Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Svissneska þingið afturkallar umsóknina að ESB

Svissneska þingið hefur samþykkt með 126 atkvæðum gegn 46 að draga formlega til baka umsókn sína um inngöngu í Evrópusambandsins sem verið hefur á ís síðan 1992. Umsókn Sviss hefur haft svipða stöðu og Íslands að vera sett ótímabundið á ís. Nú vilja Svisslendingar stíga skrefið til fulls og að þingið afturkalli umsóknina formlega. 

Spurning er nú hvort ríkisstjórn Íslands hefur kjark og þor til að fylgja í kjölfar Sviss og afturkalla umsókn Íslands að ESB  eins og lofað var fyrir síðustu kosningar.

( Mbl.is ESB-um­sókn Sviss verði dreg­in til baka )

"Sviss­neska þingið samþykkti í gær með 126 at­kvæðum gegn 46 að draga form­lega til baka um­sókn Sviss um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið sem verið hef­ur á ís frá því að sviss­nesk­ir kjós­end­ur höfnuðu aðild að Evr­ópska efna­hags­svæðinu (EES) í þjóðar­at­kvæðagreiðslu árið 1992. Viðræður höfðu þá haf­ist um inn­göngu í sam­bandið en í kjöl­far þjóðar­at­kvæðis­ins ákváðu sviss­nesk stjórn­völd að hætta þeim og setja um­sókn­ina á ís þar sem hún hef­ur verið síðan." 

Nú hefur ríkisstjórn Íslands enga afsökun og á að leggja þegar í stað  fyrir Alþingi tillögu um afturköllun umsóknar Íslands að Evrópusambandinu og fylgja henni eftir eins og lofað var

 


Á Búnaðarþingi

Við höfum sem betur fer sjálfstæði og fullveldi til að gera nýjan búvörusamning sjálf og takast á um hann á heimavelli. Það væri útilokað ef Ísland hefði gengið í ESB.

Sem betur fer tókst að stöðva Evrópusambandsumsóknina sem var keyrð áfram í miklu offorsi af formönnum Samfylkingar og Vinstri grænna í síðustu ríkisstjórn. Ef þeim hefði orðið að ósk sinni væri Ísland nú komið inn í Evrópusambandið og ekki verið að semja um matvæla- og fæðuöryggi landsmanna í búvörusamningi milli ríkisvaldsins og bænda.

Slík umræða ef nokkur væri, myndi fara fram í skrifstofubákninu í Brüssel.  

Við getum að sjálfssögðu deilt um nýjan búvörusamning og mér finnst sjálfum alltof mikil Brüssellykt af honum og daður við stefnu og kröfur ESB sem henta enganvegin hér á landi. 

Vert er að minnast þess að þegar núgildandi búvörusamningur var framlengdur í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur  krafðist fjármálaráðherra þess, að hann væri undirritaður með fyrirvara um, að ef gengið yrði í Evrópusambandið á gildistímanum þá mætti endurskoða samninginn eða fella úr gildi í samræmi við kröfur Evrópusambandsins.

Þeir sem nú tala fjálglegast jafnvel frá hjartanu um stuðning við íslenskan landbúnað ættu að minnast þessarar nýliðnu fortíðar. Að vísu hefur hjartað fjögur hólf.

Mér var hugsað til þessa alls meðan ég hlustaði á hástemmdar  ræður á Búnaðarþinginu.

ESB aðildarsinnar gráta

Hörðustu ESB sinnar gráta það enn að hafa ekki komist inn í dýrðina í ESB. Þeir kenna landbúnaðinum um og  finna búvörusamningunum allt til foráttu. Sérstaklega er þeim í nöp við það, að forsjá búvörusamninga skuli enn vera í höndum Íslendinga sjálfra en ekki í Brüssel.

 Mér finnst hinsvegar dapurlegast að sjá í nýgerðum tollasamningum við Evrópusambandið að hagsmunum íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu er ógnað með stórauknum tollfrjálsum innflutningi á vörum sem við nú framleiðum hér á Íslandi, hollari en í nokkru öðru nágrannalandi.

Finn ég þar lyktina af því sem var að gerast neðanjarðar í aðlögunarsamningunum við Evrópusambandið á sínum tíma.

 Ég sem ráðherra  hafnaði skilyrðislausri tollaeftirgjöf á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu og fékk lögfest bann á innfluttu hráu ófrosnu kjöti. Í því fólust ekki hvað síst hagsmunir neytenda.

Fram fyrir íslenskan landbúnað 

Í nýjum tollasamningi nú sem á eftir að fara fyrir þingið er verið að láta um of undan þrýstingi ESB- aðildarsinna.

Ég skora á Búnaðarþingsfulltrúa að krefjat þess að ráðherra afturkalli þennan tollsamning við ESB og að búvörusamningurinn verði ekki tekinn til afgreiðslu fyrr en það hefur verið gert.  Baráttukveðjur fyrir íslenskan landbúnað

 


Forseti ASÍ - hrunadansins - ESB

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ hjólar í bændur og samtök þeirra vegna nýgerðra kjarsamninga þeirra og umgjörð búvöruframleiðslunnar:

"Samningarnir eru vondir bæði fyrir bændur og neytendur og ég treysti því að bæði Alþingi og bændur hafni þeim," segir forseti ASÍ.   Þingið hafni vondum samningi

Ekki veit ég til þess að forystumenn bænda hafi veist að ASÍ vegna kjarasamninga á þeirra vettvangi. Hefði oft verið ærin  ástæða til m.a. vegna þess hve illa ASÍ hefur haldið á málum í kjarabaráttu fyrir þá lægstlaunuðu í samfélaginu.

Ég ætla ekki að leggja mat á nýgerðan búvörusamning.En mikilvægt er að horft sé heildstætt á allar greinar landbúnaðar og matvælaframleiðslu í landinu og til þeirra sem þar starfa.

Það sem mér finnst hinsvegar sérstakt er frjálsleg yfirýsingagleði forystu ASÍ. En að sjálfssögðu er sem betur fer öllum frjálst að tjá skoðanir sínar í þessum efnum sem öðrum

Í yfirlýsingu ASÍ er helst harmað að ekki skuli opnað enn meir fyrir tollfrjálsan innflutning á landbúnaðarvörum og þá væntanlega á hráu ófrosnu kjöti.

Engum en ASÍ ætti þó  að vera betur ljósar afleiðingarnar af slíkum gjörningi fyrir atvinnuöryggi fjölda fólks í matvælaiðnaðnum á Íslandi. Hver gefur stjórn ASÍ umboð til að álykta með umræddum hætti?

Forseti ASÍ sýnist lifa og hrærast enn í því allsherjarugli sem viðgekkst árið 2007 og virðist nú verið að endurvekja. Eru almennir félagsmenn því sammála?

Hvenær ætlar Gylfi Arnbjörnsson og aðrir í forystu ASÍ að gera upp fortíð sína frá fyrirhrunstímanum og hlut þeirra í þeim Mammonsdansi sem  setti fjármálakerfi landsins á hliðina og leika enn lausum hala.

Ég hlustaði á innblásnar ræður Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ á þeim tíma  m.a. á 1. maí þar sem gerð var krafa um inngöngu í Evrópusambandið, ekki seinna en strax. Allt ætti að vera svo grænt og fallegt þegar inn í ESB væri komið. 

Og var ekki svo að  ASÍ setti  það  sem hluta af kröfum í kjaraviðræðum að aðlögun og innganga í Evrópusambandið væri keyrð áfram af fullum hraða.

Er forseti ASÍ kannski enn þeirrar skoðunar eins og hann var á árunum 2007 -2014 að Ísland væri nú betur komið inni í Evrópusambandinu en utan? 

Sem betur fór tókst að koma í veg fyrir frekari aðlögun og inngöngu í ESB og forseta ASÍ varð ekki að þeirri ósk sinni.

Einhvern veginn finnst mér þó  að þessi yfirlýsing forystu ASÍ um búvörusamningana endurspegli gamla ESB drauginn sem menn þar á bæ fóstruðu og vilja nú endurvekja í umræðunni um landbúnaðinn. Það er kominn tími til að ASÍ hafi lært sína ESB lexíu og dragi lærdóm af mistökunum. 


Óábyrgt að leyfa innflutning á hráu kjöti og hræsni að vísa til neytendahagsmuna

Hvort á að ráða íslensk lög og dýrmætir hagsmunir þjóðarinnar eða hráar tilskipanir ESB og græðgi innflutningsfyritækja?

"Sérfræðingur í útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería segir ábyrgðarlaust ef stjórnvöld ætla að fara þegjandi eftir úrskurði EFTA-dómstólsins og leyfa innflutning á hráu kjöti til landsins. Hann segir hræsni talsmanna innflutnings að vísa til neytendahagsmuna".

Vilhjálmur Ari Arason, læknir er í ítarlegu viðtali við nýjasta Bændablað.


Aðeins tveir ESB þingmenn mættir ?

Fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins stendur nú yfir í Reykjavík.

Fjölmiðlar flytja fjálglega fréttir af fundinum. Formaður nefndarinnar Guðlaugur Þór Þórðarson vildi að nefndin ályktaði um samstöðu í refsiaðgerðum gegn Rússum og að ESB mæti framlag Íslands í þeim efnum t.d. með tímabundnum tollalækkunum á vörum frá Íslandi til að bæta skaðann sem viðskiptabann Rússa veldur Íslendingum   (MBL:  Vill að nefnd­in álykti um sam­stöðu

 Varaformaður nefndarinnar, Jörn Dohrmann  efaðist um að fundurinn væri heppilegur til slíkra ályktana þar sem aðeins tveir þingmenn frá Evrópuþinginu væru viðstaddir fundinn !!.

 


Evr­ópu­sam­bandið er ekki matseðill

Evr­ópu­sam­bandið er ekki mat­seðill sem hægt er að velja bestu bit­ana af en sleppa sleppa hinu. Þetta kom fram í máli Mart­ins Schulz, for­seta Evr­ópuþings­ins, í ræðu sem hann flutti í London School of Economics í dag. Vísaði hann þar til viðræðna breskra stjórn­valda við Evr­ópu­sam­bandið um breytta skil­mála fyr­ir veru Bret­lands í sam­band­inu. (Mbl. greinir frá

Evr­ópu­sam­bandið ekki „mat­seðill“

Það voru hinsvegar rök margra þeirra sem samþykktu umsókn um aðild að Evrópusambandinu á Alþingi 2009.  Alltaf hefur legið ljóst  fyrir að  ekkert slíkt er í boði, annaðhvort allt eða ekkert. Það hefðu þeir þingmenn átt að vita  fyrir sem samþykktu umsóknina á Alþingi á sínum tíma en héldu svo öðru fram. Tvískinnungur þingmanna í ESB málinu hefur átt stóran þátt í að rýra traust almennings á Alþingi.

Tvískinnungur alþingsmanna rýrir traust Alþingis

Forystumenn Samfylkingar og Vinstri grænna halda því enn fram að ljúka eigi samningum um inngöngu í Evrópusambandið. Þeir lifa enn í þeirri trú að hægt sé að velja góðbitana úr  og sleppa öðrum bragðvondum. "Evrópusambandið er ekki matseðill þar sem gestirnir geta valið úr" sagði forseti Evrópuþingsins við Breta í dag. Það er flestum óskiljanlegt að flokkur sem telur sig andvígan inngöngu í Evrópusambandið og vill segja sig úr Nató en getur ekki stutt afturköllun umsóknarinnar að ESB. 

Framsókn og Sjálfstæðisflokkur  lofuðu því fyrir kosningar að afturkalla umsóknina að ESB en úr varð bréf sem enginn skilur. Evrópusambandið sjálft telur umsóknina virka og í fullu gildi.

 

 

 


Mynd dagsins frá Landakotsspítala - ábyrgðarleysi í stjórnun

 

Myndin frá Landakoti sem sýnir rotnandi glugga og myglaða veggi er bæði óhugguleg og ótrúleg. Það er samt ansi langt seilst að kenna bara fjárskorti um. Mér finnst ekki síður og miklu frekar um hreinan stjórnunarvanda og vanrækslu í stjórn spítalans að ræða. Hvernig væri að ráða góðan húsvörð og ræstingarfólk sem vinnur á ábyrgð spítalans og lýtur staðarstjórn.

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/mynd-dagsins-er-fra-landakoti-thetta-er-omurlegt-ad-horfa-upp-a

 

 


Hráakjötið - EES - stjórnarskráin

Réttur þjóðar til að verja fæðuöryggi sitt og heilbrigði einstaks búfjár á að vera í höndum innlendra stjórnvalda. 

Það að Eftadómstóllin þykist hafa ráðgefafndi stöðu til leyfa óheftan innflutning á hráu ófrosnu kjöti til Íslands gengur þvert gegn íslenskum lögum og þjóðarhagsmunum.

Ástralía og Nýja Sjáland eru heppin að vera ekki EES. En reglur þar til að vernda þarlenda matvælaframleiðslu og heilbrigði dýrastofna eru miklu harðari en hér. Innflutningsbann samrýmist ekki EES

Við erum ekki verið að banna innflutning á kjötvörum heldur að tryggja að fyllsta öryggis sé gætt gagnvart heilbrigði íslenskra dýrastofna.

EES samningurinn var á sínum tíma afmarkaður um viðskipti með tiltekna vöruflokka. Þeir sem að honum stóðu sýndu reyndar valdníðslu, mikið kæruleysi og litla þekkingu á fullveldishagsmunum Íslands.

Enda þorðu þeir ekki að leggja EES -samninginn í dóm þjóðarinnar þótt stór hluti hennar hafi  skrifað undir áskorun um þjóðaratkvæðagreiðslu.  

En síðan hefur þá hefur samningurinn víkkað út annarsvegar vegna stöðugrar eftirgjafar íslenskra stjórnvalda og hinnvegar að felld hafa verið undir hann æ fleiri svið sem ekki heyrðu til hans í upphafi. EES samningurinn gengur nú þegar í mörgu gegn stjórnarskránni.

Íslensk lög kveða skýrt á um að innflutningur á hráu ófrosnu kjöti er óheimill. Það er mjög sérkennilegt og verulegt hættumerki ef EES samningurinn á að standa ofar  öryggismálum Íslands og íslenskum lögum.

 

 

 

 


Hvað með á Tyrki ?

Tyrkir "vinir okkar í Nató" eru sakaðir um ofsóknir og mannréttindabrot gegn Kúrdum. Nú neita þeir að taka þátt í friðarviðræðum um Sýrland ef einni aðal hreyfingu Kúrda þar verður boðin þátttaka.

"Tyrkir hóta að sniðganga Sýrlandsviðræður"

  

Aðdáendur viðskiptaþvingana í ríkisstjórn Íslands og á Alþingi hljóta nú að hvetja til viðskiptabanns á Tyrki.

Ekki er ég að leggja það til, en stjórnvöld hljóta að íhuga það ætli þau að vera sjálfum sér samkvæm í rökum fyrir beitingu refsiaðgerða og viðskiptaþvingana

 


Þegar æðsti strumpur kallar

Forystumenn ESB og Bandaríkjanna leggja nú til að viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi verði hætt í sumar. "Refsiaðgerðum hugsanlega hætt í sumar". 

Tilgangsleysi þvingana af þessum toga er algjört og bitnar helst á almenningi, atvinnulífi, framleiðslu og kjörum þeirra sem vinna í frumframleiðslu og þjónustustörfum.  Viðskiptaþvinganirnar og gagnþvinganir Rússa eru að vinna illbætanlegt tjón á landbúnaðar- og matvælaframleiðslu í mörgum Evrópulöndum. Sjóðir ESB sem áttu að bæta löndunum það tjón ganga til þurrðar og aðilar eru nauðbeygðir til að losna úr þessari klípu. 

Barack Obama sagði nýverið að viðskiptabannið á Kúbu væru ein stærstu pólitísku mistök Bandaríkjanna

Utanríkisráðherrar sem týna áttum

Brýnt er að sett verði lög og skýrar verklagsreglur sem komi í veg fyrir blinda þátttöku Íslands í þvingunarðagerðum eða stuðningi við stríðsyfirlýsingar gagnvart öðrum þjóðum. Slíkt má ekki vera í hendi eins ráðherra sem hefur týnt áttum í ferðalögum og veisluboðum á erlendri grundu.

Gildir þar einu um hvort það eru uppáskriftir á loftárásir og innrás í Írak, Afganistan, Sýrland, Libýu eða viðskiptastríð gegn Rússum.

Sjálfstæði í utanríkismálum

Hryðjuverkalögin sem Bretar settu á Íslendinga með stuðningi annarra ESB landa ættu að vera okkur næg lexía og undirstrika mikilvægi sjálfstæðrar stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband