Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Góð grein hjá Ögmundi Jónassyni

Mín ósk er sú að Ísland fordæmi refsiaðgerðirnar en hvetji til friðsamlegrar lausnar í Úkraínu með valddreifingu í þá veru sem Minsk samkomulagið kvað á um og jafnframt að í öllum tilvikum verði vilji íbúanna hafður að leiðarljósi en ekki hagsmunir stórvelda. Það er vesælt hlutskipti Íslands að vera hvutti í þeirra ól.

Þetta segir Ögmundur Jónasson alþingismaður og fyrrum ráðherra og rökstyður mál sitt á heimasíðu sinni og í grein í DV.:

FYRIR HVAÐ ERU ÍSLENDINGAR AÐ REFSA RÚSSUM?

 


ESB- pressan og Árni Páll kætast yfir refsiaðgerðum Rússa

Formaður Samfylkingarinnar fagnar því að Rússar skuli nú loks svara refsiaðgerðum ESB með banni á innflutningi fiskafurða frá Íslandi: "Það megi síðan spyrja hvers vegna Rúss­ar hafi ekki gripið til aðgerða gegn Íslend­ing­um á sama tíma og þeir gerðu það gegn öðrum þjóðum. „Það stakk alltaf í aug­un. En vegna þess að þeir gerðu það gagn­vart öðrum sem stóðu að viðskipta­bann­inu á sín­um tíma, þá var þetta alltaf viðbúið" segir formaður Samfylkingarinnar: "Rétt að standa gegn Rúss­um " 

Formaður Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason heldur áfram: „Auðvitað styðjum við Evrópusambandið í refsiaðgerðum þess gegn Rússum“. Að hans mati erum við á leið inn í Evrópusambandið og því eðlilegt að við látum Evrópusambandið leiða okkur í þeim efnum. 

ESB ætlar jú að bæta öðrum leppríkjum sínum hundruð milljarða tjón sem þau verða fyrir vegna viðskiptabannsins og Ísland hlýtur að geta flotið þar með. sbr. meðf. frétt: " Hafa unnið í því að bæta tjónið "

 Árni Páll og ESB-pressan veit að stuðningur við refsiaðgerðir ESB og viðskiptabann Rússa mun hinsvegar þrýsta Íslendingum enn hraðar og dýpra í faðm Evrópusambandsins, þótt umsóknin eigi að heita stopp. 

ESB pressan, Ríkisútvarpið, Stundin og Kjarninn eiga ekki orð til að lýsa aðdáun sinni á þjónkun utanríkisráðherra: Bravó Gunnar Bragi segir Kjarninn og Stundin:

"Ef Gunnar Bragi getur gripið til óhlutbundinna raka og „prinsippa um stóra hagsmuni“ - tekið skal fram að ég deili þeirri sýn hans heils hugar - þegar hann rökstyður þátttöku Íslands í stuðningi við viðskiptaþvinganir gegn Rússum þá hlýtur hann einnig að geta séð ljósið í slíkum rökum þegar hann veltir fyrir sér hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið".

Skyldi utanríkisráðherra ekki vera hugsi þegar harðasta pressan fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið ber hann orðskrýddu lofi? Samskipti Íslands og Rússlands hafa um áratugi verið friðsamleg og góð. Engin rök eða ástæða er til að Ísland hangi aftan í refsiaðgerðum Evrópusambandsins og taki á sig skellinn vegna yfirgangs þess í austurátt.


Ráðherra lækkar kröfuna um fullvinnslu makríls

 Sjávarútvegsráðherra hefur lækkað kröfuna um fullvinnslu á veiddum makríl til manneldis úr að lágmarki 70% í 50%. Það þýðir að útgerðir geta nú sett hærra hlutfall aflans í bræðslu en áður var. Þetta er afar mikil afturför en fullvinnsla makríls hafð tekist mjög vel og manneldisskilyrðin voru eitt af stýritækjum veiðanna. Um 90% makrílaflans var unnin til manneldis.

 Á vef Landssambands smábátaeigenda segir svo (Minna til manneldis):" Breytingin snýr að 3. gr. „Vinnsla til manneldis“.  

Í stað þess að skylt verði að ráðstafa mánaðarlega a.m.k. 70% af makrílafla einstakra skipa til manneldis, er hlutfallið lækkað í 50%.
Breytingin veldur vonbrigðum þar sem hlutfall makríls til bræðslu hefur minnkað jafnt og þétt á sl. árum.  Úr því að vera 100% í bræðslu á fyrsta ári makrílveiða 2007 í 11% á árinu 2014.
Eftir að hafa tekist á örskömmum tíma að færa okkur úr bræðslunni yfir í að fullvinna makrílinn er hér um afturför að ræða.  Líta verður á að breytingin sé tilkomin vegna erfiðleika á mörkuðum fyrir fullunninn makríl.
LS er ekki kunnugt um hvaða viðræður hafi átt sér stað áður en sjávarútvegsráðherra tók ákvörðun um að breyta reglugerðinni.  ...   Á þann hátt hefðum við haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið að hámarka þau verðmæti sem fást úr makrílnum.   Einnig hefði verið komist hjá neikvæðri umræðu sem óhjákvæmilega skapast þegar matfiskur er bræddur og seldur sem mjöl.
 
Screen Shot 2015-08-12 at 13.57.17.png
 
 
Ég tek undir með Landssambandi smábátaeigenda og harma þessa ákvörðun ráðherrans.
Nær hefði verið að létta af sérstöku veiðigjaldi á makríl og gefa handfæra og línuveiðar á makríl frjálsar. Stýra síðan veiðunum á flotann miðað við gæði aflans og í takt við hina siðferðilegu kröfu um fullvinnslu makrílsins til manneldis
Sjávarútvegsráðherrann hefði átt að standa vörð um hagsmuni sjávarbyggðanna vítt og breytt um landið og hafna refsiaðgerðum Evrópusambandsins á Rússland. 
Lækkun vinnsluskyldu bitnar fyrst á atvinnu við löndun og vinnslu makríls í minni sjávarbyggðum
-  Kannski ætti ráðherrann að biðja umboðsmann Alþingis um að blessa þessa siðferðislega röngu aðgerð sína í veiðum og vinnslu makríls!
 
 

Alvarleg mistök utanríkisþjónustunnar

Stuðningur við refisaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússum eru  alvarleg mistök íslensku utanríkisþjónustunnar. Með þátttöku sinni í óskilgreindum refsiaðgerðum eru Íslendingar að breyta um stefnu frá hlutleysi sem þeir hafa annars jafnan fylgt í slíkum málum allt frá stofnun sjálfstæðis landsins.

Viðskiptaþvinganirnar nú eru algjörlega á fosendum Evrópusambandsins sjálfs og Íslendingar virðast engan hlut eiga að máli við undirbúning þeirra. Ekkert mat virðist hafa verið lagt fyrirfram á tilgang þeirra, áhrif eða afleiðingar.

Viðskiptafrelsi hverrar þjóðar er hornsteinn sjálfstæðis hennar og ákvarðanir í þeim efnum eiga að takast á heimavelli en ekki sem taglhnýtingar annarra þjóða eða ríkjasambanda.

Svo virðist sem Evrópusambandið gefi út yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd um stuðninginn við refsiaðgerðirnar. Íslendingar hafa að jafnaði ekki tekið þátt í þvingunaraðgerðum stórveldanna en verið boðberar sjálfstæðis, friðar, sátta og mannréttinda á alþjóðavettvangi

Við Íslendingar höfum þurft að berjast fyrir rétti okkar og sjálfstæði sem strandríkis um yfirráð fiskveiðilögsögunnar og eðlilegri hlutdeild í deilistofnum eins og síldar, makríls og kolmunna. Þetta er hluti af fullveldisbaráttu okkar

Markaðir fyrir makrílafurðir í Rússlandi og öðrum Austur- Evrópulöndum eru okkur miklivægir.

Um 30 milljarða tekjur af makríl á ári fyrir Ísland skiptu sköpum í endurreisn efnahagskerfisins eftir hrun.

Nágranna þjóðir okkar nema Færeyingar brugðust við með hryðjuverkalögum og hótunum um viðskiptaþvinganir. Samt eru þetta áfram okkar vinaþjóðir

Nú koma menn fram af fullkominni vanþekkingu og segja ekkert mál að finna nýja markaði fyrir uppsjávarfisk eins og makríl inn í lönd Evrópusambandsins.

Staðreyndin er hinsvegar sú að það er 18% tollur á makríl inn í ESB og refsivöndurinn á lofti ef við göngum ekki að kröfum þeirra um skiptingu makrílkvóta.

Hvaða staða er það fyrir Ísland að þurfa að knékrjúpa fyrir ESB og biðja þá um að fella niður innflutningstolla á makrílafurðir?

Evrópusambandið getur sagt: sjálfssagt að skoða það en þá verðið þið fyrst að fallast á kröfur okkar um yfirráð yfir makrílveiðunum.

Stuðningur Íslands við refsiaðgerðir ESB gegn Rússum er afar vanhugsuð aðgerð og getur snúist gegn okkar eigin sjálfsákvörðunarrétti sem þjóðar eins og í fiskveiðum, frelsi í viðskiptum og áhrifum á alþjóðavettvangi

Það er mikilvægt bæði fyrir Ísland og Rússland og alþjóðasamfélagið að þessar þjóðir eigi áfram gott samstarf og fjölþætt viðskipti eins og þær hafa átt áratugum saman.

 


Gefa á veiðar smábáta á makríl frjálsar og stórauka heildarkvóta

 Hafrannsóknastofnun mælir nú enn stóraukningu á makríl í íslenskri fiskveiðilögsögu. Magnið er enn suður, vestur og austur af landinu en mun færast á grunnslóðina.:(Makrílveisla á Íslandsmiðum")

Þess vegna er sjálfsagt að auka strax það heildarmagn sem íslendingar taka úr heildarstofninum. Í minni tíð sem ráðherra var talið eðlilegt að hlutur Íslendinga væri 16,5% af heildarveiði landanna makríl. Nú hefur magn makríls í íslenskri lögsögu enn aukist og þá tilefni til að auka strax veiðiheimildir.

Það var mjög misráðið hjá sjávarútvegsráðherra að takmarka svo mjög magn makríls hjá smábátum á færi  og línu og setja það í kvóta á bát.

Þá var það rangt hjá ráðherra að beita sér fyrir sérstöku auka veiðigjaldi á makríl, 10 kr á kíló. Þssar ráðstafanir ráðherra ásamt lækkunum og ósvissu á mörkuðum hafa leitt til þess að örfáir makrílfærabátar hafa hafið makrílveiðar.

Undanfarin ár hafa makrílveiðar minni báta skapað mikla atvinnu og líf í sjávarbyggðum landsins. 

Frekar á að hvetja til makrílveiða minni báta á grunnslóð en drepa þær eins og aðgerðir ráðherra gætu miðað að.

Hér með er skorað á ráðherra að auka strax heildamagn Íslands í veiðum á makríl við Íslandsstrendur og gefa þær frjálsar fyrir færa og línuveiðar á grunnslóð. 

"Ályktun aðalfundar 2014:
 
Aðalfundur LS ályktar að LS beiti sér að fullum þunga  
fyrir því að makrílveiðar á handfæra- og línubátum verði
aldrei kvótasettar.Veiðar hefjist ekki fyrr en 1. júlí og verði til 31. desember
ár hvert.
Barist verði fyrir því að smábátar fái að veiða 18% af
heildarúthlutun aflamarks í makríl."
 

  

Makrílveisla á Íslandsmiðum


Sýnum sjálfstæði í utanríkismálum

Aukin samskipti  og friðsamlegt samstarf  færir þjóðir nær hverri annarri.
Þannig skapast farvegur og tækifæri til að koma sjónarmiðum á framfæri og hafa áhrif á þróun mála eins og í mannréttindum.

Íslendingar hafa jafnan verið andvígir viðskipaþvingunum og -bönnum á aðrar þjóðir í pólitískum tilgangi. Viðskiptafrelsi var hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga óháð því hver átti í hlut.

 Almennar viðskiptaþvinganir til að beygja stjórnvöld einstakra ríkja ná sjaldnast yfirlýstum tilgangi sínum og bitna helst á almenningi viðkomandi landa.

Áratuga viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu er dæmi um slíkt.

Gagnkvæm samskipti við Rússland og aðrar Austur -Evrópuþjóðir hafa verið Íslendingum afar mikilvæg áratugum saman. Við minnumst þorskastríðanna  og viðskiptabanns Breta og annarra núverandi ESB-þjóða á Íslendinga á þeim árum. Engu að síður eru þær áfram okkar helstu samstarfsþjóðir. Lögin sem Evrópusambandið setti til þess að geta beitt Íslendinga viðskiptaþvingunum vegna makrílveiða standa enn.

Landhelgisbarátta Íslendinga var fullveldismál

Að ná fullu forræði yfir fiskimiðunum kringum landið var hluti af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hún kostaði vopnuð átök á hafinu og viðskiptastríð af hálfu öflugra stórvelda sem nú eru í forystu Evrópusambandsins. Þá áttum við hauk í horni í stuðningi fyrrum Sovétríkjanna.

 Í bankahruninu 2008 áttum við hauk í horni i Rússum þegar öflug ríki  beittu okkur hryðjuverkalögum og einangrunartilburðum í samskiptum. Viðskiptabann og takmörkun á samskiptum er sjaldnast leið til að stuðla að friði, miklu fremur hið gagnstæða.

Höldum góðu viðskiptasambandi við önnur lönd 

 Almennar viðskiptaþvinganir eru  stórpólitísk aðgerð.  Utanríkisráðherra Íslands verður  að hafa  skýrt umboð fyrirfram, taki hann þátt í slíku  og  jafnframt gera sér grein fyrir ábyrgð og mögulegum afleiðingum  þess. Tilgangurinn þarf að vera skýr og forsendurnar fyrir því að þessi þjóð en ekki önnur sé beitt aðgerðum af þeim toga. Utanríkisstefna Íslands verður að vera sjálfum sér samkvæm.

Stuðningur við refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússum eru mistök og  virðast byggja á sögulegri vanþekkingu og leiðiteymni við ESB.

Sjálfsagt er að fordæma Rússa fyrir yfirgang þeirra en við þurfum jafnframt að huga að því hvernig framganga Íslands kemur málstaðnum best að liði.

Hinu gamla kalda stríði stórveldanna er lokið og Íslendingar eiga ekki að taka þátt í að endurvekja baráttuaðferðir þess.

Í krafti eigin sjálfstæðis og mannúðarstarfs hefur Ísland  mest áhrif á alþjóðavettvangi en ekki dingla með í bandalagi herveldanna.

Mannréttindi og sjálfsákvörðunaréttur þjóða

Við eigum að bera virðingu fyrir og styðja  mannréttindi og sjálfstæðisbaráttu þjóða og þjóðarbrota hvar sem er í heiminum, hvort sem það er í Tíbet, á Balkanskaga, í Úkraínu eða löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs.  Þar eigum við að láta rödd okkar heyrast.

 Stærsta vandamál heimsins  núna er hið hryllilega stríðsástand fyrir botni Miðjarðarhafs og flótti íbúanna frá þeim hörmungum sem  dynja á almenningi. Þar bera Evrópulöndin mikla ábyrgð sem þau verða að axla. 

 Verum friðflytjendur á alþjóðavettvangi

 Með auknum friðsamlegum samskiptum, festu og virðingu fyrir öðrum þjóðum stuðlum við sem sjálfstæð þjóð best að friði  og bættum mannréttindum í heiminum.

Við Íslendingar eigum að vera friðflytjendur á alþjóðavettvangi og bjóðast í krafti eigin sjálfstæðis og hlutleysis til að miðla málum og koma á samtali milli stríðandi þjóða og þjóðfélagshópa. 

 ( Birtist sem grein í Morgunblaðinu 8.ágúst sl.)

 


Samstarf og samskipti við aðrar þjóðir

Viðskiptabann og takmörkun á samskiptum við aðrar þjóðir er sjaldnast leið til að stuðla að friði, miklu fremur hið gagnstæða. Almennt viðskiptabann bitnar yfirleitt fyrst og fremst á almennum borgurum viðkomandi landa. Það hefur verið stefna Íslands að styðja ekki viðskipta bann í pólitískum tilgangi en rækta þess í stað samstarf og samtal við aðrar þjóðir.

Nýlega gerði Ísland viðskiptasamning við Kínverja en fordæmir jafnframt brot þeirra á mannréttindum og ofsóknum gegn minnihlutahópum. Aukin samskipti þjóða gefa kost á samtali og koma áherslum og gagnrýni á framfæri eins og í sjálfstæðis- og mannréttindamálum

Í þessu sambandi má velta því fyrir sér hvaða nágrannaríki ríki okkar það eru sem beita aðra efnahagsþvingunum. Skemmst er að minnast þess þegar Evrópusambandið fékk samþykkt lög á Evrópuþinginu 2011 til að geta beitt Íslendinga viðskiptabanni og refsiaðgerðum vegna lögmætra makrílveiða okkar. Um líkt leyti setti Evrópusambandið einnig viðskiptabann á Færeyinga vegna makríl- og síldveiða þeirra. Sú aðgerð gegn Færeyingum var afar ómannúðleg en yfir 90% af útflutningi Færeyinga eru fiskafurðir.

Þorskastríðið við Breta og síðan hryðjuverkalögin haustið 2008 var gróf aðför að sjálfstæði Íslands. Útfærsla landhelginnar var mikilvægur áfangi í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. 

Bann Evrópusambandsins á viðskipti við Grænlendinga með selskinn er mjög alvarleg aðgerð gegn efnahag þeirra, menningu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda landsins.

Áratuga viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu hefur verið fordæmt af mörgum þjóðum og er fjarri því, að það hafi náð þeim tilgangi sem Bandaríkjamenn ætluðu í upphafi. Enda er nú loks verið að aflétta því.

 Engu að síður eru þessar þjóðir áfram einna mikilvægustu samstarfsþjóðir okkar sem við viljum rækta góð samskipti við en ekki hlýða í blindni skipunum frá.

Almennar viðskiptaþvinganir eru hinsvegar stórpólitísk aðgerð. Utanríkisráðherra Íslands verður að gera sér grein fyrir ábyrgð og mögulegum afleiðingum þess.

Tilgangurinn með viðskiptabanni þarf að vera skýr og jafnframt forsendurnar fyrir því að þessi þjóð en ekki önnur sé beitt aðgerðum af þeim toga. Þá þarf einnig að gera sér grein fyrir hvað þarf að gerast til þess að slíku banni sé aflétt.

Utanríkisstefna Íslands verður að vera sjálfum sér samkvæm.


Kímni í fréttum á Rúv

Hinir látnu fá ekki frið fyrir lögreglu á Hvolsvelli í dag sbr. meðf. frétt: Nær allir  látnir  blása á Hvolsvelli"

Það getur verið nógu og alvarlegt að mæta villtum selum og bjarndýrum og ekki grín að gerandi að mæta villtum ferðamanni:

"Leita villts ferðamanns á Hornströndum"

Sem vonandi finnst.

Og ekki þarf að spyrja um frekjuna í rússneskum þingmanni sem

"Vill frekari refsiaðgerðir gegn Íslandi"

Hvenær nær sú frekja hámarki?

Góð tilbreytni hjá Rúv

 


Sjálftaka olíufélaganna -misþyrming á frjálsri samkeppni

Olíufélögin geta skammtað sér álagningu á söluverð olíu og bensíns. Félag íslenskra bifreiðaeigenda telur að þau hafi tekið sér aukalega af almennum bifreiðaeigendum um 500 milljónir króna á síðasta ár:
( Ríkisútvarpið greinir svo frá í viðtali við framkvæmdastjóra FÍB: Neytendur borga milljónir vegna álagningar)
 
"Á sama tíma og heimsmarkaðsverð á olíu hríðféll í vetur hækkaði álagning olíufélaganna hér á landi umtalsvert samkvæmt tölum Félags íslenskra bifreiðareigenda. Í júlí í fyrra nam innkaupsverð á lítra af bensíni tæpum 89 krónum og var álagning tæpar 39 krónur. Innkaupsverð var hins vegar 56 krónur í desember og var álagning þá orðin 43,5 krónur. 

„Ein króna í hækkun á einu ári, það hækkar útgjöld neytenda um 360 milljónir. Þannig að það er eftir miklu að slægjast að halda aftur af álagningunni,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdarstjóri FÍB.

Frá júlí 2014 og fram til júní í ár nam hækkun álagningar á tímabilinu 1,45 krónur að meðaltali. Því má ætla að neytendur hafi greitt aukalega rúmar 500 milljónir fyrir eldsneyti vegna hærri álagningu olíufélaganna. En er eitthvað sem gæti útskýrt þessa auknu álagningu?

Þegar maður sér 3-4 bensínstöðvar hlið við sem allar eru að selja eldsneyti á bíla á nánast sama verði og geta með óbeinu samráði og fákeppni skammtað sér álganingu þá spyr maður: væri ekki hægt að spara með hagræðingu og lækka þannig verð til neytenda?

Stofnum Ríkisolíusölufélag eða bjóðum dreifinguna út?

Samkvæmt upplýsingum frá FÍB var innkaupsverð á besíni til landsins það sama fyrir öll olífélögin eða 89 kr. á lítra fyrir ári en komið niður í 56 krónur í desember s.l.

Álagningin þeirra hækkaði hinsvegar úr 39 krónum á lítra í 43,50 á lítra á sama tíma.

Stór hluti útsöluverðs olíu eru fastir skattar til ríkisins, olíugjald sem er 56,55 krónur á lítrann að viðbættum virðisaukaskatti eða nálægt 70 krónur á hvern lítra.

Þegar horft er til sama innkaupsverðs, fastagjalds til ríkisins og síðan nánast sömu álagningu olíufélaganna  þá spyr maður hver er ávinningurinn að þessum blekkingarleik með ímyndaða frjálsa samkeppni? 

Ef það er hagkvæmara eða ríkið reki líka olíudreifinguna eða bjóði hana hreinlega út á að gera það. Þetta ber að kanna í alvöru.

Landsbyggðarskattar

Gjöld á bílaeldsneyti er skattlagning á fjarlægðir í stóru dreifbýlu landi. Kostnaður þeirra sem búa á landsbyggðinni og þurfa að sækja þjónustu um langan veg er miklu hærri, en hjá þeim sem búa í stórþéttbýlinu. Þetta er jú öllum ljóst.

Allir skattar og öll hækkun olíuverðs og álagning eru því beinir landsbyggðarskattar og leggjast mun harðar á dreifbýlisbúa en þéttbýlisbúa. En hækkun olífélaganna á álagningu í skjóli samráðs eða fákeppni er samt jafn óréttlát á landsmenn hvar sem þeir búa.

 

 

 


ESB þvingar Íslendinga í viðskiptastríð við Rússa?

Viðskipti við Rússland og aðrar Austur -Evrópuþjóðir hafa verið Íslendingum mikilvæg áratugum saman. Við minnumst þorskastríðanna og viðskiptabanns Breta og annarra núverandi ESB þjóða á Íslendinga á þeim árum. Þá reyndust viðskiptin við fyrrum Sovétríkin okkur afar dýrmæt sem og jafnan síðan.

Í bankahruninu 2008 áttum við hauk í horni i Rússum þegar öflugustu ríki Evrópusambandsins beittu okkur hryðjuverkalögum og einangrunartilburðum í samskiptum.

Viðskiptaþvinganir í pólitískum tilgangi ganga gegn alþjóðalögum

Íslendingar hafa jafnan verið andvígir viðskipaþvingunum og bönnum í pólitískum tilgangi enda stríða þær almennt gegn alþjóðalögum. Skemmst er að minnast þess þegar ESB fékk samþykkt lög á Evrópuþinginu 2011 til að geta beitt Íslendinga viðskiptabanni og efnahagslegum refsiaðgerðum vegna lögmætra makrílveiða okkar. Um slíkt leyti settu ESB viðskiptabann á Færeyinga vegna makríl og síldveiða þeirra. Íslensk stjórnvöld stóðu þá þögul hjá og áttu hlut að því að neyða Færeyinga til einskonar nauðasamninga við ESB í fiskveiðum 2013.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er margsaga í yfirlýsingum sínum um hlut Íslendinga í viðskiptaþvingunum á Rússa. Með kápuna dinglandi á báðum öxlum, segir hann eitt hér og annað þar sbr meðfylgjandi frétt. Engar upplýsingar um breytta stöðu Íslands

Viðskiptaþvinganir á aðrar þjóðir er alvarleg pólitísk aðgerð og er í trássi við alþjóðalög og samninga sem Ísland er aðili að.

ESB hótaði Íslendingum viðtækum efnahagsþvingunum vegna makrílveiða

Ég sem sjávarútvegsráðherra mótmælti hótunum ESB um viðskiptahindranir á Íslendinga 2011 vegna makrílveiða okkar sem hreinni lögleysu. Makrílveiðar Íslendinga stöðvuðu ESB umsóknina frekar en nokkuð annað.

Það er kannski táknrænt að nú reynir ESB að eyðileggja makrílsölu okkar til Rússlands með því að binda veikgeðja íslensk stjórnvöld við yfirgang sinn í Ukraínu og þvinganir og hótunaraðgerðir sínar gegn Rússum

Almennar viðskiptaþvinganir er stórpólitísk aðgerð og hlýtur að eiga að bera fyrirfram undir Alþingi en ekki hlýða í blindni bréfaskriftum ESB- þjónkandi stjórnendum utanríkisráðuneytisins.

Evrópusambandið gefur yfirlýsingar fyrir Íslands hönd

Evrópusambandið er hins vegar ekki í vafa um hver afstaða Íslands á að vera  gagnvart Rússum og gefur út yfirlýsingar í nafni íslensks utanríkisráðherra sbr. meðf. frétt og yfirlýsingu frá „The Council of EU“ fyrir Íslands hönd

Declaration by the High Representative on behalf of the EU on the alignment of certain third countries concerning restrictive measures in view of Russia's actions destabilising the situation in Ukraine”: Ukraine

Council of the EU 07/2015 | 17:00

On 22 June 2015, the Council adopted Council Decision (CFSP) 2015/971[1]. The Council Decision extends existing measures until 31 January 2016. 

The Candidate Countries Montenegro* and Albania* and the EFTA countries Iceland, Liechtenstein and Norway, members of the European Economic Area, as well as Ukraine align themselves with this Decision. 

They will ensure that their national policies conform to this Council Decision. 

The European Union takes note of this commitment and welcomes it. 

 [1] Published on 23.6.2015 in the Official Journal of the European Union no. L 157, p. 50. 

Utanríkisráðherra vonar að Rússar taki ekkert mark á yfirlýsingum hans

Utanríkisráðherra Íslands vonar að Rússar taki ekkert mark á þessum hótunum og yfirlýsingum sem ESB gefur fyrir hans hönd. Hann segir að ekkert hafi breyst í samskiptum ríkjanna. Samt tekur hann þátt í harðorðum yfirlýsingnum og aðgerðum ESB gagnvart Rússum en vonar að enginn taki mark á honum í þeim:( Engar upplýsingar um breytta stöðu Íslands)

Höldum góðu viðskiptasambandi við Rússland

 Ég tek undir með þingmanninum Ásmundi Friðrikssyni sem hvetur til þess að Íslendingar dragi sig út úr stuðningi við Evrópusambandið um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum.

- Hvaða erindi eigum við í þann slag þvert á hagsmuni okkar og áratuga gott viðskiptasamstarf?: (Vill að Ísland hætti að styðja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi)

Eigum enga aðild að deilu ESB og Rússlands í Ukraínu

 Við eigum ekki að láta undan kröfum ESB um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum þótt við séum ekki sammála stefnu þeirra og yfirgangi í Úkraínu né heldur útþenslustefnu og ófriði Evrópusambandsins í austurátt.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband