Rauða matstofan - Guðni Guðnason minning

Rauða Matstofan á Ásvallagötu 16 í Reykjavík var eins og alþýðuháskóli fyrir róttækan sveitapilt og menntskæling , en þarna var ég í fæði veturinn 1963-1964. Hún Guðrún, sem rak  Matstofuna á heimili sínu var ekkja, maður hennar hafði  fallið frá ungum börnum og ég minnist hennar sem einstaklega hlýrrar konu. Hún var  eins og móðir kostgangaranna,  þó svo aldursbil þeirra væri breitt.  Ekki veit ég hversu lengi " Rauða matstofan" hafði borið þetta nafn en „rauð“ var hún þau ár sem ég hafði þar kynni. Og  þarna leituðu einkum  námsmenn utan af landi og verkamenn sem bjuggu einir eða voru tímabundið í bænum. 

Þarna kynntist ég Guðna Guðnasyni, sem bjó  í sambúð með Guðrúnu á Ásvallagötu 16.  Þau voru hvort öðru til halds og trausts.  Guðni var afar glettinn og  glaðlyndur, víðlesinn og margfróður.  Við matborðið var gjarnan tekist á um pólitíkina, einarða verkalýðsbaráttu. Þá var það Guðni sem stýrði umræðunni og gaf ekki eftir.  Þegar nálgaðist suðupunkt  og  Guðrúnu fannst komið nóg, þjappaði Guðni efninu saman  í einfalt og  auðskiljanlegt mál hins sanna félagshyggjumanns,  kommúnista og verkamannsins á eyrinni. Hann hafði bæði hugmyndafræðina og raunveruleikann á hreinu.  Undir ljúfu og hægu yfirbragðinu leyndist  kappsfullur og einlægur stríðsmaður  fyrir bættum kjörum allra þeirra sem hallaði á í samfélaginu.  Orð hans voru okkur sem  óskráð  lög og speki  hins sanna sósialista.

Hann hafði  sterk orð um það þá hversu honum þótti  verkalýðsforystan vera hugdeig og værukær.  Mér er sem ég sjái viðbrögð Guðna við að horfa  í beinni útsendingu á  forseta ASÍ  faðma heitt og innlega  viðsemjanda sinn og andstæðing við lok smánar kjarasamninga sem hafa nú verið felldir af stórum hluta verkafólks.

Guðni  gæti hafa spurt hvort forseti ASÍ hafi nokkurn tíma faðmað  almennan verkamann svo heitt, stoltur yfir árangri beittrar baráttu.  Guðni, þessi einlægi baráttumaður hreif aðra með sér, hleypti þeim kapp í kinn hvar sem hann fór.

Guðni Guðnason fæddist á Eyjum í Kjós 2. ágúst 1915. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík miðvikudaginn 15. janúar 2014. Útförin fór fram 24. jan. sl.

Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1937 og varð cand. juris. frá Háskóla Íslands 27. janúar 1944. Starfaði að afloknu prófi á Ísafirði sem trúnaðarmaður verðlagsstjóra til ársloka 1944; var síðan ritari húsaleigunefndar Reykjavíkur til október 1946, en réðst þá sem fulltrúi á málflutningsskrifstofu Einars B. Guðmundssonar og Guðlaugs Þorlákssonar og starfaði þar til mars 1949 er hann fór til Danmerkur að kynna sér tryggingamál. Héraðsdómslögmaður 27. apríl 1946. Rak málflutningsstofu í Reykjavík 1950-1953. Stundaði sjómennsku og byggingarvinnu frá júní 1953 til október 1955. Fulltrúi hjá Steini Jónssyni hdl. í Reykjavík frá október 1955 til október 1957. Fulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ritstjóri tímaritsins Sveitarstjórnarmála frá október 1957 til ársloka 1959. Byggingaverkamaður í Reykjavík 1960 – 1963. Fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá mars 1964 – mars 1966. Fulltrúi hjá Árna Gunnlaugssyni hrl. í Hafnarfirði frá mars 1966 til júní 1978. Rak eigin málflutningsskrifstofu í Reykjavík frá júní 1978 til júní 1988. Félags- og trúnaðarstörf: Í stjórn Félags róttækra stúdenta 1939-1940. Í stjórn Sósíalistafélags Reykjavíkur 1964-73, formaður 1970-1973. Í stjórn Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar frá 1964-1984. ( Mbl.24.01.2014)

Nú er þessi höfðingi fallinn frá nær aldargamall. Það fór vel á því að bera kistu Guðna úr kirkju undir flutningi  "Nallans" alþjóðlegs baráttusöngs verkamanna.

  Einföld,  tær og kærleiksrík  lífsspeki  Guðna Guðnasonar hefur verið mér hugstæð frá okkar fyrstu kynnum.

Ég þakka Guðna stundirnar á „Rauðu Matstofunni“  og annarra góðra  síðar þegar leiðir okkar  lágu saman.

Blessuð sé minning Guðna  Guðnasonar


Ofríki ESB gegn Færeyingum heldur áfram

 

Evrópusambandið hefur í dag beitt neitunarvaldi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO við  því að tekin sé  til efnislegrar meðferðar kæra Færeyinga um lögmæti viðskiptaþvingana sem ESB hefur lagt á  vegna síldar og makrílveiða þeirra.   Kom í veg fyrir kæru Færeyja

Evrópusambandið hefur enhliða beitt Færeyinga refsiaðgerðum og  viðskiptaþvingunum vegna síldar og makrílveiða. ESB tekur sér þar lögregluvald yfir litlum strandríkjum á Norðurslóð sem eru að nýta auðlindir innan sinnar eigin lögsögu.

Í krafti stærðar setur ESB afarkosti sem eru í raun brot á alþjóðalögum. Myndu þeir hafa gert þetta t.d. gegn Rússlandi?  Gamla Nýlendustefnan heldur velli. 

Mér finnst við Íslendingar alltof aumir í þessum samskiptum og stjórnvöld eiga að bregðast mun harðar við til stuðnings Færeyingum í stríði þeirra við ESB. Þetta er líka okkar stríð. Þetta snýst um hagsmuni og sjálfstæðan rétt smáríkja til veiða í lögsögu sinni, strandríkja á Norðurslóð til að nýta auðlindar sínar og semja um þær samkvæmt alþjóðalögum.

ESB telur sig  geta deilt og drottnað í krafti stærðarmunar og komið í veg fyrir að smáþjóðir geti leitað réttar síns hjá Alþjóðastofnunum sem báðir eru aðilar að. 


"Rio Tinto Alcan" stimplað á líkama barna í Hafnarfirði

  Alþjóðlega álbræðslufyrirtækið Rio Tinto Alcan hefur keypt sig inn á líkama ungmenna í Hafnarfirði með auglýsingum á íþróttaboli þeirra. Þetta kemur fram í meðf. pistli á vef Harðar Svavarssonar Álbræðsla kaupir íþróttastarf ungmenna.
Mér finnst þetta ótrúleg lágkúra og siðlaust gagnvart börnum og ungmennum sem ekki geta varið sig gagnvart slíkum áróðri. Þeim er þarna stillt upp við vegg og hvorki þau né foreldrar þeirra hafa væntanlega neitt um málið að segja.
 
-Og eru það ekki fyrrum félagar mínir í  VG sem mynda meirihluta og eru í forystu Bæjarfélagsins. Þeir sömu og ég hvatti  og börðust gegn  útþenslu álversins, áróðri, mútum og hótunum þess  í aðdraganda atkvæðageiðslunnar um stækkunina á sínum tíma -.
 
Eitt er þó hangi slíkt stuðningsskilti á vegg í almennu keppnishúsi, ekki þó skóla. Mér finnst það þó alls ekki viðeigandi.
En  þessi framganga gagnvart börnunum í Hafnarfirði og sala á líkama þeirra finnst mér hrein óhæfa.  Hvar er nú barnaverndin í verki? Eru engar reglur sem kveða á um að vernda börn og líkama þeirra  við slíkar aðstæður?
 
Pistill Harðar: 

"Gerður hefur verið samningur milli Hafnarfjarðarbæjar og hinnar umdeildu stóriðju í bæjarjaðrinum.

Samkvæmt samningnum fá íþróttafélög 100 krónur fyrir að setja merki álbræðslunnar á keppnisbúning hvers barns.

Jafnframt skal hvert íþróttafélag birta birta fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan á vefsíði sinni og setninguna “Rio Tinto Alcan á Íslandi styður barna- og unglingastarf félagsins”

Á bréfsefni félagsins skal hvert félag birta fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan og setninguna “Rio Tinto Alcan á Íslandi styður barna- og unglingastarf félagsins...

Og á öllu kynningarefni sem varðar barna- og unglingastarf félagsins, t.d. bæklingum og auglýsingum,  birta fyrirtækismerki Rio Tinto Alcan og setninguna “Rio Tinto Alcan á Íslandi styður barna- og unglingastarf (nafn félags).

Að auki eru skilgreindar kröfu gagnvart sérhverju félagi um merki álbræðslunnar í húsakynnum og aðal keppnsiaðstöðu, að flaggað sé á mótum barnanna með merki stóriðjunnar, að keppni sé haldin tileinkuð Alcan og svo framvegis.

Fyrir þessa rausnarlegu notkun á barnastarfinu fær hvert íþróttafélag að jafnaði eina milljón króna á ári sem greidd er út í tveimur hlutum.

Einhverra hluta vegna kemur orðið misnotkun upp í hugann. Ég biðst undan því að Hafnarfjarðarbær selji aðgang að barninu mínu með þessum hætti."
 
Ég tek heilshugar undir með Herði og tel þetta vera mjög alvarlegt mál sem hlýtur að verða endurskoðað og afturkallað.
 

Hvað boðar nýárs blessuð sól

Ég óska öllum lesendum bloggsíðu minnar gleðilegs árs og þakka samskiptin á liðnu ári.

Síðasta ár hefur reynst þjóðinni gjöfult til lands og sjávar. Aukning á helstu fiskistofnum í kringum landið, vöruþróun og markaðir hafa skilað miklum verðmætum í þjóðarbúið. Árgæska var jafnt yfir í landbúnaði og neysla á ínnlendri framleiðslu hefur aukist á öllum sviðum. Ferðaþjónustan er í svo miklum vexti að óvíst er hvort við náum að fylgja nægilega hratt eftir í að treysta innviði og undirstöður greinarinnar og hindra kollsiglingu í einstaka þáttum hennar.

Þessar frumatvinnugreinar hafa í raun  borið uppi aukna velsæld og endurreisn í samfélaginu. En því miður búa ákveðnir samfélagshóparnir áfram við lágar tekjur og kröpp kjör sem brýnt er að leiðrétta.

Þótt forystumenn stjórnmálaflokka hafi reynst býsna glaðbeittir við áramót  er það sjálfstæði þjóðarinnar,  yfirráð yfir verndun og nýtingu náttúruauðindanna til lands og sjávar sem hefur reynst okkur nú sem fyrr heilladrjúgt. Sem betur fer var aðlögunarferlið að ESB stöðvað en umsóknin hefur ekki enn verið afturkölluð. Það olli því vonbrigðum að hvorugur formanna ríkisstjórnarflokkanna minntust á þessa vofu sem enn hangir yfir íslensku samfélagi sem sú umsókn er. Vonandi er þetta ekki tákn um tvístiganda og vandræðagang í þem efnum.

Gengið verður hart eftir loforðum ríkisstjórnarflokkanna um að í kjölfar skýrslu utanríkisráðherra  nú um miðjan janúar um feril umsóknarinnar, verði hún formlega  afturkölluð með þingsályktun frá Alþingi.

Þegar afturköllun umsóknarinnar er komin í höfn getum við svo sannarlega  og ítrekað óskað hvert öðru og þjóðinni allri  gleðilegs árs.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband