Rækjuveiðarnar gefnar frjálsar

 Þegar ég kom að sjávarútvegsmálum sem ráðherra 2009 hafði aðeins lítill  hluti aflheimilda í rækju verið veiddur,  heldur voru  heimildirnar nýttar  að stórum hluta í „brask“, færðar á báta sem veiddu enga rækju eða  henni skipt upp í aðrar tegundir.

Ef litið er til úthafsrækjuveiðanna fiskveiðiárin 2005 til 2009 var heildarúthlutun aflaheimilda, byggð á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem var þessi ár  46.648 tonn. Veiðin var hinsvegar samtals þessi sömu ár einungis 14.034 tonn.  32.614 tonn í úthlutuðum aflaheimildum í rækju voru ekki veiddar.

Hinsvegar voru óveiddar heimildir notaðar í óbeinar veðsetningar eða í skiptum fyrir  veiðiheimildir í öðrum fisktegundum á skipin. Það hlaut öllum að vera ljóst að slíkt siðleysi sem viðgekkst í meðferð sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar gat ekki gengið. Eftir að hafa farið yfir þær leiðir sem ég gæti gripið til sem ráðherra og virkuðu skjótast ákvað ég að gefa veiðar frjálsar á rækju sumarið 2010. Að sjálfsögðu hafði ég sem ráðherra heimild til að stöðva veiðarnar ef farið væri fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnununar, en til þess kom ekki.

Veit ég ekki til þess að nokkur hafi tapað á þessum aðgerðum mínum en heilu byggðarlögin haft af þeim ávinning sem og þjóðarbúið í heild. En það var ekki síst  gríðarlega mikilvægt í þeirri stöðu sem við vorum þá og reyndar enn að verja  öll  möguleg störf, auka  verðmætsköpun og afla gjaldeyristekna.

Þessi aðgerð mín opnaði fyrir nýja aðila inn í veiðar og vinnslu á rækju jafnframt því, að þeir sem fyrir voru gátu stundað rækjuveiðar sínar áfram.  „Braskinu“ var hinsvegar lokið og auðvitað ráku þeir sem vildu halda því upp rammakvein og leituðu m.a. til Hæstaréttar sem hafnaði þeim kröfum. Vissulega hafa komið fram ýmis  lögfræðiálit þar sem reynt er að verja  þetta „brask ástand“ sem var í rækjunni.

Mönnum sést þá gjarnan yfir  1.grein fiskveiðistjórnunarlaganna:

1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Þetta er markmiðsgrein og eftir henni ber að fara.  Þær sem síðar koma eru útfærsla á henni.

Að gefa rækjuveiðar frjálsar var hárrétt aðgerð sem og fleiri sem ég beitti mér fyrir til að bæta aðgengi nýrra aðila inn í fiskveiðarnar, s.s. strandveiðarnar, skötuselurinn, síldveiðar smábáta að ekki sé minnst á makrílinn þar sem veiðiheimildir voru stórauknar og þeim dreift á allan flotann. Ég vildi reyndar ganga enn lengra í þessa veru í breytingum á fiskveiðistjórnunarkefinu.

 


Bloggfærslur 12. febrúar 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband