"Nýlega keypti Samherji útgerðarfyrirtækið Berg-Hugin í Vestmannaeyjum og sölsaði þar með undir sig um 5.000 tonn í aflaheimildum. Í kjölfarið spratt upp umræða um svonefnd krosseignatengsl Samherja og Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en samanlögð aflaheimild fyrirtækjanna í síld og loðnu er mun meiri en lög heimila.
Krosseignatengslin eru fyrir hendi.
Í viðtali í sjónvarpi 5. september sl. segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra ...brýnt að lögum um fiskveiðistjórn verði breytt til að koma í veg fyrir að aflaheimildir safnist á hendur tengdra félaga og þann ágalla á lögum lengi hafa legið fyrir. Til hafi staðið að taka á þeim samhliða heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Og bætir við: Brýnt að lögin verði skýrð og skerpt svo þau virki sem skyldi.
Hér gæti maður sagt góður Steingrímur ef forsagan truflaði ekki trúverðugleikann.
Ákvæði voru um krosseignatengsl í frumvarpi um fiskveiðistjórn sem lagt var fyrir Alþingi vorið 2011.
Frumvörp Jóns Bjarnasonar
Frumvarpið varð ekki að lögum. Í drögum að nýju frumvarpi, sem Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti ríkisstjórn, hagsmunaaðilum og almenningi í nóvember 2011, voru krosseignatengslum gerð nákvæmari skil, gildandi ákvæði fiskveiðistjórnunarlaga skerpt og sett ítarleg ákvæði um hámarkshlutdeild í öllum tegundum.
Orðrétt segir í athugasemdum um viðkomandi frumvarpsgrein:
Greinin er að öðru leyti að mestu efnislega samhljóða 13. gr. gildandi laga. Þó hefur nú verið tekið upp hugtakið samstarf um yfirráð í 2. tl. 5. gr. í stað hugtaksins raunveruleg yfirráð.
Við framkvæmd gildandi laga hafa komið í ljós erfiðleikar við að staðreyna að um tengda aðila sé að ræða þar sem kveðið er á um raunveruleg yfirráð.
Þannig sýnir reynslan að jafnvel þótt sterkar vísbendingar séu til staðar, svo sem veruleg eignatengsl, samstarf, sami maður í lykilstöðum í tveimur fyrirtækjum o.s.frv., hefur Fiskistofa ekki talið gerlegt, gegn andmælum aðila, að sanna að um raunveruleg yfirráð sé að ræða.
Af þessum sökum er lagt til að sú breyting sem gerð var á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. lög nr. 22/2009, sé einnig gerð hér.
Þar er farin sú leið að leggja áherslu á samstarf milli aðila og sönnunarbyrði snúið við, þannig að þegar aðstæður eru með tilteknum hætti beri að líta svo á að um samstarf sé að ræða nema sýnt sé fram á hið gagnstæða.
Ljóst var að frumvarpsgreinin tók til Samherja og tengdra fyrirtækja.
Steingrímur J. Sigfússon tók við embætti sjávarútvegsráðherra um síðustu áramót og það kom í hans hlut að leggja fyrir Alþingi nýtt frumvarp til laga um fiskveiðistjórn.
Ákvæði gegn samþjöppun felld burt í siðari frumvörpum
Þegar það var loks lagt fram vorið 2012 brá svo við að fyrrnefnd frumvarpsgrein Jóns Bjarnasonar um krosseignatengsl var horfin. Sömuleiðis ákvæði um hámarksaflahlutdeild í einstökum tegundum.
Það vandamál að aflaheimildir safnist á of fáar hendur hefur lengi verið þekkt og jafnframt baráttumál margra okkar sem höfum viljað breyta fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar.
En stórfyrirtækin hafa átt sína pólitísku bandamenn.
Það er ekki tilviljun að í núverandi frumvarpi til breytinga á stjórn fiskveiða hafi fyrrnefnd ákvæði verið felld brott.
Það er ámælisvert að atvinnuvegaráðherra sé hvað eftir annað staðinn að því að fara rangt með. Dapurlegt en satt.
Í þessu tilviki eru allar staðreyndir skjalfestar og borðleggjandi.
Steingrímur J. segir blákalt í orði að brýnt sé að lögin verði skýrð og skerpt svo þau virki sem skyldi, en breytir þveröfugt við það".
Dómur sögunnar- Ný stór nefnd - fleiri tegundir settar í "kvótakerfið"
Fyrir okkur sem stóðum í þessari baráttu að breyta fiskveiðistjórnarkefinu á árunum 2009 til 2013 er fróðlegt að rifja upp umræðuna frá þeim tíma.
Grein Atla Gíslasonar sem var formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis 2009- 2011 frá í sept 2012 stendur enn fyrir sínu og góð inn í umræðuna í dag.
Þessu efni eru gerð ágæt skil í bók Ögmundar Jónassonar, "Rauði þráðurinn".
Ýmsir fara nú að þenja sig um samþjöppun í sjávarútvegi sem við Atli og fleiri vildum taka föstum tökum þá á þeim tíma en aðrir viku sér undan.
Þeir sjávarútvegsráðherrar sem á eftir mér komu, hafa til þessa öll gengið slóð hins "Miskunnsama Samherja" í þessum efnum
Greinin er birt með leyfi höfundar Atla Gíslasonar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.