Laugardagur, 9. júlí 2022
Guðmundur Halldórsson - Minning
Baráttumaður látinn og borinn til grafar í dag.
Guðmundur Halldórsson skipsstjóri í Bolungavík var einn öflugasti baráttumaður fyrir, sjómenn og útgerðir í minni sjávarbyggðum. "Þetta var upp á líf eða dauða að tefla fyrir byggðirnar"
Mér er eftirminnileg lýsing Guðmundar þegar hann lagði landsfund Sjálfstæðisflokksins að fótum sér í janúar 2003 og fékk línuívilnun samþykkta.
Línuívilnunin þýddi að þeir dagróðrarbátar sem reru á línu frá heimahöfn og lönduðu þar fengu auka veiðiheimildir ef beitt var í landi. Þetta skipti miklu máli fyrir línubátana eins og á Vestfjörðum
Forysta Sjálfstæðisflokksins, sjávarútvegsnefnd flokksins hafði neitað að tillagan yrði borin fram í nafni nefndarinnar.
Guðmundi sárnaði það mjög:
"Við konurnar styðjum þig"
" Þá komu forystukonur úr kvennahreyfingum flokksins og sögðu við mig .
Við skiljum þig svo vel Guðmundur og við munum styðja tillöguna.
Þú berð hana aftur upp undir lok fundar.
Þá mun forystan flokksins og LÍÚ engri mótspyrnu við koma.
Við konurnar styðjum þig".
Guðmundur vann.
Tillagan var samþykkt með tilheyrandi rökstuðningi og greinargerð Guðmundar
Guðmundur var afar hróðugur þegar hann lýsti þessu fyrir mér.
Þegar honum fannst stjórnvöld draga lappirnar að hrinda þessari samþykkt í framkvæmd boðaði hann til almenns borgarafundar á Ísafirði í sept 2003 til þess að hnykkja á framkvæmdinni.
Og Guðmundur Halldórsson hafði sitt fram. "Orð skulu standa"
Eldhugi
Guðmundur Halldórsson var einn sá fyrsti sem hringdi í mig og óskaði mér til hamingju með sjávarútvegsráðuneytið vorið 2009. Hann hvatti mig og leiðbeindi.
Var gott að eiga eldhugann og reynsluboltann Guðmund Halldórsson að í bakvarðsveitinni. Áttum við oft góð samtöl saman.
Hann varaði mig líka við :
"Þú veist að þeir munu koma í bakið á þér"
Strandveiðarnar og fleiri byggðatengdar aðgerðir voru gerðar einmitt í anda Guðmundar Halldórssonar.
Þökkum samferðina
Blessuð sé minning þessa hlýja en öfluga baráttumanns, Guðmundar Halldórssonar skipstjóra og fyrrverandi formanns Eldingar, félags smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum.
Guð gefi landi voru marga slíka sem Guðmund Halldórsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.7.2022 kl. 17:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.