Skrifaði Ólafur Þ. Jónsson í öflugri grein í MBL. 1. Maí 2021
 "Í dag minnist launafólk og aðrir verkalýðssinnar frumherjanna, sem báru gæfu til að gera stéttabaráttuna að sínum herra, helgaði 1. maí stéttabaráttunni og gerði rauða fánann að tákni þeirrar baráttu með þakklæti og virðingu.
Frumherjanna, sem fluttu fátækri alþýðu boðskapinn um að taka höndum saman í lífsbaráttunni og heyja hana saman.
„Frelsun verkalýðsins verður að vera verk verkalýðsstéttarinnar sjálfrar,“ eins og Karl Marx orðaði það.
Þegar á leið bættist í hóp frumherjanna ungt fólk, sem lét sér ekki nægja að berjast fyrir hærri launum og félagslegum umbótum fyrir stétt sína. Sú barátta var að þess dómi eins og hver önnur hjáverk á leiðinni til framtíðarlandsins, sósíalismans, sem þá eins og nú bíður inni í sólglitrandi framtíðinni eftir því að fólkið þori. 
 
„Veit þá engi að eyjan hvíta/á sér enn von ef fólkið þorir.
 
Svo kvað Jónas. M. ö. o. þau vissu að þau ein geta breytt þjóðfélagsgerðinni, sem þekkja hana til hlítar.
Það nægir einfaldlega ekki að skynja misréttið í þjóðfélaginu, menn verða að skilja orsakir þess.

Langt fram á síðustu öld sótti verkalýðshreyfingin þrótt og baráttuþrek í arfleifð frumherjanna og lét mikið að sér kveða í íslenskum þjóðmálum.

Auk baráttunnar fyrir vinnu og mannsæmandi launum knúði hún fram 6 stunda hvíld á togurum, vökulögin svonefndu, 8 stunda vinnudag, orlof handa launafólki og almannatryggingar af ýmsum toga. Margt af þessu var árangur af löngum og víðtækum verkföllum. Lögin um atvinnuleysistryggingar voru t.d. knúin fram eftir sex vikna verkfall árið 1955 og tóku gildi árið eftir.

Ekki má gleyma baráttunni fyrir lífeyrissjóðunum, en skyldugreiðslur í þá hófust 1970, né baráttunni fyrir félagslegu húsnæði, en lög um verkamannabústaði voru sett árið 1929.

Til að ná því fram sem ég hef hér upp talið þurfti þrotlausa og fórnfúsa baráttu og það er öllum hollt að hugleiða við hvaða öfl í þjófélaginu var barist. Þá eins og nú er það stéttabaráttan sem er hreyfiafl sögunnar.

En verkalýðshreyfingin lét ekki þar við sitja. Hún barðist af hörku gegn afsali íslenskra landsréttinda og gegn erlendri hersetu á Íslandi, einkum á árunum 1945 til 1951, gegn inngöngu Íslands í NATO 1949, gegn inngöngu Íslands í Efnahagsbandalag Evrópu 1962, en svo hét fyrirrennari Evrópusambandsins á þeim tíma, og fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í fjórum áföngum frá 1952 til 1975.

Á árunum 1968 til 1970 urðu harðvítug verkföll í landinu og stóðu í tvær til þrjár vikur í senn. Þá var ólga á vinnumarkaði, m.a. vegna verulegs atvinnuleysis.

Þegar kom fram á áttunda áratuginn var sagt skilið við stéttabaráttuna af hálfu ASÍ-forystunnar og við tók stéttasamvinna, vaxandi miðstýring og sérfræðingaveldi. Með þessum breytingum einangraðist ASÍ-forystan frá grasrótinni í verkalýðsfélögunum, sem missti smám saman áhuga á henni, því alltaf logaði glóð stéttabaráttunnar á arni ýmissa verkalýðsfélaga.

Fyrsta marz 2009 þegar kaupmáttur launa hafði rýrnað um 10% á einu ári samdi ASÍ um frestun umsaminnar launahækkunar í átta mánuði. Öðruvísi mér áður brá".

Beinskeyttur baráttumaður- Trúr sannfæringu sinni

Svo skrifaði Ólafur þ. Jónsson vitavörður, skipasmiður og hugsjónamaður beinskeyttur að vanda með yfirgripsmikla þekkingu á sögu stéttarbaráttu  síðustu ára tuga og alda 

 Við Ólafur kynntumst náið á fyrstu árum Vinstri Grænna.

Kröftug vinna hans og barátta þeirra félaga Árna Steinars Jóhannssonar og Ólafs átti stóran hlut í að Vg fékk fulltrúa kjörna á þing 1999, sama ár og hreyfingin var stofnuð.

Árni Steinar hafði verið formaður Þjóðarflokksins og kom til liðs við Vg frá þeim ranni.

Ólafur, eða Óli Kommi stýrði ásamt fleirum blaði okkar VG , Norðurstjörnunni í Norðvestur kjördæmi og sá um fjárölflun og  sem var þar í öruggum höndum. 

Þeir félagarnir Árni Steinar og Óli voru afar nánir og verður mér hugsað til þeirra saman nú þegar báðir eru fallnir frá.

Var gott að eiga þá félaga að vinum

VG var jú stofnað um frelsi og mannréttindi fyrir alla, fyrir verndun sjálfstæðis þjóðarinnar og hlutleysi í deilum stórvelda.  Baráttu fyrir friði og jafnrétti og gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og fyrir úrsögn Íslands úr herveldasamsteypunni Nató. Ólafur var stofnfélagi í VG 1999

Ólafur  var lítið hrifinn af samsteypstjórn Samfylkingarinnar og Vg 2009 og keyrði um þverbak þegar forysta Vg sveik mörg sín grunnstefnumál og sótti um aðild að ESB í ríkisstjórninni 2009.

Við félagar glöddumst yfir að tókst að stöðva ESB umsóknina og þá vegferð sem hún hleypti af stað.

En áfram kraumaði umsóknin og undirlægjan gagnvart ESB hélt áfram og gerir enn.

ESB umsóknin ásamt fleiri grundvallar málum ullu miklum pólitískum  darraðardansi innan  Vinstri grænna á þessum tíma og síðan uppstokkun í ríkisstjórn í árslok 2011.

 

Ólafi Þ. Jónssyni, trúr hugsjón sinni  var þá nóg boðið og sagði sig úr VG 5. janúar 2012 ásamt fleirum úr grasrót heyfingarinnar.  

   Ólafur var einlægur friðarsinni og mjög andvígur hervæðingu Íslands og takamarkalausri þjónkun við herveldis- og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og annarra á þeim vettvangi.

Hann vildi að Ísland segði sig úr Nató og stæði utan þess stríðsdans  sem siðar varð stefna hjá of mörgum í flokknum.

Þótt ýmsum hafi þótt Óli hrjúfur, var hann okkur sem kynntumst honum afar hlýr og mikill mannvinur.

Glettinn og góður félagi, hrókur alls fagnaðar og vinur vina sinna. Það vissu allir hvar þeir höfðu Ólaf þ.Jónsson. 

"Mikið óskaplega ert þú myndarlegur maður" sagði Regína Thorarensen við Ólaf er þau hittust af tilviljun á Eskifirði hún þá komin á elliheimilið þar og við Óli saman á ferð.

Ólafur og Regína voru á vissan hátt nágrannar um allmörg ár,  hann vitavörður á Horni en Regína fréttaritari Morgunblaðsins á Gjögri í Árneshreppi.

Bæði orðhvöt og fylgin sér, en höfðu ekki hist fyrr. Og áttu nú gott og hlýtt spjall.  

Mér er eftirminnilegt á einum landsfundi VG þegar var stöðugt og lágkúrulegt nöldur hjá ýmsum félögum út í þjóðkirkjuna og kristindóminn.

   Voru fluttar tillögur um að flokkurinn VG sem slíkur legðist gegn þjóðkirkjunni og hin kristna kirkja og þjóðkirkjan keppti bara við aðra trúar söfnuði um stuðning og starf á hinum "frjálsa markaði". 

Ólafur flutti þá stutta en snjalla ræðu: " Það hefur verið sagt að ég sé ekki mikill áðdáandi þeirra himnafeðga, en ég styð það að hér sé áfram ríkiskirkja, þjóðkirkja og ég er algjörlega andvígur því að einkavæða guðdóminn".

Féll málið þá dautt niður.

Nú þegar komið er að leiðarlokum vil ég þakka Ólafi fyrir samfylgdina einlægnina, vináttuna og góðu ráðin og stuðninginn. Samtölin einkum í síma hin síðari ár.

Ég er minnugur þeirra orða Ólafs er hann hafði við fréttamann 5.janúar 2012:

 "Þegar búið er að víkja Jóni Bjarnasyni úr ráðherra stóli VG vegna baráttu hans gegn aðild að ESB á ég þar litla samleið".  "Ertu þá að fara í annan flokk?".

"Nei og ef það yrði þá væri hann mjög rauður".

"Vaki, vaki vaskir menn,
voða ber að höndum.
Vargagin og vígaklær
vofa yfir löndum."
(Heiðrekur Guðmundsson)

Voru lokaorð Ólafs í einni af síðustu greinum hans þar sem hann hvatti til dáða.

Ég finn hlýtt og þétt handtak Ólafs ylja inn í framtíðina. 

Blessuð sé minning Ólafs Þ.Jónssonar vitavarðar, skipasmiðs og hugsjónamanns. 

Ólafur verður borinn til grafar á Akureyri í dag 

Fjölskyldu Ólafs sendi ég einlægar samúðarkveðjur