Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hið nýja klapplið utanríkisráðherra

Blind uppáskrift á refisaðgerðir Evrópusambandsins gagnvart öðrum ríkjum hefði aldrei verið samþykkt hljóðalaust í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í.

Börðust þó margir ráðherrar í þeirri stjórn fyrir inngöngu í Evrópusambandið og voru reiðubúnir að fórna miklu fyrir þjónkun við valdherrana í Brüssel og fá þar klapp á kollinn.

Ég er líka jafn handviss um að hefði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kvittað blint upp á nýgerðar refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússum, hefðu þáverandi stjórnarandstöðuþingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eðlilega orðið bandvitlausir. Þá hefði verið ráðist á stjórnina fyrir undirlægjuhátt og að fórna íslensku fullveldi og miklum hagsmunum á altari Evrópusambandsins.

Hugsað til Lúðvíks Jósepssonar sjávarútvegsráðherra

Einhverjir þeirra sem þegja nú þunnu hljóði hefðu í tíð fyrri ríkisstjórnar kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu áður en samþykkt væri aðild að einskonar stríðsyfirlýsingu gagnvart einu elsta viðskiptaríki íslenska lýðveldisins.

Ég er nær viss um að kempan Lúðvík Jósepsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hetja þjóðarinnar í landhelgisdeilunni, snýr sér nú við í gröfinni til þess að þurfa ekki að horfa upp á liðleskjurnar á Alþingi í þessum samskiptum.

ESB- aðildarsinnar kætast

Vissulega er ákvörðun Rússa um innflutningsbann á mörgum aðalútflutningsvörum okkar gróf og ósanngjörn og alvarlegt áfall fyrir íslenskan efnahag og atvinnulíf. Hins vegar er fullveldisframsal utanríkisráðherra til Evrópusambandsins í slíku stórmáli sem lýtur að almennu verslunarfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar miklu alvarlegra mál.

Hörðustu talsmenn ESB aðildar eru nú háværustu stuðningsmenn utanríkisráðherra. Það hlýtur að vera ráðherra umhugsunarefni og aðvörun.

Sjálfstæð og friðelskandi þjóð

Það krefst kjarks og þors að standa undir nafni sem sjálfstæð, vopnlaus og friðelskandi þjóð. En sem slík getum við haft mest áhrif á alþjóðavettvangi. Þannig komum við best athugasemdum og sjónarmiðum á framfæri gagnvart öðrum ríkjum á okkar eigin forsendum. Það gerum við á grundvelli sjálfstæðrar utanríkisstefnu en ekki sem viljalausir taglhnýtingar stórveldablokka

( Birtist sem grein í Morgunblaðinu 18.01. 2016)


Viðskiftabannið á Kúbu - mistök Bandaríkjanna

Ein stærstu pólitísku mistök Bandaríkjanna var viðskiftabannið á Kúbu. Þannig komst Barack Obama forseti að orði í loka ræðu sinni sem forseti fyrir nokkrum dögum á þinginu.

Viðskiftabannið náði engum þeim pólitíska árangri sem ætlað var heldur þveröfugt.

Hinsvegar hafði bannið víðtæk neikvæð áhrif á ímynd og pólitíska stöðu Bandraríkjanna í þessum heimshluta. Taldi Barack Obama það sem eitt sitt stærsta afrek að létta af þessu banni. 

 


Hryðjuverkalögin og "vinir" utanríkisráðherra

Bretar settu hryðjuverkalög á íslensku þjóðina með stuðningi annarra ESB ríkja.

Íslendingar voru beittir einum grófustu þvingunum, sem nokkurt ríki í Evrópu hefur verið beitt frá stríðslokum.

Það ríkti hér í raun neyðarástand haustið 2008.

Hryðjuverkalögin hefðu ekki verið sett á Íslendinga nema með vitund Bandaríkjanna. 

Meira að segja Norðurlöndin fylgdu með í þessum aðgerðum gegn Íslendingum. Færeyingar voru þeir einu sem reyndust vinir í raun.

Refsiaðgerðir ESB vegna makrílveiða Íslendinga

ESB samþykkti sérstök lög til að geta beitt Íslendinga víðtækum refsiaðgerðum og viðskiftaþvingunum vegna makrílveiða okkar. Hótanir þeirra og framkoma gangvart Íslendingum voru ekkert vinarbragð eða spaug. 

Þær löglausu þvinganir voru hlutfallslega miklu harðari en ESB hefur beitt nokkurt í land í Evrópu nema þá Færeyinga. En skipum þeirra var meinað að leggjast að bryggju í Danmörku að skipan ESB.

 Kyssir vöndinn

Þegar nú ríkisstjórnin kyssir á vöndinn og ver aðgerðir sínar og undirlægjughátt við ESB getur manni orðið óglatt:

"Að rjúfa sam­stöðu vest­rænna ríkja teld­ist meiri­hátt­ar frá­vik frá ut­an­rík­is­stefnu Íslands og væri ábyrgðar­hluti sem kallaði, í besta falli, á gagn­rýn­ar spurn­ing­ar vinaþjóða um veg­ferð ís­lenskra stjórn­valda í alþjóðasam­skipt­um. Þá myndi orðspor Íslands sem traust banda­lags­ríki bíða hnekki". Myndi skaða orðspor Íslands segir ráðherra í viðtali.

Kúvending í utanríkismálum

 Þótt unnið sé fjárhagslegt skemmdarstarf fyrir íslenskt þjóðarbú og langtíma viðskiftahagsmuni er blind uppáskrift á refsiaðgerðir ESB slíkt framsal á fullveldi miklu alvarlegra og á sér ekki hliðstæðu í lýðveldissögu Íslands.

Ísland sem sjálfstæð og friðelskandi þjóð

 Við sem vopnlaus og friðelskandi þjóð komum okkar skilaboðum og sjónarmiðum á framfæri við aðrar þjóðir og á alþjóðavettvangi með orðræðu og skoðanaskiptum en ekki valdbeitingum.

 

 

 


Snýst um sjálfstæða utanríkisstefnu Íslands

Að skrifa í blindni undir refsiaðgerðir Evrópusambandsins á hendur öðru ríki er alvarlegt fullveldisframsal. Viðskiptaþvinganir eða aðrar slíkar meiriháttar refsiaðgerðir eru einskonar stríðsyfirlýsing.

Það að Ísland er herlaust þýðir að landið getur ekki gengið lengra. Næsta stig deilunnar væri að senda her eða hernaðarráðgjafa eða vopn á vettvang. En Evrópusambandið stefnir að því að koma sér upp formlega eigin her.

Þótt svar Rússa um innflutningsbann á mörgum aðalútflutningsvörum okkar sé ósanngjarnt, harkalegt og alvarlegt fyrir íslenskan efnahag og atvinnulíf er fullveldisframsal utanríkisráðherra til Evrópusambandsins í slíkum stórmálum þjóðarinnar miklu alvarlegra mál.

 Ég er reyndar vissum um að slík blind uppáskrift á refisaðgerðir Evrópusambandsins gangvart öðrum ríkjum hefði aldrei verið samþykkt hljóðalaust í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í. Börðust þó margir ráðherrar í þeirri stjórn fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

 Ég er líka jafn handviss um að hefði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kvittað í blindni upp á slíkar refsiaðgerðir Evrópusambandsins, hefði þáverandi stjórnarandstöðu þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eðlilega orðið bandvitlausir og ráðist á ríkisstjórnina fyrir undirlægjuhátt og að fórna íslensku fullveldi og miklum hagsmunum á altari Evrópusambandsins.

Einhverjir þeir sem þegja nú þunnu hljóði hefðu þá kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Og það áður en ríkisstjórn eða einstaka ráðherrar samþykktu aðild að einskonar stríðsyfirlýsingu gagnvart einu elsta viðskiftaríki íslenska lýðveldisins.  

Við getum komið athugasemdum og sjónarmiðum okkar á framfæri gagnvart öðrum ríkjum á okkar eigin forsendum á grundvelli sjálfstæðrar utanríkisstefnu.


Utanríkisráðherra á hálu svelli ESB

Ákvörðun utanríkisráðherra að hlýða í blindni fyriskipun ESB í viðskiptaþvíngunum á Rússa lýsir dæmalausum undirlægjuhætti og skaðar fyrst og fremst sjálfstæða stöðu og hagsmuni Íslands innanlands sem á alþjóðavettvangi.

Það er annars pólitískt rannsóknarefni hvernig það gerist á nokkrum mánuðum að einstaklingar sem verða utanríkisráðherra umpólast og verða að einskonar umskiptingum í þjónkun sinni við ESB.  

„Ekki hægt að verðleggja fullveldi þjóða“

segir ráðherrann en beygir sig svo í duftið fyrir kröfum ESB.  Framkvæmdastjórn ESB  birtir reyndar stuðning Íslands við þvinganir ESB gegn Rússum í opinberum tilkynningum sínum áður en ráðherra hefur einu sinni kynnt þær fyrir eigin íslenskri ríkisstjórn.

Hvað segir Bjarni Benediktsson nú ?

"Viðskiptaþvinganirnar flutu óvart með og Ísland á ekki að vera sjálfkrafa aðili að utanríkisstefnu Evrópusambandsins" segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins við Morgunblaðið 20. ág. sl: Mbl.  Bjarni hafði efa­semd­ir frá upp­hafi )

"Menn voru einfaldlega í upphafi einhuga um að sú rödd þyrfti að heyrast frá Íslandi að við stæðum með bandalagsþjóðum okkur í afstöðunni gagnvart ástandinu í Úkraínu. Mér sýnist að það sem varðar viðskiptaþvinganirnar hafi flotið með í því samhengi.

Ég var hugsi yfir því hvort það væri sjálfsagt og eðlilegt að Ísland, sem ekki er aðili að Evrópusambandinu og þar af leiðandi ekki með í sameiginlegri utanríkisstefnu þess, tæki undir ályktanir, ákvarð- anir og aðgerðir Evrópusambandsins vegna þess að við höfum ekki á neinu stigi málsins átt neina að komu að þeim ákvörðunum.

Í því sambandi er ég fyrst og fremst að hugsa um að við rekum okkar eigin sjálfstæðu utanríkisstefnu".

ESB -aðildarsinnar kætast

Nú eru það ESB sinnarnir sem kætast sem aldrei fyrr yfir þjónkun ríkisstjórnarinnar við kröfur  ESB þótt þær komi harðast niður á Íslendingum sjálfum. Fyrir hörðustu Natósinnana er rétt að taka fram að það eru tilskipanir Evrópusambandsins sem verið er uppfylla en ekki Nató. 

Meðan ráðherra kemst upp með þjónkun sína gagnvart ESB er ríkisstjórnina öll ábyrg. 

 


Næsti forseti ??

Nú þegar Ólafur Ragnar Grímsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í næsta forsetakjöri fara vangaveltur á fullt um frambjóðendur.

Átakamál síðustu ára voru tvímælalaust Evrópusambandsumsóknin og skilgetið afkvæmi hennar Icesave samningarnir. Þar höfðu stjórnvöld misst sjálfstraust og reisn  fullvalda þjóðar og leituðu í örvæntingu á náðir erlends stórríkjasambands um hjálp.

Leiðtogar  ríkisstjórnarinnar þá héldu því  blákalt fram að fjármálavandi og gjaldeyriskreppa Íslendinga myndi leysast strax og ESB umsóknin væri farin af stað.  Evrópusambandið myndi þá veita Íslendingum hagstæð lán til að standa við meintar skuldbindingar landsins. – Grikklands leiðin_.

 Á þessum  tíma reis forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson upp og stóð með þjóðinni, fullveldi hennar og rétti til eigin ákvarðanataka. Bretar beittu hryðjuverklögum  sem studd voru af flestum Evrópuríkjum nema Færeyingum. Íslenska þjóðin vann þennan slag.

Evrópusambandsumsóknin áfram virk

Evrópusambandsumsóknin er því miður enn virk. Þótt ekki blási í dag byrlega fyrir Evrópusambandinu getur það breyst skjótt. Reynslan sýnir að stjórnmálaflokkum á Alþingi er ekki treystandi fyrir málum sem ráða fullveldi þjóðarinnar. EES samningurinn fékk t.d ekki að fara til þjóðarinnar.

   „ Þingið réð ekki við málið“ sagði utanríkisráðherra í uppgjöf sinni nýverið, en hann hafði þó áður lofað að ríkisstjórn og Alþingi myndi afturkalla umsóknina að Evrópusambandinu formlega.

Það mun því verða kallað eftir afdráttarlausri afstöðu forsetaframbjóðenda til sjálfstæðrar stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, mögulegs fullveldisframsals og inngöngu í Evrópusambandið.

Frambjóðendur munu þurfa að tala skýrt í þessum efnum.

 


Skaupið

Ég ætla ekki að leggja neitt sérstakt mat á áramótaskaupið í gærkveldi. 

Ég verð þó að segja að upphafið að þættinum þar sem endurspilað var viðtal útvarpsmanns við Sigurð Einarsson fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings og viðbrögð hans við dómi hæstaréttar og fangelsun var ósmekklegt.

Mér fannst viðtal fréttamanns á sínum tíma og birting þess í fréttum útvarps einkar ómerkilegt.  Ekki bætti úr skák að hafa það sem inngangsstef að áramótaskaupi sjónvarps.  

Hvað sem líður misgjörðum Sigurðar í starfi og hann nú er dæmdur fyrir lýsir það einstakri lágkúru fjölmiðils að ganga svo í persónu Sigurðar eins og gert var.

Vissulega var sleginn sá tónn í skaupinu að forðast umræðu um málefnin en fara þess í stað beint í persónurnar sjálfar.

Það er reyndar að nokkru í takt við háttalagið í þjóðfélagsumræðunni víða í fjölmiðlum og bloggheimum síðustu misserin.

Að sjálfssögðu var skaupið um margt fyndið, vel leikið og kætti ¨"smjatttaugar" áhorfandans

 


Klúður ársins !

 Ríkisstjórn og Alþingi heyktist á að afturkalla umsóknina um aðild að Evrópusambandinu, sem hafði þó verið eitt af stærstu kosingaloforðum núverandi ríkisstjórnarflokka.

Þetta var mál sem ríkisstjórnin átta að klára á fyrstu vikum sínum eftir kosningar 2013 eins og lofað var. Hún hefur þó enn eitt ár til að efna loforð sín um afturköllun ESB- umsóknarinnar.

"Ástarbréfin" til Brüssel

Ríkisstjórnin hefur haft öll tækifæri til þess að standa við loforð sín um að afturkalla ESB umsóknina og hefur enn.

 Það er hinsvegar upplausnarástandið í Evrópu sjálfri sem  hefur sett strik í ESB- umsóknina frekar en "ástarbréf" ríkisstjórnarinnar til valdhafanna í Brüssel. 

Aðildarumsókn að ESB er áfram virk

Að mati Evrópusambandsins sjálfs geta Íslendingar haldið umsóknarferlinu ótrauðir áfram þegar þeim sýnist svo. Umsóknin sé í raun virk hvað ESB áhrærir.

Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna á þingi líta einnig svo á að umsóknin sé áfram virk og hafi ekki verið afturkölluð.

Þetta er okkur sem viljum sjálfstætt Ísland utan ESB mikil vonbrigði og stórhættuleg staða.

"Þingið réð ekki við málið"

Því miður virðist sama hvaða flokkur er, forystumönnum þeirra finnst sjálfssagt að svíkja kosningaloforð og stefnuskrá þegar Evrópusambandið á í hlut.

Utanríkisráðherra,sem ég veit að er vel meinandi, lýsti sjálfur uppgjöfinni í blaðaviðtali nýverið: "Þingið réð ekki við ESB-málið".

Jafnframt lýsti ráðherrann því yfir að ríkisstjórnin myndi áfram gerast taglhnýtingur Evrópusambandsins og styðja refsiaðgerðir þess gegn Rússum, sem bitna svo harðast á Íslendingum sjálfum. 

Lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur

 Bæði þing og ríkisstjórn hefur reynst ráðvillt í utanríkismálum og höktir t.d. enn sem hækja Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi í stað þess að móta sér sjálfstæða utanríkisstefnu.

Póltísk umræða næstu missera mun því snúast um fullveldismál, virkt lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur. 

 

 


Forsetinn nýtur vinsælda

Um 50% ( 47,8) prósent landsmanna eru frekar eða mjög ánægð með störf Ólafs Ragnars Grímssonar í embætti forseta Íslands. Aðeins fjórðungur er óánægður með störf hans, samkvæmt nýrri könnun MMR. 

Stuðningsfólk flokkanna sem stóðu að ESB umsókninni og Icesave samningunum eru minnst ánægðir með störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta.

Þarf það ekki að koma á óvart þegar horft er til þeirra átaka sem urðu um þessi tvö mál á síðasta kjörtímabili meðal þjóðarinnar og atbeina forsetans:

55% kjósenda Samfylkingarinnar og 49% stuðningsfólks Vinstri grænna er frekar eða mjög óánægt með störf forsetans samkvæmt nýrri könnun MMR.

En þar sem stuðningur við þessa flokka hefur dregist svo saman hefur afstaða kjósenda þeirra lítil áhrif á heildarniðurstöðuna.

  Mest er ánægjan með störf forsetans hjá kjósendum Framsóknarflokksins  eða yfir 80%. (Forsetinn nýtur afgerandi stuðnings meðal kjósenda Framsóknarflokks)

Athyglisvert er að 56% þeirra sem ekki vilja  kjósa neinn af núverandi þingflokkum eru frekar eða mjög ánægðir með störf forsetans.

 


Evrópusambandið vill stofna eigin her

Fjármálaráðherra Þýskalands rekur á eftir því að Evrópusambandið stofni sinn eigin her. Æðstu forystumenn ESB ræða nú opinskátt að það sé ekki spurning hvort heldur hvenær það verði formlega gert.  Sameiginleg landamæralögregla Schengen sem lýtur yfirstjórn frá Brüssel er að eins fyrsta skref í sameiginlegri hervæðingu.

Forysta VG styður enn umsókn að ESB

Það er óneitanlega skondinn tvískinnungur að Vinstrihreyfingin grænt framboð, sem vill ganga úr hernaðarbandalaginu Nató,( gott mál), styður áfram umsókn sína um inngöngu í Evrópusambandið, sem nú hervæðist. Sú inngöngubeiðni stendur enn virk af VG hálfu og hefur ekki verið afturkölluð.

Schäuble fordert die Gründung einer Armee der EU 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband