega yfirtroðslu sjálfstæðis Íslendinga sem stefni friði og öryggi í voða“.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var baráttumál okkar að fiskimið strandríkis skyldu viðurkennd sem hluti auðlinda þess. Að lokum var það samþykkt í Hafréttarsáttmálanum. 200 mílna fiskveiðilögsaga strandríkis var síðan viðurkennd á alþjóðavettvangi.

Lífbelti þjóðarinnar

Varðveitum lífbeltin tvö“ sagði Kristján Eldjárn forseti í nýársávarpi 1972, gróðurinn til landsins og fiskimiðin fyrir ströndinni.

Það kostaði blóð, svita og tár að ná fullum yfirráðum yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu landsins. En þjóðin stóð sameinuð í baráttunni.

Þeir sem nú vilja halda áfram aðlögunarsamningum, innlimunarferlinu í ESB, „kíkja í pakkann“, vita að það verður ekki gert nema fyrst séu gefnir eftir fyrirvarar Alþingis frá 2009, m.a. vegna sjávarútvegsins.

Þeir sem stóðu í landhelgisbaráttunni og lögðu  líf sitt undir í stríði við stór og fullkomin erlend herskip hefðu aldrei trúað því þá að aðeins 40 árum seinna risi upp hávær hópur, jafnvel  heill stjórnmálaflokkur, forystumenn í atvinnulífi og verkalýðshreyfingu sem litu á fullveldisbaráttuna sem hagsmunastríð fyrir einstakar atvinnugreinar!

Sjálfstæðið er sívirk auðlind.

( birtist sem grein í mbl. 7.apríl 2014

Undirskriftir á fölskum forsendum

Það er í sjálfu sér sorglegt að til séu þeir íslenskir stjórnmálamenn í dag sem eru reiðubúnir að framselja  fullveldið og forræði þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni. Samningaferlið við ESB er stopp, varð það strax  árið 2011 þegar Evrópusambandið neitaði að opna á samningaviðræður um sjávarútvegsmál og lagði fram harðar og óaðgengilegar  kröfur fyrir viðræðum um landbúnað. Alþingi hafð sett mjög ákveðin skilyrði, sem fylgdu umsókninni, þröskulda sem ekki mætti stíga yfir.   ESB neitaði í raun  að halda samningaviðræðum áfram  nema að Íslendingar féllu frá þeim fyrirvörum sem Alþingi hafði sett. Þetta þekkti ég mjög vel sem ráðherra þessara mála á þeim tíma.

Fyrirvarar Alþingis skýrir

Þá verði forræði þjóðarinnar tryggt yfir sjávarauðlindinni og þannig búið um hnútana að framlag sjávarútvegsins til efnahagslífsins haldist óbreytt".

Og  áfram segir í lok greinargerðar Alþingis frá 2009:

 "  Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða.  Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi  Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu".

Svar ESB hefur alltaf verið ljóst

„Ríki geta ekki staðið fyrir utan sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins gangi þau í sambandið“ sagði  Thomas Hagleitner  fulltrúi stækkunardeildar Evrópusambandsins á þingmannfundi í Hörpunni nýlega. Og það er ekki í fyrsta sinni sem fulltrúar ESB árétta þá kröfu sína.

Þannig er staðan. Þetta ætti samninganefndarmaðurinn Þorsteinn Pálsson sem nú hefur hvað hæst  af ESB sinnum að vita manna best. Eða hversvegna lagði ESB aldrei fram rýniskýrslu sína um sjávarútveg sem var forsenda frekari viðræðna? Þorsteinn Pálsson hefur  sjálfur ítrekað sagt að ríkisstjórn sem er andvíg inngöngu í sambandið geti ekki leitt innlimunarferlið í samningum.

Undirskriftir á fölskum forsendum

Þeir sem nú kalla eftir áframhaldandi samningum og heimta um það þjóðaratkvæðagreiðslu eiga  að hafa kjark til  að segja beint:  við erum reiðbúnir að fórna forræði okkar á auðlindunum, við viljum bara fá ganga í Evrópusambandið og undir það ertu beðinn að skrifa. Vinsældir eða óvinsældir ríkisstjórnarinnar í öðrum málum eiga ekki að blandast þar inn í.

Það er mjög ódrengilegt og óheiðarlegt að kalla fólk til liðs við sig á fölskum forsendum og heimta þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað sem ekki er fyrir hendi.  Alþingi setti fyrirvara og þá verður þingið fyrst að afturkalla ef halda á áfram.

Þessi ríkisstjórn sem nú situr og meirihlutinn sem hún styðst við var kosin  til að hætta aðildarviðræðunum og að Alþingi  afturkalli umsóknina. Við það ber henni að standa.

 

 

.

 


Landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins og Evrópustofa

 Stækkunardeild Evrópusambandsins rekur svokallaða Evrópustofu hér á landi sem hluta aðlögunarferilsins undir þeim merkjum að Ísland sé umsóknarríki að ESB og þurfi sem slíkt á "aðstoð"   að halda.

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins 21.-24. febrúar 2013 í aðdraganda alþingiskosninga var hinsvegar ályktað mjög afdráttarlaust um að hætta aðlögunarviðræðum við ESB og loka Evrópustofu,  áróðursmiðstöð sambandsins hér á landi: Orðrétt segir:"

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landsfundurinn mótmælir íhlutun sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi í stjórnmálaumræðu þjóðarinnar og telur óhæfu að stækkunardeild ESB haldi úti starfsemi hér þar sem lagst er á sveif með einu stjórnmálaafli gegn öðrum.  Evrópusambandinu verði gert að loka kynningarskrifstofu þess hér".

Lokun Evrópustofu sem rekin er af Stækkunardeild  Evrópusambandsins  er fullkomlega rökrétt ákvörðun nú þegar aðildarviðræðum hefur verið hætt. Eitt meginhlutverk Evrópustofu er samkvæmt eigin skilgreiningu:" vettvangur virkrar umræðu um aðildarumsókn Íslands að ESB, þróun sambandsins og framtíð".

Þrátt fyrir yfirlýsingar beggja ríkisstjórnarflokkanna að aðildarviðræðum hafi nú verið hætt og fyrir þinginu liggi þingsályktunarartillaga frá ríkisstjórn um afturköllun umsóknarinnar er  Evrópustofa á fullu í sinum áróðri.  ASÍ og BSRB þurfa greinilega á aðstoð áróðursmiðstöðvar  Stækkunardeildar ESB að halda sbr. meðf. auglýsingu:.

"Námskeið um ESB fyrir meðlimi ASÍ og BSRB þann 27. mars, kl. 09:00-16:00, í Guðrúnartúni 1, 4. hæð. 
Evrópustofa býður upp á námskeið fyrir meðlimi ASÍ og BSRB um ESB í samstarfi við Félagsmálaskólann sem ber heitið Hvernig starfar ESB?" ( Hvernig starfar ESB? )

Stækkunardeild Evrópusambandsins rekur Evrópustofu en auk þess er Evrópusambandið með eigin sendinefnd og fjölmenna sendiskrifstofu sem að þeirra sögn hefur stöðu sendiráðs og sendiherra í samræmi við Vínarsáttmálann um réttindi og stöðu sendiráða.  

Af umræðum og umfjöllun síðustu daga er ljóst að fyllilega er tímabært að utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd taki á umsvifum og áróðurstarfsemi ESB hér á landi.

 

 


Nei við ESB og Nei til EU

Ráðstefna fullveldissamtakanna Nei við ESB á Íslandi og Nei til EU í Noregi á  Hótel Sögu sl. laugardag  tókst afar vel, fróðleg erindi og fjölsótt. Okkur er mikill styrkur af þessu samstarfi við félagana í Noregi. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1502932/?item_num=6&dags=2014-03-24

Norðmenn hafa fellt í tvígang aðildarsamning að Evrópusambandinu, 1972 og 1994. Þeir hafa því mikla reynslu af baráttu við útsendara þessa öfluga ríkjasambands sem beitir bæði  fjármagni og fjölþættri  áróðurstækni til að undirbúa jarðveginn og ná fram vilja sínum í umsóknarlandinu.

Síðan Norðmenn felldu aðild í síðara sinni hefur ESB gjörbreytt inngönguferlinu og hert skilyrðin.  

Nú eiga sér ekki lengur stað beinar samningaviðræður heldur aðlögunarferli eða eins og segir skýrt í reglum Evrópusambandsins sjálfs: 

"Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið".

Í árslok 2012 ítrekaði Ráðherraráðið þessi skilyrði sín við Íslendinga:

"Ráðherraráð Evrópusambandsins ítrekar að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagabálk Evrópusambandsins við mögulega inngöngu í sambandið." Ráðherraráð ESB: Aðildarviðræður ganga vel en Ísland þarf að samþykkja allan lagabálk ESB

 Fréttir af auknum umsvifum sendiráðs  ESB og Evrópustofu, áróðursmiðstöð ESB hér á landi er tákn um hver ásetningur þeirra er. Sendiráð ESB mun starfa áfram á Íslandi

Nýta þeir sér það að Ísland hefur enn stöðu umsóknarríkis og sem slíks áskilja þeir sér rétt til afskipta af innanríkismálum landsins.

Ráðstefnan áréttaði mikilvægi þess að ríkisstjórnin standi við þá ákvörðun sína að umsóknin að ESB verði afturkölluð með formlegum hætti eins og  núverandi stjórnarflokkar voru kosnir til.

 


Makrílstríð Norðmanna og Íslendinga ?

Per Olav Lundteigen þingmaður á norska Stórþinginu heldur erindi um Ísland -Noreg og Makrílinn á ráðstefnu Nei við ESB og Nei til Eu á Hótel  Sögu í dag. Lundteigen er þingmaður fyrir SP, Miðflokkinn norska sem stóð að fyrri ríkisstjórn. Per Olav  hefur setið á Stórþinginu um langt árabil og er  einn af leiðandi mönnum í norskri pólitík. Það eru ekki allr sammála stefnu og aðgerðum norsku ríksstjórnarinnar í makrílsamningunum og samskiptunum við Ísland. Og Per Olav Lundteigen lítur á makrílstríðið með öðrum augum en norska ríkisstjórnin gerir.

Það verður fróðlegt að heyra viðhorf þessa þekkta stjórnmálamanns í þessu gríðarstóra máli okkar Íslendinga. 

 Dagskráin fylgir hér með: 9:30- 17

 Vigdís Hauksdóttir: Opnunarávarp

Stefán Már Stefánsson, prófessor við HÍ : „Er Evrópusambandið ríki?“

Ragnar Arnalds: „De nordiska kuststaters självständighet utanför EU“ (Sjálfstæði strandríkja á Norðurslóð utan ESB)

Josef Motzfeldt: Sjálfstæðibarátta Grænlendinga

Halldóra Hjaltadóttir formaður ísafoldar. Ávarp

Odd Haldgeir Larsen: „Nei til EU som beveglse og fagbevegelsen rolle i Norge“ (Nei til EU sem fjöldahreyfing og verkalýðshreyfing í Noregi)

Erna Bjarnadóttir: „Reynslusaga af starfi fyrir hagsmunasamtök og samningahópa“

Matarhlé

Brynja Björg Halldórsdóttir:„Forgangsáhrif ESB réttar“

Haraldur Benediktsson: „Vinur hví dregur þú mig í þetta skelfilega hús?“

Helle Hagenau: „Om EÖS og Norges handelfrihet uten for EU (EES samningurinn og verslunarfrelsi Noregs utan ESB)

Halldór Ármannsson: „ESB og sjávarútvegur á Íslandi“

Per Olaf Lundteigen: ” Island, Norge og makrilen”

Ásgeir Geirsson formaður Herjans: Ávarp

Sigríður Á Andersen: “Fullveldi – nokkur praktísk atriði”

Olav Gjedrem: „Grunnlovsjubileet og 20 års jubileet for Neiet 1994“ (200 ára stjórnarskrárafmæli og 20 ár frá því að norðmenn höfnuðu ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 Ráðstefnustjórar: Jón Bjarnason og Helle Hagenau

Pallborðsumræður umsjón: Unnur Brá Konráðsdóttir

Allir velkomnir

 


Fullveldi þjóða og Evrópusamruninn

Samtökin Nei við ESB  efna í samstarfi við hreyfinguna Nei til EU í Noregi til ráðstefnu á Hótel Sögu  laugardaginn 22. mars næstkomandi. Þau sem standa að samtökunum  Nei  við ESB eru Heimssýn, Ísafold, Herjan, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.  Umræðuefni ráðstefnunnar  er  sjálfstæði og samstarf strandríkja á norðurslóð utan Evrópusambandsins og staða smáríkja, þar með talin stjórnarskrá  þeirra og lýðræðið gagnvart aukinni  miðstýringu og samruna í ríkjasambönd og stórríki.

 

Einhugur á Íslandi 1918 og 1944

               Alþingi Íslendinga samþykkti  með naumum meirihluta að senda umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu 16. júlí  2009. Ferlið allt hefur verið mjög umdeilt  og í síðustu Alþingiskosningum hlutu þeir flokkar meirihluta sem lofuðu að draga umsóknina til baka. Nú, næstum fimm árum eftir að umsóknin var send, hefur aðildarferlið verið stöðvað og fyrir Alþingi liggur ríkisstjórnartillaga um afturköllun þeirrar umsóknar. Í ár eru einnig 140 ár frá því að Íslendingar fengu eigin stjórnarskrá 1874 og 70 ár frá lýðveldisstofnun 1944. Mörgum er enn í fersku minni baráttan fyrir 50 mílna landhelginni og síðar 200 mílna fiskveiðilögsögu þegar Íslendingar þurftu að eiga við herskip og fiskiflota Evrópuríkja í þorskastríðunum. Engum hefði þá dottið í hug að hópi Íslendinga kæmi það til hugar 30-40 árum síðar að framselja forræðið yfir fiskimiðunum til fjarlægs ríkjasambands. Einhugur var meðal þjóðarinnar við stofnun fullveldis 1918, lýðveldisstofnunina 1944 og útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Nú er tekist á um hvort framselja eigi fullveldið til ríkjasambands, Evrópusambandsins sem stefnir hraðbyri í síaukinn samruna,  „United Europe“.

 

Tuttugu ár frá því Norðmenn höfnuðu ESB

               Samtökin Nei við ESB berjast gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið og vilja standa vörð um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Norðmenn hafa tvívegis fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu aðildarsamning að ESB, 25. september1972 og 28. nóvember 1994. Grasrótarhreyfingin Nei til EU í Noregi eru öflug almannasamtök sem létu mjög til sín taka á þessum örlagatímum fyrir norsku þjóðina. Þau berjast áfram af fullum krafti fyrir því að halda Noregi utan ESB. Um 27.000 félagar í 19 fylkisdeildum standa að Nei til EU. Norðmenn fagna í ár 200 ára afmæli stjórnarskrárinnar, Grunnloven, og 20 ára afmæli þess að hafa fellt í síðara sinni aðildarsamning að ESB. Aðkoma Nei til EU að ráðstefnunni hér er hluti þeirrar dagskrár sem samtökin hafa efnt til á þessu tvöfalda afmælisári í sjálfstæðisbaráttu Norðmanna.

 

Grænland gekk úr EB 1985

               Grænland, sem hluti Danmerkur, gekk árið 1973 í Efnahagsbandalag Evrópu, forvera Evrópusambandsins þrátt fyrir að um 70% þjóðarinnar greiddi atkvæði gegn því. Grænlendingar sóttu fast að fá forsjá eigin mála. Þeir fengu heimastjórn 1979 og þá var jafnframt hafin  formleg grasrótarbarátta fyrir því að segja Grænland  úr Efnahagsbandalaginu. Eftir að góður meirihluti Grænlendinga hafði samþykkt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 1982 að segja sig úr Efnahagsbandalaginu, hófust samningar um úrsögn sem lauk 1985 með formlegri útgöngu Grænlendinga. Grænlendingar urðu þó að láta Efnahagsbandalaginu eftir tiltekin réttindi svo sem til veiða í grænlensku lögsögunni og ýmsar aðrar skuldbindingar  sem sambandsríkin gáfu ekki eftir en buðu í einhverjum tilvikum greiðslu fyrir á móti. Eftir úrsögn Grænlendinga voru settar ákveðnar reglur eða skilyrði inn í sáttmála Evrópusambandsins fyrir úrsögn, m.a. á þá leið að ná þyrfti samningum við hin aðildarríkin um hvernig fara skyldi með gangkvæm réttindi og skuldbindingar sem komist höfðu á við inngöngu í sambandið. Grænlenska þjóðin fetar sig áfram skref fyrir skref að auknu sjálfstæði.  Jósef Motzfeldt sem heldur  eitt aðalerindi á ráðstefnunni um sjálfstæðismálin hefur sem þingmaður, ráðherra og forseti grænlenska þingsins og formaður  Inuit Ataqatigiit – flokksins  verið áhrifamikill í sjálfstæðisbaráttu Grænlendinga undanfarna fjóra áratugi.

 

Sextán fulltrúar frá Noregi

               Sextán manna hópur kemur frá Nei til EU í  Noregi á ráðstefnuna og flytja fjórir fulltrúar úr þeim hópi  erindi. Allt er þetta forystufólk úr Nei til EU hreyfingunni í Noregi. Þau eru Helle Hagenau alþjóðamálastjóri Nei til EU, Odd Haldgeir Larsen varaformaður Fagforbundet , stærsta stéttarfélags í Noregi  og  Olav Gjedrem formaður  Nei til EU í Rogalandfylki, en þau  fara fyrir hópnum  ásamt  Per Olav Lundteigen  þingmanni Miðflokksins á Stórþinginu

 

Ráðstefnan sem haldin er í ráðstefnusal Hótel Sögu hefst klukkan 9:30 laugardaginn 22. mars og er öllum opin, allir velkomnir.

 

( Birtist sem grein í Morgunblaðinu 21. mars ) 

 

 

 


Nú skal þjarmað að Grænlendingum í makrílnum

 Ýmislegt á eftir að koma upp úr hattinum í nýgerðum makrílveiðisamningum. Að deila og drottna með hótunum, þvingunaraðgerðum og blíðmælgi á víxl er þekkt aðferð yfirgangssamra stórríkja gangvart þeim minni.  Grænlendingar ósáttir við makrílsamninginn 

 ESB hafði sett Færeyingum rækilega stólinn fyrir dyrnar með nánast hryðjuverkaaðgerðum sem fólust í því að banna Færeyskum skipum og fiskvinnslum að landa eða selja fiskafurðir í ESB löndunum. Nærri 100% af gjaldeyristekjum Færeyinga er háð fiskútflutningi. Fiskveiðilögsaga Færeyinga liggur að lögsögu annarra ríkja eins og Noregi og Skotlandi og gagnkvæmar fiskveiðiheimildir eru þeim afar mikilvægar.

Að mínu mati áttu Íslendingar að standa mun þéttar með Færeyingum gegn aðgerðum ESB. Minnumst þess þegar Færeyingar einir þjóða stóðu með Íslendingum í bankahruninu gegn stórríki Evrópu. Íslendingum hafði jú verið hótað sömu þvingunum og refsiaðgerðum vegna makrílveiðanna  og Færeyingar voru beittir. Færeyingar eru þó mun minna ríki en Ísland og enn háðara fiskveiðum en við. Því var það léttar fyrir stórríkið ESB  að komast upp á milli Íslendinga og Færeyinga með því að pína þá síðarnefndu en strjúka Íslendingum samtímis og þeim var hótað.

Íslendingar áttu að taka frumkvæðið, hafna viðræðum við ESB undir hótunum og viðskiptaþvingunum og taka upp mjög náið samstarf við Færeyinga og Grænlendinga, halda þeim þétt að sér. Reynslunni ríkari af makrílveiðum Íslendinga ætlar nú ESB  að girða fyrir að Grænlendingar geti á eigin spýtur veitt makríl og þróað þær veiðar.

  Meðfylgjandi frétt Ríkisútvarpsins leiðir aðeins inn í þann grimma veruleika sem ESB beitir minni strandríkin og nú Grænland. Grænlendingar ósáttir við makrílsamninginn

Jafnframt eru dregnir fram þeir afarkostir um aðgengi að fiskimiðunum sem ESB setti Grænlendingum þegar þeir sömdu sig úr Efnahagsbandalaginu 1985. Markmið stórríkisins ESB er að deila og drottna í fiskveiðum á Norðurslóð. Og sundruð strandríkin eru þeim auðveld bráð. Íslendingar eiga þann góða kost að setja einhliða makrílkvóta og halda sínum hlut frá fyrri árum 16- 17 % af heildarveiði og leita aftur samstarfs við Grænlendinga og Færeyinga.

Norðmenn munu seint semja við Íslendinga um makríl meðan ESB - umsóknin er virk.  Því fari Ísland í ESB fer makríllkvótinn með  til Brussel og verður hluti af heildarmakrílkvóta ESB, óháð því hvort hann veiðist hér þá eða ekki.   Grænlendingar ósáttir við makrílsamninginn

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband