Tillaga okkar Atla Gíslasonar frá í okt 2012 um

Afturköllun umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að afturkalla umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Aðildarumsóknin  verði ekki endurnýjuð nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar.

Þannig hljóðar þingsályktunartillaga okkar Atla Gíslasonar frá því fyrr í haust. Hún kemur vonandi til meðferðar Alþingis á næstu dögum.

Engar varanlegar undanþágur frá lögum og regluverki ESB í boði.

Í greinargerð með tillögunni segir:
Alþingi samþykkti með þingsályktun hinn 16. júlí 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt samþykkti þingið að fylgja við aðildarviðræðurnar ítarlegu nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem kvað á um ákveðna meginhagsmuni Íslands sem settir voru sem skilyrði og afmörkuðu umboð ríkisstjórnarinnar til aðildarsamninga. Nú rúmum þremur árum síðar liggur fyrir að umsóknarferli Íslands að ESB verður ekki fram haldið nema vikið sé í verulegum atriðum frá þeim meginhagsmunum sem meiri hluti utanríkismálanefndar dró fram í áliti sínu (þskj. 249, 38. mál 137. löggjafarþings) og Alþingi gerði að skilyrðum sínum við samþykkt ályktunarinnar 16. júlí 2009. Umboð ríkisstjórnarinnar til að halda áfram aðlögunar- og aðildarvinnu er því ekki lengur fyrir hendi og telja flutningsmenn þessarar tillögu að viðræðum skuli hætt og umsóknin afturkölluð.

Þjóðin fái að segja sitt áður en lengra er haldið

Flutningsmenn telja jafnframt brýnt að ekki verði gengið að nýju til viðræðna við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar Íslands að sambandinu. Engin rök hníga að því að Ísland sæki um aðild að ríkjasambandi ef ekki er almennur vilji til aðildar.
Komið hefur í ljós að umsóknar- og aðildarferli Íslands að ESB er með allt öðrum hætti en haldið var fram af talsmönnum þess þegar umsóknin var lögð fram sumarið 2009. Kröfur ESB eru einhliða og ganga mun lengra en Alþingi hefur heimilað ríkisstjórninni að byggja á sem samningsgrundvöll. Sett hafa verið einhliða opnunarskilyrði við einstaka kafla en aðrir eru óopnaðir af hálfu ESB og allt samningsferlið lýtur algerlega geðþótta ESB. Jafnframt er krafist fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana að ESB án þess að niðurstaða sé fengin í viðræðunum. Þá verður ekki horft fram hjá því að aðildarferlið er kostnaðarsamt sem og aðild að sambandinu.

Verið að binda aðildarferlið með milljörðum króna til næstu ára

Utanríkisráðherra hefur sjálfur sagt að aðild að sambandinu mundi fela í sér umtalsvert meiri kostnað vegna krafna ESB um uppstokkun og aukið umfang stofnanakerfis landsins (B-mál 699, 91. fundur á 138. löggjafarþingi). Þar sem komið hefur í ljós að krafist er fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana fellur þessi kostnaður augljóslega til meðan á umsóknarferlinu stendur.

 

Fullveldisframsal
Framsal á fullveldi og einhliða kröfur og skilyrði sem ESB hefur sett í viðræðunum eru með öllu óásættanlegar fyrir íslenska hagsmuni og sjálfsforræði. Kröfur ESB ganga þvert gegn þeim meginhagsmunum og skilyrðum Íslands sem Alþingi samþykkti að fylgja hinn 16. júlí 2009. Framhald aðlögunar Íslands að ESB og eftirgjöf í stórum hagsmunamálum í alþjóðaviðræðum stríðir gegn framtíðarhagsmunum Íslands.
Þá hafa ESB og fulltrúar þess nú þegar ástundað beina íhlutun í íslensk innanríkismál í skjóli umsóknarinnar, sbr. ályktun Evrópuþingsins frá 14. mars sl., og krafist fylgispektar Íslands á alþjóðavettvangi sem er með öllu ólíðandi af Íslands hálfu. Efnahagsleg inngrip ESB í íslenskt þjóðfélag hafa alvarlegar afleiðingar og eru ekki í samræmi við forsendur umsóknarinnar. Það felur annars vegar í sér að með því er verið með peningagjöfum, sem stýrt er frá Brussel, að hafa áhrif á atvinnu, afstöðu til ESB-aðildar og almenna skoðanamyndun í landinu og hins vegar að um er að ræða falskar væntingar um áframhaldandi verkefni en þeim mun ljúka jafnskjótt og þetta gjafafé er upp urið.

Makríldeilan dæmigerð fyrir yfirgang ESB
Þá má nefna makríldeiluna og áform og hótanir Evrópusambandsins í garð Íslendinga um viðskiptaþvinganir, samtímis því sem aðildarviðræður standa yfir. Sýna þær hótanir best hvernig þetta ríkjasamband beitir sér gegn smáríki eins og Íslandi. Samningur ríkisstjórnarinnar um Icesave hefur ætíð verið skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar, enda hefur ESB nú gerst formlegur málsaðili og ákærandi gegn Íslandi í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum.
Jafnframt hafa forsendur á Evrópusambandssvæðinu sjálfu breyst í veigamiklum atriðum. Hið sama á við um starfshætti sambandsins og pólitísk tilræði þess við sjálfstjórnarrétt aðildarríkjanna, einkum á sviði efnahagsmála, sem felur í sér að eftirlit og ákvarðanir um þann málaflokk innan hvers ríkis eru færðar frá sambandsríkjunum sjálfum til miðstjórnarvaldsins í Brussel. Enn fremur hefur það komið í ljós að hin sameiginlega mynt, evran, sem var talin fela í sér vörn fyrir viðkomandi land, sem ætti í efnahagsörðugleikum, hefur þvert á móti magnað upp vanda ríkjanna og stefnir þeim í átt að gjaldþroti. Þar með eru brostnar eða gjörbreyttar veigamiklar forsendur sem lágu fyrir við samþykkt þingsályktunartillögunnar á sínum tíma.


Í ljósi þess hvernig umsóknar- og aðildarferlið hefur þróast þvert á vilja og hagsmuni íslensku þjóðarinnar telja flutningsmenn tillögunnar brýnt að Alþingi samþykki að afturkalla umsókn sína um aðild að ESB. Og umsóknin fari ekki gang aftur fyrr en þjóðin hefur verið spurð hvort hún vilji ganga í ESB.

 

Flutningsmenn tillögunnar eru Atli Gíslason og Jón Bjarnason

 


Ráðherraráð ESB - Engar varanlegar undanþágur í boði

 12.12 2012 birtist meðf. frétt á Eyjunni:

"Ráðherraráð Evrópusambandsins ítrekar að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagabálk Evrópusambandsins við mögulega inngöngu í sambandið."

Segir í ályktun Ráðherraráðs Evrópusambandsins sem Þorfinnur Ómarsson fréttamaður í Brussel sendi frá sér  12.12. 2012. Er þetta í samræmi við það sem áður hefur komið fram af hálfu æðstu forystu ESB.
Hinsvegar hafa ýmsar undirtyllur bæði hjá ESB í Brussel og hér heima á Íslandi haldið því fram að Ísland geti fengið undanþágur frá  lögum ESB í þessu og hinu. Og enn halda stjórnmálamenn  því fram gegn betri vitund.
Málið er því ósköp einfalt, valið er : viljum við ganga í ESB eða ekki og framselja fullveldið eða halda sjálfstæðinu. Um það getum við tekið ákvörðun strax í dag.
Ein af forsendum fyrir ESB umsókninni  á sínum tíma var að "kíkja í pakkann" og sjá hvað væri í boði. 
Ráðherraráð ESB hefur nú ítrekað tekið af öll tvímæli um að varanlegar undanþágur fyrir Ísland frekar en önnur ríki, eru í raun  ekki til í orðabók ESB. Við getum hinsvegar vafalaust samið um tímabundnar undanþágur í einstökum atriðum
Þeir sem  segjast  í orði vera á móti ESB, en vilja áfram bíða eftir að kíkja pakkana frá Brussel, hljóta nú að sjá sig um hönd. Þetta er nákvæmlega það sem stendur í skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu og feril aðlögunarumsóknarinnar. Það er því hárrétt ákvörðun hjá ríkisstjórninni að afturkalla þessa fölsku umsókn. Það er ESB sem ræður hvenær samningum um einstakan kafla lýkur og það er ekki fyrr en fallist hefur verið á kröfur ESB og sýnt hvenær þeir geta verið innleiddar.
 
  Umsóknin um inngöngu í ESB, ef hún er send á að vera á sönnum forsendum og að vilja þjóðarinnar, en ekki byggjast á blekkingum og svikum eins og sú sem send sumarið 2009. Þjóðin vill ekki framselja fullveldi sitt og rækilega sýnt hug sinn þar í nýlegum skoðanakönnunum.

ESB- Engar varanlegar undanþágur í boði fyrir Íslendinga



ESB krafðist fullveldisafsals á fiskveiðiauðlindinni

Það lá fyrir að ESB neitaði að opna á viðræður um sjávarútvegsmál nema að Ísland féllist fyrirfram á að gefa eftir fullveldisréttinn yfir fiskveiðiauðlindinni í samræmi við samþykktir Evrópusambandsins. Um það  segir svo  í skýrslu Hagfræðistofnunar:

 „ Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja löggjöf í sjávarútvegsmálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu þess. Varðveisla auðlinda nær ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða“.

 Til þess að samningaferill gæti hafist í ESB-viðræðunum um hvern  samningskafla, sem eru 33 þurftu báðir aðilar að leggja fram svokallaða rýniskýrslu, þar sem greindur var munur á löggjöf og regluverki aðila í málaflokknum. Í rýniskýrslu Íslands var greint í hverju löggjöf Íslands vék frá regluverki ESB. Í rýniskýrslum sínum fer sambandið yfir íslenska regluverkið og hverjir séu annmarkar þess og  hverju Ísland þyrfti að breyta í sinni löggjöf til að falla að kröfum ESB. Ennfremur skal rýniskýrsla ESB fela í sér tillögur framkvæmdastjórnarinnar til landa ESB hvort Ísland sé hæft til samninga um viðkomandi kafla og ef ekki þá hvaða fyrirmæli skuli gefa um úrbætur svo samningar geti hafist. Í regluverki ESB eru ákvæði um að sé um annmarka á aðlögun löggjafar umsóknarlands að ræða skuli setja opnunarskilyrði fyrir viðkomandi kafla sem skuli mætt áður en samningar um kaflann geta hafist.  

Rýniskýrsla Íslands um sjávarútveg var fyrir löngu tilbúin af Íslands hálfu og rædd, en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þorði ekki að birta sína, Til þess bar of mikið í milli og sérstaklega í grundvallaratriðum. Þar bar hæst  ófrávíkjanleg krafa ESB um að öll yfirstjórn auðlindarinnar færðist til Brussel.-  Einungis væri hægt að semja um undanþágur til takamarkaðs tíma.

Með því að setja þá kröfu fram sem opnunarskilyrði fyrir sjávarútvegskaflann hefðu samningar um hann aldrei getað hafist og staðið óopnaðir til eilífðarnóns nema því aðeins að öllu hefði verið fórnað af Íslands hálfu aðeins til að ná samningum og fá að "kíkja í Pakkann". Það verður að hafa hugfast í þessari umræðu að ESB heldur alfarið um stýrið á þessari vegferð, ræður því hvort samningar um einstaka kafla hefjast og hvort lokið og hver útkoman er. Það er Ísland sem sækir um aðild að ESB en ekki öfugt.

Ég krafðist þess sem ráðherra að rýniskýrslan um sjávarútveg frá ESB kæmi fram og þá birtust formlega kröfur sambandsins um hverju við yrðum að breyta í okkar löggjöf. Jafnframt myndi þá birtast formleg krafa þeirra um afsal okkar á forræði auðlindarinnar. Það stóð aldrei til af minni hálfu að gefa fyrirfram eða á samningsferlinu eftir fullveldisrétt Íslands í sjávarútvegsmálum.

Krafa ESB um yfirráð á fiskveiðiauðlindinni

Samningamönnum ESB var það reyndar fullljóst að kæmi afstaða og kröfur þeirra formlega fram þá væri í raun samningum sjálfhætt.  Hverjum dettur það raunverulega í hug að Ísland myndi nokkurn tíma gefa þann forræðisrétt frá sér?-  Þetta var ýmsum öðrum í ísl. stjórnsýslu líka ljóst og því leiddu þeir athyglina frá sjávarútvegi að öðrum deiluatriðum eins og landbúnaði. Um þetta segir í skýrslu Hagfræðistofnunar:

„Hvað varðar sjávarútvegskaflann er mikilvægt að árétta að þegar viðræðunum var frestað hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki lagt fram rýniskýrslu sína og Ísland gat því ekki lagt fram formlega samningsafstöðu sína í sjávarútvegi“.

Og síðan er vikið að því að Íslendingar myndu seint hafa samþykkt þá kröfu ESB að „ formlegt forræði yfir auðlindum sjávar, takmarkanir við fjárfestingar og forsvar á alþjóðavettvangi „ færðist til Brussel. Áfram segir í skýrslu Hagfræðistofnunar:

„ Stofnanir Evrópusambandsins hafa vald til þess að setja löggjöf í sjávarútvegsmálum sambandsins í mjög víðtækum mæli. Þá fer Evrópusambandið eitt með valdheimildir yfir varðveislu auðlinda í sameiginlegri fiskveiðistefnu þess. Varðveisla auðlinda nær ekki aðeins til reglna um leyfilegan hámarksafla og tæknilegar verndarráðstafanir heldur einnig til reglna um markaðsmál og skiptingu kvóta milli aðildarríkjanna og fleiri atriða“.

Samningsstaða Íslands sterk í makrílnum

Þá er vikið að deilunum um makríl og þann rétt Íslands sem sjálfstæðs strandríkis að semja um varðveislu og nýtingu deilustofna. Ég gerði mér grein fyrir mikilvæginu, þegar ég skrifaði undir reglugerð 30.des 2011, sem kvað á um tæp 150 þús. tonn af makríl fyrir íslenska fiskiskipaflotann fyrir árið 2012. En það var að mínu mati eðlileg hlutdeild okkar í makríl, öll veidd innan eigin lögsögu,

Jafnframt vissi ég að með þeirri ákvörðun var verið að setja alla eftirgjöf af Íslands hálfu í frost gagnvart ESB næstu árin í sjávarútvegsmálum. Slíkt er reyndar rækilega undirstrikað í skemmtilegri bók fyrrverandi utanríkisráðherra, Ári Drekans en þar er því lýst hve ESB ríkin áttu erfitt með að sætta sig sjálfstæðan rétt Íslands sem fullvalda ríkis að semja um og veiða makríl í sinni eigin lögsögu.

 Sóknarfæri Íslands liggja í sjálfsstæði þess og fullveldi heima sem erlendis.

 

 


ESB- umsóknin afturkölluð - sigur þjóðarinnar

Þingflokkar  ríkisstjórnarflokkanna samþykktu rétt í þessu að leggja fyrir Alþingi ályktun um að hætta formlega aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið og afturkalla umsóknina frá 16. júlí 2009.Umsóknin verði dregin til baka

Það skal fúslega viðurkennt að fyrir mig persónulega er þetta  mikið gleðiefni.  Ég var andvígur þessari umsókn frá byrjun;  hún gekk gegn hugsjónum mínum og stefnu þess flokks og kosningaloforðum sem ég á þeim tíma helgaði pólitíska krafta mína, Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Forysta flokksins sem réði ferð, gekk því miður á bak kosningaloforða og grunnstefnu Vg eftir kosningarnar vorið 2009 og sótti um aðild að ESB.

Ég sem ráðherra gætti þess eins og ég gat að hagsmunum Íslands, fullveldi og forræði yfir náttúrauðlindum yrði ekki fórnað í aðlögunaferlinu. Fljótlega var ljóst að ekki yrði gengið lengra í aðlögunarferlinu  í tilteknum köflum nema látið yrði undan kröfum og skilyrðum  ESB s.s. í landbúnaðar og sjávarútvegsmálum um framsal  á fullveldi yfir auðlindunum til Brussel. Ég var ekki tilbúinn til þess né heldur taldi ég að Aþingi hefði heimilað slíkt. Þannig var staðan í árslok 2011.  Því var aðlögunarferlið í löngu raun löngu komið í algjört öngstræti þegar loks hlé var gert á ferlinu í upphafi árs 2013. Það gat ekki haldið áfram nema fyrir lægi verulegt og varanlegt framsal á fullveldi Íslendinga í grunnþáttum Lýðveldisins.

Samtökin Nei við ESB, Heimssýn, Ísafold, Herjan og Vinstrivaktin gegn ESB efndu til baráttufunda í Skagafirði og Húnavatnssýslum sl. miðvikudag og fimmtudag. Fundirnir voru afar vel sóttir og mikil stemming og einhugur að baki því að umsóknin væri afturkölluð. „Léttur baráttuhugur í fólki“

Voru þeir fyrstir í röð slíkra funda sem fyrirhuguð er víða um land. Næst í röðinni er  Reykjavík á þriðjudagskvöld.

Þessi samþykkt ríkisstjórnarflokkanna sem mbl.is greinir frá í dag um tafarlausa afturköllun umsóknarinnar er landsmönnum öllum mikið gleðiefni 

 

 

 

 


Nei við ESB- Baráttufundir framundan

Það var áfangasigur að aðlögunarviðræðurnar við ESB voru stöðvaðar. Samtökin Nei við ESB efna til baráttufunda til að fylgja því eftir að umsóknin verði endanlega afturkölluð. Næstu mánuðir geta skorið úr um hvort ríkisstjórn og Alþingi geri það eina sem réttast er - afturkalla umsóknina. Öllum er nú fullljóst sem aðrir vissu fyrir, að ESB veitir engar varanlegar undanþágur frá lögum sínum og grunnsáttmálum:

Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.

Þetta eru þeirra eigin orð. Samtökin NEI við ESB ráðast nú í upplýsinga- og kynningarátak um hvað felst í umsókn að ESB og því framsali á lýðræðisrétti og fullveldi þjóðarinnar sem aðild að sambandinu hefur í för með sér. Fyrir utan framsal á löggjafarvaldi og dómsvaldi snertir aðildin að ESB ekki hvað síst forræði okkar á náttúruauðlindum, sjávarútvegi, fiskimiðum, landbúnaði og matvælavinnslu í landinu. Sóknarfærin eru fólgin í sjálfstæðum samskiptum við aðrar þjóðir.

Fyrstu baráttufundir eru:

  • Á Sauðárkróki, Kaffi Krók, miðvikudaginn 19. febrúar, kl.20:30.

  • Á Blönduósi, Pottinum og Pönnunni, fimmtudaginn 20. febrúar, kl. 20:30.

 

Ávörp flytja: Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður og formaður Heimssýnar; Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og varaformaður Heimssýnar; Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar; Erna Bjarnadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands; Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, Sauðárkróki; Sigríður Ólafsdóttir, bóndi og ráðunautur, Víðidals­tungu; Guðrún Lárusdóttir, bóndi Keldudal, formaður Búnaðarsambands Skagfirðinga; og Gísli Árnason, framhaldsskólakennari, Sauðárkróki.

Fundarstjórar: Agnar Gunnarsson bóndi, Miklabæ, og Björn Magnússon, bóndi, Hólabaki.

(Fréttatilkynning frá Samtökunum Nei við ESB. Heimssýn- Ísafold- Herjan- Vinstrivaktin gegn ESB- Þjóðráð)

 

Afturköllum umsóknina að ESB


Rækjuveiðarnar gefnar frjálsar

 Þegar ég kom að sjávarútvegsmálum sem ráðherra 2009 hafði aðeins lítill  hluti aflheimilda í rækju verið veiddur,  heldur voru  heimildirnar nýttar  að stórum hluta í „brask“, færðar á báta sem veiddu enga rækju eða  henni skipt upp í aðrar tegundir.

Ef litið er til úthafsrækjuveiðanna fiskveiðiárin 2005 til 2009 var heildarúthlutun aflaheimilda, byggð á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem var þessi ár  46.648 tonn. Veiðin var hinsvegar samtals þessi sömu ár einungis 14.034 tonn.  32.614 tonn í úthlutuðum aflaheimildum í rækju voru ekki veiddar.

Hinsvegar voru óveiddar heimildir notaðar í óbeinar veðsetningar eða í skiptum fyrir  veiðiheimildir í öðrum fisktegundum á skipin. Það hlaut öllum að vera ljóst að slíkt siðleysi sem viðgekkst í meðferð sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar gat ekki gengið. Eftir að hafa farið yfir þær leiðir sem ég gæti gripið til sem ráðherra og virkuðu skjótast ákvað ég að gefa veiðar frjálsar á rækju sumarið 2010. Að sjálfsögðu hafði ég sem ráðherra heimild til að stöðva veiðarnar ef farið væri fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnununar, en til þess kom ekki.

Veit ég ekki til þess að nokkur hafi tapað á þessum aðgerðum mínum en heilu byggðarlögin haft af þeim ávinning sem og þjóðarbúið í heild. En það var ekki síst  gríðarlega mikilvægt í þeirri stöðu sem við vorum þá og reyndar enn að verja  öll  möguleg störf, auka  verðmætsköpun og afla gjaldeyristekna.

Þessi aðgerð mín opnaði fyrir nýja aðila inn í veiðar og vinnslu á rækju jafnframt því, að þeir sem fyrir voru gátu stundað rækjuveiðar sínar áfram.  „Braskinu“ var hinsvegar lokið og auðvitað ráku þeir sem vildu halda því upp rammakvein og leituðu m.a. til Hæstaréttar sem hafnaði þeim kröfum. Vissulega hafa komið fram ýmis  lögfræðiálit þar sem reynt er að verja  þetta „brask ástand“ sem var í rækjunni.

Mönnum sést þá gjarnan yfir  1.grein fiskveiðistjórnunarlaganna:

1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Þetta er markmiðsgrein og eftir henni ber að fara.  Þær sem síðar koma eru útfærsla á henni.

Að gefa rækjuveiðar frjálsar var hárrétt aðgerð sem og fleiri sem ég beitti mér fyrir til að bæta aðgengi nýrra aðila inn í fiskveiðarnar, s.s. strandveiðarnar, skötuselurinn, síldveiðar smábáta að ekki sé minnst á makrílinn þar sem veiðiheimildir voru stórauknar og þeim dreift á allan flotann. Ég vildi reyndar ganga enn lengra í þessa veru í breytingum á fiskveiðistjórnunarkefinu.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband