Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ísland með sterka stöðu utan ESB

Úrslit kosninganna til Evrópuþingsins er kallaður pólitískur jarðskjálfti  fyrir  Evrópusambandið.

Íslendingar þekkja vel ógnir jarðskjálftanna og vita að þeir eru ekki eftirsóknarverðir. Oft  tekur mörg ár að vinna úr afleiðingum skjálftanna. Jarðskjálftarnir  innan Evrópusambandsins eru hinsvegar af mannavöldum og þar hefjast nú hjaðningavíg  og leitin að sökudólgunum.

Andstæðingar Brüsselvaldsins vinna stórsigur

Andstæðingar hinna miklu valdþjöppunar ESB unnu stórsigur í flestum löndum Evrópusambandsins. Þeim sigri verður væntanlega  fylgt eftir þegar þingið kemur saman. Vald og áhrif Evrópuþingsins sjálfs eru þó mjög lítil, en þar ræður framkvæmdastjórnin  og skriffinnskuapparatið ferð.

Hinsvegar munu þessa kosningar og mikla andstaða við stefnu ESB hafa áhrif innan einstakra aðildarlanda.  Það er mikill misskilningur og einföldun hjá þeim sem halda því fram að andstaðan við valdasamþjöppunina í ESB og aukið áhrifaleysi einstakra aðildarlanda hafi með kynþáttafordóma að gera. Ríkjandi valdhafar og áhangendur  Stórríkisins Evrópu grípa skjótt til slíkra upphrópanna  til þess að koma sér hjá efnislegri umræðu.

Pólitiskt áhrifaleysi einstakra aðildarlanda

Margar þjóðir heldu að lausn á einstökum tímabundnum vandamálum  hjá þeim sjálfum fælist í aðild að Evrópusambandinu . Nú vaknar fólk upp við þann vonda draum að það er hið miðstýrða apparat Evrópusambandsins sjálfs sem er vandinn.  Fyrst var það efnahagskreppan í Evrópu þar sem byrðunum, skuldunum  var fyrst og fremst  varpað á almenning í jaðarlöndunum.

Nú er það pólitísk áhrifaleysi og vanmáttur gagnvart miðstýringunni sem kallar á hörð viðbrögð almennings - jarðskjálfta.

Meira að segja Frakkar, annað öxulveldi Evrópusambandsins  gerir uppreisn gagnvart  vegferð ESB, hvað þá með minni ríki sem fjarlægari eru höfuðstöðvunum.

Við okkur blasir vandamál samþjöppunarinnar  á litla Íslandi : á Þingeyri, á Djúpavogi og víðar.

Niðurskurður á heilbrigðistofnunum á landsbyggðinni  og skerðing margvíslegar opinberrar þjónustu sem safnast síðan upp í Reykjavík er kerfislægur pólitískur vandi okkar  því miður.

En yrðum við betur sett að allt Ísland yrði allt eins og "Djúpivogur" undir  Evrópusambandinu og miðstýringu frá Brüssel? 

 Sumarþing og afturköllum umsóknina að ESB

 Kosningarnar til Evrópusambandsþingsins undirstrika að við höfum ekkert  inn í þennan lokaða klúbb að gera. Við Íslendingar viljum vera sjálfstæð þjóð meðal annarra þjóða og ráða málum okkar sjálf innanlands  sem og samningum við aðrar þjóðir á eigin forsendum.

Ísland er því miður áfram umsóknaríki að ESB. Ég hvet ennþá aftur til sumarþings þar sem umsóknin að Evrópusambandinum verði refjalaust afturkölluð eins og stjórnarflokkarnir hafa lofað og þingmenn þeirra voru kosnir til.


Söngur og tónlist í blóði Skagfirðinga

Helga Rós Indriðadóttir

Skagfirska óperusöngkonan Helga Rós Indriðadóttir er komin aftur heim í Skagafjörðinn. Hún skrifar mjög góða hvatningargrein um  Gildi tónlistarnáms :

" Ímynd Skagafjarðar hefur löngum verið sú að hér sé gott söngfólk og öflugt kórastarf. En við þurfum að styrkja þá ímynd að hér sé framúrskarandi tónlkistarskóli og laða þannig til okkar hæfileikaríka kennara og hlúa að þeim sem eru hér fyrir.

Hér er kennt á píanó, gítar, harmonikku og ásláttarhljóðfæri, málmblásturshljóðfæri, tréblásturshljóðfæri og strengjahljóðfæri eins og fiðlu, lágfiðlu, selló og jafnvel kontrabassa..."

Öflugt sönglíf hefur verið einkenni Skagfirðinga um aldir og Tónlistarskóli Skagafjarðarsýslu  er rekinn af miklum metnaði. Þesu góða starfi Tónlistarskólans kynntumst bæði við Ingibjörg og börn okkar vel í skólastjóratíðinni heima  á Hólum.

Frábær sópransöngkona 

Helga Rós hefur nú flutt aftur heim á æskustöðvarnar í Skagafirði eftir farsælan náms- og söngferil erlendis, en hún var m.a. fastráðin söngvari við Óperuhúsið í Stuttgart í ein 8 ár:

" Það er ótrúlega gefandi að vera komin aftur á æskuslóðirnar og skila til baka þeirri reynslu og þekkingu sem ég  ávann mér hér heima og svo í frekara námi og starfi " segir Helga Rós í grein sinni.

Ég hef ávalt verið mikill aðdándi þessarar góðu söngkonu og óska okkur öllum til hamingju með að hafa fengið Helgu Rós aftur heim í Skagafjörðinn.

Söngdeild við Tónlistarskólann 

Nú hvetur Helga Rós í grein sinni til þess að sérsök söngdeild verði stofnuð við Tónlistarskóla Skagafjarðarsýslu og er reiðubúin til að leggja fram krafta sína til þess að svo megi verða.

Helga Rós vitnar í formann Félags tónlistarskólakennara máli sínu til stuðnings:

"Rannsóknir sýna að tónlistarnám er eitt öflugasta tæki okkar til almenns þroska. Það eflir félagsþroskann og vitsmuni jafnt sem tilfinningar og sköpunargáfu. Það eflir sjálfsmynd, sjálfsþekkingu og eykur vellíðan barna og ungmenna".

Það er mikill fengur að fá Helgu Rós heim með hæfileika sína, reynslu og þekkingu til styrktar og eflingar góðu söng- og tónlistarlífi Í Skagafirði. 

 



Ólafur S. Ásgeirsson skólameistari og þjóðskjalavörður

Í dag var til moldar borinn heiðursmaðurinn Ólafur S. Ásgeirsson fyrrverandi skólameistari og þjóðskjalavörður. Útförin var gerð frá Hallgrímskirkju að viðstöddu miklu fjölmenni.

Ólafur var fæddur 20. nóv. 1947 og lést 11.maí sl. eftir nokkurra ára baráttu við krabbamein. (  Mbl:  Ólafur Sigurður Ásgeirsson )

Ólafur var skipaður fyrsti skólameistari Fjölbrautarskólans á Akranesi árið 1977, en það var í árdaga hins nýja áfangakerfis  í framhaldsskólanámi. Það hefur síðan rutt sér braut sem ríkjandi skipan náms. Ólafur er einn af aðal höfundum og brautryðjandi fyrir hina nýju framhaldskólamenntun sem við höfum búið við hér á landi síðastliðin 40 ár.

 Með tilkomu fjölbrautarskólanna runnu  gömlu iðnskólarnir þar inn.  Akranes með gróinn Iðnskóla  og fjölþættan iðnað, þó einkum stál- og skipasmíði svo  og rafvirkjun var leiðandi  fyrir hina nýju skipan iðnfræðslu í landinu.  Enn eru þessar iðn- og tæknigreinar flaggskip Fjölbrautarskólans á Akranesi.

Samningurinn um skólann var fyrst gerður milli Menntamálaráðuneytisins og Akraneskaupstaðar.  En skiptar skoðanir voru víða á Vesturlandi einkum á Snæfellsnesi um staðsetningu skólans fyrir svæðið allt. Samstarf sveitarfélaganna á Vesturlandi var þó strax náið og óx og þroskaðist næstu árin. Átti Ólafur þar drjúgan hlut að máli.

 Ég var á þessum tíma oddviti Helgafellssveitar á Snæfellsnesi.  Árið 1977- 78 var stofnuð 2ja ára Framhaldsdeild við Grunnskólann í Stykkishólmi í samstarfi við Fjölbrautarskólann á Akranesi. Fylgt var námskrá, efnisvali og námsmati Fjölbrautarskólans. Helgafellssveit stóð að stofnun Framhaldsdeildarinnar í Stykkishólmi og ég  kenndi einnig við deildina næstu 4 árin.

Mér er hugleikið einstaklega gott samstarf við  Ólaf sem skólameistara á Akranesi. Hann studdi okkur með framhaldsdeildina í Hólminum af lífi og sál og beitti þeirri lagni og hvatningu  í samstarfinu sem honum var svo lagin.  Leiðir okkar Ólafs lágu víða saman næstu árin: í Skólameistarfélaginu og eins eftir að hann varð þjóðskjalavörður og ég skólameistari á Hólum í Hjaltadal og síðan sem þingmaður. Ljúfmennska, heiðarleiki og metnaður í starfi voru einkenni Ólafs og návist hans afar notaleg og hlý.

Ég minnist Ólafs  með mikilli þökk og virðingu.

Blessuð sé minning Ólafs S. Ásgeirssonar

 Ólafur Sigurður Ásgeirsson


Frjálsar rækjuveiðar - Farsæl aðgerð

Þegar ég sem ráðherra gaf rækjuveiðar frjálsar  sumarið 2009 hafði einstakur "subbuskapur" viðgengist í meðferð aflaheimilda í rækju. Aðeins lítill hluti  úthlutaðra aflaheimilda í rækju var veiddur. Hinar aflaheimildirnar voru nýttar í brask, skiptimynt fyrir veiðar á öðrum tegundum eða hreinlega eingöngu notaðar til veðsetningar fyrir aðrar fjárfestingar. Þetta var í upphafi "hrunsins" og þjóðin þurfti á öllum störfum og verðmætasköpun til útflutings að halda.

Þess voru dæmi að aflaheimildir voru skráðar á skip sem aldrei höfðu veitt rækju og voru reyndar fullkomlega ófær um það.

 Ekki veit ég til þess að neinn hafi tapað á þessari aðgerð minni. Rækjan var veidd á ný, öllum var frjálst að veiða og hún skóp  störf og tækifæri nýrra aðila til framleiðslu á  dýrmætri útflutningsvöru.

Tæplega 1/3 hluti aflaheimilda veiddur 2005-2009

Að til séu menn sem enn bera í bætifláka fyrir svona ósóma og siðleysi er hreint með ólíkindum.

Sumir  bera fyrir sig áliti  frá Lagstofnun Háskólans sem leit aðeins á málið frá þröngu eignarhaldssjónarmiði gömlu rækjukvótaeigendanna. Það álit var enginn úrskurður og stofnuninni í raun til lítils sóma. Hæstiréttur hafði áður vísað máli einnar rækjuútgerðar frá sem höfðað var á ráðherra

 Ef litið er til úthafsveiðanna fiskveiðiárin 2005 -2009 var heildarúthlutun veiða samkv. ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar 46.648 tonn. Samanlögð veiði þessi ár var 14.034 tonn.

 

Sameign íslensku þjóðarinnar

Í markmiðsgrein fiskveiðistjórnunarlaganna stendur:

„1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum“. Í þessa grein ættu allir fyrst að vitna í áður en þeir tjá sig frekar um stjórn fiskveiða.

Mega þakka fyrir að vera ekki dregnir til ábyrgðar
Þeir sem tóku til sín aflaheimildir í rækju án þess að veiða  en nýttu heimildirnar í "brask" voru að mínu mati  miklu frekar að brjóta bæði fiskveiðistjórnunarlögin og bregðast siðferðislegri ábyrgð sem þeir báru gangvart þjóðinni. Þeir máttu þakka fyrir að vera ekki sóttir til saka og gerðir ábyrgir fyrir siðleysinu á erfiðleika tímum þjóðrinnar.

Nú hefur Alþingi samþykkt að setja rækjuna aftur í kvóta og deila honum út að hluta á gömlu útgerðirnar sem  hafa ekki einu sinni gert út á rækju síðustu ár. Rækjukvótinn er á ný  gerður verslunarvara  og siðleysið í meðferð aflaheimildanna endurvakið.

Eftir standa svo útgerðir og vinnslustöðvar sem höfðu farið af stað á ný til þess að veiða og nýta rækju til vinnslu á forsendum frjálsra ókvótasettra veiða.

Fólkið í sjávarbyggðunum á réttinn ekki útgerðin

Ég skil vel neyðarkall Ísfirðinga og annarra þeirra sem sjá sæng sína uppreidda varðandi rækjuveiðarnar og vinnsluna.  Mér finnst  Alþingi,  ráðherrar og ekki hvað síst  þingmenn Norðvesturkjördæmis  bregðast fólkinu í þessu máli.  Þeir eru í raun að svíkja íbúa sjávarbyggðanna sem hafði verið færður aftur veiðirétturinn á rækjunni með heilladrjúgum árangri.

Það er fólkið í sjávarbyggðunum, sem  á réttinn til auðlindarinnar fyrir ströndum landsins.

 

 

.

 


Sýslumenn skornir niður á landsbyggðinni

Sýslumannsembættum á landinu fækkar úr 24 í 9 samkvæmt tillögu innanríkisráðherra og samþykkt Alþingis á lokadegi þingsins. Á mannamáli þýðir þetta gríðarleg skerðing á þjónustu og fækkun stjórnsýslustarfa  á landsbyggðinni.

Samtímis álykta sveitarstjórnir um allt land um eflingu opinberrar þjónustu og mótmæla niðurskurði og stöðugum flutningi á stjónsýslustörfum af landsbyggð til Reykjavíkur. Þótt sýslumannaskipan í landinu  þurfi í sjálfu sér ekki standa óbreytt  þýðir þessi hastarlegi niðurskurður og fækkun embætta  aukna fjarlægð íbúanna  til að sækja sér þjónustuna. Jafnframt sem það er aukin kostnaður vegna fjarlægðar og ferðatíma.

Samfélagsábyrgð stjórnvalda

Með því að skera niður þjónustumiðstöðvar sínar eru stjórnvöld að víkja sér undan þeirra ábyrgð að efla og styrkja atvinnu, byggð og grunnstoðir nærsamfélagsins á landsbyggðinni.

Óljós  loforð um flutning á nýjum verkefnum samtímis til að bæta þessa samfélagsskerðingu upp  hefur hingað til  ávallt reynst blekkingin ein. Hver hugsar út frá sér. Sýslumaður skorinn hér, pósthús skorið, banakútibúi lokað, heilbrigðisstofnanir sneiddar niður og svo mætti lengi telja

 Á öllu  Vesturlandi verður 1 sýslumaður en 3 skornir. Á Vestfjörðum verður 1 sýslumaður og 3 skornir og Norðurlandi vestra verður einn sýslumaður en annar  skorinn.

Á Norðurlandi eystra verður 1 sýslumaður og 2 skornir. Á  Austurlandi verður  1 sýslumaður og 2 skornir.

Á Suðurlandi verður 1 sýslumaður og  2 skornir. Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum fær að halda sér.

Það er athyglisvert í umsögnum margra sveitarfélaga og landshlutasamtaka að þau  sýna „skilning“ á þörf og breytingum og hagræðingu, en stuðningur þeirra  er skilyrtur því að höfuðstöðvar nýrra sýslumanna verði á viðkomandi heimasvæðum  þeirra. Þannig er hægt að etja sveitarfélögum saman og ná fram niðurskurðinum

Sveitarstjórnarmenn spyrji landsbyggðarþingmenn ríkisstjórnarinnar

Það  þynnist stöðugt hryggurinn á landsbyggðar þingmönnum sem hafa til þessa reynt að standa vörð um m.a. sýslumannsembættin. Minnist ég hástemmdra yfirlýsinga þingmanna sem jafnvel sitja enn á þingi og styðja núverandi ríkisstjórn. Þeir mótmæltu sömu  áformum fyrrverandi ríkisstjórnar um  niðurskurð stjórnsýslustofnanna  á landsbyggðinni, en þegja nú þunnu hljóði og  loka eyrum fyrir varnaðar orðum kjósenda þeirra og forystumanna í héraði.

Ég lagðist gegn þessum mikla niðurskurði á stjórnsýslustörfum á landsbyggðinni bæði sem ráðherra og þingmaður og átti hlut að því að stöðva hann á sínum tíma. Ég hélt að með aukinni fjarskiptatækni væri hægt að flytja störf og verkefni frá Reykjavík  út á land, en ekki öfugt.

Hvar eru þingmenn Norðvesturkjördæmis ?

Harðast kemur niðurskurðurinn niður á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi Vestra og Austurlandi. Ég hef hlustað á forystumenn framboða um land leggja áherslu á eflingu opinberrar þjónustu og verndun starfa í heimahéraði.  Þeir  ættu að spyrja þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks  sem nú stýra niðurskurðinum í þeirra heimahéruðum. Mér verður ekki hvað síst hugsað til þingmanna Norðvesturkjördæmis með ráðherra og forseta Alþingis í broddi fylkingar.  Það heyrðist í þeim hér áður fyrr, en nú er þögnin ein nema ef fréttist af þeim í útlöndum.

 


Til hamingju Norðmenn

Ég sendi Norðmönnum hugheilar árnaðaróskir á þjóðhátíðardaginn 17. maí

Í dag eru 200 ár frá því Norðmenn fengu sína eigin stjórnarskrá að Eidsvöllum  1814.

En sjálfstæðisbaráttu sínu byggðu þeir einmitt á sama grunni og við Íslendingar. Skrifuð saga okkar og Norðmanna sem Íslendingar  færðu á bók var þeim leiðarvísirinn til frelsis.

Stjórnarskráin reyndist Norðmönnum sú vörn og baráttutæki sem leiddi þjóðina til sigurs í tvennum þjóðaratkvæðagreiðslum  gegn ágangi Evrópusambandsins.

Til hamingju Norðmenn

 

 

 


Með hlekki ESB-umsóknar um hálsinn

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks lætur afturköllun umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu enn þvælast fyrir sér. Hún gerði þá meginskyssu að afgreiða málið ekki strax eftir kosningar fyrir ári í samræmi við stefnu flokkanna og kosningaloforðin. Nú verður hún að ljúka málinu sem fyrst. Dragi hún hins vegar afgreiðslu á afturköllun ESB-umsóknarinnar fram á næsta haust má öllum vera ljóst í hvað haustþingið fer.

ESB er eina mál Samfylkingarinnar

Samfylkingin sem ræður ferð í stjórnarandstöðunni hefur umsókn að ESB sem sitt eina mál. Þess vegna er eðlilegt að hún hangi á því eins og hundur á roði. Stuðningur við þennan hreina ESB-flokk var einungis 12,9 % við síðustu alþingiskosningar en þá var í raun kosið um þessa umsókn.

ESB-umsóknin hafði verið eitt aðalmál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og flest önnur mál sem hún reyndi að koma í gegn tengdust henni. Jóhönnustjórnin missti meirihluta sinn í árslok 2011 og kom nánast engum málum áfram eftir það. ESB-umsóknin var í raun stöðvuð í nóvember 2011 með skilyrðum ESB í landbúnaðarmálum og neitun við því að ræða sjávarútvegsmál á forsendum Íslendinga.

Það hlé sem síðar var gert á viðræðunum í janúar 2013 var í raun að kröfu ESB sem vildi ekki fara með málið í þeirri stöðu í kosningabaráttuna á Íslandi þá um vorið. Eitt ár til eða frá í aðlögunarviðræðunum skipti ESB ekki miklu máli.

Dettur einhverjum í hug að Samfylkingin hefði fallist á viðræðuhlé að eigin frumkvæði og að fara þar með málefnalaus inn í kosningabaráttuna vorið 2013? Og dettur einhverjum í hug að VG hafi gert kröfu um hlé á viðræðunum við ESB, en samþykkt svo á landsfundi sínum á sama tíma að halda skyldi aðlögunarsamningum áfram?

Tafarlaus afturköllun umsóknarinnar - eini kostur ríkisstjórnarinnar

Í ESB-málinu eru aðeins tveir kostir: að sækja um aðild til þess að komast inn eða engin umsókn. Ríkisstjórnarflokkarnir voru með afdráttarlausa stefnu og loforð fyrir kosningar. Þeir ætla ekki inn í Evrópusambandið.

Tafir ríkisstjórnarinnar á því að standa við loforð sín um afturköllun ESB-umsóknarinnar hafa nú þegar orðið henni dýrkeyptar. ESB-flokkarnir á Alþingi munu taka öll önnur mál í gíslingu meðan það er óafgreitt í þinginu.

ESB-umsóknin fór ekki á sínum tíma í gang með neinni sátt. Forystumenn Vinstri grænna sviku kosningaloforð og grunnstefnu flokksins og samþykktu aðildarumsókn að ESB án þess að hafa í raun nokkuð kynnt sér í hverju umsóknin fólst, sbr. atkvæðaskýringar frá þeim tíma. Allir vita hver örlög þess flokks urðu á síðasta kjörtímabili. Hótanir um ríkisstjórnarslit og brottrekstur ráðherra og þingmanna voru nánast daglegt brauð.

VG taki aftur upp grunnstefnu flokksins í ESB-málum

Margur sannur vinstrimaður hefði viljað sjá VG í forystu þess að afturkalla umsóknina og fylgja þar með grunnstefnu sinni frekar en að líma sig við Samfylkinguna í ESB-málinu.

Það sem vekur hinsvegar furðu er að flest þau sem enn eru á þingi fyrir VG virðast föst í sama feninu og styðja áframhaldandi aðildarviðræður þvert á grunnstefnu flokksins.

Nýr formaður VG ætti að hafa myndugleika til að breyta um stefnu, slíta sig frá ESB- sinnunum í forystu flokksins og fylgja í stað þess  grunngildum Vinstri grænna  og styðja afdráttarlausa afturköllun umsóknarinnar.

Frjálst Ísland - utan ESB

Þeir sem vildu „kíkja í pakkann“ hafa fengið sitt. Evrópusambandið hefur svarað. Ísland verður að undirgangast öll lög og reglur Sambandsins og lúta vilja stofnana þess. Sjávarútvegsmálin eru þar ekki undanskilin. Samningum verður hins vegar ekki haldið áfram nema Alþingi felli niður fyrirvara sína sem nú stöðva viðræðurnar. Meðan umsóknin hefur ekki verið afturkölluð stendur Ísland áfram sem umsóknarland og lýtur þeim kröfum ESB sem það krefst. ESB sinnuð ríkisstjórn getur hvenær sem er haldið innlimunarferlinu áfram.

Umsókn um aðild að Evrópusambandinu fór af stað á sínum tíma gegn vilja þjóðarinnar og án raunverulegs meirihlutastuðnings Alþingis. ESB-flokkarnir í síðustu ríkisstjórn biðu fullkominn ósigur í alþingiskosningum fyrir ári. Ríkisstjórn sem ekki vill ganga í Evrópusambandið hefur hvorki umboð til né getur haldið þessu máli áfram. Meirihlutinn ætti því að vera skýr og Alþingi ber að afturkalla umsóknina refjalaust.

Birtist sem grein í MBL 12.mai, 2014) 

 


Þingmenn VG líma sig við Samfylkinguna í ESB-málum

Margur vinstrimaður batt vonir við að nýr formaður VG rifi sig frá hinni gömlu, ESB-sinnuðu forystu flokksins og gripi aftur til grunngildanna, sem Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð um. Í samræmi við stefnu flokksins ættu þingmennirnir að styðja afturköllun umsóknarinnar að ESB.   Í stað þess líma þeir sig  við Samfylkinguna í ESB-málum og taka þátt í málþófinu á Alþingi.

Framsókn losaði sig við ESB-gengi Halldórs Ásgrímssonar

Hollt væri fyrir þingmenn Vg að lesa af og til yfir grunnstefnu flokksins en sjálfstæð utanríkisstefna og andstaða við umsókn að Evrópusambandinu eru þar hornsteinar: 

„Áróður um að Ísland geti gengið í ESB en fengið undanþágur frá grundvallarsáttmálum þess er varasamur. Undanþágur eru jafnan hugsaðar til skamms tíma á meðan aðlögun á sér stað.“

Svo segir í stefnuskrá Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Og áfram segir:

„Samskipti við Evrópusambandið (ESB) ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.“

Kröfur ESB skýrar

Evrópusambandið sjálft segir í stækkunarhandbókinni:

Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“

Forræði sjávarútvegsmál færðist til Brüssel

Og fyrir þá sem enn efast er hægt að fletta upp í skýrslu Hagfræðistofnunar um ESB-umsóknina en þar er undirstrikað að formlegt forræði yfir auðlindum sjávar, takmarkanir við fjárfestingar og forsvar á alþjóðavettvangi færðist til Brussel. Og áfram segir í skýrslunni:

 „Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja löggjöf í sjávarútvegsmálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu þess. Varðveisla auðlinda nær ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða.“

Lúðvík Jósepsson - hetja landhelgisbráttunnar

Lúðvík Jósepsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem skrifaði undir reglugerðina um 50 mílna landhelgi 1972 og stóð í stafni þorskastríðanna hefði orðið 100 ára í júní á þessu ári.  Myndi honum ekki blöskra nú hnjáliðamýkt og undirgefni sumra sem þá töldu sig fylla flokkinn sem hann var formaður fyrir?

„Við unnum sigur,“ sagði Lúðvík Jósepsson sem var m.a. hótað brottrekstri úr ríkisstjórn vegna framgöngu sinnar. Þeim sigri megum við ekki glata til Evrópusambandsins.


Strandveiðar hafnar

Ég er stoltur af lögfestingu strandveiðanna, en þær veiðar eru eitt af því ánægjulegasta sem gerðist í tíð minni sem sjávarútvegsráðherra. Þótt umfang þeirra sé takmarkað þá hleyptu þær tvímælalaust nýju og auknu lífi í margar minni sjávarbyggðir. Strandveiðarnar veita tiltekinn rétt til veiða fyrir ströndum landsins og fénýtingu aflans án þess að eiga eða kaupa til þess sérstakar aflaheimildir. Jafnframt opna þær á möguleika fyrir kraftmikla einstaklinga til að koma í áföngum fótum undir sig í trilluútgerð. Í þessu sem öðru verður hver og einn að sjá fótum sínum forráð í fjárfestingum og sókn. Eftirlitskerfi Landhelgisgæslu og Fiskistofu er mjög öflugt og gefur sjómönnum á strandveiðum mikið öryggi.

Samkvæmt nýútgefinni reglugerð er:  

"Í maí, júní, júlí og ágúst 2014 er, að fengnu leyfi Fiskistofu, heimilt að veiða á handfæri allt að 8.600 lestir samtals af óslægðum botnfiski, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda handfæraveiðar samkvæmt reglugerð þessari".

 Nú þegar hefur verið úthlutað um 400 strandveiðileyfum.

Strandveiðarnar leysa ekki ágalla hins framseljanlega kvótakerfis. En mikilvægt er hinsvegar að standa vörð um strandveiðarnar og  koma í veg fyrir alla tilburði til að gera þessar veiðheimildir kvótasettar eða  framseljanlegar í sjálfu sér. Strandveiðarnar hafa einnig tvímælalaust mikið menningar- og samfélagslegt gildi fyrir einstaklinga sem þær stunda og sjávarbyggðir landsins.

Ég óska strandveiðisjómönnum farsæls veiðisumars. 

   


Smábátasjómenn tala skýrt í ESB málum

Sjómenn hafa ekki mörg orð um hlutina en tala skýrt.  Andstaða þeirra við ESB umsóknina er afdráttarlaus enda vita þeir vel hvað er í húfi. Þeir vilja ekki missa landhelgina og stjórnun fiskveiða undir Evrópusambandið og hið miðstýrða apparat í Brüssel. Umsögn Landssambands smábátaeigenda um tillöguna sem nú er til meðferðar á Alþingi um afturköllun umsóknarinnar að ESB er einföld, skýr og skorinorð:

„Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda samþykkir að hafna

alfarið inngöngu Íslands í Evrópusambandið og mótmælir aðildarumsókninni

harðlega".

Útfærsla landhelginnar í 200 mílur var fyrir sjómönnum hluti af sjálfstæðis- og fullveldisbaráttunni en ekki bara hagsmunastríð einstakra stétta og atvinnugreina eins og  ýmsir ESB- sinnar halda nú fram. ESB krefst yfirráða yfir fiskimiðum Íslendinga ef til aðildar kemur.

Á það hefur ekki verið' fallist og þess vegna eru viðræðurnar stopp. Ef halda á áfram viðræðum við ESB um inngöngu þá verður að framselja forræði fiskimiðanna til Brüssel.. Þetta vita íslenskir smábátasjómenn mæta vel  og þurfa ekki mörg orð um afstöðu sína.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband