Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Loforð og svik ?

Hvernig ætla stjórnarflokkarnir að útskýra fyrir kjósendum svik sín í ESB-málinu? 

Spyr Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og einn af burðarásum Sjálfstæðisflokksins um áratugi:

" Báðir flokkarnir gengu til kosninga vorið 2013 með þá yfirlýstu stefnu að binda endi á umsóknarferlið. Það hefur mistekizt".

Og að mati Styrmis sýnist ríkisstjórnin hafa gefist upp við að hrinda i framkvæmd einu sína stærsta kosningaloforði:

" Veturinn 2014 ætlaði ríkisstjórnin sér að ljúka málinu með þingsályktun á Alþingi. Hún gafst upp við það".

Það er flokkum dýrt að svíkja loforð í grundvallarmálum sínum eins og dæmin sanna og Styrmir kveður fast að orði:

"Þetta eru alvarlegustu mistök núverandi ríkisstjórnar og þingflokka hennar vegna þess að þau mistök snúast ekki um dægurmál heldur grundvallarmál".

En ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks  hefur enn tæp tvö ár til að standa við gefin loforð um afdráttarlausa afturköllun umsóknarinnar:

"Framundan er landsfundur flokksins. Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvort svæfingin mun einnig ná til landsfundar og hvort landsfundarfulltrúar láta gott heita"

segir Styrmir og brýnir landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Svo virðist sem ríkisstjórn og Alþingi ráði ekki við að framfylgja stefnu flokka sinna, uppfylla kosningaloforð sín og fara að vilja þjóðarinnar um afdráttarlausa afturköllun umsóknarinnar að ESB. En það getur orðið hverjum manni og flokki dýrt að svíkja gefin loforð.

 

Lýðræðið og þjóðaratkvæðagreiðslur

Stjórnvöld, kjörnir fulltrúar eru til fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir geðþóttaákvarðanir stjórnvalda.

Að kalla þjóðina til með beinum hætti í ákvörðunum um einstök mál er hluti hins virka lýðræðis fólksins

Æ ofan í æ hefur það gerst á undaförnum árum að fulltrúar sem kjörnir eru á þing samkvæmt stefnu, loforðum  eða yfirlýsingum sem þeir hafa gefið, en svíkja svo á örlagastundum.

 Ýmis einstök mál sem snerta fullveldi, auðlindir og framtíðarheill þjóðarinnar eru með þeim hætti að fulltrúalýðræðið ræður illa við að ná niðurstöðu sem er í samræmi við vilja þjóðarinnar.

Lýðræði fólksins á stöðugt í vök að verjast því þeir sem fara með völd á hverjum tíma telja sér trú um að almenningur, fólkið í landinu hafi ekki vit eða  þekkingu til að taka ákvörðun í tilteknum málum.

Eða eins og sitjandi valdhafar á hverjum tíma segja, að það væri svo hættulegt að láta þjóðina komast að málinu því þá vissi enginn hvað gæti gerst.

Einn lýðræðisventill sem nú verandi stjórnarskrá landsins hefur er málskotsréttur forsetans. Þar getur forsetinn skotið umdeildum málum, stjórnvaldsaðgerðum ríkisstjórnar til þjóðarinnar. Beiting þessa ákvæðis hefur reynst þjóðinni mikilvæg á síðustu misserum.

 Ríkisstjórn og Alþingi á hverjum tíma virðist óttast þjóðaratkvæðagreiðslur. Þess vegna þarf að styrkja þann þátt stjórnarskrárinnar og rýmka aðkomu þjóðarinnar með beinu lýðræði til þess að ráða fram úr og vísa veginn í mikilvægum en umdeildum málum

 


Slagurinn um fullveldið

Evrópusambandsumsóknin og fullveldisframsalið var stærsta mál síðustu ríkisstjórnar og klauf bæði stjórnina, þingið  og þjóðina í andstæðar fylkingar.

Setningarræða forseta Íslands í gær endurspeglaði þá baráttu sem staðið hefur um fullveldi þjóðarinnar síðustu ár.

EES samningurinn, sem tók gildi 1.janúar 1994 var afar umdeildur og samþykktur með minnsta meirihluta á Alþingi. Samningurinn fékk  ekki að fara fyrir dóm þjóðarinnar þótt 34.397 manns hefðu með eigin undirskrift skorað á Alþingi og  forsetann að beita þeim rétti. EES samningurinn er af mörgum talinn hreint stjórnarskrárbrot.

 Nú síðustu misserin hafa stjórnmálamenn margir sett EES samninginn ofar stjórnarskrá Íslands. Þau sömu öfl halda því fram að vegna EES-samningsins verði að breyta fullveldis ákvæðum stjórnarskrárinnar. EES-samningurinn átti þó að vera afmarkaður um gagnkvæm viðskipti á tilteknum sviðum.

 Þjóðin var ekki spurð fyrirfram hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið sem var þó tilgangur umsóknarinnar.

Sem betur fór var hægt að stöðva bæði ESB umsóknina og áformin um fullveldisframsalið á síðasta kjörtímabili.

Síðustu forsetakosningar snerust m.a. um áform sterkra pólitískra afla, sem vildu heimildir til fullveldisframsals í stjórnarskrá og inngöngu í Evrópusambandið.

Þar hafði Ólafur Ragnar Grímsson tjáð sig med afgerandi hætti sem meirihluti þjóðarinnar treysti.

Ræða forsetans við þingsetningu í gær  minnti rækilega á að áfram vinna sterk öfl að veikingu fullveldisréttarins.

Svo virðist sem  ríkisstjórnin og Alþingi ráði ekki við að afturkalla  Evrópusambandsumsóknina með óyggjandi hætti og vofir hún áfram yfir komist aðildarsinnuð ríkisstjórn til valda.

Framboð til embættis forseta Íslands að ári mun því að óbreyttu áfram snúast um fullveldisrétt þjóðarinnar og  baráttuna gegn áformum um framsal þess réttar og inngöngu í Evrópusambandið.

 

 

 


Fullveldið stærsta auðlind þjóðarinnar

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson lagði þunga áherslu á fullveldi þjóðarinnar við setningu Alþingis áðan.

Í krafti fullveldisins sóttum við eigið forræði á fiskveiðilögsögunni og landgrunninu. Með fullveldið að vopni gátum við hafnað ábyrgð þjóðarinnar á óreiðuskuldum einkaaðila. Hefðum við þá verið komin í ESB hefði hið yfirþjóðlega vald Evrópusambandsins hneppt íslensku þjóðina í ábyrgð fyrir einkaaðila og skuldafjötra svipuð og Grikkir nú bera:

 „All­ir vissu að full­veldið var horn­steinn í sjálf­stæðis­kröf­um Ís­lend­inga. Rétt­ur sem síðar var hert­ur við er­lend ríki um út­færslu land­helg­inn­ar. Full­veldið var þá for­senda þess að fá­menna þjóðin bar hærri hlut en heimsveldið,“ sagði for­set­inn og bætti við að full­veld­is­rétt­ur­inn hafi einnig verið ný­lega úr­slita­vopn „þegar banda­lag Evr­ópu­ríkja reyndi að þvinga Íslend­inga til að axla skuld­ir einka­banka.“

Íslendingum hefur alla tíð frá lýðveld­is­stofn­un tek­ist að stunda fjölþætt alþjóðasam­starf með ýms­um alþjóðastofn­un­um og öðrum ríkj­um, „án þess að þörf væri að breyta full­veld­isákvæðum lýðveld­is­ins, hinum helga arfi sjálf­stæðis­ins,“ sagði forsetinn.

Þeir sem vilja skerða fullveldisréttinn

ESB aðildarsinnar á Alþingi vilja að fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar verði skert og þynnt  út þannig að framselja megi æ fleiri forræðisþætti landsins til yfirþjóðlegra stofnana eða ríkjasambanda. Þessa umræðu þekkti ég vel sem ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem Evrópusambandsumsóknin og stjórnarskrárbreytingar hennar vegna fylgdust að hjá forystumönnum þáverandi ríkisstjórnarflokka.

Sem betur fór tókst að koma í veg fyrir þau áform þá.

ESB aðildarsinnar á Alþingi munu áfram sækja hart að fullveldinu í umræðum um breytingar á stjórnarskránni.

Það var því hárrétt hjá forsetanum að vara alþingismenn við skerðingum á fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar

"Sjálfstæðið er sívirk auðlind" segir Ragnar Arnalds í samnefndri bók.

Það er öllum ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson hefur sem forseti átt farsæla aðkomu að styrkja sjálfstæða ímynd Íslands bæði innlands sem og á alþjóðavettvangi. Hann hefur staðið vörð um fullveldið og beitt ákvæðum stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæði því til varnar á örlagatímum.

 

 


OECD- launahækkanir - stöðugleiki og ESB

Framkvæmdastjóri OECD Angel Gurría sendir almennu launafólki og starfsfólki á sjúkrahúsum  á Íslandi tóninn vegna nýrra launahækkanna. Hann minnist ekki á að launahækkanir bankastjóra eða framkvæmdastjóra og annarra háttsettra hjá samtökum atvinnulífsins eða stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja ógnuðu stöðugleika í íslensku efnahagslífi . Mikil heimavinna bíður“

Nei það voru launahækkanir almennra launþega sem hann hafði áhyggjur af að gæti ógnað stöðugleikanum.

„Þessar kjaraviðræður eru nú hatrammar og þrasgjarnar og gefa tilefni til mikilla launahækkana sem fara langt fram úr framleiðni í þessum greinum og draga úr samkeppnishæfni landsins.“

Voru ekki tveir aðilar að semja og krefjast nokkurra ára leiðréttingar og sanngirni.

Og við stöndum blessunarlega utan ESB

Ástæða er til að fagna góðri stöðu í íslensku atvinnulífi og þjóðarbúskap. Framkvæmdastjórinn hefði átt að gleðjast með okkur að við stöndum utan Evrópusambandsins og gátum haldið á okkar eigin málum sjálf. Það var ekki sjálfgefið, en sem betur fór tókst að koma í veg fyrir að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið næði fram að ganga.

Hverjir ógna stöðugleikanum?

Skyldi framkvæmdastjórinn hafa spurt um launahækkanir bankastjóra, forstjóra,"bónusa" og arðgreiðslur margra fyrirtækja síðustu misserin? Líklega ekki.

Formaður Framsýnar líkir seðlabankastjóra við bjarndýr í ...

Vilhjálmur sakar seðlabankastjóra um hræsni « Eyjan

 

Stöndum með okkur sjálf

Ég hef aldrei kunnað við þegar aðilar sem starfa hjá hinum eða þessum erlendum samtökum og stofnunum geta talið sig þess umkomna að tjá sig og vanda um, þegar þeim finnst hinn almenni launamaður fá of mikið í sinn hlut af þjóðarkökunni.

 


Klókindi Össurar

Nýr framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar Kristján Guy Burgess var sérlegur aðstoðarmaður Össurar sem utanríkisráðherra í síðustu ríkisstjórn og sálufélagi í ESB- málum.

Fyrir nokkru var Stefán Haukur Jóhannesson formaður samninganefndarinnar um inngöngu í ESB skipaður ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu. Þessir menn tveir skipuðu lykilstöður og voru hægri og vinstri hönd Össurar sem utanríkisráðherra og eru afar kappsamir í að leiða Ísland inn í Evrópusambandið.

Össur veit að eina von Samfylkingarinnar til að ná sér aftur á strik er að koma inngöngu í Evrópusambandið aftur á dagskrá og mikilvægt að halda öllu opnu í þeim efnum.

Snillingar í bréfaskrifum á tungumáli Evrópusambandsins

ESB aðild var jú eina mál Samfylkingarinnar og það styttist í næstu kosningar.

Þessir þrír menn saman eru mestu snillingar landsins í að skrifa bréf á tungumáli Evrópusambandsins eins og alkunna er og einlægir ESB-sambandssinnar.

Kristján Guy Burgess er klár og þekkilegur maður og vafalaust fengur fyrir Samfylkinguna að fá hann sem framkvæmdastjóra.

Ráðning Kristjáns segir manni einnig að Össur styrkir stöðu sína á ný á hinu pólitíska sviði og hefur komið ár sinni vel fyrir borð. Krafan um inngöngu Íslands í Evrópusambandið getur orðið eitt aðalkosningamálið 2017. 

 Fyrir okkur andstæðinga ESB aðildar skiptir máli að umsóknin frá 2009 verði formlega og ótvírætt afturkölluð án alls skrúðmælgis með tungutaki sem allir aðilar skilja.

 


Svartur sjór af makríl í íslenskri lögsögu

Hátt í 40% alls makrílstofnsins í Norðaustur- Atlantshafi er innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eð um 3 milljónir tonna. Þetta sýndu sameiginlegar mælingar Íslendinga Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga í leiðangri sem farinn var 1. júlí til 10 ágúst s.l. (Rúm­lega þriðjung­ur mak­ríls­ins í ís­lenskri lög­sögu)

Makrílveiðarnar skiptu sköpum fyrir  atvinnu og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Ég minnist þess sem ráðherra að á árunum 2009 til 2011 neitaði Evrópsambandið því að makríll væri í íslenskri lögsögu og hafnaði því að viðurkenna rétt Íslendinga til makrílveiða. Sá réttur fullvalda strandríkis var þó skýlaus samkvæmt alþjóðalögum.

 Ég minnist þess einnig  þegar Evrópusambandið tók sér lögregluvald  og rak fulltrúa okkar á dyr af sameiginlegum fundi strandríkja sem veiddu makríl.

Í samræmi við rétt fullvalda strandríkis  gaf ég þá út tilkynningu og reglugerð um að Ísland tæki sér 130 þús tonna makrílkvóta næsta fiskveiðiár 2011 sem var um 17% af heildarveiði makríls í Norður Atlantshafi. Fyrir árið 2012 ákvað ég sem ráðherra 148 þús.tonn.

Aðrar makrílveiðiþjóðir yrðu að taka hliðsjón af því við sínar ákvarðanir.

Var sú ákvörðun mín í samræmi við það magn makríls og ætlaðs  fæðunáms hans í íslenskri lögsögu. Makrílveiðarnar árin 2009 til 2014 hafa á fimm ára tímabili skilað þjóðarbúinu um 100 milljörðum króna gjaldeyristekna og áttu einn stærstan hlut í endureisn hagkerfisins eftir hrun.

 Evrópusambandið var engin góðgerðastofnun í samskiptum á þeim árum né virtu sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða þegar þeir hótuðu víðtækum refsiaðgerðum og innflutningsbanni á fiskafurðir frá Íslandi. Samningarnir um inngöngu í Evrópusambandið strönduðu af þess hálfu m.a.á makrílnum.

Litlar rannsóknir höfðu þá verið stundaðar á göngu makríls í Norðurhöfum.  Lagði ég því fyrir Hafrannsóknastofnun að gera sérstakt átak í að meta útbreiðslu og magn makríls. Óskaði ég jafnframt eftir samstarfi við önnur makríllönd um þær rannsóknir. Eftir fund með sjávarútvegsráðherrum Færeyja og Grænlendinga komu þeir með í þær rannsóknir.

 Evrópusambandið hafnaði öllu samstarfi í makríl

Norðmenn og Evrópuambandið höfnuðu rannsóknasamstarfinu á þeim forsendum að það ætti enginn makríll að vera í Norðurhöfum. Eftir fund með sjávarútvegsráðherra Noregs komu Norðmenn með í þessar rannsóknir en Evrópusambandslöndin hafa hafnað slíku samstarfi.

Eftir að rannsóknir og mælingarstarf varð víðtækara og nákvæmara kom í ljós að heildar makrílstofninn var mun stærri en áður hafði verið talið.  Makríllinn var m.a. í umtalsverðu magni við strendur Grænlands.

Krafa ESB landanna um að þau ásamt Noregi ættu allan makrílinn var þeim mun fáránlegri sem meiri vitneskju var aflað.

Jón Guðmundsson lærði skrifar um "svartan sjó af makríl" fyrir Hornströndum( 1574- 1658)

Mælingar sýna að um 40% alls makrílsins er nú innan lögsögu Íslands en einungis tæp 6% innan lögsögu Evrópusambandsríkjanna á sama tíma. Við ættum að réttu lagi að auka hlutdeild okkar í makrílveiðum  verulega í samræmi við þær mælingar

Það voru unnin kraftaverk í makríl

Það sýnir gríðarlegan styrk íslenskrar útgerðar,sjómanna og fiskvinnslu að á örfáum misserum getur hún sveigt sig að veiðum og vinnslu á nýrri fisktegund í miklu magni.

Ákvarðanir mínar í góðu samstarfi við þessa aðila í stýringu veiða og vinnslu voru líka algjör nýmæli í fiskveiðistjórn sem skiptu miklu máli og væri betur að væri fylgt nú. Þá var flotinn nýttur og hver og einn fékk ákveðið tækifæri til að spreyta sig.

Og á þrem árum tókst að koma á um 90% fullvinnslu á um 150 þús tonnum af makríl til manneldis og finna þeim markað.

Þau þúsundir starfa sem tengdust fullvinnslu makríls bæði á landi og á sjó voru mjög dýrmæt sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið sem og þjóðarbúinu í heild.

Skólafólk gat komið heim í sumarfrínu sínu og aflað dýrmætra tekna fyrir næsta skólaár.

Ísland byggir fullveldi sitt á eigin forræði, verndun og nýtingu gjöfulla náttúruauðlinda.

Fiskimiðin, landhelgin og samningar um viðskipti við aðrar þjóðir á eigin forsendum eru hornsteinar sjálfstæðis hvers lands, sem við eigum að standa vörð um í samskiptum þjóða á alþjóðavettvangi. 

 

 

 

 


Eigum að reka okkar eigin utanríkisstefnu segir Bjarni Ben.

 Viðskiptaþvinganirnar flutu óvart með og Ísland á ekki að vera sjálfkrafa aðili að utanríkisstefnu Evrópusambandsins segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins: (Mbl.Bjarni hafði efa­semd­ir frá upp­hafi )

,,Menn voru einfaldlega í upphafi einhuga um að sú rödd þyrfti að heyrast frá Íslandi að við stæðum með bandalagsþjóðum okkur í afstöðunni gagnvart ástandinu í Úkraínu. Mér sýnist að það sem varðar viðskiptaþvinganirnar hafi flotið með í því samhengi.

Ég var hugsi yfir því hvort það væri sjálfsagt og eðlilegt að Ísland, sem ekki er aðili að Evrópusambandinu og þar af leiðandi ekki með í sameiginlegri utanríkisstefnu þess, tæki undir ályktanir, ákvarð- anir og aðgerðir Evrópusambandsins vegna þess að við höfum ekki á neinu stigi málsins átt neina að komu að þeim ákvörðunum.

Í því sambandi er ég fyrst og fremst að hugsa um að við rekum okkar eigin sjálfstæðu utanríkisstefnu".

Mæl þú Bjarni manna heilastur í þeim efnum. Kaldastríðinu er lokið. Herinn fór frá Íslandi þegar honum sjálfum datt í hug. Hörðustu Natósinnar gráta það reyndar enn.

Hótanir og refsiaðgerðir ESB vegna veiða okkar í eigin landhelgi standa enn. Landhelgin er hluti hins sjálfstæða Íslands.

Aðgerðir ESB eru meiri refsiaðgerðir gegn fámennri þjóð hlutfallslega heldur en meintar viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins eru gagnvart Rússum. 

Það er kominn tími á sjálfstæða utanríkisstefnu Íslands en ekki láta beita sér hugsunarlaust í hagsmunastríði stórveldanna.


Þjóðverjar eignast flugvelli Grikklands

Gríska rík­is­stjórn­in samþykkti í dag að þýska fyr­ir­tækið Fra­port-Slentel tæki við rekstri fjór­tán flug­valla í Grikklandi til næstu fjöru­tíu ára. Samn­ing­ur­inn er met­inn á 1,23 millj­arða evra, sem jafn­gild­ir um 181 millj­arði ís­lenskra króna.Um er að ræða flug­velli á mörg­um af helstu ferðamanna­stöðum Grikk­lands. Þjóðverj­ar taka við rekstri 14 flug­valla

Ein fyrsta krafa ESB á hendur Grikkjum var einkvæðing opinberrar þjónustu. Grikkir eru  píndir til að selja kínversku fyrirtæki helstu hafnir sínar.

Nú er komið að Þjóðverjum sem fá strax í sinn hlut helstu flugvelli landsins. Þannig missir Grikkland jafnt og þétt sjálfstæði sitt og sjálfforræði.

"Sein­asta rík­is­stjórn Grikk­lands hafði náð sam­komu­lagi við Fra­port en ákveðið var að bíða með málið eft­ir að rík­is­stjórn Al­ex­is Tsipras, leiðtoga vinstri­flokks­ins Syr­iza, komst til valda í janú­ar­mánuði.

Gríska rík­is­stjórn­in staðfesti í dag að hún hefði samþykkt einka­væðing­una fyr­ir sitt leyti...

Þetta er fyrsta einka­væðing­in sem til­kynnt er um eft­ir að fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna samþykktu á föstu­dag­inn að veita Grikkj­um 86 millj­arða evra lán gegn ströng­um skil­yrðum.

Rík­is­stjórn Tsipras hef­ur fall­ist á að selja rík­is­eign­ir í sam­ræmi við sam­komu­lagið við lán­ar­drottna Grikk­lands. Leig­an á flug­völl­un­um fjór­tán er liður í því sam­komu­lagi.

Lán­ar­drottn­arn­ir hafa meðal ann­ars gert þá kröfu að grísk stjórn­völd setji á stofn sér­stak­an fimm­tíu millj­arða evra sjóð um rík­is­eign­ir sín­ar." Mbl.is greinir frá: Þjóðverj­ar taka við rekstri 14 flug­valla.

  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur enn ekki samþykkt að taka þátt í "kúgunarpakka" Evrópusambandsins og segir stefnu þess alranga og muni keyra efnahag Grikkja enn dýpra niður.

 

 


Sterkur meirihluti andvígur inngöngu í ESB

Ef tekið er mið af þeim sem taka afstöðu þá eru 59,4% landsmanna andvíg inngöngu Íslands í ESB. Þetta má lesa úr skoðakönnun sem Gallupp gerði fyrir Heimssýn dagana 16.til 27. júlí síðastliðinn.

Meirihluti landsmanna, eða 50,1%, er andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Fylgjendur aðildar eru 34,2% en 15,6% svöruðu að þeir væru hvorki fylgjandi né andvígir inngöngu.

Andstaða við inngöngu er mest hjá þeim sem myndu kjósa stjórnarflokkana. Þannig eru 95% þeirra sem hefðu kosið Framsóknarflokkinn þegar könnunin var gerð andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið og 83% af  þeim sem hefðu kosið Sjálfstæðisflokkinn. Fjörutíu prósent af stuðningsflokki Vinstri grænna eru á móti inngöngu en 33% hlynnt henni.

Stuðningur við inngöngu er mestur hjá fylgisfólki Samfylkingar, 78%, en þar eykst þó óvissan því það tvöfaldast fjöldi þeirra sem er hvorki hlynntur né andvígur inngöngu frá febrúar. Þá eru 66% af fylgisfólki Bjartrar framtíðar hlynnt inngöngu í ESB og 40% af fylgjendum Pírata.

Alls voru 1482 manns í úrtaki í þessari netkönnun sem Gallup gerði á ofangreindu tímabili. Í hópnum var fólk af landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvalið úr viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 825, eða 55,7%.

Spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB)? Gefnir voru sjö megin svarmöguleikar, þ.e. að öllu leyti hlynnt(ur), mjög hlynnt(ur), frekar hlynnt(ur), hvorki né, frekar andvíg(ur), mjög andvíg(ur) og að öllu leyti andvíg(ur).

Stærsti einstaki hópurinn af þessum sjö er sá sem er að öllu leyti andvígur inngöngu í ESB og fjölgaði nokkuð í honum frá könnun sem gerð var í febrúar síðastliðnum (fer úr 21,4% í febrúar í 24,6% nú).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband