Í forystugrein síðasta Bændablaðs rekur Sindri stöðuga hnignun ráðneytisins og stjórnsýslu þessa málaflokks síðan sjálfstætt landbúnaðarráðuneyti var lagt niður og látið renna inn í svo kallað atvinnuvegaráðuneyti.
Metnaðarleysi og hringlandi
Formaður Bændasamtakanna hefur áhyggjur af algjöru metnaðarleysi ráðherra og stjórnsýslulegum hringlanda innan ráðuneytisins sem bitnar nú hart á atvinnugreininni.Orðrétt segir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, í nýjasta Bændablaði:
Lengi var það þannig að sérstakt ráðuneyti fór með landbúnaðarmál. Því var svo slegið saman í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og svo aftur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, þó að því sé nú stýrt af tveimur ráðherrum. Við þetta voru og eru margir ósáttir í landbúnaðinum. Það var þó þannig að einni skrifstofu í því ráðuneyti var ætlað að sinna málefnum landbúnaðar og matvæla.
Nú í lok september bárust fregnir um að þessari einu skrifstofu ætti að slá saman við aðra. Þetta hafði ekki verið kynnt með neinum hætti og kom upp þegar ráðning nýs öflugs fyrirliða á sviði matvæla og landbúnaðar (eins og ráðuneytið auglýsti sjálft) átti að vera að ljúka. Ráðherra hefur ekki séð sér fært að kynna bændum rök sín fyrir þessum breytingum. Honum þarf ekki að koma á óvart að þeim þyki þetta lýsa litlum áhuga á að efla íslenskan landbúnað nema að hann sýni fram á annað með afgerandi hætti.
Ég tek heilshugar undir með formanni Bændasamtakanna að hér er mikil hætta á ferðum en ég varaði við afleiðingunum að leggja landbúnaðarráðuneytið niður og barðist gegn því meðan ég var ráðherra. Ég sá fyrir að við tæki metnaðarleysi og afturför í allri stjórnsýslu matvælaframleiðslu og landbúnaðar í landinu.
Ég kynntist því sem ráðherra hve sterk öfl það eru í samfélaginu sem vilja veikja stöðu þessara greina. Þessi öfl beita öllum brögðum til að lama innlenda framleiðslu og fá tækifæri til að maka krókinn á innflutningi matvæla sem við getum sem best framleitt hér sjálf á hollan og hagkvæman hátt.
Setja þarf spelkur á ráðherrann svo hann bogni ekki
Mér finnst því dapurt að sjá hné ráðherrans bogna fyrir þessum öflum sem vilja landbúnaðinn feigan. Nýleg grein hans í Morgunblaðinu vísar til þess að hann ætli að leggjast flatur fyrir kröfum Evrópusambandsins um óheftan innflutning á hráu ófrosnu kjöti og veikja þar með öryggi og hollustu innlendrar framleiðslu. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Kristján Þór Júlíusson er vel að manni og getur verið staðfastur fái hann til þess góðan stuðning.Nú þarf að hlaupa til og setja á ráðherrann spelkur og snúa undanhaldi í vörn og sókn fyrir íslenskan landbúnað og matvælavinnslu í landinu. Formaður Bændasamtakanna slær tóninn í Bændablaðinu.
Höfundur er fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.