Laugardagur, 6. október 2018
Fullveldið bjargaði okkur í "hruninu"
Fullveldið gaf okkur réttinn til að setja neyðarlögin og taka eigin ákvarðanir fyrst á fremst á forsendum okkar sjálfra. Veikleikar EES samningsins voru það sem fjármálastofnanir og einstaklingar nýttu sér leiddu til falls bankanna hér.
Fyrstu mánuðirnar eftir fall bankanna voru mjög erfiðir vegna hermdaraðgerða og lokana nágranna ríkja okkar á öll gjaldeyrisviðskifti við landið.
Slíkar hefndar aðgerðir "Vinaþjóða" eiga sér ekki hliðstæðu á friðartímum og hefði átt að vera okkur lexía í að velja vini, sem ekki hefur orðið.
Færeyingar sérstaklega en einnig Rússar, Pólverjar og Kína gengu fram fyrir skjöldu til að koma þessum gjaldeyrisviðskiftum í gang. Verður Færeyingum seint fullþakkað einlæg vinátta þeirra.
Sjálfstæðið og sterkt atvinnulíf
Hitt er svo staðreynd að það var sjálfstæði þjóðarinnar, nátturauðlindir landsins og grunnatvinnuvegir þjóðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður sem voru hinar sterku stoðir sem stóðu álagið og reistu landið við á ný.
Fiskurinn jókst í sjónum, verð hækkuðu á erlendum mörkuðum - bara makrílveiðarnar einar sér gáfu um 30 milljarða nýjar árlegar tekjur inn í landið.
Ferðaþjónustan jókst um nokkur tugi- jafnvel hundruð þúsund manns á ári með tilheyrandi gjaldeyristekjum. Framleiðsla innlendra landbúnarvara og matvælaiðnaður stóð styrkum fótum enda lokaðist að mestu á innflutning vara sem við gátum framleitt hér. Gjaldeyrir var takmarkaður til að verja að óþörfu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði 20- til 25% atvinnuleysi sem aldrei kom, einmitt vegna sterkra innviða í atvinnuvegum landsmanna.
Vissulega var staða margra atvinnulega erfið og ýmsir sáu því miður þann eina kost að flytja úr landi
ESB umsókn - Líkið í lestinni
Umsókn um aðild að Evrópusambandinu var hinsvegar líkið í lestinni við endurreisn efnahagskerfisins og furðulegt að enn skuli vera til flokkar og einstaklingar sem vilja framselja sjálfsákvörðunarréttinn til ESB. Til dæmis er nú 3. orkupakki ESB og innflutningur á hráu ófrosnu kjöti til umfjöllunar í þinginu. Og þar eru enn margir sem ekkert hafa lært og ganga með bogin hné í þeim málum.
Unga fólkið tapaði mestu
Það er hinsvegar dapurt að sá hópur fólks sem tapaði mestu í hruni bankanna var almenningur, fátækt fólk, ungt fólk sem var að koma sér upp húsnæði, bar þungar námsskuldir sem enn hafa ekki verið leiðréttar. Einnig voru tekjur aldraðra og öryrkja skertar til að "bjarga" efnahag landsins en þessir hópar hafa ekki fengið það bætt.
Nú þegar menn berja sér á brjóst á 10 ára afmæli hrunsins fær það fólk sem missti mest ekki talsmann eða rödd í umræðunni. Tap þeirra mörgu og þjáningar liggja enn óbættar hjá garði
Samþjöppun eigna á æ færri hendur
Þeir sem hinsvegar leiddu þjóðina út í þessa ógæfu og eru sagðir hafa tapað öllu sínu standa áfram uppi sem helstu auðmenn þjóðarinnar og eignir samfélagsins safnast á æ færri hendur. Margir einmitt nýttu sér aðstöðumun í hruninu til að bjarga sínu og sölsa undir sig eignir annarra og samfélagsins.
Jöfnuð og réttlæti
Og það þarf raunverulegt átak og sterkan pólitískan vilja til að leiðrétta misskiptinguna og óréttlætið sem samfélagið og margir einstaklingar mega enn búa við. Meðan það er ógert ríkir vantraust og órói og þá verður þjóðfélagið ekki sátt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.10.2018 kl. 19:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.