Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

ESB- umsóknin afturkölluð - sigur þjóðarinnar

Þingflokkar  ríkisstjórnarflokkanna samþykktu rétt í þessu að leggja fyrir Alþingi ályktun um að hætta formlega aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið og afturkalla umsóknina frá 16. júlí 2009.Umsóknin verði dregin til baka

Það skal fúslega viðurkennt að fyrir mig persónulega er þetta  mikið gleðiefni.  Ég var andvígur þessari umsókn frá byrjun;  hún gekk gegn hugsjónum mínum og stefnu þess flokks og kosningaloforðum sem ég á þeim tíma helgaði pólitíska krafta mína, Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Forysta flokksins sem réði ferð, gekk því miður á bak kosningaloforða og grunnstefnu Vg eftir kosningarnar vorið 2009 og sótti um aðild að ESB.

Ég sem ráðherra gætti þess eins og ég gat að hagsmunum Íslands, fullveldi og forræði yfir náttúrauðlindum yrði ekki fórnað í aðlögunaferlinu. Fljótlega var ljóst að ekki yrði gengið lengra í aðlögunarferlinu  í tilteknum köflum nema látið yrði undan kröfum og skilyrðum  ESB s.s. í landbúnaðar og sjávarútvegsmálum um framsal  á fullveldi yfir auðlindunum til Brussel. Ég var ekki tilbúinn til þess né heldur taldi ég að Aþingi hefði heimilað slíkt. Þannig var staðan í árslok 2011.  Því var aðlögunarferlið í löngu raun löngu komið í algjört öngstræti þegar loks hlé var gert á ferlinu í upphafi árs 2013. Það gat ekki haldið áfram nema fyrir lægi verulegt og varanlegt framsal á fullveldi Íslendinga í grunnþáttum Lýðveldisins.

Samtökin Nei við ESB, Heimssýn, Ísafold, Herjan og Vinstrivaktin gegn ESB efndu til baráttufunda í Skagafirði og Húnavatnssýslum sl. miðvikudag og fimmtudag. Fundirnir voru afar vel sóttir og mikil stemming og einhugur að baki því að umsóknin væri afturkölluð. „Léttur baráttuhugur í fólki“

Voru þeir fyrstir í röð slíkra funda sem fyrirhuguð er víða um land. Næst í röðinni er  Reykjavík á þriðjudagskvöld.

Þessi samþykkt ríkisstjórnarflokkanna sem mbl.is greinir frá í dag um tafarlausa afturköllun umsóknarinnar er landsmönnum öllum mikið gleðiefni 

 

 

 

 


Nei við ESB- Baráttufundir framundan

Það var áfangasigur að aðlögunarviðræðurnar við ESB voru stöðvaðar. Samtökin Nei við ESB efna til baráttufunda til að fylgja því eftir að umsóknin verði endanlega afturkölluð. Næstu mánuðir geta skorið úr um hvort ríkisstjórn og Alþingi geri það eina sem réttast er - afturkalla umsóknina. Öllum er nú fullljóst sem aðrir vissu fyrir, að ESB veitir engar varanlegar undanþágur frá lögum sínum og grunnsáttmálum:

Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.

Þetta eru þeirra eigin orð. Samtökin NEI við ESB ráðast nú í upplýsinga- og kynningarátak um hvað felst í umsókn að ESB og því framsali á lýðræðisrétti og fullveldi þjóðarinnar sem aðild að sambandinu hefur í för með sér. Fyrir utan framsal á löggjafarvaldi og dómsvaldi snertir aðildin að ESB ekki hvað síst forræði okkar á náttúruauðlindum, sjávarútvegi, fiskimiðum, landbúnaði og matvælavinnslu í landinu. Sóknarfærin eru fólgin í sjálfstæðum samskiptum við aðrar þjóðir.

Fyrstu baráttufundir eru:

  • Á Sauðárkróki, Kaffi Krók, miðvikudaginn 19. febrúar, kl.20:30.

  • Á Blönduósi, Pottinum og Pönnunni, fimmtudaginn 20. febrúar, kl. 20:30.

 

Ávörp flytja: Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður og formaður Heimssýnar; Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og varaformaður Heimssýnar; Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar; Erna Bjarnadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands; Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, Sauðárkróki; Sigríður Ólafsdóttir, bóndi og ráðunautur, Víðidals­tungu; Guðrún Lárusdóttir, bóndi Keldudal, formaður Búnaðarsambands Skagfirðinga; og Gísli Árnason, framhaldsskólakennari, Sauðárkróki.

Fundarstjórar: Agnar Gunnarsson bóndi, Miklabæ, og Björn Magnússon, bóndi, Hólabaki.

(Fréttatilkynning frá Samtökunum Nei við ESB. Heimssýn- Ísafold- Herjan- Vinstrivaktin gegn ESB- Þjóðráð)

 

Afturköllum umsóknina að ESB


Rækjuveiðarnar gefnar frjálsar

 Þegar ég kom að sjávarútvegsmálum sem ráðherra 2009 hafði aðeins lítill  hluti aflheimilda í rækju verið veiddur,  heldur voru  heimildirnar nýttar  að stórum hluta í „brask“, færðar á báta sem veiddu enga rækju eða  henni skipt upp í aðrar tegundir.

Ef litið er til úthafsrækjuveiðanna fiskveiðiárin 2005 til 2009 var heildarúthlutun aflaheimilda, byggð á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem var þessi ár  46.648 tonn. Veiðin var hinsvegar samtals þessi sömu ár einungis 14.034 tonn.  32.614 tonn í úthlutuðum aflaheimildum í rækju voru ekki veiddar.

Hinsvegar voru óveiddar heimildir notaðar í óbeinar veðsetningar eða í skiptum fyrir  veiðiheimildir í öðrum fisktegundum á skipin. Það hlaut öllum að vera ljóst að slíkt siðleysi sem viðgekkst í meðferð sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar gat ekki gengið. Eftir að hafa farið yfir þær leiðir sem ég gæti gripið til sem ráðherra og virkuðu skjótast ákvað ég að gefa veiðar frjálsar á rækju sumarið 2010. Að sjálfsögðu hafði ég sem ráðherra heimild til að stöðva veiðarnar ef farið væri fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnununar, en til þess kom ekki.

Veit ég ekki til þess að nokkur hafi tapað á þessum aðgerðum mínum en heilu byggðarlögin haft af þeim ávinning sem og þjóðarbúið í heild. En það var ekki síst  gríðarlega mikilvægt í þeirri stöðu sem við vorum þá og reyndar enn að verja  öll  möguleg störf, auka  verðmætsköpun og afla gjaldeyristekna.

Þessi aðgerð mín opnaði fyrir nýja aðila inn í veiðar og vinnslu á rækju jafnframt því, að þeir sem fyrir voru gátu stundað rækjuveiðar sínar áfram.  „Braskinu“ var hinsvegar lokið og auðvitað ráku þeir sem vildu halda því upp rammakvein og leituðu m.a. til Hæstaréttar sem hafnaði þeim kröfum. Vissulega hafa komið fram ýmis  lögfræðiálit þar sem reynt er að verja  þetta „brask ástand“ sem var í rækjunni.

Mönnum sést þá gjarnan yfir  1.grein fiskveiðistjórnunarlaganna:

1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Þetta er markmiðsgrein og eftir henni ber að fara.  Þær sem síðar koma eru útfærsla á henni.

Að gefa rækjuveiðar frjálsar var hárrétt aðgerð sem og fleiri sem ég beitti mér fyrir til að bæta aðgengi nýrra aðila inn í fiskveiðarnar, s.s. strandveiðarnar, skötuselurinn, síldveiðar smábáta að ekki sé minnst á makrílinn þar sem veiðiheimildir voru stórauknar og þeim dreift á allan flotann. Ég vildi reyndar ganga enn lengra í þessa veru í breytingum á fiskveiðistjórnunarkefinu.

 


Rauða matstofan - Guðni Guðnason minning

Rauða Matstofan á Ásvallagötu 16 í Reykjavík var eins og alþýðuháskóli fyrir róttækan sveitapilt og menntskæling , en þarna var ég í fæði veturinn 1963-1964. Hún Guðrún, sem rak  Matstofuna á heimili sínu var ekkja, maður hennar hafði  fallið frá ungum börnum og ég minnist hennar sem einstaklega hlýrrar konu. Hún var  eins og móðir kostgangaranna,  þó svo aldursbil þeirra væri breitt.  Ekki veit ég hversu lengi " Rauða matstofan" hafði borið þetta nafn en „rauð“ var hún þau ár sem ég hafði þar kynni. Og  þarna leituðu einkum  námsmenn utan af landi og verkamenn sem bjuggu einir eða voru tímabundið í bænum. 

Þarna kynntist ég Guðna Guðnasyni, sem bjó  í sambúð með Guðrúnu á Ásvallagötu 16.  Þau voru hvort öðru til halds og trausts.  Guðni var afar glettinn og  glaðlyndur, víðlesinn og margfróður.  Við matborðið var gjarnan tekist á um pólitíkina, einarða verkalýðsbaráttu. Þá var það Guðni sem stýrði umræðunni og gaf ekki eftir.  Þegar nálgaðist suðupunkt  og  Guðrúnu fannst komið nóg, þjappaði Guðni efninu saman  í einfalt og  auðskiljanlegt mál hins sanna félagshyggjumanns,  kommúnista og verkamannsins á eyrinni. Hann hafði bæði hugmyndafræðina og raunveruleikann á hreinu.  Undir ljúfu og hægu yfirbragðinu leyndist  kappsfullur og einlægur stríðsmaður  fyrir bættum kjörum allra þeirra sem hallaði á í samfélaginu.  Orð hans voru okkur sem  óskráð  lög og speki  hins sanna sósialista.

Hann hafði  sterk orð um það þá hversu honum þótti  verkalýðsforystan vera hugdeig og værukær.  Mér er sem ég sjái viðbrögð Guðna við að horfa  í beinni útsendingu á  forseta ASÍ  faðma heitt og innlega  viðsemjanda sinn og andstæðing við lok smánar kjarasamninga sem hafa nú verið felldir af stórum hluta verkafólks.

Guðni  gæti hafa spurt hvort forseti ASÍ hafi nokkurn tíma faðmað  almennan verkamann svo heitt, stoltur yfir árangri beittrar baráttu.  Guðni, þessi einlægi baráttumaður hreif aðra með sér, hleypti þeim kapp í kinn hvar sem hann fór.

Guðni Guðnason fæddist á Eyjum í Kjós 2. ágúst 1915. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík miðvikudaginn 15. janúar 2014. Útförin fór fram 24. jan. sl.

Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1937 og varð cand. juris. frá Háskóla Íslands 27. janúar 1944. Starfaði að afloknu prófi á Ísafirði sem trúnaðarmaður verðlagsstjóra til ársloka 1944; var síðan ritari húsaleigunefndar Reykjavíkur til október 1946, en réðst þá sem fulltrúi á málflutningsskrifstofu Einars B. Guðmundssonar og Guðlaugs Þorlákssonar og starfaði þar til mars 1949 er hann fór til Danmerkur að kynna sér tryggingamál. Héraðsdómslögmaður 27. apríl 1946. Rak málflutningsstofu í Reykjavík 1950-1953. Stundaði sjómennsku og byggingarvinnu frá júní 1953 til október 1955. Fulltrúi hjá Steini Jónssyni hdl. í Reykjavík frá október 1955 til október 1957. Fulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ritstjóri tímaritsins Sveitarstjórnarmála frá október 1957 til ársloka 1959. Byggingaverkamaður í Reykjavík 1960 – 1963. Fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá mars 1964 – mars 1966. Fulltrúi hjá Árna Gunnlaugssyni hrl. í Hafnarfirði frá mars 1966 til júní 1978. Rak eigin málflutningsskrifstofu í Reykjavík frá júní 1978 til júní 1988. Félags- og trúnaðarstörf: Í stjórn Félags róttækra stúdenta 1939-1940. Í stjórn Sósíalistafélags Reykjavíkur 1964-73, formaður 1970-1973. Í stjórn Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar frá 1964-1984. ( Mbl.24.01.2014)

Nú er þessi höfðingi fallinn frá nær aldargamall. Það fór vel á því að bera kistu Guðna úr kirkju undir flutningi  "Nallans" alþjóðlegs baráttusöngs verkamanna.

  Einföld,  tær og kærleiksrík  lífsspeki  Guðna Guðnasonar hefur verið mér hugstæð frá okkar fyrstu kynnum.

Ég þakka Guðna stundirnar á „Rauðu Matstofunni“  og annarra góðra  síðar þegar leiðir okkar  lágu saman.

Blessuð sé minning Guðna  Guðnasonar


Ofríki ESB gegn Færeyingum heldur áfram

 

Evrópusambandið hefur í dag beitt neitunarvaldi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO við  því að tekin sé  til efnislegrar meðferðar kæra Færeyinga um lögmæti viðskiptaþvingana sem ESB hefur lagt á  vegna síldar og makrílveiða þeirra.   Kom í veg fyrir kæru Færeyja

Evrópusambandið hefur enhliða beitt Færeyinga refsiaðgerðum og  viðskiptaþvingunum vegna síldar og makrílveiða. ESB tekur sér þar lögregluvald yfir litlum strandríkjum á Norðurslóð sem eru að nýta auðlindir innan sinnar eigin lögsögu.

Í krafti stærðar setur ESB afarkosti sem eru í raun brot á alþjóðalögum. Myndu þeir hafa gert þetta t.d. gegn Rússlandi?  Gamla Nýlendustefnan heldur velli. 

Mér finnst við Íslendingar alltof aumir í þessum samskiptum og stjórnvöld eiga að bregðast mun harðar við til stuðnings Færeyingum í stríði þeirra við ESB. Þetta er líka okkar stríð. Þetta snýst um hagsmuni og sjálfstæðan rétt smáríkja til veiða í lögsögu sinni, strandríkja á Norðurslóð til að nýta auðlindar sínar og semja um þær samkvæmt alþjóðalögum.

ESB telur sig  geta deilt og drottnað í krafti stærðarmunar og komið í veg fyrir að smáþjóðir geti leitað réttar síns hjá Alþjóðastofnunum sem báðir eru aðilar að. 


"Rio Tinto Alcan" stimplað á líkama barna í Hafnarfirði

  Alþjóðlega álbræðslufyrirtækið Rio Tinto Alcan hefur keypt sig inn á líkama ungmenna í Hafnarfirði með auglýsingum á íþróttaboli þeirra. Þetta kemur fram í meðf. pistli á vef Harðar Svavarssonar Álbræðsla kaupir íþróttastarf ungmenna.
Mér finnst þetta ótrúleg lágkúra og siðlaust gagnvart börnum og ungmennum sem ekki geta varið sig gagnvart slíkum áróðri. Þeim er þarna stillt upp við vegg og hvorki þau né foreldrar þeirra hafa væntanlega neitt um málið að segja.
 
-Og eru það ekki fyrrum félagar mínir í  VG sem mynda meirihluta og eru í forystu Bæjarfélagsins. Þeir sömu og ég hvatti  og börðust gegn  útþenslu álversins, áróðri, mútum og hótunum þess  í aðdraganda atkvæðageiðslunnar um stækkunina á sínum tíma -.
 
Eitt er þó hangi slíkt stuðningsskilti á vegg í almennu keppnishúsi, ekki þó skóla. Mér finnst það þó alls ekki viðeigandi.
En  þessi framganga gagnvart börnunum í Hafnarfirði og sala á líkama þeirra finnst mér hrein óhæfa.  Hvar er nú barnaverndin í verki? Eru engar reglur sem kveða á um að vernda börn og líkama þeirra  við slíkar aðstæður?
 
Pistill Harðar: 

"Gerður hefur verið samningur milli Hafnarfjarðarbæjar og hinnar umdeildu stóriðju í bæjarjaðrinum.

Samkvæmt samningnum fá íþróttafélög 100 krónur fyrir að setja merki álbræðslunnar á keppnisbúning hvers barns.

Jafnframt skal hvert íþróttafélag birta birta fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan á vefsíði sinni og setninguna “Rio Tinto Alcan á Íslandi styður barna- og unglingastarf félagsins”

Á bréfsefni félagsins skal hvert félag birta fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan og setninguna “Rio Tinto Alcan á Íslandi styður barna- og unglingastarf félagsins...

Og á öllu kynningarefni sem varðar barna- og unglingastarf félagsins, t.d. bæklingum og auglýsingum,  birta fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan og setninguna “Rio Tinto Alcan á Íslandi styður barna- og unglingastarf (nafn félags).

Að auki eru skilgreindar kröfu gagnvart sérhverju félagi um merki álbræðslunnar í húsakynnum og aðal keppnsiaðstöðu, að flaggað sé á mótum barnanna með merki stóriðjunnar, að keppni sé haldin tileinkuð Alcan og svo framvegis.

Fyrir þessa rausnarlegu notkun á barnastarfinu fær hvert íþróttafélag að jafnaði eina milljón króna á ári sem greidd er út í tveimur hlutum.

Einhverra hluta vegna kemur orðið misnotkun upp í hugann. Ég biðst undan því að Hafnarfjarðarbær selji aðgang að barninu mínu með þessum hætti."
 
Ég tek heilshugar undir með Herði og tel þetta vera mjög alvarlegt mál sem hlýtur að verða endurskoðað og afturkallað.
 

Hvað boðar nýárs blessuð sól

Ég óska öllum lesendum bloggsíðu minnar gleðilegs árs og þakka samskiptin á liðnu ári.

Síðasta ár hefur reynst þjóðinni gjöfult til lands og sjávar. Aukning á helstu fiskistofnum í kringum landið, vöruþróun og markaðir hafa skilað miklum verðmætum í þjóðarbúið. Árgæska var jafnt yfir í landbúnaði og neysla á ínnlendri framleiðslu hefur aukist á öllum sviðum. Ferðaþjónustan er í svo miklum vexti að óvíst er hvort við náum að fylgja nægilega hratt eftir í að treysta innviði og undirstöður greinarinnar og hindra kollsiglingu í einstaka þáttum hennar.

Þessar frumatvinnugreinar hafa í raun  borið uppi aukna velsæld og endurreisn í samfélaginu. En því miður búa ákveðnir samfélagshóparnir áfram við lágar tekjur og kröpp kjör sem brýnt er að leiðrétta.

Þótt forystumenn stjórnmálaflokka hafi reynst býsna glaðbeittir við áramót  er það sjálfstæði þjóðarinnar,  yfirráð yfir verndun og nýtingu náttúruauðindanna til lands og sjávar sem hefur reynst okkur nú sem fyrr heilladrjúgt. Sem betur fer var aðlögunarferlið að ESB stöðvað en umsóknin hefur ekki enn verið afturkölluð. Það olli því vonbrigðum að hvorugur formanna ríkisstjórnarflokkanna minntust á þessa vofu sem enn hangir yfir íslensku samfélagi sem sú umsókn er. Vonandi er þetta ekki tákn um tvístiganda og vandræðagang í þem efnum.

Gengið verður hart eftir loforðum ríkisstjórnarflokkanna um að í kjölfar skýrslu utanríkisráðherra  nú um miðjan janúar um feril umsóknarinnar, verði hún formlega  afturkölluð með þingsályktun frá Alþingi.

Þegar afturköllun umsóknarinnar er komin í höfn getum við svo sannarlega  og ítrekað óskað hvert öðru og þjóðinni allri  gleðilegs árs.  


Uppgjöf ráðherra í makríldeilunni

Fréttir Stöðvar tvö í kvöld hermdu að sjávarútvegsráðherra hefði bognað fyrir hótunum  ESB  og fallist á aðeins 11,9% hlut í makílveiðunum sem er um 30% lægri hlutdeild en við nú höfum tekið okkur. Jafngildir þetta að Íslendingar  gefa eftir um 50-60 þús tonn af makríl. Sagt var í fréttinni að utanríkisráðuneytið hafi í upphafi deilunnar verið reiðubúið að fallast á 12%. Það má vera að einhver í ESB- liði utanríkisráðuneytisins hafi fundist það nóg. Hið rétta er hinsvegar að það er Sjávarútvegsráðuneytið fer með þessa samninga og ég sem ráðherra setti í upphafi samninga fram kröfuna um lágmarks 16-17% hlutdeild af heildarveiði í makríl.  Og það höfum við veitt innan íslensku fiskveiðilögsögunnar síðustu ár og talið eðlilegt. Þegar ESB bauð 3% neitaði sambandið jafnframt að viðurkenna að nokkur makríll væri við Íslandstrendur.  Óformlegt  samkomulag  um makrílinn      

 Norðmenn og Færeyingar standa utan við þetta samkomulag og hlutur Grænlendinga er ekki nefndur. Öðru vísi mér áður brá þegar Framsókn gagnrýndi Steingrím J. hart fyrir eftirgjöf við ESB í makrílnum en falla nú sjálfir enn lengra í duftið.

1.  ESB hefur  ekkert einkaumboð til að "vila og díla" í samningum strandríkjanna í makríl, þar eru allar hlutaðeigandi þjóðir á jafnréttisgrunni. Við gætum með sama hætti boðið ESB 12%.

2. Engin rök eru fyrir því að  Íslendinga séu að gefa svo mikið eftir úr veiðum af stofni sem er í örum vexti og stöðugt að færa sig norðurum og vestur fyrir Ísland og inn á alla firði og víkur við ströndina.

3. Mun nær væri að Íslendingar gæfu nú út reglugerð um upphafskvóta Íslendinga í makríl  160-170 þús tonn á næsta ári  eða um 17% af áætlaðri heildarveiði.

Íslendingar eiga að standa með Færeyingum og ásamt Grænlendingum eigum við að taka  höndum saman og semja innbyrðis um magn og gagnkvæmar veiðiheimildir í makríl og koma sameinaðir að borði í samningum við ESB og Norðmenn. Það væri manndómsbragur að því af okkur hálfu og  var minn vilji sem ráðherra.

4. ESB hefur beitt hótunum og ólögmætum yfirgangi bæði gagnvart Íslendingum og beitt Færeyinga viðskiptaþvingunum.  ESB sækist eftir viðurkenningu sem drottnunarþjóð á Norður-Atlantshafi. Með því að beygja sig fyrir kröfum þeirra er verið að gangast undir það ok að svo sé. 

 

Eftirgjöf íslenskra stjórnvalda í makríl gangvart ESB veldur miklum vonbrigðum og  veldur þjóðarbúinu  tjóni upp á fleiri milljarða króna. Sýnir þessi undanlátssemi gagnvart ESB veika og tvístígandi fætur ríkisstjórnarinnar í samskiptum við ESB. Verður að vona að Færeyingar standi á sínum hlut og komi í veg fyrir að slíkt samkomulag nái fram að ganga. 

 

 

 

 

 


Sammála Stefáni Ólafssyni - þvílík lágkúra

Að íslensk stjórnvöld  fari í málshöfðun við ESB útaf vanefndum í IPA- styrkjunum er alveg ótrúleg lágkúra og tvískinnungsháttur. Sömu stjórnvöld, sömu stjórnmálamenn lofuðu fyrir kosningar að afturkalla umsókn að ESB. Þau loforð áttu stjórnvöld að efna strax á sumarþingi og þá væri þessu máli lokið. Eftir að umsóknin væri út úr heiminum gátu þau einbeitt sér að auknum samskiptum við ESB á heiðarlegum tvíhliða grunni með hreint borð. Ef þessu heldur fram er að verða lítill munur í þessu máli  á undirlægjuhættinum hjá þessari ríkisstjórn og hinni sem var undir forystu  Samfylkingarinnar og ESB-sinnanna í VG. Bragð er að þegar Samfylkingarmanninum og Sambandssinnanum Stefáni Ólafssyni blöskrar:   „Eru engin takmörk fyrir því hversu lágkúrulegir við Íslendingar eigum að vera?“

 Að fara í máslsókn við ESB út af styrkjum sem aldrei átti að þiggja og núverandi stjórnarflokkar voru andvígir sýnir ótrúlegan skort á dómgreind og sjálfsvirðingu.  Bjóst einhver við að ESB myndi standa við þá samninga ef umsóknin væri afturkölluð?.  Forsendur styrkjanna voru þar með brostnar. Og var það vilji stjórnvalda að þessir IPA styrkir héldu áfram vitandi hver tilgangur þeirra var? Skoða réttarstöðu vegna IPA-styrkja 

Gildir þar einu hvort ESB sé að brjóta þar einhverja ímyndaða samninga eða ekki. Forsvarsmenn ESB hafa lýst því mjög ákveðið, sem við vissum fyrir  að IPA styrkir eru aðeins til að undirbúa umsóknar land til inngöngu í ESB. Styrkirnir eru hluti af innlimunarferlinu og veittir á þeim forsendum, sama  hver verkefnin eru, góð eða slæm. Esb er í raun búin að slíta þessum "viðræðum" og segir: "hættum þessari vitleysu"

 Utanríkisráðherra á bara einn kost

Utanríkisráðherra á nú þann eina kost að sýna myndugleik og standa við stefnu og kosningaloforð flokks sín og leggja strax fyrir þingið tillögu um afturköllun umsóknarinnar.

Spor fyrrverandi stjórnarflokka og svikanna hjá forystu VG  í ESB - málum ættu að hræða  núverandi stjórnarflokka til vits.

 

 

  

 


Blóðtaka fyrir Borgfirðinga

Að leggja niður Landbúnaðarháskóla Íslands  á Hvanneyri  og láta hann hverfa  inn í Háskóla  Íslands,   yrði gríðarleg blóðtaka fyrir  Borgarfjarðarhérað, allt Vesturland, atvinnuvegi og búsetu hinna dreifðu byggða, landið sem heild.  Hvanneyri í Borgarfirði hefur verið  með sæmd  eitt öflugasta  skólasetur landsins í hátt á annaðhundrað ár. Þau skammsýnu áform um að leggja niður Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri ganga jafnframt í berhögg við yfirlýsta stefnu núverandi ríkisstjórnar í landsbyggðarmálum.

Þingmenn kjördæmisins sem ég þekki lofuðu því fyrir kosningar að standa vörð um sjálfstæði háskólanna í kjördæminu, Hvanneyri, Bifröst og Hóla í Hjaltadal. Trúi ég ekki á annað fyrr en á reynir að staðið verði við þau gefin loforð enda ekkert vit í öðru.

Íbúar Borgarfjarðar bregðast hart við

 Á fjölmennum íbúafundi Borgfirðinga nýverið var samþykkt áskorun á stjórnvöld:  Fundurinn varar eindregið við þeim hugmyndum að sameina háskóla á landsbyggðinni háskólum á höfuðborgarsvæðinu og auka þannig miðstýringu háskólanáms hér á landi. Tryggja þarf rekstrargrundvöll og sjálfstæði Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands.“

Hollvinasamtök Hvanneyrar hafa ályktað í sömu veru. Fólk skilur alvöruna, sér hvað er í húfi.

 Háskólaráð LbhÍ hefur  lagt áherslu á samstarf en ekki á samruna og  að starfsemin verði byggð upp á Hvanneyri.

Nú er það ekki síst héraðsins að fylgja málum eftir og snúa því á heillavænlegri brautir.

Ég hafnaði þessum tillögum í minni ráðherratíð

 Tillögur um að leggja niður Landbúnaðarháskólann komu upp í ráðherratíð minni, en ég hafnaði þeim algjörlega. Ég lýsti þeirri afstöðu  sem ráðherra að Landbúnaðarháskóli Íslands ætti að vera sjálfstæður og höfuðstöðvar hans að vera á Hvanneyri. Sama gilti einnig um Hóla.  Naut ég í þeim efnum afdráttarlauss stuðnings forystumanna  Bændasamtaka Íslands og fjölmargra annarra  á þessum sviðum.  Ekkert hefur komið fram sem bendir til að rannsóknir og kennsla LbhÍ líði fyrir það að vera í sjálfstæðum háskóla síður en svo.

 Í nýlegri alþjóðlegri úttekt á gæðum í starfi landbúnaðarháskólanna er bent á að sérstaðan,  náin tengsl við atvinnulífið og nærumhverfið sé styrkur skólanna. Sá styrkur getur glatast við að þeir hverfi inn í aðra fjarlæga stofnun.

Útibúin munu deyja

Oft er sem stjórnsýslunni vaxi í augum „smæðin og fámennið“ utan Reykjavíkur og sú skoðun virðist of almenn að engar almenningsstofnanir geti þrifist fyrir ofan Ártúnsbrekkuna.

Sameining og aukin miðstýring eru engin töfraorð.  Það getur falið í sér ýmsa kosti að vera  "smár og knár„.  Auk þess eiga  „smæð“ og „fámenni“  við Ísland allt.

Það er tálsýn og  ekki byggt á heilindum að svipta skólann sjálfstæði  en lofa svo á móti einhverri tiltekinni starfsemi  um einhver ár.  Slík loforð  hefur  enginn á valdi sínu og er hreinn blekkingarleikur. Kerfislæg  miðstýring fjarlægra höfuðstöðva tekur þá öll völd.

Missi Landbúnaðarháskólinn sjálfstæðið  munu tengslin  við héraðið, atvinnuvegina og  landsbyggðina dofna og þynnast út.

 Í umræðunni um  Kennaraháskóla  Íslands 2007  sagði Jón Torfi Jónasson prófessor og fyrrum sviðsforseti við Menntavísindasvið Háskóla Íslands:  

„Þess vegna hef ég talið skynsamlegt að á Íslandi væru fjölmargir háskólar, hver með sitt reglukerfi, vegna þess hve regluveldin eru ráðrík. Ég tel þá stefnu stjórnvalda, sem mér sýnist birtast í þessum lögum, að setja alla ríkisháskólana inn í sama reglukerfið með sameiningu mjög misráðna. Sömuleiðis tel ég ásókn HÍ í stærri köku sem fæst með sameiningu stofnana ekki spegla skynsamlega framtíðarsýn um uppbyggingu fjölbreyttrar háskólamenntunar á Íslandi.“

Ég er sama sinnis og þessi virti prófessor við Háskóla Íslands

Háskólar landsbyggðarinnar – sjálfstæði og samvinna er þeirra auðlind

Það er mjög mikilvægt að hafa í huga styrkinn sem sjálfstæðið gefur. Útibúin, fjarlægustu deildirnar munu ávallt mæta afgangi  í fjölskyldu annarra stærri stofnana, sem allar hafa fastar hugmyndir um eiginn vöxt og viðgang.  Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri hefur byggt upp víðtækt samstarf við erlendar menntastofnanir,  verið í forystu fyrir auknu samstarfi  meðal háskólanna í landinu m.a. í gegnum  Net opinberra háskóla sem er hægt að efla enn meir.

Landsbyggðarháskólarnir eru meira en  tölur á excelskjali,  þeir  eru heil samfélög með blómlega byggð, mikla þekkingu og öflugt atvinnu- og menningarlíf að baki sér.  Með því að leggja niður Hvanneyri, Hóla eða Bifröst  sem sjálfstæð menntasetur munu heilu samfélögin og við öll verða miklu mun fátækari eftir. Látum það ekki gerast.

Grípum til varnar og sóknar fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband