Laugardagur, 28. febrúar 2009
Hlustað á heimamenn - traustur heilbrigðisráðherra
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hefur nú heimsótt flestar heilbrigðisstofnanir á Norður- og Vesturlandi síðustu daga. Þar hefur hann rætt við og hlustað á starfsfólk, sveitarstjórnarmenn og annað heimafólk um framtíðarstöðu þessara mikilvægu stofnana í heimabyggð. Þannig á að vinna.
Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði áfram sjálfstæð
Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson vildi sundra núverandi skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og sameina stofnanir í fjarlægum landshlutum með boðvaldi. Þannig hafði hann boðað að leggja skyldi niður heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði og sameina hana stofnuninni Ísafirði. Landleiðin þar á milli um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði er þó lokuð vetrarmánuðina og verður þá annað hvort að fljúga þar á milli í gegnum Reykjavík eða aka um Barðaströnd, yfir Laxárdalsheiði, norður Strandir um Steingrímsfjarðarheiði til Ísafjarðar.
Ég mótmælti þessari ákvörðun fyrrverandi heilbrigðisráðherra harðlega: Það sér hver heilvitamaður hve lítið vit er í að slá saman í eina stjórnunareiningu þjónustustofnunum íbúanna undir slíkum landfræðilegum skilyrðum og gegn vilja heimamanna.
Rétt er að taka fram að góð samvinna er á milli heilbrigðisstofnananna á Patreksfirði og Ísafirði sem og við aðrar heilbrigðisstofnanir. Það góða samstarf má vel þróa áfram, öllum aðilum til hagsbóta. Jafnframt er mikilvægt að standa vörð um og efla Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Gott starf hennar eykur öryggi og þjónustu allrar heilbrigðisþjónustu í Fjórðungnum.
Þjónustan varin
Hinsvegar ef Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði hefði verið lögð niður sem sjálfstæð stofnun eins og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ætlaði hefði heilbrigðisþjónustan á sunnanverðum Vestfjörðum þar með verið sett í uppnám og öryggi íbúanna skert . Hvorki á Patreksfirði né Ísafirði komu menn auga á hagræðið af slíkri stofnanalegri sameiningu, segir Ögmundur í viðtali við Morgunblaðið í dag. Menn töldu hinsvegar að það væri vænlegra að vinna að því markmiði að ná fram hagræðingu án þess að sameina stofnanir. Þar sem þetta er vilji heimamanna og niðurstaða sem þeir komast að að yfirveguðu ráði þá ákvað ég að þessi sameining yrði slegin út af borðinu.Heimafólki létt
Heimafólki á sunnanverðum Vestfjörðum, á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal er örugglega létt við þessa ákvörðun. Ég fagna því hve hinn nýji heilbrigðisráðherra okkar Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson tekur fast og örugglega á heilbrigðismálunum með heimafólki.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.